Um höfundinn


SAGNFRÆÐINGUR - RITHÖFUNDUR

Guðmundur Magnússon

Ég er menntaður í sagnfræði og heimspeki (B.A. frá Háskóla Íslands 1980 og M.Sc. frá London School of Economics 1982). Ég er núna sjálfstætt starfandi við ritstörf.

Á þessum vef birti ég greinar og hugleiðingar um söguleg efni og sagnfræði. Sumt af því sem hér er að finna hefur áður birst í einhverri mynd á öðrum vettvangi. Meginstefnan er þó sú að birta hér einkum nýtt efni reglulega.

Skrifhús er gamalt heiti yfir stofu þar sem menn höfðu skjöl sín og bækur og sinntu skrifum og öðrum störfum.

Um feril minn er þetta að segja í stuttu máli: Að loknu háskólanámi varð ég blaðamaður á Sunnudagsblaði Tímans og umsjónarmaður þess um skeið. Hafði áður starfað sem blaðamaður á Dagblaðinu sumrin 1978 til 1980. Haustið 1983 var ég ráðinn til Morgunblaðsins, fyrst sem lausamaður, skrifaði greinar og viðtöl, en frá ársbyrjun 1984 sem fastur starfsmaður á erlendri fréttadeild blaðsins. Þar voru þá 10 starfsmenn. Ég tók síðan við starfi þingfréttaritara blaðsins og sinnti auk þess stjórnmálaskrifum með ritstjórunum. Hætti sumarið 1987 þegar ég var ráðinn aðstoðarmaður Birgis Ísleifs Gunnarssonar menntamálaráðherra. Fyrir um tíu árum, sumarið 2013, kom ég aftur til starfa á Morgunblaðinu, eftir að hafa unnið sjálfstætt við ritstörf um hríð, en áður hafði ég verið fréttastjóri á DV (1994-1995) og í tvö ár fulltrúi ritstjóra á Fréttablaðinu (2004-2006). Þá var ég ritstjóri vefritsins Eyjunnar um tíma (2008-2010) og ritstýrði líka fyrsta dv.is-vefmiðlinum (2007). Búinn að vera samtals í rúma tvo áratugi í blaðamennsku, en aðra tvo áratugi hef ég verið í ýmsum öðrum störfum, m.a. settur þjóðminjavörður í tvö ár (1992-1994), skjalavörður á Þjóðskjalasafninu (1996-2000) og lengst af samhliða forstöðumaður Þjóðmenningarhússins í gamla Safnahúsinu við Hverfisgötu (1996-2002). Ég tók líka þátt í stjórnmálastarfi um tíma og vann fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Valhöll (1988-1992). Vorið 2023 hætti ég á Morgunblaðinu til að einbeita mér að bókaskrifum, rannsóknum og fræðum. Ég hef sent frá mér 14 bækur fram að þessu og auk þess birt fjölda greina í blöðum og tímaritum.

Póstur til mínFacebook