Leiðtogafundurinn í Reykjavík

Fyrsta bókin sem ég skrifaði var um fund leiðtoga Bandaríkjanna og Sovétríkjanna í Reykjavík haustið 1986. Kom hún út á vegum Almenna bókafélagsins. Bókina prýða myndir sem ljósmyndarar Morgunblaðsins tóku þessa söguríku daga.

Eftir að bókavertíðinni lauk átti bókin merkilegt framhaldslíf sem ég rakti á sínum tíma á gamla Moggablogginu mínu. Textinn sem hér fer á eftir er skrifaður haustið 2006, tuttugu árum eftir leiðtogafundinn:

‘Ævinlega er ég þakklátur herra Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands fyrir að leggja sig í hættu í þeim tilgangi einum að koma bók eftir mig á framfæri.

Nokkuð er um liðið síðan þetta var, tveir áratugir. Ekki víst að hann mundi gera það sama í dag, þó er svo sem aldrei að vita.

Ólafur var þá formaður heimsþekktra þingmannasamtaka, Parliamentarians for Global Action. Skömmu eftir leiðtogafund Gorbatsjovs og Reagans í Höfða var hann staddur á friðarþingi í Moskvu og var þá boðið í veislu í Kreml ásamt fleiri alþjóðlegum fyrirmönnum. Bók mín um Höfðafundinn, hin fyrsta sem um hann var skrifuð, Leiðtogafundurinn í Reykjavík (Almenna bókafélagið, 1986), ríkulega myndskreytt, var nýkomin út. Ólafur fékk þá hugmynd að gleðja Gorbatsjov með því að gefa honum eintak af bókinni. Ég hefði áritað eintakið ef Ólafur hefði óskað eftir því, en leynd hvíldi yfir áformunum og er það líklega ástæðan fyrir því að hann sneri sér ekki til mín. Leyndin skapaðist af því að Kremlargestum var stranglega bannað að hafa nokkra hluti með sér í veisluna. Maður getur svo sem skilið það; hugsið ykkur ef allir gestirnir eru að gauka einhverjum minjagripum, skjölum eða myndum að forseta Sovétríkjanna, sem þá var.



Ekki átta ég mig á því hvernig Ólafi Ragnari tókst að smygla bókinni inn í Kreml. En þegar Gorbatsjov tók í hægri hönd Ólafs fór hann með hina vinstri inn undir jakkann sinn og dró bókina mína fram. Í frásögn Morgunblaðsins er haft eftir Ólafi að sovéski forsetinn hafi skoðað myndir á kápu bókarinnar og þakkað fyrir sig, síðan rétt Anatolíj Dobrynin, yfirmanni alþjóðadeildar kommúnistaflokksins, bókina og hann tekið hana til varðveislu fyrir forsetann. Í öðru blaði á þessum tíma, mig minnir Helgarpóstinum, var slúðrað um að sést hefði í iljar Dobrynins á leiðinni út, en því trúi ég nú mátulega. Ekki minnist Dobrynin á þetta atvik í endurminningum sínum, sem ég fjalla um hér annars staðar á síðunni, og má það einkennilegt heita.

Nú er Gorbatsjov væntanlegur til Íslands eftir fáeina daga til að halda upp á tuttugu ára afmæli leiðtogafundarins. Ef hann hefur bókina mína meðferðis væri mér það sönn ánægja að árita hana.’

Við þetta má bæta að stuttu seinna hafði Björn Bjarnason, þá aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, bókina með sér þegar hann hitti Andrei Sakharov, þekktasta andófsmann Sovétríkjanna, austantjalds. Færði hann Sakharov bókina að gjöf og fylgdust leyniþjónustumenn með.

Bók mín um leiðtogafundinn var því líklega eina ritið sem samtímis var að finna bæði í bókasafni æðstu leiðtoga Sovétríkjanna og helsta andófsmanns landsins.

Previous
Previous

Eimskip frá upphafi til nútíma