Séra Friðrik og drengirnir hans

Bókin Séra Friðrik og drengirnir hans er gefin út af Uglu. Í kynningu útgefanda í Bókatíðindum segir:

‘Í þessari viðamiklu ævisögu segir frá æskulýðsleiðtoganum dáða, séra Friðriki Friðrikssyni (1868–1961). Hann ólst upp við sára fátækt en braust með harðfylgi til mennta og gerðist prestur. Hann bjó yfir miklum persónutöfrum – og drengir og piltar tóku snemma að hópast um hann.

Í bókinni er lýst trúarlífi séra Friðriks og merkilegu ævistarfi, ekki aðeins hér á landi heldur einnig í Danmörku og Vesturheimi. Hann helgaði líf sitt æskumönnum og stofnaði meðal annars KFUM og KFUK rétt fyrir aldamótin 1900 og knattspyrnufélagið Val árið 1911.

Séra Friðrik var svo mjög í hávegum hafður á sínum tíma að honum var stundum líkt við helga menn fyrri alda. En eins og fram kemur í þessari bók var persóna hans margslungnari en sú helgimynd sem hefur verið dregin upp af honum.

Vönduð og læsileg ævisaga sem bregður nýju ljósi á einn af svipmestu mönnum sinnar tíðar á Íslandi.

Höfundurinn, Guðmundur Magnússon sagnfræðingur, hefur kannað sögu séra Friðriks í mörg ár og meðal annars leitað fanga í viðamiklu skjala- og bréfasafni hans.’

Next
Next

Með skýra sýn