„Jeg er født homoseksual”

Lærisveinn og vinur

Bréf Guðmundar Bjarnasonar klæðskera til séra Friðriks Friðrikssonar frá 1913 er merkilegt innlegg í sögu samkynhneigðar á Íslandi.

Skjalasafn séra Friðriks Friðrikssonar geymir mörg merkileg bréf og handrit. Að mínu mati ættu KFUM og KFUK að fela Landsbókasafninu varðveislu þess. Þar starfa sérfræðingar sem kunna með slík gögn að fara og þar yrði það opið öllum til frekari rannsókna. Núverandi ástand safnsins er að mínu mati óviðunandi.

Oft er vitnað til gagna í safninu í bók minni um séra Friðrik, til sendibréfa, predikana, minnisbóka o.fl. Gögnin varpa alveg nýju ljósi á séra Friðrik og sögu hans. Mig langar til að vekja hér sérstaka athygli á einu allra merkilegasta bréfinu sem sagt er frá í bókinni. Það er frá ársbyrjun 1913, skrifað Friðriki af Guðmundi Bjarnasyni klæðskera (1878-1939) sem var vinur hans og lærisveinn og um langt árabil mikill velgjörðarmaður hans.

Bréfið er skrifað til að lýsa angist og sálarstríði Guðmundar vegna samkynhneigðar sinnar eða homosexualisma sem hann kallar svo í bréfinu. Á þessum tíma var ekkert viðurkennt orð til um tilfinningalega og kynferðislega hneigð karla til kynbræðra sinna. Þjóðfélagsmenningin gekk út á það að ást, tilhugalíf, trúlofun, hjónaband og kynferðismök byggðu á sambandi karla og kvenna, pilta og stúlkna. Algjört tabú ríkti yfir öllu sem sneri að samkynja ástum. Þegar seinna var minnst á  efnið í íslenskum blöðum var yfirleitt notað hið fordómafulla orð „kynvilla“. Bréf Guðmundar til Friðriks er elsta dæmið sem ég veit um að fundist hafi um orðið homoseksual í rituðu máli hérlendis.

Upphaf kaflans þar sem er greint er frá bréfinu hljóðar svo:

Um miðjan janúar 1913 berst séra Friðriki bréf frá Guðmundi Bjarnasyni klæðskera. Hann býr ofarlega á Grettisgötu, ekki langt frá vini sínum og  læriföður. En Guðmundur treystir sér ekki til að heimsækja Friðrik á Amtmannsstíg og ræða við hann augliti til auglitis um það efni sem honum býr í brjósti. Það er afar viðkvæmt og hann kýs frekar að setja orðin á blað og senda honum í pósti. Hann byrjar á því að afsaka sig eins og gjarnan í bréfum til Friðriks. „Þú skrifar mér kort sem færa mér mikla gleði, ég tek pennann til að skrifa bréf sem færir þér sorg og vonbrigði.“ Guðmundur kveðst ætla að trúa Friðriki fyrir því sem hann kallar „raun lífs míns, þeim síkvikandi eldi sem brennir burtu allan minn lífskraft og lífslöngun og sú raun er þyngst sem ómögulegt er að tala um og enginn skilur.“

 Guðmundur Bjarnason heldur svo áfram og skrifar:

 Þú ert sá einn maður (fyrir utan útlendan lækni sem ég árangurslaust leitaði) sem ég get hugsað mér að skrifa um þetta, gæti ekki sagt það, ekki til að fá hjá þér ráð eða refsidóm heldur til að biðja þig um þína sérstöku fyrirbæn.

Hann heldur síðan bréfinu áfram á dönsku. Þetta sem hann þarf að segja er honum svo skelfilegt að hann hann getur ekki skrifað um það á móðurmálinu. „Ég gat ekki skrifað það á íslensku og get ekki lesið það yfir aftur,“ segir hann og kveðst ætla að flýta sér að póstleggja bréfið „eins og það sé eitthvað sem ég hef stolið úr eigin hjarta.“

Ég vil ekki spilla fyrir lestri bókarinnar með því að hafa tilvitnunina lengri, en hér er sannarlega efni sem er áhugavert innlegg í sögu samkynhneigðra á Íslandi.

Previous
Previous

Ráðgáta um gamalt málverk

Next
Next

„Óþekki drengurinn“ hann Drumbur