Hún ruddi brautina
Fyrir nokkrum dögum birti ég á síðunni Gamlar ljósmyndir á Facebook mynd af Elínborgu Jacobsen sem fyrst kvenna lauk stúdentsprófi hér á landi. Hún brautskráðist frá Hinum almenna lærða skóla í Reykjavík, latínuskólanum sem svo var nefndur, (nú MR) sumarið 1897. Ég sagði frá því að Elínborg hefði þurft að stunda námið utanskóla þar sem piltum hefði einum verið heimilt að sækja tíma. Það var ekki fyrr en ráðherra Íslandsmála í Kaupmannahöfn fékk málið til úrskurðar haustið 1896 að Elínborgu var veitt leyfi til að sitja í tímum innan um piltana. Ekki í fyrsta sinn og ekki síðasta sem réttlætið á Íslandi kemur að utan!
Latínuskólann gamli var ætíð mikið karlaveldi og aðeins fáeinum útvöldum stúlkum úr efri þjóðfélagsstéttum var hleypt inn um dyrnar þegar haldinn var hinn árlegi dansleikur piltunum til uppörvunar og skemmtunar á skólahátíðinni að vori.
Margir sýndu sögu Elínborgar áhuga þegar ég birti ljósmyndina af henni og ýmsar spurningar vöknuðu sem ég gat ekki svarað í fljótu bragði. Ég ákvað því að kanna gögn málsins sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafninu.
Fyrst nokkur orð um Elínborgu. Hún var fædd í Reykjavík 1871, dóttir hjónanna Önnu og Jógvan Jacobsen skósmiðs, sem bæði voru frá Færeyjum en Jógvan stundaði iðn sína hér. Þau hjón áttu tvö önnur börn yngri, Þuríði og Ásgeir sem einnig ólust upp í Reykjavík. (Turid Jacobsen varð seinna þekktur ljósmyndari í Færeyjum). Á heimilinu virðist hafa verið mikill menningar- og menntaáhugi. Þar bjó í nokkur ár samlandi þeirra, Frederik Petersen, og stundaði nám í latínuskólanum hér. Hann lauk stúdentsprófi 1875 og varð seinna prestur pg prófastur í Færeyjum og þekktur áhrifamaður í þjóðernisvakningunni þar. Hann var fulltrúi Færeyinga á þjóðhátíðinni á Þingvöllum 1874.
Á seinni hluti 19. aldar fengu kröfur um rétt kvenna til ýmissa réttinda sem karlar einir nutu þá byr undir vængi. Undir lok árs 1886 var gefin út tilskipun í Kaupmannahöfn sem sagði að konum væri með sömu skilmálum og lærisveinum hins lærða skóla í Reykjavík heimilt að ganga undir árspróf 4. bekkjar og eins undir burtfararpróf, þ.e. stúdentspróf. Ekkert stóð um rétt kvenna til að sækja tíma í skólanum og það virðist hafa verið skilningur yfirvalda hér að slíkt væri ekki heimilt. Þær skyldu nema utanskóla.
Ekki er vitað hvenær áhugi Elínborgar á námi í latínuskólanum vaknaði fyrst. Hún var orðin 15 ára þegar reglugerð skólans var breytt og hafði þá af eðlilegum ástæðum ekki verið látin undirbúa sig undir slíka skólagöngu sem krafðist talsverðrar þekkingar á ýmsum námsgreinum sem hljóta að hafa verið henni framandi, svo sem latínu, bókmenntum og stærðfræði. Piltar voru stundum í nokkur ár að búa sig undir inntökupróf í latínuskólann en ekki er vitað til þess að Elínborg hafi notið slíkrar sérkennslu.
En svo steig hún skrefið, sökkti sér ofan í námsgreinarnar og lauk 4. bekkjarprófi 1894. Þá var hún að verða 23 ára gömul. Hún mátti taka stúdentsprófið tveimur árum seinna, 1896. Elínborg gerði tilraun til þess en var ekki langt komin í próftökunni þegar hún áttaði sig á því að hún myndi ekki standast kröfurnar, undirbúningur hennar væri miklu lakari en piltanna. Það var svo margt sem þeir höfðu fram yfir hana af því þeir sóttu tíma sem hún fékk ekki að gera og nutu leiðsagnar og úrskýringar kennaranna. Hún stóð því upp frá prófborðinu.
En Elínborg gafst ekki upp. Nokkru eftir að skóli var byrjaður um haustið sendi Jógvan skósmiður, faðir hennar, rektor bréf fyrir hennar hönd og bað um að hún fengi að sækja tíma eins og piltarnir svo hún gæti lokið náminu næsta sumar. Þáverandi rektor, Björn M. Ólsen, var erindinu hlynntur og mælti með því við yfirboðara sína, stiftsyfirvöldin svokölluðu, amtmanninn sunnan og vestan Júlíus Havsteen og biskupinn Hallgrím Sveinsson. Þeir voru ekki á sama máli og eftir að hafa ráðfært sig við landshöfðingja, Magnús Stephensen, synjuðu þeir erindinu. Töldu það ekki í samræmi við tilskipunina frá 1886.
Margir mundu hafa látið hugfallast við þetta. En ekki Elínborg. Enn á ný sendi Jógvan faðir hennar stjórnvöldum erindi fyrir hennar hönd. Nú skrifaði hann landshöfðingjanum og vildi fá úrskurð frá ráðherra Íslandsmála í Kaupmannahöfn. Kannski hefur hann frétt að dæmi voru um að stúlkur fengju að ganga í latínuskóla í Danmörku. Með Íslandsmálefni í Danmörku fór dómsmálaráðherrann í Hægri flokknum, Nicolai Reimer Rump. Embættismenn hans voru fljótir að afgreiða erindið. Fáeinum dögum eftir að það barst héðan var svarbréf komið í póstskipið til Íslands.
Ekki er líklegt að það hafi verið mikill gleðisvipur á Magnúsi landshöfðingja þegar hann las bréfið. En hann varð að hlýða boðskapnum og færa stiftsyfirvöldunum fregnirnar. Og þau urðu síðan að skrifa rektor latínuskólans um niðurstöðuna: Ráðuneytið í Kaupmannahöfn fellst á það „eftir atvikum, einkum af því að um efsta bekk í skólanum er að ræða“ og vegna meðmæla rektors og kennara skólans og yfirlýsingu þeirra um „þroska hlutaðeigandi“ að veita hið umbeðna leyfi. Tilskilið er að Elínborg lúti sömu reglum og lærisveinar skólans.
„Þetta undanfellum vjer eigi þjenustusamlega að tilkynna yður velborni herra,“ segja þeir Júlíus Havsteen amtmaður og Hallgrímur Sveinsson í kannsellístíluðu bréfi til Björns M. Ólsen rektors í byrjun desember 1896. Nokkrum dögum seinna er Elínborg mætt í skólann innan um sveinana. Einn þeirra, Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason, síðar guðfræðingur og stofnandi Elliheimilisins Grundar, virðist hafa verið sérlega alúðlegur við hana, því hann tók að sér að lesa með henni undir próf um vorið. Um sumarið lauk Elínborg svo stúdentsprófi og gat sannarlega gengið hnarreist um götur Reykjavíkur. Á stúdentsmyndinni hér fyrir neðan er hún þó svolítið feimnisleg innan um strákana, er í peysufötum og ekki með stúdentshúfu eins og þeir.
Innan tíðar mun öll fjölskyldan hafa siglt utan þar sem Elínborg ákvað að reyna við nám í læknisfræði við Hafnarháskóla. Ég þekki ekki þá sögu en árið 1905 dó faðir hennar og þá var fjárhagsgrundvellinum undir þessu dýra námi kippt undan henni. Elínborg stundaði í staðinn nuddlækningar í Kaupmannahöfn og hafði framfæri sitt af þeim, giftist ekki og dó barnlaus 1929.
Íslensk stúlka Camilla Stefánsdóttir Bjarnarson hafði lokið stúdentsprófi í Kaupmannahöfn árið 1889, en Elínborg er fyrst til að ljúka slíku prófi hér á landi. Aðeins eitt blað í Reykjavík sá ástæðu til að geta þessara tímamóta, Dagskrá, blað Einars skálds Benediktssonar. „Frk. Elínborg Jacobsen (hjeðan úr bænum) er fyrsta íslensk kona er tekið hefur hjer stúdentspróf,“ sagði í blaðinu. Athyglisvert er að Einar hikar ekki við að segja að Elínborg sé íslensk þótt hún eigi færeyska foreldra. Hann hefur greinilega verið nútímalegur í hugsun. En hún hafði jú fæðst hér, samlagast samfélaginu og alið allt sitt líf hér þegar hún lauk stúdentsprófinu.