Frumritið fannst í gömlum kassa
Þegar Ágúst H. Bjarnason grasafræðingur var að fara í gegnum tvo pappakassa fulla af handritum úr fórum afa síns og alnafna, sem var prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands á fyrri hluta síðustu aldar, rakst hann á gamalt ljóðahandrit sem vakti forvitni hans. Í ljós kom að þetta var frumrit ljóðsins Saknaðar með hendi höfundarins, Jóhanns skálds Jónssonar (1896-1932). Hafði Jóhann sent það til birtingar í nýstofnuðu menningartímariti, Vöku, árið 1928. Hann var þá búsettur í Þýskalandi.
Ágúst eldri var einn af ritstjórum tímaritsins, sem hóf göngu sína í nóvember 1926, en meðal annarra sem stýrðu því voru þjóðkunnir menn eins og Árni Pálsson, síðar prófessor, Ásgeir Ásgeirsson, síðar forseti, Guðmundur Finnbogason landsbókavörður, Kristján Albertsson rithöfundur og Sigurður Nordal prófessor. Birtust þar fjölmargar greinar um menningu, stjórnmál og fræði. Tímaritið varð hins vegar skammlíft, útgáfunni var hætt 1929.
Kassarnir með handritunum höfðu verið í geymslu ósnertir í hálfa öld. Mest voru þetta handrit ýmissa greina og bóka eftir Ágúst prófessor, en eftir hann liggja fjölmörg ritverk. En þarna var líka efni sem tilheyrði tímaritinu Vöku. Hefur Ágúst yngri fyrir satt að afi hans hafi haft forgöngu um útgáfu Vöku og umsjón með henni.
Brautryðjandaverk
Söknuður Jóhanns er jafnan talinn brautryðjandaverk í íslenskri ljóðagerð á öldinni sem leið. Er gjarnan sagt að Söknuður og ljóðið Sorg eftir Jóhann Sigurjónsson marki upphaf nútíma ljóðagerðar á Íslandi.
Bókmenntafræðingar segja að nýtt og ferskt form Saknaðar hafi valdið straumhvörfum. Hefur margt verið um ljóðið skrifað á síðustu áratugum. Náinn vinur Jóhanns, Halldór Laxness, komst svo að orði í formála ljóðasafns hans: „Í þessu kvæði eru rakin öll fyrri kvæði hans og svo ævi; og þannig er kvæði þetta að sínum hætti andlátskvæði einsog mörg fegurstu kvæði túngunnar, ort í það mund er höfundur kveður líf sitt, helgað þeirri stundu þegar ekkert er frammundan nema skuggsjá liðinnar ævi manns spegluð í andartaki hans hinstu.“
Jóhann lést úr berklum í Leipzig árið 1932, langt fyrir aldur fram.
Það sem mestum tíðindum sætir við fund frumrits Saknaðar er að í ljós kemur og verður ekki vefengt lengur, að titill þess í Vöku og ávallt síðan er kominn frá ritstjórum tímaritsins.
Ekki öllum á óvart
Ekki kemur þetta öllum á óvart. Eysteinn Þorvaldsson prófessor hafði á sínum tíma fengið vitneskju um þetta og sagði í ritgerð um skáldskap Jóhanns í Skírni 1991 að ljóðið hefði ekki hlotið titilinn Söknuður frá skáldinu sjálfu. „Ritstjórar Vöku hafa trúlega gefið því þetta nafn vegna viðskiptahagsmuna, eins og það heitir nú á dögum. Jóhann gaf því sérkennilegan og athyglisverðan titil: Kvæðið um engilbarnið litla bróður.“ Taldi Eysteinn að með þeim titli væri átt við meðbróðurinn sem talað væri til „í bróðurþeli mannúðar og samhygðar“.
Gallinn við þessar upplýsingar Eysteins var sá að hann vísaði ekki til neinnar heimildar né sýndi frumritið og töldu flestir það glatað. Því voru ekki allir sannfærðir um að þessar staðhæfingar væru á rökum reistar. Í grein í Skírni árið 2002 hvatti Þorsteinn Þorsteinsson til þess að Eysteinn greindi frá heimild sinni, en ekki er að sjá að nein viðbrögð hafi orðið við því. En nú er komið á daginn að Eysteinn hafði á réttu að standa.
Lýsing á frumritinu
„Söknuður er á tveimur blöðum, handskrifaður með 0,3 mm breiðum sjálfblekungi á drapplitan, fremur þunnan pappír, sem er lítið eitt minni en A4 eða 291×196 cm,“ segir Ágúst H. Bjarnason þegar hann lýsir frumriti ljóðsins. Í umfjöllun um málið á bloggi sínu (ahb.is) segir hann að svo sé að sjá að frá hendi Jóhanns hafi upprunalegt heiti kvæðisins staðið efst á handritinu, fimm sentímetrum frá efstu brún: „Kvæðið um engilbarnið, litla bróður.“ Tveimur og hálfum sentímetra þar fyrir neðan standi innan sviga: „(Brot)“. Síðan hafi þessu verið breytt. Skrifað hafi verið daufum stöfum með blýanti fyrir ofan titilinn: „Söknuður.“ Upprunalega nafnið á kvæðinu sé sett innan sviga og strikað yfir það, síðan sé ritað þar fyrir neðan „Eftir Jóhann Jónsson“ og strikað yfir orðið brot. Þá hafi verið farið ofan í þessa stafi með grænum, 0,5 millimetra breiðum penna.
Loks bendir Ágúst á að efst í vinstra horni handritsins séu fyrirmæli ritstjóranna til setjara Gutenberg, þar sem tímaritið var prentað, um að notast skuli við „Vökustafsetningu“ og nokkur orð í texta skáldsins séu leiðrétt.
Meðbróðir eða litli bróðir?
Ágúst veltir fyrir sér hver litli bróðirinn sé í upprunalegum titli Saknaðar. Eysteinn Þorvaldsson taldi, sem fyrr segir, að þar væri vísað almennt til meðbróðurins. Ágúst bendir hins vegar á að Jóhann hafi átt yngri bróður, Sigurð, sem fæddist 18. júlí 1901 og dó 29. maí 1903. Jóhann hafi því verið á áttunda aldursári þegar bróðir hans lést. „Ugglaust hefur bróðurmissirinn verið Jóhanni þung raun. Það er því ekki óvarlegt að álykta, að rekja megi upphaflegt nafn á kvæðinu Söknuði til þessa atburðar,“ segir Ágúst.
Áhrif á viðtökur?
Velta má því fyrir sér hvort ákvörðun ritstjóra Vöku um að breyta titlinum á þessu sögufræga ljóði Jóhanns Jónssonar hafi haft einhver áhrif á viðtökur þess. Á Eysteini Þorvaldssyni er að skilja að nýja heitið hafi þótt „söluvænlegra“ (sbr. „vegna viðskiptahagsmuna“) en hið upprunalega. Vel má vera að þetta hafi verið rétt mat. Orðið „Söknuður“ fangar mjög vel boðskap og hugsun Jóhanns Jónssonar í kvæðinu enda er ekki kunnugt um að hann hafi nokkru sinni gert athugasemd við ákvörðun ritstjóranna þótt hún hafi ekki verið borin undir hann.