Af falsritum

‘Tóm vitleysa’ í atómstíl

Sprell Vikunnar með ljóðabók Jóns Kára vakti mikla athygli í Reykjavík 1963. Margir helstu menningarvitar borgarinnar urðu að athlægi.

Falsrit eru jafngömul ritlistinni. Þau þekkjast á öllum öldum sögunnar. Sum hafa verið hugsuð sem saklaust stundargaman. Öðrum hefur verið ætlað að blekkja í þágu einhverra hagsmuna eða hugmynda. Við Íslendingar eigum okkar falsrit eins og aðrar þjóðir.

Á vordögum 1963 gekk ungur maður á milli þjóðkunnra menningarvita í Reykjavík, gagnrýnenda blaða og tímarita, skálda og útgefenda. Hann kvaðst heita Jón Kári og bauð af sér góðan þokka. Erindið var að biðja þá að líta á handrit með fáeinum frjálslega ortum ljóðum um lífið og tilveruna sem hann langaði að fá birt eða gefin út. En voru þau nógu góð? Var þetta boðlegur skáldskapur? spurði hann. Sjálfur var hann ekki viss. „Atómljóð“ voru svona ljóð kölluð á þessum tíma og voru umdeild meðal þjóðar sem hafði vanist ströngum bragreglum ríms og stuðla. En menningarvitarnir voru fordómalausir menn og nútímalegir. Viðtökurnar sem Jóni Kári fékk voru uppörvandi. Hvarvetna var honum hrósað í hástert. Einn talaði um „nýjan ferskan stíl“ ljóðanna, annar um „mjög athyglisverða hluti.“ Helsti menningarpáfi landsins, ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins, bauðst til að taka eitt ljóðanna þegar til birtingar. Jón Kári mátti sannarlega vera upplifsdjarfur þegar það birtist í blaðinu nokkrum dögum seinna, 5. maí þetta ár.

Og nú gerðust hlutirnir hratt. Tveimur mánuðum seinna kom fyrsta ljóðabók unga mannsins út, Þokur nefndist hún; var 72 síður að lengd, gefin út í 250 tölusettum eintökum. En ekki var allt sem sýndist. Sama dag og bókin kom út greindi Vikan frá því að útgáfan væri á hennar vegum. Blaðið hefði fengið tvo menn til að yrkja tóma vitleysu „í atómstíl“ eins og það var orðað. Þriðji maðurinn, sá sem kvaðst heita Jón Kári, hafði svo verið sendur út af örkinni með afurðirnar í þeim tilgangi að prófa dómgreind og listrænan smekk bókmenntavita landsins. Vikan sagði að viðtökurnar bentu til þess að bókmenntaþjóðin væri í ruglinu. Það vantaði mælikvarða á það hvað væri raunverulegur skáldskapur og hvað ekki. Það væri alltof mikið gefið út af verkum sem stæðust ekki lágmarkskröfur og hefðu „að skaðlausu mátt hafna í ruslakörfum höfundanna,“ sagði blaðið.

Af þessu tiltæki varð mikið uppnám og gremja meðal þeirra sem látið höfðu plata sig. En þjóðin hló sig máttlausa. Svo fennti yfir og grínið gleymdist. Hvort fleiri eða færri handrit ljóðabóka lentu í ruslakörfum höfunda sinna eftir þetta veit enginn. Rímlausu ljóðin lifðu þetta af.

Rit sem þykjast

Þokur Jóns Kára má kalla falsrit. Það eru rit sem þykjast vera annað en þau eru. Falsrit eru af ýmsu tagi. Eiginlega má tala um heila bókmenntagrein með ýmsum rangölum og útskotum. Verkin eru fleiri en tölu verður á komið. Og mörg falsritin eru vafalaust enn óþekkt. Fölsun er jafngömul ritlistinni, handritagerð og prentun. Sviðið er víðfeðmt og ekki aðeins útgefnar bækur eða handrit sem falsarar standa á bak við; ótal dæmi eru fyrr og síðar og úr samtímanum um fölsuð gögn og hluti af öllu tagi: gömul landakort og ættartölur, prófskírteini og vegabréf, kaupsamninga og erfðaskrár, ljósmyndir og málverk, seðla og mynt, frímerki og forngripi, blaðagreinar og vísindagreinar, svo fátt eitt sé talið.

Byrja má með því að gera greinarmun á gamni og alvöru. Þokur var prakkarastrik sem aðeins átti að hvíla leynd yfir í stuttan tíma. Græskulaust gaman sem menningarvitarnir sem narraðir voru gætu hlegið að eins og aðrir þegar fram liðu stundir. Slíkir bókmenntahrekkir höfðu áður litið dagsins ljós. Og hafa haldið áfram, jafnt á Íslandi sem í öðrum löndum. Eiginleg falsrit teljast slíkar hrekkjalómabækur varla.

Alvöru falsritum er ætlað stærra hlutverk en að skemmta fólki skamma stund; svo sem að græða peninga, efla eða upphefja eitthvað eða einhverja, nú eða niðurlægja eða skaða, vinna að framgangi hagsmuna eða hugmynda. Oft margt í senn. En stundum eru rætur verknaðarins svo djúpt i sálarlífi falsaranna að aðrir en þeir geta ekki skilið hvað býr að baki. Mörk gamans og alvöru eru þó stundum grátt svæði. Eitthvert frægasta ádeilurit allra tíma, satíran A Modest Proposal, sem Jonathan Swift gaf út undir dulnefni 1729, var á yfirborðinu háalvarleg tillaga um að losa Íra úr viðjum fátækar með því að þeir seldu börn sín sem fæðu til auðugra Englendinga. Yfirstéttin fengi góðan mat og alþýðufólk á Írlandi drjúgan skilding fyrir „vöruna“.

Sögufræg falsrit

Meðal þekktustu falsrita síðari ára eru ævisaga auðkýfingsins Howards Hughes eftir Clifford Irving (1972) og Dagbækur Hitlers (1983). Hlutu þær óhemju athygli og umtal þegar þær komu út, en að sama skapi var fallið hátt þegar á daginn kom að þær voru falsaðar. Af nýlegum dæmum, sem hátt hafa farið í fjölmiðlum, má nefna tíu ára gamla sjálfsævisögu, A Million Little Pieces eftir Bandarikjamanninn James Frey. Hann kynnti sig sem óvirkan alkóhólista og eiturlyfjafíkil og hafði frá mörgu raunalegu og sumu reyfarakenndu að segja. Bókin varð metsölurit vestanhafs eftir að sjónvarpsdrottningin Oprah Winfrey tók hana upp á arma sína. Svo kom í ljós að efnið var að mestu leyti uppspuni, tilbúningur höfundarins sem var ekki einu sinni fíkill. Heldur dró þá úr sölunni og margir stefnuvottar knúðu dyra hjá Frey. Þó voru þeir sem sögðu að þrátt fyrir þetta væri bókin hið prýðilegasta sjálfshjálparrit!

Frá fyrri öldum mætti nefna ýmsar ferðabækur þar sem höfundar lýsa framandi slóðum þar sem getur að líta kynjaverur og margs konar undur. Einna þekktust þeirra er ferðasaga sir Johns Mandeville frá Austurlöndum, rituð í lok 14. aldar. Önnur er ferðasaga Zeni-bræðra frá svipuðum tíma, en þar kemur Ísland meðal annars við sögu; hún er nú talin tilbúningur, samsuða upp úr eldri ritum og heilaspuna höfundarins. Á sínum tíma höfðu þessar bækur þó mikil áhrif á viðhorf og heimsmynd lesandi fólks. Vínlandssögurnar okkar góðu, Eiríks saga rauða og Grænlendinga saga, má kannski að einhverju leyti skilgreina innan þessa bókmenntaflokks.

Frægasta falsrit sögunnar er líklega Gjörðabækur Zíonsöldunga sem upphaflega birtist í rússnesku dagblaði fyrir meira en hundrað árum, 1903, kom síðar út á bók, var þýdd á margar tungur og hafði talsverð áhrif á uppgangsárum nasista og fasista í Evrópu. Því var haldið fram að ritið geymdi leynilega áætlun 200 forystumanna frímúrara og gyðinga um að ná heimsyfirráðum. Árið 1921 var sýnt fram á það að um falsrit væri að ræða, uppsuðu úr gömlu frönsku háðriti. Engu að síður héldu ýmsir áfram að flagga ritinu og næra með því gyðingahatur. Svo seint sem 1951 var það þýtt á íslensku og gefið út undir heitinu Samsærisáætlunin mikla. En eftir stríð var ekki lengur hægt að bjóða upp á gamla gyðingahatrið ómengað svo nú var bókin seld undir þeim formerkjum að um hefði verið að ræða samsæri auðugra zíonista í Bandaríkjunum og Evrópu, frekar en gyðinga almennt.

Falsað á miðöldum

Hér heima er líklegt að menn hafi byrjað að falsa skjöl um eignir og réttindi snemma eftir að ritöld gekk í garð. Ekki hefur sú iðja verið mikið rannsökuð. Til dæmis um falsað skjal má nefna skinnhandrit um landamerki Merkur og Merkihvols á Landi í Landmannahreppi frá 1475. Enda er það kallað „viðsjárvert bréf “ í 5. bindi Fornbréfasafnsins. Falsanir á bókfelli voru yfirleitt gerðar með þeim hætti að textabrot í upprunalegu skjali voru skafin á brott og annar texti ritaður í staðinn. Erfitt gat verið að greina þetta fyrr á tíð, en það er auðveldara með nútímatækni. Sú kenning erlends fræðimanns, Patriciu Piers Boulhosa, að sjálfur Gamli sáttmáli, sem upphaflega á að hafa verið gerður 1262, sé tilbúningur frá miðri 15. öld, vakti mikla athygli og deilur þegar hún var sett fram fyrir áratug. Enda er sáttmálinn lykilskjal í Íslandssögunni. Ekki eru fræðimenn einhuga í afstöðu sinni í því máli.

Einn helsti miðaldafræðingur okkar, dr. Sveinbjörn Rafnsson prófessor, kallar Landnámabók, sem að stofni til er frá 12. öld, falsrit. Hann leiðir að því rök að landnámið í bókinni og landnámsmennirnir sé tilbúningur sem sé miklu yngri en elsta byggð í landinu. „Ef söguleg heimild segist vera eitthvað allt annað en hún getur verið í raun og veru, og því virðist haldið fram af ásettu ráði, liggur fyrir að um er að ræða fals og lygi,“ skrifar hann í grein í tímaritinu Sögu 2008. Ekki hafa þó aðrir fræðimenn viljað kveða svona fast að orði.

 Jón forseti lét blekkjast

Íslendingasögur eru ekki lengur skilgreindar sem sögulegar heimildir um frásagnartímann frá landnámi og fram yfir kristnitöku. Þess vegna eiga þær tæpast heima í umræðum um falsrit. En sögur hafa aftur á móti verið skrifaðar sem Íslendingasögur í blekkingarskyni. Árið 1979 sýndi fræðimaðurinn Peter A. Jorgensen fram á það í grein í ársritinu Griplu að Þjóstólfs saga hamramma, sem gefin var út sem ekta fornsaga í Íslendingasagnaútgáfu Guðna Jónssonar (VIII. bindi 1953), væri tilbúningur frá því á áttunda áratug 18. aldar. Höfundurinn væri drykkfelldur íslenskur Hafnarstúdent, Þorleifur Arason, sem þá var á þrítugsaldri. Höfðu þá margir fallið fyrir hrekknum auk útgefandans, m.a. Jón Sigurðsson forseti sem skrifaði söguna upp um miðja 19. öld.

Þorleifur þessi Arason var um tíma í lífverði Danakonungs, en aflaði sér aukatekna með því að skrifa upp gömul íslensk skinnhandrit fyrir ýmsa mektarmenn. Hann var alla tíð í basli vegna óreglu. Í greininni í Griplu sýnir Jorgensen fram á að elsta varðveitta pappírshandrit sögunnar sé með rithönd Þorleifs. Engar heimildir eru um eldri handrit sögunnar og hún er hvergi nefnd á nafn fyrr en hún kemur skyndilega fram á sjónarsviðið einhvern tíma á árunum 1772 til 1778. Orðaforði sögunnar er nútímalegur, þar eru mörg orð sem ekki voru til í forníslensku, sum hver meira að segja ættuð úr seinni tíma dönsku. Nafn sögunnar gefur einnig vísbendingu um fölsunina. Til forna merkti hamrammur „maður sem skiptir um ham eða gengur berserksgang,“ en í nútímalegri merkingu er átt við ótrúlega eða yfirnáttúrulega krafta, og það er einmitt sá skilningur sem lagður er í orðið í Þjóstólfs sögu.

„Einstætt bókmenntaverk“

Í byrjun október 1973 birtist áberandi frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Ragnheiður biskupsdóttir leysir frá skjóðunni.“ Hún hefst svona: „Einstætt bókmenntaverk mun sjá dagsins ljós um næstu mánaðamót. Þá kemur út ævisaga Ragnheiðar Brynjólfsdóttur biskups Sveinssonar í Skálholti, sögð af henni sjálfri og aðstandendum hennar með miðilssambandi. Þar sviptir biskupsdóttirin hulunni af ýmsum atvikum og atburðum á æviferli sínum, svo sem eiðnum um skírlífi sitt, um samband sitt við Daða Halldórsson og lýsir nokkuð tilorðningu Passíusálma Hallgríms Péturssonar.“ Ætla hefði mátt að þjóðin færi að skellihlæja við þennan lestur og spurningar hafi vaknað um hvaða erindi þetta ætti á fréttasíðu virðulegs dagblaðs. En eins og höfundi þessarar greinar er enn í fersku minni þótti æði mörgum það trúlegt að þetta gæti verið satt og biðu spenntir eftir því að ein af ráðgátum Íslandssögunnar yrði leyst að handan.

Eftir ritdóm Ólafs Jónssonar gagnrýnanda í Vísi stuttu eftir að bókin kom út urðu þó jafnvel hinir allra trúgjörnustu að viðurkenna að þarna væri eitthvað annað á ferðinni en útgefandinn vildi vera láta. „Vitanlega er ekki orðum eyðandi að hinni afkáralegu andaspeki, sem höfð hefur verið í frammi í tilefni af útkomu þessarar bókar – hún er til skammar öllum, sem að hafa staðið og þá ekki síst blöðum og útvarpinu sem enn einu sinni hefur orðið ginningarfífl hjátrúarinnar í landinu,“ skrifaði Ólafur í upphafi ritdómsins. Hann sýndi fram á það að bókin væri öðrum þræði „frumstæð og útþynnt endurritun“ á frægri skáldsögu Guðmundar Kamban, Skálholti. sem kom út á fjórða áratugnum, en vikið væri frá öllu sem listrænt væri og vel gert í þeirri bók. „Ég fæ ekki betur séð en hér sé um að ræða eitthvert hið ósvífnasta ritfals sem dæmi eru til, hvaða sálfræðilegu skýringu sem kann að mega finna á tilkomu þess,“ sagði hann.

Skondið má það þykja, þótt ekki hafi það verið nefnt í tengslum við útkomu bókarinnar, að bókarhöfndurinn, miðillinn, skuli hafa látið greipar sópa í riti eftir Guðmund heitinn Kamban. Þegar Guðmundur var ungur maður í Reykjavík veturinn 1905 til 1906 voru sálarrannsóknir að nema hér land. Hann var skjólstæðingur tveggja kunnra borgara í bænum, ritstjóranna Björns Jónssonar og Einars H. Kvaran, sem báðir voru forfallnir andatrúarmenn. Undir handleiðslu þeirra varð fyrsta bókmenntaverk Guðmundar til, Úr dularheimum, safn smásagna sem ritaðar voru „ósjálfráðri skrift“ í miðilssambandi við enga aðra en H.C. Andersen, Jónas Hallgrímsson og Snorra Sturluson! Skylt er að geta þess að ekki átti Kamban eftir að „stytta sér leið“ aftur með þessum hætti í bókmenntasköpun sinni.

Previous
Previous

Riddari Jón Sigurðsson

Next
Next

Sæl væri eg ef sjá mætti …