Sæl væri eg ef sjá mætti …

Fegurðarskyn forfeðranna

Val fornmanna á bústöðum sínum sýnir næmi fyrir landslagi og náttúrufegurð.

Sæl væri eg ef sjá mætti ...

Í Bárðar sögu Snæfellsáss er þessi vísa sem lögð er í munn Helgu , dóttur Bárðar, þegar hún er stödd á Grænlandi og hugsar með söknuði til heimkynna sinna á Íslandi:

Sæl væri eg

ef sjá mætti

Búrfell og Bala,

báða Lóndranga,

Aðalþegnshóla

og Öndvertnes,

Heiðarkollu

og Hreggnasa,

Dritvík og möl

fyrir dyrum fóstra.

 

Bárðar saga er frá fyrri hluta 14. aldar. Hefur verið talað um þennan kveðskap sem fyrsta ættjarðarljóðið. En ekki má síður hafa það til marks um fegurðarskyn forfeðra okkar og formæðra. Gagnstætt því sem stundum er sagt er skynbragð á fegurð náttúrunnar ekki uppgötvun 19. aldar manna. Fornbókmenntir okkar eru að sönnu ekki margorðar um fagurt landslag, en af því verður ekki ályktað að fornmenn hafi ekki dáðst að því sama í náttúrunni og við nútímafólk. Val þeirra á bústöðum sínum sýnir til dæmis næmi fyrir landslagi og náttúrufegurð. Fyrstu íbúar Íslands höfðu trúar sinnar vegna helgi á einstökum svæðum. Hermt er að Þórólfur Mostrarskegg hafi til dæmis haft svo mikinn átrúnað á Helgafelli, „at þangat skyldi engi maðr óþveginn líta, og engu skyldi tortíma í fjallinu, hvárki fé né mönnum, nema sjálft gengi í brott,“ segir í Eyrbyggju.

„Fjöll voru þar og fagurt var þar um að litast,“ segir í Eiríks sögu rauða þegar Vínlandsfarar eru að kanna Straumfjörð. Í Grænlendinga sögu segir að Þorvaldi bróður Leifs heppna hafi þótt Vínland fagurt. „Göngum vit út nú í dag ok sjáumst um; hér er fagrt landslag,“ segir á einum stað í Friðþjófs sögu frækna, svo gripið sé niður í fornum sögum af handahófi. „Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún,“ lætur höfundur Njálu Gunnar á Hlíðarenda segja sem frægt er.

Lítilla sanda,

lítilla sæva,

litíl eru geð guma

segir í Hávamálum.

Kristján Albertsson rithöfundur vitnar á einum stað til þessara vísuorða sem sýna svo vel hugmyndir fornmanna um áhrif náttúrunnar á skap og anda þjóðanna. „Skáldinu er í hug til samanburðar langir sandar mikilla úthafsstranda. Vart hefur sú trú á mátt náttúrufegurðar, sem hér býr undir, öðru sinni verið fram sett með gagnorðara og ógleymanlegra hætti, en hér er gert,“ skrifaði Kristján. 

Previous
Previous

Af falsritum

Next
Next

Lesbókin