Riddari Jón Sigurðsson
„Ég er nú orðinn riddari af Dannebroge,“ skrifaði Jón Sigurðsson forseti í bréfi til þýska fræðimannsins Konráðs Maurer í ársbyrjun 1859, nokkrum dögum eftir að Friðrik VII. Danakonungur sæmdi hann riddarakrossi Dannebrogsorðunnar fyrir fræðastörf.
Greinilegt er af bréfinu að fyrir Jón var þetta mikilsverður virðingarauki. Örfáir Íslendingar höfðu áður hlotið orðuna. Voru þeir gjarnan kallaðir riddarar þegar vikið var að þeim í íslenskum blöðum. Fréttin barst hratt heim. Blaðið Þjóðólfur sagði í mars þetta ár frá þeim sóma sem Jóni hafði verið sýndur. Næstu árin var ekki óalgengt að hann væri nefndur Riddari Jón Sigurðsson í blöðunum og við ýmis tækifæri. Dannebrogsorðan var — og er enn — borgaraleg. En með riddaraheitinu var orðan óbeint tengd aðlinum og henni þannig gefin aukin virðing og vægi. Og það var konungurinn sjálfur sem tók formlega ákvörðun um það hver skyldi sæmdur henni. Riddarakrossinn var lægsta stig orðunnar, en gat verið upphaf frekari viðurkenningar og metorða.
Vafalaust hefur Jón Sigurðsson litið svo á að riddaranafnbótin styrkti virðuleika hans meðal samlanda hans. Af bréfinu til Maurers að dæma virðist hann þó ekki síður hafa um þetta leyti bundið vonir við að orðuveitingin væri vísbending um aukna tiltrú á hann meðal danskra valdamanna. Nefnt hafði verið við hann að taka að sér erindrekstur fyrir dönsk stjórnvöld á Íslandi í fjárkláðamálinu svonefnda. Þetta reyndist rétt, eins og frægt er í sögu hans. Fékk Jón það verkefni að knýja fram lækningastefnu gegn niðurskurði. Ekki er að sjá að menn hafi á þessum tíma tengt riddaranafnbótina og fjárkláðaverkefnið. Og engar opinberar umræður voru um að heiðursviðurkenningar af þessu tagi væru hégómlegt fyrirbæri. Það kom síðar. Í grein í Reykjavíkurblaðinu Ingólfi í ársbyrjun 1907, segir ritstjórinn, Benedikt Sveinsson alþingismaður (faðir Bjarna síðar forsætisráðherra, langafi Bjarna formanns Sjálfstæðifslokksins) að „enginn vafi“ sé á því að Jón Sigurðsson hefði aldrei fengið neina nafnbót frá dönsku stjórninni nema vegna þess að hann þóknaðist henni í fjárkláðamálinu. Benedikt taldi orður og titla hégóma og ósóma og benti á hvernig danska stjórnin hefði misbeitt „þessu krossa og titla glingri“. Vitnaði Benedikt í bréf sem Trampe stiftamtmaður hefði ritað yfirboðurum sínum í Kaupmannahöfn eftir uppreisnina á þjóðfundinum 1851. Trampe hefði mælt með því að hlýðnir embættismenn fengju Dannebrogsorðu „sem merki upp á náð og ánægju hans hátignar með þá“. Með orðuveitingum og viðurkenningum mætti breyta hugarfari íslenskra embættismanna.
Ættlaus eða eðalborinn?
Jón Sigurðsson er stundum nefndur sem dæmi um mann af alþýðuættum sem reis til áhrifa án þess að vera í skjóli eða á vegum höfðingja og gamalgróina ættarvelda. Er þetta rakið til þjóðfélagsbreytinga á 19. öld sem kipptu smám saman grundvellinum undan hefðarveldinu. „Ættlausir“ menn gátu þá risið til auðs og áhrifa. En í þessu sambandi vill gleymast að sjálfur var Jón ekki þeirrar skoðunar að hann væri einungis af „réttum og sléttum“ ættum presta og bjargálna bænda eins og kirkjubækur og önnur ættfræðigögn segja. Jón taldi sig kominn í beinan karllegg af Lofti riddara Guttormssyni hinum ríka á Möðruvöllum. Um Loft riddara lék mikill ljómi. Hann var talinn hafa verið auðugastur Íslendinga á sínum dögum, í lok 14. aldar og byrjun hinnar fimmtándu, verið aðlaður af konungi og borið skjaldarmerki því til vitnis. Þessi sannfæring Jóns um ætterni sitt kann að hafa mótað sjálfsvitund hans í ríkum mæli. Hún kann jafnvel að hafa ráðið úrslitum um ákvörðun hans að gerast foringi í sjálfstæðisbaráttunni.
Þegar Jón fæddist í byrjun 19. aldar voru gömlu og rótgrónu ættarveldin enn við lýði og hugmyndir um mikilvægi „göfugs ætternis“ ríkjandi. Ýmislegt í skrifum Jóns ber þess ótvírætt merki að hann var undir áhrifum slíkrar ættarhyggju. Í því sambandi má til dæmis nefna ritgerðir hans um Stefán Þórarinsson amtmann og Finn Magnússon prófessor í Nýjum félagsritum 1844 og 1845. Þeir voru, skrifar Jón þar, komnir af „hinum elztu ættum á Íslandi og göfugustu“.
Ætterni Jóns kom til tals á milli hans og vinar hans Jóns Guðmundssonar sumarið 1845 þegar þeir sóttu báðir hið endurreista Alþingi í Reykjavík. Jón forseti bað þá nafna sinn að rannsaka ættir sínar. Í ársbyrjun 1846 barst honum bréf frá Jóni Guðmundssyni þar sem þessar línur er að finna: „Ættartalan þín — eður lángfeðgatal til Lofts riddara ríka, læt eg fylgja hérmeð; fáir sem aungir, og víst aungir, sem brúka aðallega innsiglin, geta hrósað því að vera komnir frá vorum fornu riddurum í kallalegg: — ergo: eg óska þér minn eðalborni til lukku.“
Jón forseti fór alla tíð fínt með þessa dýrmætu vitneskju. En hún barst hratt og örugglega á milli Íslendinga í Kaupmannahöfn og hér heima og hefur áreiðanlega átt þátt í því að efla trú aðdáendahópsins á forystuhlutverk hans í stjórnmálum. Þetta má glöggt lesa úr hyllingarkvæði sem ungur vinur hans, Gísli Brynjúlfsson, orti rétt fyrir þjóðfundinn 1851. Það byrjar svona:
Jón! af öldnu kappa kyni
kominn beint af Guttormssyni,
þeim, sem ætthring æðstan
hóf Ísalands um fjalladali.
Fálkinn í innsiglinu, sem Jóni var fært að gjöf með kvæðinu, var á þessum tíma talinn hafa verið í skjaldarmerki Lofts riddara.
Um Jón forseta hefur meira verið skrifað en um nokkurn annan Íslending fyrr og síðar. En fræðimenn hafa ekki gefið þessum þætti er snýr að sjálfsmynd hans gaum, þótt fullt tilefni sé til þess.