Hátíðleg stund í Hlíðardal í Kringlumýri

Æskuheimilið

Magnús Gústafsson ólst upp í Hlíðardal við Kringlumýrarveg í Reykjavík, fæddur 1941. Nú heitir gatan Skipholt og æskuheimilið hefur orðið að víkja fyrir nýbyggingum. Vatnslitamynd eftir Sigfús Halldórsson.

„Á aðfangadag jóla 1943 er sérstakur viðhafnarbragur á heimili Guðrúnar Halldórsdóttur húsfreyju og Sigfúsar Magnússonar stýrimanns í Hlíðardal við Kringlumýrarveg í útjaðri Reykjavíkur. Allir sem í húsinu búa og fáeinir gestir hafa safnast saman prúðbúnir í stofunni í íbúð þeirra hjóna og skín eftirvænting af hverju andliti. Þar er einnig mættur sóknarpresturinn, séra Garðar Svavarsson, hempuklæddur. Klukkan sex ætlar hann að messa í fyrsta sinn í ófullgerðri Laugarneskirkju sem er nokkurn spöl fyrir norðan Kringlumýrina. Áður en jólahátíðin verður hringd inn í kirkjunni þarf að skíra yngsta heimilismanninn í húsinu, eftirlætið hann Kút litla, sem er rúmlega tveggja ára gamall, og þess vegna er presturinn hingað kominn. Þegar séra Garðar hefur lagt hönd sína á höfuð drengsins spyr hann móðurina, Þóru Birnu Brynjólfsdóttur, hvað barnið eigi að heita. Húsbóndinn á heimilinu er gamansamur og hefur sagt við drenginn að hann skuli segja „Kúti“ þegar hann heyri prestinn spyrja um nafn. Móðirin er sneggri til og áður en sá stutti nær að svara segir hún: „Hann á að heita Magnús Már Sævarr.“ Eys þá séra Garðar vígðu vatni þrisvar sinnum yfir höfuð drengsins eins og hefðin býður, blessar hann og skírir í nafni heilagrar þrenningar. Þóra hefur valið nöfnin af kostgæfni. Magnús, sá sem Kútur heitir í höfuðið á, Þorláksson, er nýlátinn, þjóðkunnur bóndi á Blikastöðum í Mosfellssveit, mikill vinur og velgjörðarmaður Þóru og fátækrar móður hennar fyrr á tíð. „Einhver merkasti og gagnmenntaðasti bóndi sem Ísland hefur eignast,“ segir í eftirmælum um hann í Búnaðarritinu. Ekki leitt að bera nafn slíks manns. Þóru finnst að Már hljómi vel við Magnúsarheitið. Sævarr velur hún vegna þess að það er eins og ættarnafn. Hver veit, segir hún, nema Magnús vilji nota það þegar hann verður fullorðinn í stað þess að kenna sig við föður sinn, Gústaf E. Pálsson verkfræðing. Sjálfur er Gústaf ekki viðstaddur og hefur enn ekki hitt son sinn, ekkert samband er á milli foreldranna og þau hafa aldrei búið saman. Undir skírninni eru sungnir sálmar og sest þá Sigfús við orgelið sem hann hefur nýlega keypt í Englandi í einum af mörgum söluferðum þangað með ísaðan fisk á togaranum Helgafelli. Innan tíðar er sest að borðum í kjallaranum hjá Sigríði, systur Guðrúnar, og manni hennar, Einari Guðbrandssyni, þar sem jólamáltíðin er snædd og síðan komið aftur upp í íbúð Guðrúnar og Sigfúsar og gjafir opnaðar við jólatréð þar í stofunni. Um kvöldið ómar söngur um híbýlin öll því að í Hlíðardal kann fólk að skemmta sér og gleðjast saman á góðri stund. Þarna vex Magnús Gústafsson úr grasi og mótast til framtíðar. Um hann er þessi bók.“

 

 

 

 

 



Previous
Previous

Þeir gömlu kunnu sitt fag

Next
Next

„Þetta var annarlegt augnaráð”