„Þetta var annarlegt augnaráð”

„Stærð vindlanna var óvanaleg“

Danski rithöfundurinn Poul Vad hitti séra Friðrik á unglingsaldri. Hann furðaði sig á manninum. (Ljósm. Ól. K. M.).


Þegar ég skrifaði ævisögu séra Friðriks Friðrikssonar var mér ekki kunnugt um að danski rithöfundurinn og listsögufræðingurinn Poul Vad (1927-2003) víkur að honum í ferðabók sinni Nord for Vatnajøkel sem út kom 1994. Omstunga gaf bókina út í íslenskri þýðingu Úlfars Hjörvars 2001 undir heitinu Norðan Vatnajökuls. Paul Vad hafði á unglingsaldri hitt séra Friðrik í heimabæ sínum, Silkiborg, og varð hann honum minnisstæður. Friðrik dvaldist í Danmörku á stríðsárunum, frá 1939 til 1945.

Poul kom til Íslands 1970, rúmlega fertugur, og lýsir því í bókinni þegar hann rekst á styttuna af séra Friðriki og drengnum við Lækjargötu. Í framhaldinu rifjast upp kynnin af honum í Danmörku.

„Það var mannhæðarhá bronsstytta, sett upp í Reykjavík miðri, sem vakti til lífs minninguna um þetta bælda eða kannski bara gleymda atvik. Styttan er af sitjandi, grannvöxnum, síðskeggjuðum öldungi, sem réttir hægri handlegg alveg fram og leggur höndina um höfuðið á ungum pilti sem stendur fyrir framan hann,“ skrifar Vad. Hann segist ekki hafa þurft að lesa á bronsplötuna á sökkli höggmyndarinnar til að gera sér ljóst að gamli maðurinn væri Friðrik Friðriksson, en það kemur honum „á óvart að þessi prestur nyti svo mikillar virðingar að mönnum hefði þótt knýjandi að minnast hans í höfuðstað landsins með þessu feikna minnismerki.“

„Friðrik Friðriksson ferðaðist á fyrstu árum stríðsins um Danmörku að heimsækja þá kristnustu er fundnir urðu meðal kristinna, og var hvarvetna tekið á móti honum sem æruverðugum patríark af þeirri gerð sem ekki varð fundin í okkar hluta þess konungsríkis sem Ísland var enn partur af. Hann var hvíthærður og bar sítt, hvítt og velhirt skegg. Hann kom mér fyrir sjónir sem öldungur, og það var hann kannski þá þegar, og vakti slíka lotningu sem ég aldrei fyrr hafði kynnst. Hvort hann var há- eða lágvaxinn gerði ég mér ekki grein fyrir því að ég sá hann aðeins sitjandi í hægindastól sem viðstaddir hnöppuðust um til að verða ekki af einu orði hans sem virtust fyrirfram vera talin spekiorð. Hvort það var framkoma nærstaddra eða maðurinn sjálfur, sem var orsök þessarar lotningar sem ég svo greinilega fann til, er erfitt að skera úr  um; að líkindum voru það gagnverkandi áhrif, og því eins konar tvöfeldnisáhrif beggja þátta sem auðvitað urðu ekki sundurgreindir. Það skal hér tekið fram að viðstaddir, sem eins og áður sagði hnöppuðust um hægindastólinn, voru allir karlkyns, því að þessi kristni höfðingi, sem kominn var siglandi til okkar yfir Atlantshafið, hafði einkum og sér í lagi öðlast orðstír sinn sem forgöngumaður unglinga og leiðtogi en fyrir honum voru unglingar drengir. Stúlkunum hafði hann ekki áhuga á. Þær voru honum sem loft. Hann þoldi þær ekki nærri sér. Sem drengur, eða öllu heldur: tápmikill drengur, hafði maður þau forréttindi ekki aðeins að heilsa Friðriki Friðrikssyni heldur líka að dvelja í návist hans, já vera svo að segja hafður honum til sýnis og vera grandskoðaður líkt og sá sem er sérlega útvalinn – en samkvæmt viðmiðunum sem aldrei urðu ljósar. Því víst var kynferðisstikan umborin af þjóðfélaginu og beinlínis viðurkennd en hér var hún opinskátt dregin fram á kynlegan hátt líkt og framandi andi, í og með vegna innreiðar hans, sem vakti okkur til vitundar sem við gátum ekki fyrirvaralaust brugðist við.“

Og Poul Vad heldur frásögninni áfram: „Það var því með blygðunarkennd og óskilgreindum óróa innra með mér, sem ég varla gerði mér grein fyrir, að ég gekk fram meðal hinna fullorðnu og fram fyrir gráhærða öldunginn í hægindastólnum til að hann fengi skoðað mig. Ég vissi ekki hvað það var sem rannsakandi augnaráð hans leitaði. Ég vissi heldur ekki, eða skildi ekki, hvað það var sem rannsakandi augnaráð hans tjáði. Þetta var annarlegt augnaráð, eða kannski fannst mér það einungis vera það vegna þess að hann var sérkennilegur maður: í heimi nauðrakaðra, stuttklipptra manna, snurfusaðra að þeirra tíma sið, í sínu gráa nafnleysi borgaralegra jakkafata, var þessi líkami í hægindastólnum – íklæddur svörtum fötum er sýndust vera úr sérlega sterku efni og samsvarandi vesti úr sama efni með óteljandi svörtum hnöppum, með svart hálsbindi og stífan, hvítan flibba og einkum þetta ritningarhvíta hár og mikla og þó velhirta gráa skegg – eitthvað framandi og næstum tröllslegt sem stafaði óræðum krafti, samandregnum í tilliti augna sem virtust óvenju djúpstæð sökum hvítra, úfinna brúnabrúska. Hann rétti ekki fram höndina til að snerta mig. Ég átti ekki einu sinni að taka í hönd hans. Ég kynntist ekki hendi hans – hún hvíldi áfram á bólstruðum armi hægindastólsins. Handayfirlagningin sem ég varð aðnjótandi var ekki áþreifanleg eins og íslenska bronsstyttan heldur einungis andleg; en spurning er hvort andleg handaryfirlagning sé ekki alltaf eitthvað annað sem er líkamlegt; auk þess hafði ég óljósan grun um að henni fylgdi tæplega jafnvíðtækur áhugi og hann auðsýndi félaga mínum jafnaldra, syni mun betur stæðra foreldra, sem voru gestgjafar hans, og við vorum þarna staddir hjá. Friðrik Friðriksson var því raunsær í hæsta máta.“

Poul Vad segir síðan að drengirnir hafi fengið að sitja með hinum fullorðnu umhverfis hægindastólinn „og hlýða á vitringinn sem kominn var til okkar um langan veg. Að hann hlyti að vera vitringur var auðséð á þeirri virðingu, sem hinir fullorðnu auðsýndu honum, og útlit hans var líka með sér. Eftir því sem á kvöldið leið færðist sá fjarlægi staður, sem hann kom úr, lengra og lengra burt og hvarf að lokum í vídd þar sem ég ekki lengur gat fylgt honum með augunum: það var áreiðanlega ekki staður sem hægt var að tengja neinu sem ég áður þekkti. Stærð vindlanna sem hann reykti var óvanaleg í sjálfu sé. Þeir voru langir, svartir sem íbenviður, mjóir án þess að vera þunnir, með aðeins óreglulegu, líkt og sjálfþróuðu sniði; þeir vitnuðu um annan uppruna en hinir ljósbrúnu, persónulausu og alltaf nákvæmlega eins vindlar sem ég hafði daglega umhverfis mig. En vindlar voru þetta þó engu að síður, heyrði til kerfi og tegund sem ég þekkti og átti ekki í vandræðum með að flokka, hversu framandi sem þeir voru. Ég fór að athuga hann nánar þegar ég heyrði – einhver hvíslaði því í trúnaði – að hann svæfi í mesta lagi fjórar klukkustundir á nóttu. Ég vissi ekki annað en að maðurinn væri skapaður til að taka á sig náðir um ellefuleytið á kvöldin og fara á fætur um sjöleytið á morgnana. Þannig var því hagað og ákveðið frá náttúrunnar hendi og að þessu löguðu menn sig vegna þess að það gat nú einu sinni ekki öðruvísi verið. En Friðrik Friðriksson fór aldrei í rúmið fyrr en klukkan eitt og aldrei seinna á fætur en klukkan fimm. Einkum það síðartalda var mjög athyglisvert. Ég spurði hvíslandi þá sem næstir mér sátu hvað hann tæki sér fyrir hendur á þessum tíma sólarhrings þegar allir aðrir, og það í samræmi við skikkan náttúrunnar, sváfu ennþá, en þessu gat enginn svarað. Hárið, skeggið og vindillinn gerðu þetta framferði hans að enn meiri ráðgátu – ég reyndi árangurslaust að ímynda mér hvað hann aðhefðist í einmanalegu gestaherberginu á meðan allir aðrir í kringum hann í þessari stóru villu sváfu. Á meðan ég var enn að brjóta heilann um þetta og grandskoðaði útlit hans eins og ég héldi að það í sjálfu sér geymdi lykilinn að leyndardómnum bættist við annar og ennþá meiri leyndardómur sem jafnframt rauf þó töfrana og skildi mig eftir með vonbrigði vantrúarinnar og einmanakennd efasemdarmannsins. Það kom nefnilega fram í samræðunum, sem vikið höfðu að pólitískum og þjóðfélagslegum efnum, að Friðrik Friðriksson var áhangandi einveldisins. „Áhangandi“ er kannski bæði of veikt og ónákvæmlega til orða tekið. Skoðanir hans á einveldi annars vegar og lýðræði hins vegar voru ekki reistar á neinni félagslegri né pólitískri kenningu – sem kynni að hafa verið forvitnilegt, en ekki neitt undrunarefni – heldur á sérstæðum söguskilningi sem gerði ráð fyrir yfirskilvitlegum öflum. Friðrik Friðriksson skýrði nefnilega frá því að fólkið hefði ólöglega svipt konunginn réttinum til að stjórna, sem var alvarlegt mál því að konungurinn þægi vald sitt frá Guði. Hinir frómu guðsmenn umhverfis hann urðu kannski eilítið undrandi á svip en andmæla honum vildu þeir ekki, sumpart af virðingu fyrir myndugleika hans, sumpart af því að þeir vildu ekkert segja er túlka mætti sem vantraust á almætti Guðs. Sem ég nú starði á hrukkótt andlit gamla mannsins leitaði ég að þó ekki væri nema smávísbendingu um að hann væri grallari er ljúfur sem lamb lokkaði tilheyrendur sína út í botnleysu; en það bar ekki árangur. Hann hélt rólegur áfram að totta einn af sínum stóru, ískyggilegu vindlum, líkt og orð hans væru ekkert til að furða sig á. Mér er nær að hald að á þessari stundu hafi ég glatað allri trú á að viska tengdist á nokkurn hátt aldri. Ég áræddi naumast að nota orðið, líklega ekki einu sinni með sjálfum mér, en ég var innst inni ekki í vafa um að maðurinn væri fábjáni. Þar skjátlaðist mér aftur á móti að vissu leyti alveg en það gat ég ekki vitað þá. Mér var nefnilega ekki ljóst að ég var einfaldlega kominn í kynni við íslenskan draumhuga og sérvitring og að íslenska draumóramenn er hvorki hægt að skilja né meta eftir kvarða danskrar meðalhegðunar sem dugar alls ekki á þessa þjóð.“

 

 

 

 

 



Previous
Previous

Hátíðleg stund í Hlíðardal í Kringlumýri

Next
Next

„Frá honum er engi saga gerð.”