Úr sögu Safnahússins: Minnismerki þverúðar.

Safnahúsið við Hverfisgötu snemma á öldinni sem leið.

Eitt af mörgum minnisstæðum dæmum um rómaða þverúð okkar Íslendinga og hæfileika til að þrasa um hégóma af lífi og sál eru alþingiskosningarnar haustið 1908, hinar fyrstu eftir að landsmenn fengu heimastjórn. Hundrað ára afmælis hennar er minnst með viðhöfn um þessar mundir en fyrstu ár hennar einkenndust hvorki af eindrægni né sáttahug leiðandi afla hins nýja samfélags. Þvert á móti lögðu menn lykkju á leið sína til að ná höggi á andstæðingana. Svo skemmtilega og óvenjulega vill til að varðveist hefur í húsi einu í Reykjavík áþreifanleg minning þessarar þverúðar eins og hér verður rakið.

Ráðamenn landsins með Hannes Hafstein ráðherra í broddi fylkingar höfðu um vorið 1908 náð samkomulagi við Dani um að festa heimastjórnarskipulagið í sessi og efla hina innlendu stjórn með nýjum lögum um stöðu Íslands í danska ríkinu. Gekk það undir nafninu „Uppkastið“ enda átti það eftir að fá staðfestingu Alþingis sem var rofið og efnt til kosninga svo að þjóðin fengi að leggja blessun sína yfir áformin. Hnigu sterk rök að því að Uppkastið væri skynsamleg málamiðlun og virtist í fyrstu sem um það ætlaði að takast samstaða þvert á flokkslínur. Þetta féll gömlum þrætuseggjum á þingi, með Skúla Thoroddsen og Björn Jónsson ritstjóra Ísafoldar í broddi fylkingar, ekki í geð. Þótt Danir hefðu aldrei boðið betur og mundu líklega aldrei bjóða betur fannst þeim ekki koma til greina að samþykkja Uppkastið. Það yrði að sauma betur að kónginum í Kaupmannahöfn og ráðgjöfum hans.

Sumarið 1908 gerðu þeir félagar og fleiri þingmenn með þvergirðingshætti og smámunaþrefi einstæða uppreisn gegn heilbrigðri skynsemi í stjórnmálum. Og tókst að fá kjósendur um land allt á sitt band. Í kosningum 10. september 1908 hrundi heimastjórnarmeirihlutinn á Alþingi; náðu 24 frambjóðendur, sem voru á móti Uppkastinu, kjöri en aðeins 10 úr hópi stuðningsmanna þess. Blasti þá við að fyrsti íslenski ráðherrann, Hannes Hafstein, hlyti að víkja úr embætti þegar Alþingi kæmi saman í byrjun næsta árs, en þingstörfum var á þessum tíma hagað með öðrum hætti en nú á dögum. Gekk þetta síðan eftir og hinn nýi meirihluti ákvað að styðja Björn Ísafoldarritstjóra til ráðherradóms.

Hannesar Hafstein er að maklegheitum minnst sem mikils framkvæmdamanns. Á okkar dögum er sýnilegasti ávöxtur starfsgleði hans sem stjórnmálamanns líklega gamla Safnahúsið, nú Þjóðmenningarhúsið, við Hverfisgötu, sem reist var á árunum 1906 til 1908. Hafði Hannes forgöngu um byggingu hússins, aflaði fjár með sölu ríkisjarðar, réð danska húsameistarann persónulega og tryggði vafningalausa framkvæmd með því að sjá til þess að þrír áhugasamir þingflokksbræður hans mynduðu byggingarnefndina: Tryggvi Gunnarsson bankastjóri, Guðmundur Björnsson landlæknir og Jón Jacobson landsbókavörður.

Kostnaður við húsbygginguna varð vitaskuld svimandi hár en ekki mátti gleyma því, eins og ráðherrann minnti á þegar hornsteinninn var lagður haustið 1906, að það átti að verða „varðkastali og forðabúr þjóðernistilfinningarinnar.“ Slíkt mannvirki má kosta nokkuð! Skyldi það til frambúðar vera samastaður tveggja höfuðsafna landsins, Landsbókasafnsins og Landsskjalsafnsins, en til bráðabirgða fengu þar einnig inni Forngripasafnið og Náttúrugripasafnið.

Í þingkosningunum um haustið voru tveir byggingarnefndarmanna í framboði á ný, landlæknir og landsbókavörður; báðir einarðir stuðningsmenn Uppkastsins. Því miður féllu þeir báðir af þingi. Þarf víst ekki að fara í grafgötur um að þeir voru súrir yfir þessum úrslitum. Varla hefur það dregið úr gremju landsbókavarðar að húsnautur hans, Jón Þorkelsson landsskjalavörður, harðskeyttur og atkvæðamikill andstæðingur Uppkastsins, sem einnig var í framboði, hlaut glæsilega kosningu í Reykjavík

Arkitekt safnahússins, Magdahl-Nielsen hinn danski, ætlaðist í upphafi til þess að söfnin tvö, sem þar áttu að vera til frambúðar, deildu með sér stóra lestrarsalnum í miðrýminu, þar sem nú er bókasalur Þjóðmenningarhússins. Kemur þetta glöggt fram á frumteikningum hans. En þetta varð aldrei og er ekki ósennilegt að pólitískir fáleikar með landsbókaverði og landsskjalaverði, sem ágerðust haustið 1908, þegar flutt var inn í húsið, hafi átt sinn þátt í því. Um sama leyti og skjöl og bækur voru bornar inn var dyrunum milli lestrarsalarins og landsskjalasafnsins lokað og læst. Fylgir ekki sögunni hvorum megin lyklinum var snúið. Kannski var það til að tryggja að ekki yrði reynt að hnekkja þessari ráðstöfun að stór skápur, sem geymdi bókaskrá Landsbókasafnsins, var stuttu seinna settur upp að hurðinni og stóð þar næstu áratugina.

Næstu níutíu árin eða svo voru dyrnar tryggilega lokaðar. Um þær gekk ekki nokkur sála. Og ekki hvarflaði að neinum að opna á milli, þótt bókaverðir og skjalaverðir af yngri kynslóðum væru farnir að skrafa saman í bróðerni þegar leið á öldina.

Svo gerðist það fyrir tæpum tíu árum, að Landsskjalasafnið, sem þá var orðið að Þjóðskjalasafni, fékk um tíma yfirráð yfir öllu Safnahúsinu en þá var Landsbóksafnið flutt í Þjóðarbókhlöðuna. Flaug þá arftaka Jóns Þorkelssonar í hug að nýta mætti gamla lestrarsalinn fyrir ættfræðinga og aðra skjalakönnuði enda mikil þrengsli á þeirra gamla heimavelli. Var gömlum og ryðguðum lykli stungið í skrána og næstum aldargamall biturleiki kvaddur án þess að nokkurs staðar heyrðist hósti eða stuna.

Og þó, heyrt hef ég að eitthvert uppnám hafi orðið í höfuðstöðvum húsafriðunarnefndar ríkisins, sendinefnd komið til að sannspyrja hvort spellvirki hefðu hugsanlegu verið unnin á friðuðum innréttingum, en þá sögu kann ég ekki frekar.

Af hverju bara Landsbókasafn?

Þó að dyr þverúðarinnar hafi verið opnaðar og merkileg söguleg hefð þannig rofin getum við glaðst yfir því annað minnismerki hennar er varðveitt í upprunalegri mynd í Þjóðmenningarhúsinu. Er það á framhlið hússins þar sem á granítgerða dyraumgjörðina er letrað hástöfum: LANDSBÓKASAFN.

Spurningin, sem margir hafa spurt en ekkert svar fengið við, er þessi: Af hverju er bara nafn Landsbókasafns á umgjörðinni úr því að húsið var einnig framtíðarheimili Landsskjalasafnsins? Og viti menn, svolítil athugun á skjölum hins hundrað ára gamla Stjórnarráðs leiðir í ljós að fyrstur til að spyrja þessarar spurningar var landsskjalavörður sjálfur, Jón Þorkelsson, er honum varð nokkrum dögum fyrir þingkosningar haustið 1908 gengið upp tröppur hússins. Sá hann þá hvar tveir danskir steinsmiðir voru að höggva nafn bókasafnsins í granítið. Þeir kváðust ekki hafa nein fyrirmæli um frekari steinhögg og væru að fara af landi brott innan tíðar. Undrandi og hneykslaður sendi landsskjalavörður byggingarnefndinni bréf daginn eftir og óskaði eftir því að nafn skjalasafnsins gleymdist ekki áður en verkinu lyki. Af einhverri ástæðu sýndi nefndin erindinu lítinn áhuga en benti honum á að snúa sér til Stjórnarráðsins, þ.e. til Hannesar ráðherra. Hefur bréf Jóns til hans varðveist með eftirfarandi áritun ráðherrans til embættismanna sinna: „Kjörboe [umsjónarmaður framkvæmdanna] skýrir frá, að ekki sé að neinu leyti hentugra að gera þessa breytingu nú en einhvern tíma síðar, ef endilega eigi að gera hana. En hann efast um, að nokkur maður hér geti hoggið í granítina svo nokkur mynd sé á, enda muni verkfæri til þess vanta.“

Málinu var lokið. Eftir þetta fékkst engu þokað. Auðvitað liggur ekki skjalfest fyrir svo óyggjandi sé að hér hafi heimastjórnarmenn brugðið fæti fyrir pólitískan andstæðing sinn. Litla mannþekkingu þarf þó til að álykta að stjórnmálahitinn þessa haustdaga kunni að hafa haft lamandi áhrif á þá miklu framtaksmenn sem erindið fengu: ráðherrann og byggingarnefnd hans.

Safnahúsið var sýnt í fyrsta sinn 26. mars 1909 að viðstöddum 150 málsmetandi gestum. Þá voru aðeins fimm dagar eftir af fyrra ráðherraskeiði Hannesar Hafstein. Vígslan var því líklega síðasta embættisverk hans. Kannski við hæfi svo mjög sem hann hafði lagt metnað sinn í að þetta hús risi og yrði vel úr garði gert.

En ekki var allt húsið til sýnis þennan dag. Aðeins þrír fjórðu hlutar þess: landsbókasafnið, forngripasafnið og náttúrugripasafnið. Jón Þorkelsson landsskjalavörður gaf sér ekki tíma til að standa í slíku stússi þennan dag. Aftur á móti bauð hann gestum í Skjalasafn Íslands sex dögum síðar, 1. apríl 1909, en svo hittist á að daginn áður hafði Hannes Hafstein kvatt Stjórnarráðið og Klemens Jónsson landritari sest í valdastól til bráðabirgða meðan Björn Jónsson sigldi hraðbyri heim af konungsfundi með ráðherratign sína. Tilviljun?

Birtist upphaflega í DV 31. janúar 2004


 









































 



































































Previous
Previous

Þegar Reykjavík varð borg meðal borga

Next
Next

Af rúmtjöldum og „góðfrægum höfðingsmanni”