Þegar Reykjavík varð borg meðal borga

Líkneski Thorvaldsens á Austurvelli 1910. Nú er þar myndastyttan af Jóni Sigurðssuni forseta. Ljósm. W.W.Howell, 1900.

Á þessu ár, 2024, eru 150 ár liðin frá þeim atburði sem á sinn hátt markar upphaf þess að Reykjavík breyttist úr sveitaþorpi í stórborg; varð borg meðal borga. Þetta var þegar Reykjavík eignaðist sína fyrstu myndastyttu, líkneskið af listamanninum Bertel Thorvaldsen. Borgarstjórnin í Kaupmannahöfn gaf Reykvíkingum styttuna á þjóðhátíðinni sem haldin var sumarið 1874 til að minnast þúsund ára afmælis Íslandsbyggðar. Listaverkið var svo afhjúpað á Austurvelli 19. nóvember 1875.

Traustar heimildir eru um þennan atburð og hve stór hann þótti í annars fábreyttu bæjarlífinu. Helstu blöð landsins, sem þá voru Ísafold og Þjóðólfur, gerðu honum vandlega skil. Síðarnefnda blaðið lagði forsíðuna og drjúgan hluta af öðru rými undir frásögnina.

19. nóvember á 105. afmælisdegi Alberts Thorvaldsens var líkneski hans blæju svipt og birt almenningi í Reykjavík. Var dagurinn heilagur haldinn, sem stórhátíð, og nálega öllu því tjaldað er til var til hátíðisbrigðis.

„Albert“ kölluðu blöðin Bertel Thorvaldsen til að leggja áherslu á íslenskan uppruna hans. Faðir hans var Gottskálk Þorvaldsson, tréskurðarmaður úr Skagafirði, og móðir hans dönsk kona, Karen Dagnes. Gottskáld og fjölskylda hans voru blátæk. Skólaganga sonarins var sáralítil, en hann náði þó að verða tekinn inn í listaakademíið (Kunstakademiet) í Kaupmannahöfn. Hann hefur þá verið búinn að sýna listræna hæfileika. Í skólanum fór honum skjótt fram og að námi loknu hélt hann til Rómar þar sem frægðarferill hans sem myndhöggvara hófst. Er óþarfi að rekja þá sögu svo kunn sem hún er. Vorið 1838 ánafnaði Thorvaldsen fæðingarborg sinni, Kaupmannahöfn, öll verk sín gegn því að borgarstjórnin reisti sérstakt safn yfir þau. Það gekk eftir og er Thorvaldsenbyggingin eitt helsta listasafnið í miðborginni.

Áður en Thorvaldsen lést hafði hann gert af sjálfum sér meira en mannhæðarháa höggmynd. Þar er hann berhöfðaður og nær ber niður á brjóst, klæddur kyrtli og belti gyrtur. Styður hann vinstri höndinni á gríska gyðjumynd sem á að tákna Vonina; í hægri höndinni heldur hann síðan á smíðahamri sínum. Þessi mynd varð fyrir valinu þegar Kaupmannahafnarborg ákvað að gefa Íslendingum gjöf í tilefni af þúsund ára afmæli byggðar í landinu árið 1874. Var ákveðið að steypa hana í eir og flytja afsteypuna til Íslands en frummyndin er í Thorvaldsensafninu.

Ástæðan fyrir því að Thorvaldsen varð fyrir valinu var áreiðanlega sú að Dönum var kunnugt um hve Íslendingar voru hreyknir af þessum syni sínum. Og það voru Danir líka, en þeir hafa löngum litið á hann sem fremsta listamann Danmerkur. Og Thorvaldsen var alveg ópólitískur, menn gátu sameinast um hann án tillits til þess hvaða skoðanir þeir höfðu á sambandi Íslands og Danmerkur.

Ritstjóri Þjóðólfs skoðaði myndastyttuna af Thorvaldsen vandlega þegar hún hafði verið afhjúpuð á Austurvelli. Hann skrifaði um myndina:

Hann er miðaldra að sjá, og allra manna svipþýðastur og þokkabeztur sýnum; virðist allur svipur og andlitslag hans einkennilega íslenzkulegt.

Hátíðarhöldin í Reykjavík þegar líkneski Thorvaldsen var afhjúpað gáfu þjóðhátíðinni ári fyrr ekkert eftir. Austurvöllur var allur skreyttur eftir forsögn dansks manns sem Kaupmannahafnarborg hafði sent til Íslands til að annast uppsetningu myndastyttunnar. Járngirðing var reist umhverfis styttuna og allt umhverfis hana voru fánastangir. „Prýddu þannig Austurvöll í einu 52 dannebrogsflögg og blæjur“, sagði Þjóðólfur. Blaðið sagði að utan um stengurnar hafi verið slöngvað lyngfléttum og kransar festir, og um kvöldið hafi allar girðingarnar verið upplýstar með litlömpum úr pappír. Skreytingarnar voru verk hóps kvenna af betri heimilum í Reykjavík en upp úr starfi þeirra varð til Thorvaldsenfélagið, líknar- og kvenfélag sem enn starfar.

Þennan dag var veður í Reykjavík nokkuð kalt og hvasst, en hreint og fjallabjart samkvæmt blöðunum. Til athafnarinnar sem hófst á hádegi með klukknahringingu frá Dómkirkjunni kom þorri bæjarbúa og auk þess fólk úr nálægum sveitum. Á dagskrá var söngur og ræðuhöld. Höfðu þjóðskáldin, Matthías Jochumson og Steingrímur Thorsteinssom, ort bragi. Fyrstur talaði biskupinn, Pétur Pétursson, síðan Hilmar Finsen landshöfðingi og eftir að styttan hafði verið afhjúpuð talaði Árni Thorsteinson landfógeti. Loks bað Bergur Thorberg amtmaður menn að minnast konungs vors „og svöruðu menn því með níföldu húrra“, sagði Þjóðólfur. „Lengi dags var fullt af fólki kringum myndina að skoða hina fásjenu gersimi“, sagði Ísafold. Síðdegis var efnt til samsætis á veitingahúsum bæjarins. „Sátu höfðingjarnir að veislu í sjúkrahúsinu [við Kirkjustræti þar sem var veislusalur], en alþýða í Glasgow [við Vesturgötu]“, sagði Ísafold. Stéttaskipting var skörp á Íslandi á þessum tíma og ekki kom til greina að háir og lágir sætu saman til borðs.

Líkneskið af Bertel Thorvaldsen er ekki lengur á Austurvelli. Það var árið árið 1931 flutt í Hljómskálagarðinn til að rýma fyrir styttunni af Jóni Sigurðssyni forseta. Í garðinum stendur það enn.

 

Grein þessi birtist að stofni til í Fréttablaðinu 19. nóvember 2005.


 









































 



































































Previous
Previous

Af Snorralaug. Einkennilegt verðmætamat okkar.

Next
Next

Úr sögu Safnahússins: Minnismerki þverúðar.