Af rúmtjöldum og „góðfrægum höfðingsmanni”

Rúmtjöldin tvö frá Þingvöllum sem Þjóðminjasafnið ætlar að sýna í sumar. Myndin er fengin úr safnskrá Þjóðminjasafns Skotlands sem eignaðist tjöldin um miðja 19. öld.

Þjóðminjasafnið hefur fengið að láni frá systursafni sínu í Skotlandi tjöld sem eru talin hafa hangið í Lögréttuhúsinu á Þingvöllum á síðari hluta 18. aldar. Fátt ef nokkuð hefur varðveist af munum frá þinghaldinu og eru tjöldin áhugaverð í því ljósi.

Í frétt á vef safnsins kemur fram að þessi tjöld voru seld skoskum ferðamanni að nafni Robert Mackay Smith árið 1858 en eru nú í eigu Þjóðminjasafns Skotlands. Þegar þau voru seld úr landi höfðu þau verið á Bessastöðum í þó nokkurn tíma.

Í fréttinni eru „Lögréttutjöldin“, eins og þau eru nefnd, sögð vera „tvö mislöng rúmtjöld úr ull og líni sem hafa verið saumuð saman eftir langhliðinni. Þau eru skreytt með útsaumi og áletrunum. Á öðru eru spakmæli en brot úr passíusálmi eftir Hallgrím Pétursson á hinu.”

Í safnskrá skoska þjóðminjasafnsins á netinu er talið líklegt að tjöldin séu frá 18. öld og er sagt að þau hafi verið í tjaldi á Þingvöllum meðan þar var enn starfsemi. Mun átt við Lögréttuhúsið sem reyndar var lítið timburhús eins og eina myndin sem til er af því sýnir.

Lögréttuhúsið er fremra húsið á teikningunni hér að ofan sem gerð var af einum leiðangursmanna í Íslandsheimsókn J.T, Stanley 1789, John Baine.

Dr. Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur hefur undanfarin ár leitað íslenskra gripa í breskum söfnum. Í grein sem hún birti í Safnablaðinu Kvisti fyrir tveimur árum kemur fram að Mackay Smith hafi árið 1858 selt skoska þjóðminjasafninu nokkra gripi sem hann hafði keypt hér á landi. Meðal þeirra séu tjöld sem hann hafi keypt af Hallgrími Scheving kennara í Bessastaðaskóla á Álftanesi. Tjöldin hafi forðum hangið uppi í Lögréttuhúsinu á Þingvöllum. Guðrún talar um veggtjöld í þessu samband eins og gert er í skrá skoska safnsins, en Þjóðminjasafnið okkar telur að um rúmtjöld sé að ræða. Allt mun þetta væntanlega skýrast þegar sýningin opnar, en unnið mun hafa verið að rannsókn á tjöldunum og sögu þeirra á vegum safnsins um skeið.

Eins og alkunna er lauk starfsemi Alþingis á Þingvöllum 1798. Réð miklu um það að húsakostur á staðnum þótti algjörlega ófullnægjandi. Alþingi var á þessum tíma löngu búið að glata löggjafarhlutverki sínu og starfaði eingöngu sem dómstóll og þinglýsingarstaður. Auk þess voru þinglýsingar konungs birtar þar (Saga Íslands IX. bindi, 2008, bls. 19-20).

Mackay Smith mun hafa skrifast á við nokkra Íslendinga, þ.á m. Árna Thorsteinsson landfógeta. Bréfin til Árna eru nú flest varðveitt í Þjóðskjalasafninu Skoðaði ég þau fyrir nokkrum dögum og fann þar margt áhugavert, en hvergi fann ég þó neitt um tjöldin úr Lögréttuhúsinu.

Um Robert Mackay Smith (1802-1888) er það að segja að hann var mikill Íslandsvinur og af bréfum sem hann skrifaði Árni Thorsteinssyni landfógeta snemma á níunda áratug 19. aldar má sjá að hann hefur komið hingað til lands a.m.k. fjórum sínum og eignast hér vini og kunningja. M.a. talar hann um Árna Thorlacíus í Stykkishólmi sem vin sinn. Mackay Smith var mjög hlýtt til Íslands og Íslendinga. Þegar fyrsta sjúkrahúsið í Reykjavík var stofnað 1866 gaf hann til þess öll sjúkrarúmin sem þar voru með rúmfötum, en var svo hógvær að hann óskaði eftir því að nafn síns væri ekki getið. Er því aðeins talað um „góðfrægan höfðingsmann í Edinborg“ í frétt Þjóðólfs um málið í september 1866.

Því miður hefur mér ekki tekist að finna ljósmynd af Mackay Smith á netinu, en vafalaust eru slíkar myndir til í skoskum söfnum, enda var hann stórefnaður og mikill áhrifamaður í kaupsýslu og fjármálalífi Skota á 19. öld.

Previous
Previous

Úr sögu Safnahússins: Minnismerki þverúðar.

Next
Next

Útilegumenn: þjóðtrú og veruleiki