Þegar Thorsararnir vildu eignast Moggann

Ólafur Thors formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra um árabil.

Í New York dvöldust á stríðsárunum [1939 til 1945] kaupsýslumennirnir Garðar Gíslason og Ólafur Ó. Johnson. Þeir voru meðal helstu eigenda Morgunblaðsins. Thor [Thors sendiherra í Bandaríkjunum] þekkti þá báða vel; Garðar var bróðir Ingólfs, tengdaföður hans, og Ólafur var ágætur vinur hans og Thors-fjölskyldunnar; voru tveir sona hans, Pétur og Örn Johnson, í mægðum við hana sem fyrr segir.

Ólafur Thors [formaður Sjálfstæðisflokksins] sendi Thor [bróður sinn, sendiherrann] á fund þeirra Garðars og Ólafs í þeim erindum að falast eftir hlutabréfum þeirra í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins.

Verslunarmennirnir sem áttu blaðið í félagi við Valtý Stefánsson ritstjóra voru andvígir þjóðstjórninni og gengisfellingunni árið 1939 og þótt Valtýr sæi um að blaðið styddi stjórnina og flokkinn, taldi Ólafur [Thors] nauðsynlegt að treysta tökin. Hann vildi breyta Morgunblaðinu í hreint flokksblað.

Thor Thors sendiherra á tröppum sendiráðs Íslands í Washington á stríðsárunum. Eins og sjá má á skildinum á húshliðinni er Ísland enn konungsríki á þessum tíma.

Valtýr Stefánsson ritstjóri Morgunblaðsins.

Garðar Gíslason stórkaupmaður.

Garðar Gíslason sagði Thor að kaupmennirnir í Árvakri hefðu bundist fastmælum um að selja engin bréf í félaginu. Hann sagði honum að sér fyndist blaðið „daufgert“ og að það héldi linlega á málstað verslunarstéttarinnar. Valtýr hefði verið góður ritstjóri en nú væri hann orðinn of linur, þá væri hann í vinfengi við ýmsa framsóknarmenn „og auk þess væri hann orðinn of dýr, kostaði 14–15 þúsundir [króna] á ári“. Thor sagði Garðari að hann teldi óeðlilegt að „einstakar stéttir innan Sjálfstæðisflokksins ættu sín dagblöð, en flokkurinn sjálfur ætti ekkert.“ Til þess gæti komið að flokkurinn stofnaði eigið dagblað sem þá yrði í samkeppni við Morgunblaðið fyrst ekki næðist samstaða um flokksyfirráð yfir blaðinu.

Ólafur Ó. Johnson stórkaupmaður

Við Ólaf Johnson ræddi Thor oftar en einu sinni um þessi mál. Í árslok 1943 skýrði hann Ólafi svo frá samtali þeirra: „[Ólafur Johnson] sagði, að hann hefði fengið ámæli hjá verslunarstéttinni fyrir það, að hann hefði gálauslega ráðstafað verulegum hluta af hlutabréfum sínum til Valtýs Stefánssonar. Hann sagðist því ekki samvisku sinnar vegna, geta farið lengra út á þá braut. Ég skýrði fyrir honum nauðsynina á því, að full eining væri um blaðaútgáfuna innan Sjálfstæðisflokksins og nauðsyn þess að ganga samhuga fram í baráttunni gegn kommúnismanum, sem alla efnahagsstarfsemi vildi drepa í íslensku þjóðfélagi, og gæti Ólafur séð hver yrði hlutur barna hans á Íslandi, ef þeir rauðu fengju þar öll völd. Ólafur var mér alveg sammála um þetta, og sagði ég honum nú að Ólafur bróðir hefði tillögu til sátta í málinu, sem væri sú að hann (ÓT) yrði kosinn í stjórn Morgunblaðsins, ásamt Arent Claessen og Hallgrími Benediktssyni, sem ég sagði að ÓT hefði lynt vel við, og mætti telja öruggt að gott samkomulag gæti verið á milli þessara þriggja manna um stjórn blaðsins. Ólafur Johnson sagðist ekki þurfa langan umhugsunarfrest og fyrir sitt leyti vildi hann samþykkja þetta, og skyldi hann skrifa Arent Claessen og gefa honum umboð til þess. […] Upp á þetta fengum við Ólafur okkur einn brennivínsstaup, og þóttist ég hafa gert góða för til New York.”

Þótt Morgunblaðið styddi Sjálfstæðisflokkinn eindregið vildi Ólafur Thors, formaður flokksins, ná algjörum yfirráðum yfir blaðinu sem rekið var af sjálfstæðu útgáfufélagi, Árvakri.

Ekki gekk þetta þó eftir og náðu Thorsbræður engum hlutabréfum í Árvakri. Tvö þrautaráð nefndi Thor þó í gamansömum tón í bréfi til Ólafs. Annað var að Marta dóttir hans gengi að eiga Garðar Gíslason [sem þá var ekkjumaður].  „Garðar er glæsimenni mesta og dansar ágætlega og hefur oft boðið Siddu út. Ég legg til að hann gerist tengdasonur þinn og eru þá bréfin fengin. Sidda getur svo skili við hann á ameríska vísu“. Hitt var að fá Ólaf Johnson til að gefa frænkum Thorsbræðra, „tengdadætrum sínum, Möbbu og Möggu Hauks, eitthvað af þessum eftirsóttu bréfum.“

Kannski hýrnaði yfir Ólafi og Thor þegar fréttist að Björn, sonur Kjartans Thors, og Helga, önnur dætra Valtýs ritstjóra og aðaleiganda blaðsins, væru farin að draga sig saman. Þau gengu í hjónaband vorið 1944. Mikil viðhöfn var höfð þegar frumburður þeirra, Kjartan, nú jarðfræðingur, var skírður á heimili Kjartans og Ágústu á Laufásveginum haustið 1945. Var öllum í Thorsfjölskyldunni boðið og kvikmynd, sem varðveist hefur, tekin af veislugestum. Þetta var í síðasta sinn sem Þorbjörg Jensen hitti börn sín og barnabörn saman. Hún var sárlasin af brjóstkrabbamein og lést um haustið, 78 ára gömul.

 Þetta er brot úr bók minni Thorsararnir. Auður, völd, örlög, sem kom út haustið 2005.









































 



































































Previous
Previous

Þegar þjóðin eignaðist Geysi

Next
Next

Einstök harmsaga á Þingvöllum