Einstök harmsaga á Þingvöllum

Ráðherra­bú­staður­inn á Þing­völl­um í ljós­um log­um aðfaranótt 10. júlí 1970. Hann brann til grunna á rétt um einni klukku­stund. Ljós­mynd/​Saka­dóm­ur Reykja­vík­ur/​Jón Ei­ríks­son

Það er fimmtudagur 9. júlí 1970. Klukkan er að ganga þrjú eftir hádegi. Fyrir utan reisulegt einbýlishús í Háuhlíð 14 í Reykjavík bíður Haraldur Guðmundsson bílstjóri eftir Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, sem þar býr. Hann er á leið til Þingvalla með konu sinni, Sigríði Björnsdóttur, og ungum dóttursyni þeirra, Benedikt Vilmundarsyni. Þau ætla að dvelja í bústað forsætisráðherra í þjóðgarðinum eina nótt, en hefja ferðalag um Snæfellsnes og í Dali snemma morguns daginn eftir að sækja héraðsmót sjálfstæðismanna í sýslunum. Bjarni hefur í byrjun júlí bundið það fastmælum við vin sinn Ásgeir Pétursson sýslumann að heimsækja hann í Borgarnes þennan dag og gista á heimili hans um nóttina áður en þeir fara á héraðsmótin. En nokkrum dögum seinna hefur hann samband aftur og hefur þá breytt áætlun sinni. Hann ætlar fyrst til Þingvalla, gista þar, en koma svo yfir Uxahryggi til Borgarness næsta dag.

Lagt er af stað frá heimili forsætisráðherra um klukkan hálfþrjú og komið til Þingvalla um klukkutíma síðar. Ekki er ólíklegt að margt sé skrafað á leiðinni enda bílstjórinn góður vinur Bjarna og fjölskyldu hans og með þeim gagnkvæm virðing. Haraldur hefur ekið Bjarna í meira en áratug og hefur orð á sér fyrir að vera einstaklega traustur bílstjóri. Hann staldrar aðeins við á Þingvöllum í hálftíma og heldur síðan í bæinn að nýju. Ráðherrabústaðurinn er hvítmálað bárujárnsklætt timburhús, einlyft, reist í tilefni af konungskomunni 1907, og því stundum nefnt Konungshúsið. Það stendur á Hallinum suðvestan við Hótel Valhöll; steinsnar frá eru kirkjan og Þingvallabærinn, heimili og aðsetur þjóðgarðsvarðar. Við hlið ráðherrabústaðarins stendur minni bygging og yngri, svefnskáli sem nefndur er Gestahús. Þar gista stundum gestir forsætisráðherra.

Sterkar taugar til Þingvalla

Bjarni Benediktsson hefur ætíð haft mikið dálæti á náttúru Íslands og sögu og notið þess að ferðast um landið, ríðandi og gangandi ef því er að skipta. Hann hefur sterkar taugar til Þingvalla, þessa mikla sögustaðar, og kýs að dvelja þar eins oft og skyldustörfin leyfa. Hér hafa örlög Íslendinga ráðist um aldir og margir mestu viðburðir þjóðarsögunnar til gleði og sorgar, framfara og hnignunar, orðið. Bjarni hefur ekki séð ástæðu til að tilkynna séra Eiríki Eiríkssyni þjóðgarðsverði sérstaklega um þessa fyrirhuguðu stuttu dvöl þeirra hjóna í ráðherrabústaðnum. En Eiríkur fréttir þó að afgreitt er símtal frá bústaðnum og að það er forsætisráðherra sem er að hringja í bæinn. Enginn annar virðist hafa orðið var við þau hjónin og barnið eftir að þau komu í bústaðinn.

Þótt nú sé hásumar er frekar kalt í veðri á Þingvöllum, aðeins fimm stiga hiti en þurrt og skyggni gott. Líklega hafa þau haldið sig innandyra vegna veðursins og Bjarni sleppt hinum vanalega göngutúr sínum um nágrennið.

Engan grun getur Bjarni haft um það þegar hann gengur til náða þetta kvöld að í dag hefur hann litið Þingvelli augum í síðasta sinn og örlög hans sjálfs eiga senn eftir að verða samofin margbrotinni sögu alþingisstaðarins forna.

Þegar líða tekur á kvöldið versnar veðrið, það fer að hellirigna og hvessa með norðan sjö til átta vindstigum.

Hvassviðri og rigning

Á tjaldstæðinu við Vatnsvík hafa sjö ungir Hollendingar, piltar og stúlkur, komið sér fyrir. Þau eru nýkomin til landsins með Loftleiðum og eru í hópi margra útlendinga sem ætla á landsmót hestamanna sem hefst á Skógarhólum í Þingvallasveit daginn eftir. Þegar tjaldið fýkur ofan af þeim í einni vindhviðunni um kvöldið ákveða þau að flytja farangurinn í stóran Landrover-jeppa sem þau hafa tekið á leigu og fara að Hótel Valhöll þar sem þau ætla að sofa í jeppanum í skjóli húsanna það sem eftir er nætur. Klukkan er hálftvö að nóttu þegar þau nema staðar við söluskálann á hlaðinu og snúa bílnum í átt að sumarbústöðunum undir Hallinum.

Ljós loga víða í Hótel Valhöll þótt áliðið sé nætur. Þar er að venju nokkur hópur gesta, sumir komnir til herbergja sinna, sofnaðir eða vaka enn og nokkrir eru að spjalli í anddyrinu. Á skrifstofunni þar inn af situr sonur þjóðgarðsvarðarins, hótelstjórinn Jón Eiríksson, og gerir upp kassann eftir daginn. Faðir hans hefur stuttu áður farið í eftirlitsferð um þjóðgarðinn, að þessu sinni að ósk Páls Hallgrímssonar, sýslumanns á Selfossi, vegna hestamannamótsins sem er að hefjast. Hann ekur meðal annars að Valhöll um miðnætti og horfir til bústaðar forsætisráðherra. Þar er engin bifreið og ekkert sem bendir til þess að Bjarni sé enn á staðnum. Áður en Eiríkur gengur til í hvílu heima í Þingvallabænum lítur hann enn að Valhöll og bústaðnum, án þess að sjá þar nokkuð athugavert. Klukkan er hálfeitt að nóttu. En rúmum klukkutíma síðar vekur frúin hann og hefur slæmar fréttir að færa. Eldur er laus í ráðherrabústaðnum. Sonur þeirra hefur hringt frá Valhöll til að fá línu frá Þingvallabænum til að ná sambandi við slökkvilið og lögreglu í Reykjavík.

Eldurinn uppgötvast

Það er unga fólkið frá Hollandi sem fyrst verður eldsins vart. Þegar þau leggja jeppa sínum við söluskálann klukkan hálftvö taka þau eftir því að það er kviknað í einum bústaðanna í sjónlínu frá bílastæðinu. Þau hlaupa þangað þegar í stað og sjá að gluggi við suðausturhornið hefur brotnað og logar teygja sig út um hann. Þau hafa enga hugmynd hver á þennan bústað eða hvort nokkur er innandyra. Aðrir gluggar en þessi eini eru lokaðir og útidyr allar harðlæstar. Stúlka í hópnum brennir sig þegar hún reynir að opna einar dyrnar. Einn Hollendinganna hleypur nú að Valhöll til að láta vita. Allt í einu heyrist sprenging og þakið á norðanverðum bústaðnum lyftist upp og fellur síðan aftur niður með brauki og bramli. Eldurinn breiðist nú hratt út um húsið og innan stundar er það alelda. Fólkið sem statt er í anddyri Hótels Valhallar hleypur út að bústaðnum en getur ekkert aðhafst.

Klukkan 1:38 um nóttina hringir síminn á Slökkvistöðinni í Reykjavík. Jón Eiríksson tilkynnir að kviknað sé í ráðherrabústaðnum á Þingvöllum. Enginn veit þá hvort fólk er í húsinu. Tveir slökkvibílar eru þegar sendir af stað. Um tíu mínútum síðar hringir síminn hjá lögreglunni í Reykjavík og enn er það Jón sem greinir frá atburðum. Símasamband frá Þingvöllum er slæmt og tefur það fyrir hjálparbeiðnum. En lögreglubíll með tveimur mönnum er tafarlaust sendur af stað austur. Sýslumaðurinn og yfirlögregluþjónninn á Selfossi eru einnig lagðir af stað. Þegar klukkan er langt gengin í þrjú hringir séra Eiríkur þjóðgarðsvörður í slökkvistöðina og biður um að einnig sé sendur sjúkrabíll á staðinn. Hann hefur stuttu áður náð sambandi við heimili forsætisráðherra í Reykjavík og maður, sem hann telur að sé tengdasonur ráðherra, svarar og segir honum að þau hjónin séu í bústaðnum ásamt dóttursyni þeirra. Haraldur Guðmundsson, einkabílstjóri forsætisráðherra, staðfestir þetta. Öllum er ákaflega brugðið þegar þetta fréttist.

Þegar slökkviliðsbílarnir koma til Þingvalla er klukkan orðin rúmlega hálfþrjú. Ráðherrabústaðurinn er þá að mestu brunninn niður. Dælt er úr slökkviliðsbílunum til að slökkva í rústunum og leita að þeim sem voru innandyra. Forsætisráðherrahjónin, Bjarni og Sigríður, finnast fljótlega, bæði látin. Nokkru seinna finnst lík Benedikts litla. Ljóst er að þau hafa öll vaknað við eldinn en ekki komist út. Eftir þetta eru gerðar ráðstafanir til að fá líkkistur og kemur bifreið á vegum slökkviliðsins í Reykjavík með þær skömmu síðar.

Lögregluvarðstjóranum í Reykjavík er falið að ná í prest til að fara á fund fjölskyldunnar. Hann er líka beðinn um að vekja lögreglustjórann, Sigurjón Sigurðsson, sem hafa mun samband við ráðherra í ríkisstjórninni til að greina þeim frá því sem hefur gerst.

Forsetinn ávarpar þjóðina

Fréttin um harmleikinn berst hratt um land allt frá manni til manns þegar morgnar. Í Útvarpinu eru aðeins leikin sorgarlög allan morguninn en engar fréttir fluttar. Það er ekki fyrr en um hádegi 10. júlí að skýrt er frá því hvað hefur gerst. Áður en fréttirnar eru lesnar flytur Kristján Eldjárn, forseti Íslands, ávarp til þjóðarinnar. „Þau sorgartíðindi spurðust snemma morguns í dag,“ segir hann, „að forsætisráðherra, dr. Bjarni Benediktsson, kona hans frú Sigríður Björnsdóttir og ungur dóttursonur þeirra, Benedikt Vilmundarson, hefðu látið lífið, er forsætisráðherrabústaðurinn á Þingvöllum brann, þegar skammt var liðið nætur.“ Kristján segir að atburðurinn sé hörmulegri en svo, að orðum verði yfir komið. „Í einu vetfangi er í burtu svipt traustum forystumanni, sem um langan aldur hefur staðið í fylkingarbrjósti og verið í fyrirsvari í þjóðlífi voru og með honum ágætri konu hans, er við hlið hans hefur staðið með sæmd og prýði, og ungum sveini, sem var yndi þeirra og eftirlæti.“

Síðdegis föstudaginn 10. júlí flytja Vísir og Alþýðublaðið fréttina, en árdegisblöðin þrjú, Morgunblaðið, Tíminn og Þjóðviljinn daginn eftir. Öll leggja blöðin forsíður sínar undir atburðinn. Þetta eru ótrúleg tíðindi sem snerta streng í brjósti sérhvers Íslendings. Fréttin flýgur úr landi og er á forsíðum blaða um allan heim. Samúðarkveðjur berast frá þjóðarleiðtogum og stjórnmálaforingjum nágrannalandanna.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins, Viðreisnarstjórnin, er kölluð saman til aukafundar. Þar er ákveðið að fela Jóhanni Hafstein dómsmálaráðherra, varaformanni Sjálfstæðisflokksins, að gegna störfum forsætisráðherra fyrst um sinn. Fellst Kristján Eldjárn forseti á það. Í dagbók sína skrifar hann meðal annars: „Það er alveg satt að allir sakna Bjarna og finna hvílíkt traust var í honum.“

Eldsupptök óljós

Upp úr klukkan 3 um nóttina sem bruninn verður hefur Reykjavíkurlögreglan samband við rannsóknarlögregluna. Hér hafa þvílíkir atburðir gerst að engan tíma má missa til að hefja rannsókn á upptökum eldsins. Það verður krafist skýringa á því hvernig þetta gat gerst.

Njörður Snæhólm aðalvarðstjóri er vakinn og heldur hann þegar austur með tvo menn með sér, annan úr tæknideildinni. Þegar þeir koma á vettvang er allt brunnið sem brunnið getur. Gestahúsið við hliðina hefur þó alveg sloppið en þar var enginn þessa nótt. Rannsóknin hefst þá þegar og byrjað er að gera ráðstafanir til að fá fleiri sérfræðinga á staðinn. Vegna veðurs er hlé gert á vettvangskönnun undir morgun en henni fram haldið um hádegismál. Jafnframt hefjast yfirheyrslur yfir öllum þeim sem urðu vitni að brunanum í sakadómi Árnessýslu sem settur er í Þingvallabænum síðdegis 10. júlí og síðan fram haldið á Selfossi daginn eftir.

Ekki verður annað sagt en að vel sé staðið að rannsókninni. Allir sem voru á vettvangi atburðarins og álitið er að gagnast geti rannsókninni eru yfirheyrðir. Einnig eru allir þeir sem umsjón hafa haft með bústaðnum, umhirðu og lögnum, kvaddir til vitnisburðar. Sýslumaðurinn í Árnessýslu, lögreglan í Reykjavík, rannsóknarlögreglan og slökkviliðið rita skýrslur um brunann. Sérfræðingar skila álitsgerðum um bústaðinn, lagnir þar og tækjabúnað sem gætu hafa orsakað brunann.

Eitt af því sem menn hnjóta um við rannsóknina er að þrjú slökkvitæki reynast hafa verið í bústaðnum, fleiri en í nokkrum öðrum sambærilegum húsum. Reykskynjarar eru engir fremur en í öðrum slíkum húsum á þessum tíma. En eldurinn hefur magnast svo hratt að engum vörnum verður við komið og slökkvitækin standa óhreyfð.

Niðurstaða brunarannsóknarinnar er mögur. Tíu dögum eftir eldsvoðann er skráð í sakadómsbók Árnessýslu: „Ekkert hefur komið fram sem bendir á neitt sérstakt er orsakað gæti hafa eldsupptök í sumarbústaðnum.“ Flest það sem mönnum dettur helst í hug, olíukyndingin, rafleiðslur og tvö ónotuð própangastæki í eldhúsi er talið óhugsandi eða ólíklegt út frá vitneskju og vitnaleiðslum um framvindu brunans. Þó er ekki útilokað miðað við ástand gastækjanna að gasleki hafi orðið, kviknað hafi í gasblönduðu lofti út frá eldi í kynditæki, rafmagnsneista eða annarri glóð, svo sem frá sígarettu. Hinn 24. júlí 1970, þegar allar álitsgerðir og skýrslur liggja fyrir, tilkynnir saksóknari að af ákæruvaldsins hálfu sé að svo stöddu ekki krafist frekari aðgerða í málinu, „en komi eitthvað það fram sem verða mætti til upplýsinga um eldsupptök, ber að taka rannsókn málsins upp að nýju.“

Látlaus og virðuleg athöfn

Útför forsætisráðherrahjónanna og dóttursonar þeirra er gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík fimmtudaginn 16. júlí. Hún er látlaus og virðuleg. Þúsundir Íslendinga eru viðstaddir til að votta þeim virðingu sína. Þar eru einnig fjölmargir fulltrúar erlendra ríkja og alþjóðastofnana.

Athöfnin í kirkjunni hefst kl. 2 síðdegis en þegar upp úr hádegi fer fólk að safnast saman fyrir utan. Lúðrasveit Reykjavíkur undir stjórn Páls P. Pálssonar leikur sorgarlög frá kl. 1:40 við styttu Jóns Sigurðssonar. Klukkan tvö hefur mikill mannfjöldi safnast saman á Austurvelli, Kirkjutorgi og næsta nágrenni til að hlýða á athöfnina sem útvarpað er um gjallarhorn. Auk þess hlýðir fjöldi fólks á athöfnina inni í Alþingishúsinu. Þá er henni útvarpað um land allt.

Dómkirkjan er fagurlega prýdd blómum og fjöldi blómsveiga hefur borist, m.a. frá Sameinuðu þjóðunum, erlendum ríkisstjórnum, stofnunum, félögum og einstaklingum, þar á meðal forseta Íslands og Noregskonungi. Fleiri blómsveigar hafa borist en nokkru sinni fyrr í sögu Dómkirkjunnar.

Biskup Íslands, herra Sigurbjörn Einarsson, flytur kveðjuorð. Dómprófastur, sr. Jón Auðuns, heldur minningarræðuna.

Fyrir utan Dómkirkjuna standa lögreglumenn heiðursvörð og þegar kisturnar hafa verið bornar út leikur Lúðrasveit Reykjavíkur þjóðsönginn. Líkfylgdin fer suður Templarasund, austur Vonarstræti, suður Fríkirkjuveg, Sóleyjargötu, Hringbraut og Reykjanesbraut í Fossvogskirkjugarð. Mikill mannfjöldi stendur beggja vegna leiðarinnar og báðum megin meðfram Fríkirkjuvegi stendur ungt fólk með íslenska fána í heiðursskyni við forsætisráðherrahjónin og dótturson þeirra.

Í Fossvogskirkjugarð fara aðeins ættingjar og vinir fjölskyldunnar. Ríkisstjórnin býður ættingjum og nánustu vinum fjölskyldunnar til kaffidrykkju í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu síðdegis, þar sem börn forsætisráðherrahjónanna taka á móti gestunum, en Jóhann Hafstein fosætisráðherra og kona hans taka á móti erlendum fulltrúum á heimili sínu. Fánar blakta í hálfa stöng um land allt og skrifstofur og verslanir eru víðast hvar lokaðar eftir hádegi í virðingarskyni við hin látnu.

Það sem hann hefði getað orðið

Dagblöðin birta öll fjölda minningargreina um Bjarna, Sigríði og dótturson þeirra daginn sem útförin fer fram. Minningargreinarnar eru á tuttugu síðum í Morgunblaðinu. Meðal þeirra sem minnast Bjarna eru vinir hans og samstarfsmenn. Þá rita tveir helstu menningarjöfrar Íslendinga eftirmæli um hann. „Harmsagan á Þingvöllum aðfaranótt hins 10unda júlí 1970 er líklega einstök í þúsund ára sögu þessa forna hjartastaðar landsins, enda einn þeirra atburða sem einginn líkindareikníngur gæti gert ráð fyrir, af því að líkurnar fyrir slíkri tilviljun eru óendanlega fáar,“ skrifar Halldór Laxness rithöfundur m.a.

„Bjarni Benediktsson átti sér mikinn og merkilegan þroskaferil,“ skrifar Sigurður Nordal. „Hann var í senn óvenjulegur skapmaður og vitmaður, vígreifur og viðkvæmur. Það þurfti mikinn þrótt og heilbrigðan kjarna til þess að halda þessu öllu í því jafnvægi, sem honum einatt lánaðist framar og framar að gera. Ætla mætti að maður með svo langan og fjölbreyttan starfsferil að baki, sem háskólakennari, borgarstjóri, þingmaður, ritstjóri og ráðherra, hefði þegar sýnt allt, sem í honum bjó. En því fór fjarri. Ekkert af því, sem honum hafði til að mynda auðnast að rita, sýnir til neinnar hlítar hina fágætu yfirsýn hans um samtíð sína og dýpsta sagnfræðilega skilning hans á mönnum og málefnum, sem hafinn var yfir alla baráttu líðandi stundar. Sumt af þessu hafði varla ennþá borið þroskaða ávöxtu í störfum hans. En mér finnst, að svo mikill missir, sem var að honum einsog hann var, sé mér enn sárara að gera mér í hugarlund, hvað hann hefði enn getað orðið.“

Forsíða Morgunblaðsins daginn eftir brunann á Þingvöllum.

Þau létust í brunanum

Bjarni Benediktsson var 62 ára gamall þegar hann lést, fæddur 30. apríl 1908. Sigríður kona hans var ellefu árum yngri, fædd 1. nóvember 1919. Benedikt var aðeins fjögurra ára, fæddur 14. apríl 1966. Hann var sonur Valgerðar, næstelstu dóttur Bjarna og Sigríðar, og Vilmundar Gylfasonar.

Birtist upphafleg í Morgunblaðinu 10. júlí 2020























 




















































Previous
Previous

Þegar Thorsararnir vildu eignast Moggann

Next
Next

Nasismi og kommúnismi: Hliðstæður og ólíkt mat