Tyrkjaránið og varnir Íslands

Tyrkjaránið 1627. Teikningin birtist á vef Eyjafrétta 16. júlí 2017. Ekki er þar getið um höfund.

Sumarið 2007 var þess minnst með sýningarhaldi í Vestmannaeyjum að liðin voru 380 ár frá Tyrkjaráninu, sem óhætt mun að nefna skelfilegasta atburðinn í sögu staðarins. Fjölmennur sjóræningjaflokkur frá Alsír réðst í júlí 1627 á eyna, helsta þéttbýlisstað á Íslandi, þar sem bjuggu um 450 manns; rændi og ruplaði, svívirti konur og særði og drap um 40 manns, en flutti á brott í þrældóm 242 íbúa, fullorðna sem börn. Öllu fémætu var rænt, kirkjan og fjöldi íbúðarhúsa brennd til kaldra kola. Annar hópur sjóræningja frá Sale í Norður Afríku, í vitorði með Alsírmönnum, réðst á sama tíma á sjávarbyggðir á Austfjörðum, tók um 100 fanga, særði menn og felldi. Aðeins 44 áttu afturkvæmt til Íslands.Bæjarstjórinn í Eyjum skrifaði um sögusýninguna á bloggsíðu sína og sagði að þar væri minnst „fórnarlamba hryðjuverka.“ Fyrir þetta sætti hann gagnrýni í blaðagrein. Verið væri að misnota atburðinn og ala á fordómum með því að tengja hann hugmyndum og atburðum í nútímanum. „Hryðjuverk“ hefði sérstaka merkingu í huga fólks, og gjarnan tengt múslimum vegna árásanna  á tvíburaturnana í New York haustið 2001. [1]

Orðið  „hryðjuverk“ er reyndar ekkert unglamb í íslensku máli; til dæmis notað um illvirki þegar á öld Tyrkjaránsins og allar götur síðan. [2]

Hitt er rétt að það getur skapað misskilning þegar fjallað er um sögulega atburði með framandi hugtökum eins og áður hefur verið nefnt á þessum blöðum. Slíkt kallar á varkárni um leið og það getur verið frjósamt. Uppá sögusýninguna í Eyjum var hins vegar ekkert að að klaga; þar var vandað til verka.

Tyrkjaránið er að mörgu leyti heppilegt dæmi úr sögunni vilji menn stofna til umræðna um afleiðingar þess að lönd og byggðir eru án varna. Á öllum tímum þurfa menn að huga að öryggi samfélaga. Atburðirnir í Eyjum 1627 geta líka verið nýtileg áminning um að gæta sín á yfirlæti þegar rætt er um siðferðisviðhorf ólíkra menningarheima. Í því sambandi er það einmitt athyglisvert, sem raunar kom skýrt fram á sýningunni í Eyjum, að bakgrunnur Tyrkjaránsmanna var mismunandi. Í hópnum voru auk þeldökkra múslima frá Algeirsborg hvítir Evrópubúar, enskir, norskir, hollenskir og þýskir; margir þeirra kristnir menn sem kastað höfðu trúnni og gengið Múhameð spámanni á hönd. Frásögn séra Ólafs Egilssonar í Reisubókinni, samtímaheimild, um að hinir evrópsku trúskiptingar hafi reynst „það allra versta fólkið“, „drepið og lemstrað“, „bundið og sært“ Eyjabúa, [3] sýnir að villimennska á hvergi lögheimili. Það sýndu líka atburðir sem gerðust rúmum áratug fyrr, Spánverjavígin svokölluðu. Þar voru Íslendingar í svipuðu hlutverki og „Hund-Tyrkinn“ í Eyjum. [4]

Spánverjavígin

Haustið 1615 brotnuðu þrjú skip baskneskra manna frá Spáni í óveðri við Strandir á Vestfjörðum. Þeir höfðu verið þar við hvalveiðar eins og nokkur undanfarin sumur,  og jafnframt stundað einhverja launverslun. Hvort tveggja var í óþökk yfirvalda; um sumarið hafði verið lesið á Alþingi konungsbréf sem bannaði hvalveiðarnar.

Áttatíu skipbrotsmenn komust lífs í land, og brugðu síðan á það ráð að ræna úr skemmum kaupmanna í nágrenninu til að afla matfanga, og tóku ennfremur skip  til að komast á brott. Heimamenn söfnuðu liði og drápu þrettán þeirra í Dýrafirði. Síðan kom sýslumaðurinn, Ari Magnússon (hins prúða) á vettvang með um fimmtíu manna flokk, og fann átján til viðbótar í Æðey og á Sandeyri; voru þeir vegnir með köldu blóði.  Sumir voru barðir til ólífis með lurkum, aðrir stungnir.  Magnús, sextán ára gamall sonur sýslumannsins, dóttursonur Guðbrands Hólabiskups, gekk harðast fram með byssu föður síns og felldi marga. Um fimmtíu Baskanna virðast hafa náð skipi og komist úr landi.

Á sextándu og sautjándu öld létu sjóræningjar talsvert að sér kveða á Norður-Atlatnshafi. Kom nokkrum sinnum fyrir að þeir sætu fyrir kaupskipum á leið til Íslands og hremmdu farm þeirra. Ræningjarnir voru af ýmsu þjóðerni. Til dæmis virðast það hafa verið Englendingar sem birtust á Patreksfirði sumarið 1579, tóku land og héldu að stórbýlinu Bæ á Rauðasandi. Þeim hefur verið kunnugt um að þar bjó ríkasti maður á Íslandi, Eggert Hannesson. Kannski hafa þeir átt íslenska vitorðsmenn. Eggert varð að gera sér að góðu að dúsa um borð í skipi ræningjanna í heilan mánuð, og á endanum tókst þeim að fá fólk hans til að greiða ríflegt lausnargjald. Þeir fóru líka um héraðið og er sagt að þeir hafi rænt fólk og sært, nauðgað konum og drepið karla.[5]

Engar fastar varnir voru á Íslandi á þessum tíma. Öðru hverju sendu stjórnvöld í Kaupmannahöfn hingað herskip til eftirlits við strendurnar. Ekki virðist það hafa orðið árangursríkt. En þegar fregnir um atburðina á Rauðasandi, þar sem kóngsins maður hafði verið rændur, bárust til Kaupmannahafnar var ákveðið að senda Íslendingum vopn. Átta spjót og sex byssur fóru í hverja og eina hinna tuttugu sýslna landsins og áttu að vera hafðar til taks í kirkjum.  Þetta var talsvert vopnabúr, en ansi dreift. Svo virðist sem landsmenn hafi tekið sendingunni af fálæti. Er ekki vitað til þess að þau hafi komið að neinum notum til varna. Eitthvað mun hafa verið um að þau væru brædd upp og úr þeim gerð til áhöld til bústarfa.[6] Á þessum tíma virðst minning fornkappanna ekki hafa verið fólki ofarlega í huga. Það hefur þótt brýnna að sinna búverkum en bardagaæfingum.

Frá höfundi: Þessi texti var skrifaður fyrir um 20 árum þegar ég var að leggja drög að litlu kveri um Íslandssögu. Verkinu lauk ég ekki og textann hef ég ekki lesið yfir aftur með tilliti til nýrrar vitneskju um þessi mál en læt þetta samt flakka. Athugasemdir og leiðréttingar, ef einhverjar, eru vel þegnar; netfangið er gm@internet.is.


Tilvísanir:

[1] Bryndís Björgvinsdóttir: „Til varnar „Tyrkjum“: Hvers er verið að minnast?“, Lesbók Morgunblaðsins 21. júlí 2007.

[2] Alþingisbækur Íslands VI (Reykjavík 1912-1969), 51.

[3] Ólafur Egilsson: Reisubók séra Ólafs Egilssonar (Reykjavík 1969), 64.

[4] Saga Íslands VI (Reykjavík 2003), 274-277.

[5] Saga Íslands VI (Reykjavík 2003), 159.

[6] Saga Íslands VI (Reykjavík 2003), 159-161.




 



























































 


















































































Next
Next

Markland forsagnanna í ítölsku miðaldariti