Markland forsagnanna í ítölsku miðaldariti

Grænland, Helluland, Markland og Vínland og hugmyndir um siglingar þar á milli á miðöldum. Af vef Wikipediu.

Það þóttu talsverð tíðindi – og þykja enn – þegar ítalskur fræðmaður, Paolo Chiesa, pró­fess­or í lat­nesk­um fræðum við há­skól­ann í Mílanó, upplýsti í grein í fræðitíma­rit­inu Terrae Incognitae sumarið 2021 að munk­ur af reglu dóm­iník­ana, Gal­vaneus Flamma, minnt­ist á landið Marckalada vest­an Græn­lands í ófull­gerðu sögu­riti sínu Cronica uni­versal­is, sem skrifað er á ár­un­um 1339 til 1345. Chiesa kvað engan  vafa leika á því að átt væri við það land sem nefnt er Mark­land í ís­lensk­um forn­rit­um, Ei­ríks sögu rauða og Græn­lend­inga­sögu. Paolo Chiasi sagði að Gal­vaneus Flamma nefn­di einnig Ísland í þessu riti en fjall­aði ekki um lands­menn eða staðhætti.

Morgunblaðsgrein mín um þetta mál í byrjun október 2021.

Frá þessum tíðindum sagði ég í grein í Morgunblaðinu um haustið þetta sama ár og má lesa hana hér á mbl.is.

Vitn­eskja um vest­ur­ferðir

Ástæðan fyr­ir því að fræðimenn höfðu fram að þessu ekki al­mennt haft vitn­eskju um þessi skrif Gal­vaneus Flamma er sú að hand­ritið sem geym­ir þau hef­ur aldrei verið gefið út og er í einka­eigu. Það rek­ur sögu mann­kyns í löngu máli en land­fræðiköfl­um er skotið inn í text­ann eins og al­gengt var í miðalda­rit­um af þessu tagi. Fræðileg út­gáfa rits­ins er í und­ir­bún­ingi en mun taka sinn tíma því verkið er viðamikið.

At­hygli var fyrst vak­in á til­vist hand­rits­ins árið 2013. Full­víst er að það sé ekta. Gal­vaneus Flamma var nafn­kunn­ur ann­ála­rit­ari í Mílanó á sinni tíð og eru nokk­ur verk eft­ir hann varðveitt.

Það að Flamma skuli nefna Mark­land í riti sínu sýn­ir að vitn­eskja um land vest­ur af Græn­landi hef­ur verið fyr­ir hendi löngu áður en Kristó­fer Kól­umbus lagði upp í sögu­fræga sigl­ingu sína 1492 og upp­götvaði Am­er­íku. Kól­umbus var frá ít­alska hafn­ar­bæn­um Genúa og þar hafa sæ­far­end­ur vafa­laust rætt um leynd­ar­dóma út­haf­anna og skipst á fróðleik sem þeir hafa orðið vís­ir um í sigl­ing­um sín­um, þar á meðal til Íslands eða til landa þar sem Íslend­ing­ar hafa verið á ferð.

Paolo Chiesa tel­ur lík­legt að Gal­vaneus Flamma hafi fengið sín­ar upp­lýs­ing­ar um Mark­land frá sæ­far­end­um í Genúa, en Mílanó ligg­ur ekki að sjó sem kunn­ugt er. Sögu­rit hans sýn­ir að hann hafði aðgang að heim­ild­ar­mönn­um í Genúa.

Skálholtskortið svonefnda frá 1570 sýnir hvaða hugmyndir lærðir menn á Íslandi gerðu sér um legu landanna í vestri sem sagt er frá í fornritunum.

Trú­leg álykt­un

Í Morgunblaðsgreininni fyrrnefndu vitna ég í Gísla Sig­urðsson rannsóknaprófessor á Árnastofnun sem seg­ir að ýmis smá­atriði í lýs­ingu hins ítalska lær­dóms­manns séu þess eðlis „að maður heyr­ir óminn af okk­ar sög­um í þeim“, eins og hann orðar það.

Mér finnst álykt­un­in frek­ar trú­leg, að höf­und­ur­inn hafi heyrt sög­ur frá fólki sem hafði siglt í norður­höf­um – þar sem efni Vín­lands­sagn­anna var að sjálf­sögðu ekk­ert leynd­ar­mál á 14. öld.

Ég ræddi einnig við Sverr­i Jak­obs­son, pró­fess­or í miðalda­sögu við Há­skóla Íslands, sem taldi feng að  skrif­um Pao­los Chiesa. Hann sagði að hin nýja vitn­eskja opaði á mögu­leika sem marg­ir höfðu von­ast eft­ir; að líta á Vín­lands­ferðir nor­rænna manna í víðara sam­hengi sem hluta af þekk­ingaröfl­un Evr­ópu­manna um svæði utan hinn­ar hefðbundnu heims­mynd­ar.

Gaml­ar sagn­ir um Íslands­ferð Kól­umbus­ar 1477 gera ráð fyr­ir að hann hafi verið for­vit­inn um Vín­lands­sigl­ing­ar en hvernig hefði hann átt að vera það ef þær voru ekki þekkt­ar á Ítal­íu? Hér er greini­lega eft­ir ýmsu að slægj­ast.

Landa­leit Íslend­inga til forna

Nokkru eft­ir land­nám Íslands á seinni hluta 9. ald­ar héldu menn héðan í landa­leit vest­ur á bóg­inn. Þá fann Ei­rík­ur rauði land sem hann nefndi Græn­land – ef marka má okk­ar gömlu rit­heim­ild­ir – og markaði sá fund­ur upp­haf byggðar nor­rænna manna þar næstu ald­irn­ar. Skömmu síðar var Bjarni nokk­ur Herjólfs­son á leið þangað frá Íslandi en lenti í haf­villu og sá lönd á aust­ur­strönd Norður-Am­er­íku. Leif­ur Ei­ríks­son, síðar nefnd­ur Leif­ur heppni, fór í könn­un­ar­ferð til þess­ara landa og nefndi þau Mark­land, Hellu­land og Vín­land. Vín­lands­ferðir urðu ekki til­efni land­náms á meg­in­landi Am­er­íku en land­könnuðurn­ir reistu sér þar skála og komu sér fyr­ir á meðan þeir könnuðu landið eins og forn­leifa­rann­sókn­ir í L'­An­se aux Mea­dows á norðurodda Ný­fundna­lands hafa staðfest.

Marg­ir fræðimenn telja Hellu­land forn­sagn­anna vera Baff­ins­land nú­tím­ans og Mark­land sé Labra­dor. Þá grein­ir hins veg­ar á um hvar Vín­lands sé að leita. Á vef Árna­stofn­un­ar seg­ir að þeirri skoðun hafi vaxið fylgi að Vín­land for­sagn­anna sé á Ný­fundna­landi og hafa menn þá í huga nor­rænu rúst­irn­ar þar.

Fyr­ir utan rit Gal­vaneus Flamma er Mark­land hvergi nefnt í heim­ild­um frá miðöld­um öðrum en ís­lensk­um. Aft­ur á móti er Vín­lands getið, þó með frek­ar óljós­um hætti, í riti Adams frá Brim­um um sögu erki­bisk­ups­dæm­is Ham­borg­ar. Það rit er skrifað um 1070.

Gaman væri að fá Paolo Chiesi hingað til lands til að ræða þessa uppgötvun og þær margvíslegu spurningar sem hún vekur.

 





















































 













































































Next
Next

Örlög Þorfinns karlsefnis í Ameríku