Markland forsagnanna í ítölsku miðaldariti
Það þóttu talsverð tíðindi – og þykja enn – þegar ítalskur fræðmaður, Paolo Chiesa, prófessor í latneskum fræðum við háskólann í Mílanó, upplýsti í grein í fræðitímaritinu Terrae Incognitae sumarið 2021 að munkur af reglu dóminíkana, Galvaneus Flamma, minntist á landið Marckalada vestan Grænlands í ófullgerðu söguriti sínu Cronica universalis, sem skrifað er á árunum 1339 til 1345. Chiesa kvað engan vafa leika á því að átt væri við það land sem nefnt er Markland í íslenskum fornritum, Eiríks sögu rauða og Grænlendingasögu. Paolo Chiasi sagði að Galvaneus Flamma nefndi einnig Ísland í þessu riti en fjallaði ekki um landsmenn eða staðhætti.
Frá þessum tíðindum sagði ég í grein í Morgunblaðinu um haustið þetta sama ár og má lesa hana hér á mbl.is.
Vitneskja um vesturferðir
Ástæðan fyrir því að fræðimenn höfðu fram að þessu ekki almennt haft vitneskju um þessi skrif Galvaneus Flamma er sú að handritið sem geymir þau hefur aldrei verið gefið út og er í einkaeigu. Það rekur sögu mannkyns í löngu máli en landfræðiköflum er skotið inn í textann eins og algengt var í miðaldaritum af þessu tagi. Fræðileg útgáfa ritsins er í undirbúningi en mun taka sinn tíma því verkið er viðamikið.
Athygli var fyrst vakin á tilvist handritsins árið 2013. Fullvíst er að það sé ekta. Galvaneus Flamma var nafnkunnur annálaritari í Mílanó á sinni tíð og eru nokkur verk eftir hann varðveitt.
Það að Flamma skuli nefna Markland í riti sínu sýnir að vitneskja um land vestur af Grænlandi hefur verið fyrir hendi löngu áður en Kristófer Kólumbus lagði upp í sögufræga siglingu sína 1492 og uppgötvaði Ameríku. Kólumbus var frá ítalska hafnarbænum Genúa og þar hafa sæfarendur vafalaust rætt um leyndardóma úthafanna og skipst á fróðleik sem þeir hafa orðið vísir um í siglingum sínum, þar á meðal til Íslands eða til landa þar sem Íslendingar hafa verið á ferð.
Paolo Chiesa telur líklegt að Galvaneus Flamma hafi fengið sínar upplýsingar um Markland frá sæfarendum í Genúa, en Mílanó liggur ekki að sjó sem kunnugt er. Sögurit hans sýnir að hann hafði aðgang að heimildarmönnum í Genúa.
Trúleg ályktun
Í Morgunblaðsgreininni fyrrnefndu vitna ég í Gísla Sigurðsson rannsóknaprófessor á Árnastofnun sem segir að ýmis smáatriði í lýsingu hins ítalska lærdómsmanns séu þess eðlis „að maður heyrir óminn af okkar sögum í þeim“, eins og hann orðar það.
Mér finnst ályktunin frekar trúleg, að höfundurinn hafi heyrt sögur frá fólki sem hafði siglt í norðurhöfum – þar sem efni Vínlandssagnanna var að sjálfsögðu ekkert leyndarmál á 14. öld.
Ég ræddi einnig við Sverri Jakobsson, prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands, sem taldi feng að skrifum Paolos Chiesa. Hann sagði að hin nýja vitneskja opaði á möguleika sem margir höfðu vonast eftir; að líta á Vínlandsferðir norrænna manna í víðara samhengi sem hluta af þekkingaröflun Evrópumanna um svæði utan hinnar hefðbundnu heimsmyndar.
Gamlar sagnir um Íslandsferð Kólumbusar 1477 gera ráð fyrir að hann hafi verið forvitinn um Vínlandssiglingar en hvernig hefði hann átt að vera það ef þær voru ekki þekktar á Ítalíu? Hér er greinilega eftir ýmsu að slægjast.
Landaleit Íslendinga til forna
Nokkru eftir landnám Íslands á seinni hluta 9. aldar héldu menn héðan í landaleit vestur á bóginn. Þá fann Eiríkur rauði land sem hann nefndi Grænland – ef marka má okkar gömlu ritheimildir – og markaði sá fundur upphaf byggðar norrænna manna þar næstu aldirnar. Skömmu síðar var Bjarni nokkur Herjólfsson á leið þangað frá Íslandi en lenti í hafvillu og sá lönd á austurströnd Norður-Ameríku. Leifur Eiríksson, síðar nefndur Leifur heppni, fór í könnunarferð til þessara landa og nefndi þau Markland, Helluland og Vínland. Vínlandsferðir urðu ekki tilefni landnáms á meginlandi Ameríku en landkönnuðurnir reistu sér þar skála og komu sér fyrir á meðan þeir könnuðu landið eins og fornleifarannsóknir í L'Anse aux Meadows á norðurodda Nýfundnalands hafa staðfest.
Margir fræðimenn telja Helluland fornsagnanna vera Baffinsland nútímans og Markland sé Labrador. Þá greinir hins vegar á um hvar Vínlands sé að leita. Á vef Árnastofnunar segir að þeirri skoðun hafi vaxið fylgi að Vínland forsagnanna sé á Nýfundnalandi og hafa menn þá í huga norrænu rústirnar þar.
Fyrir utan rit Galvaneus Flamma er Markland hvergi nefnt í heimildum frá miðöldum öðrum en íslenskum. Aftur á móti er Vínlands getið, þó með frekar óljósum hætti, í riti Adams frá Brimum um sögu erkibiskupsdæmis Hamborgar. Það rit er skrifað um 1070.
Gaman væri að fá Paolo Chiesi hingað til lands til að ræða þessa uppgötvun og þær margvíslegu spurningar sem hún vekur.