Útilegumenn: þjóðtrú og veruleiki

Hellir í Henglinum. Gæti hafa verið dvalarstaður útilegumanna fyrr á tíð. (Ljósmynd Ferlir.is).

Við Mývatn á Norðausturlandi er ein af fegurstu og búsældarlegustu sveitum á Íslandi. En sé haldið í suðurátt, upp á hálendið, tekur auðnin fljótlega við; þar eru hrikaleg öræfi með fjöllum, eyðisöndum og hraunflákum. Þar er Ódáðahraun, stærsta samfellda hraunbreiða á Íslandi. Þetta landsvæði var að mestu ókannað fram undir miðja 19. öld. Lék um það dulúð öldum saman og alþýðutrú kvað það íverustað trölla og óvætta, og ekki síst útilegumanna, sakamanna sem flúið höfðu undan réttvísinni. Reykjarstróka, sem stundum sáust ofan af öræfunum, töldu menn koma frá Dyngjufjöllum í miðri auðninni. Hugðu margir að þeir væru frá býlum útilegumanna sem leyndust í afviknum en blómlegum huldudölum í grennd við fjöllin.

Árið 1830 ákváðu Mývetningar að rannsaka hvort útilegumenn væri raunverulega að finna á öræfunum. Kveikjan að ferðinni var slæmar heimtur á sauðfé um árabil. Þegar fé skilaði sér ekki með eðlilegum hætti af fjalli á haustin höfðu bændur tilhneigingu til að kenna útilegumönnum um það. Sennilegt þótti að þeir hefðu stolið úr hjörðunum sér til viðurværis.

Fimm bændur voru í hópnum sem sendur var í rannsóknarferðina, allt karlmenn á besta aldri. Voru þeir vopnaðir byssum, bareflum og stórum sveðjum, enda var talið að um hættuför gæti verið að ræða. Ekki höfðu bændurnir árangur sem erfiði. Þeir sneru heim nokkrum dögum seinna eftir að hafa riðið umhverfis Dyngjufjöll og höfðu ekki rekist á neina útilegumenn. Ekki höfðu þeir heldur fundið neinar stöðvar þeirra.

Þessi ferð bændanna kann að þykja gefa tilefni til að kíma yfir trúgirni og einfeldni íslensks sveitafólks fyrr á öldum; það hafi lifað sig inn í heim þjóðsagnanna og látið þjóðtrúna og ímyndunaraflið ná tökum á sér í stað þess að beita rökhyggju sem leiddi mönnum fyrir sjónir hve ósennilegt það væri að útilegumenn gæfu lifað á öræfunum.

Óþekktur samtímamaður orti um ferð Mývetninga vísu sem varð fleyg. Álitamál er hvort telja bera hana háð eða lof.

Mývatns horsku hetjurnar

herja fóru á Dyngjufjöll,

sverð og byssu sérhver bar,

að sækja fé og vinna tröll.

 Ekki er að efa að hefðu bændur og aðrir leitarmenn að jafnaði hætt sér lengra inn á afrétti hálendisins, en þeir treystu sér til á þessum tímum, hefðu fjárheimtur þeirra orðið mun betri. Stundum lendir fé í sjálfheldu í fjallshlíðum og klettum og komi menn því ekki til bjargar er voðinn vís. Reykur er ekki örugg vísbending um mannabyggð, allra síst á Íslandi, þar sem náttúrulegir reykir eru margvíslegir, meðal annars frá heitum hverum. Hugmyndir um blómlegar huldubyggðir á hálendinu hlutu líka að vera ótrúverðugar þegar horft var til þess að þar eru veður jafnan ódælli en á láglendi og hitastig lægra.

En útilegumannatrúin á Íslandi, sem að líkindum var nokkuð almenn frá því snemma á öldum og fram í byrjun tuttugustu aldar, var þó hvorki alveg tilefnislaus né hreinn hugarburður. Jafnvel þótt hafnað sé öllum hinum vinsælu og litríku þjóðsögum um útilegumannabyggðir í afskekktum dölum verður ekki fram hjá því horft að til eru raunveruleg og skjalfest dæmi um menn sem lögðust út á þessum tíma, stálu fé, rændu ferðafólk og gátu verið ógnun við friðsælar sveitir. Ýmis mannvirki, sem fundist hafa í hellum og á öðrum stöðum fjarri byggð, bera þess ótvíræð merki að þar hafi menn dvalist um lengri eða skemmri tíma. Þess eru enn fremur nokkur dæmi að bændur hafi safnað liði til að handsama útilegumenn – og haft þá með sér til byggða. Ferð bændanna úr Mývatnssveit upp á öræfin árið 1830 var því ekki einsdæmi – að vísu var hún farin til að leita að ótilgreindum útilegumönnum, í öðrum slíkum leiðöngrum voru menn á höttunum eftir ákveðnum mönnum. Um hálfri öld fyrr höfðu Mývetningar raunar fengið áþreifanlega sönnun um útilegumenn á öræfunum, þegar komið var þangað með fræg skötuhjú, Fjalla-Eyvind og Höllu, en þau höfðu falið sig árum saman á hálendinu.

Vissulega gekk útilegumannatrúin  út í öfgar, og full ástæða var til að reyna að kveða hana niður í þeirri mynd eins og nokkrir íslenskir menntamenn tóku sér fyrir hendur á seinni hluta nítjándu aldar. Þar var þýðingarmest framlag lærdómsmannsins Björns Gunnlaugssonar (d. 1876), sem ferðast hafði um óbyggðir Íslands á fjórða og fimmta áratug nítjándu aldar og kortlagt þær fyrstur manna af fádæma nákvæmni og eljusemi. Gjarnan er sagt að grein hans, „Um stöðvar útilegumanna“, sem birtist í blaðinu Íslendingi snemma árs 1861, hafi gengið af útilegumannatrú Íslendinga dauðri. Það er ofmælt. Málflutningur Björns hafði áreiðanlega áhrif meðal menntamanna, en hjátrú og hindurvitni almennings hafa hvergi verið lögð af velli með rothöggi lærdómsmanna. Næstum hálfri öld eftir að grein hans birtist, vorið 1905, skýrði Reykjavíkurblaðið Ingólfur frá því, að í Mývatnssveit – nema hvað! - gengju miklar sögur um útilegumenn á öræfunum. Kveikjan að þeim grunsemdum væru slæmar fjárheimtur um haustið, saknað væri um hundrað fjár. Leitarmenn hefðu rakið dularfull spor í snjónum þar til þau hurfu í hrauni óbyggðanna. „Þóttust þeir kenna reykjarkeim, er vindur stóð sunnan af öræfum,“ sagði blaðið, og kvað marga byggðamenn sannfærða um að útilegumenn væru nú í Ódáðahrauni og væru þeir valdir að fjárhvörfunum.

Hvað er útilegumaður?

Útilegumaður er sakamaður sem flúið hefur undan yfirvöldum til óbyggða, lagst út, til að komast hjá refsingu. En þannig hefur skilgreiningin ekki alltaf verið. Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar var útilega sérstök ævilöng refsing fyrir mjög alvarleg brot; hét hún skóggangur í hinum fornu lögum. Hinn seki var nefndur skógarmaður. Þeir voru réttlausir og réttdræpir. Varðaði refsingu að leggja þeim lið. Líklega á hugtakið uppruna í Noregi þar sem var víðáttumikið skóglendi sem sekir menn gátu leitað hælis í. Í Íslendingasögum eru margar frásagnir af skógarmönnum og viðleitni þeirra til að lifa af í óbyggðunum, stundum með sauðaþjófnaði eða ránsferðum á bæi. Sögur af útilegumönnum virðast snemma hafa orðið Íslendingum hugstæðar. Í þremur vinsælum Íslendingasögum eru skógarmenn aðalpersónur, Grettissögu Ásmundarsonar, Gíslasögu Súrssonar og Harðarsögu og Hólmverja. Þær eru ritaðar á þrettándu og fjórtándu öld en sögusviðið er Ísland frá níundu öld fram til hinnar elleftu. Sögurnar geta ekki talist traustar heimildir um raunverulega atburði, en þær gefa góða hugmynd um hvernig Íslendingar hugsuðu um útilegumenn á ritunartímanum.

Eftir að íslenska þjóðveldið leið undir lok árið 1262 tók norska – og síðar danska – ríkisvaldið allar refsingar á Íslandi í sínar hendur. Skóggangur var afnuminn og í staðinn komu opinberar refsingar: hýðing, brennumerking og aftaka. Fangavist kom ekki til sögu fyrr en á sautjándu öld. Árið 1564 var sett sérstök löggjöf um siðferðismál, mjög ströng,  Stóridómur, þar sem algjört bann var lagt við sifjaspellum, framhjáhaldi hjóna og lauslæti ógiftra að viðlögðum hörðum refsingum. Við alvarlegustu siðferðisbrotum lá dauðarefsing; voru karlar hálshöggnir en konum drekkt. Heimildir sýna að Íslendingar, sem lögðust út á sautjándu og átjándu öld, voru ekki síst að flýja slíkar refsingar. Ef þeir komust ekki úr landi voru óbyggðirnar eina athvarf þeirra. En þar beið þeirra ekkert sældarlíf, síst af því tagi sem lýst þjóðsögum. Ef þeir voru heppnir og fundu felustaði í grennd við veiðivötn gátu þeir lifað af sumarið. En það voru ekki nema allra hraustustu og útsjónarsömustu menn sem gátu legið úti að vetrarlagi þegar snjór lagðist yfir landið, frosthörkurnar bitu og vindarnir blésu.

Eltu samtímaheimildir

Elstu samtímaheimildir þar sem útilegumenn eru nefndir til sögu eru Sturluþáttur í safnritinu Sturlungu og Guðmundarsaga Arasonar.  Í hinni fyrrnefndu er sagt frá ræningjaflokki í Dalasýslu um miðja tólftu öld. Þeir dvelja ýmist á bæjum eða leggjast út, en eru þó ekki dæmdir skógarmenn heldur illvirkjar sem leika lausum hala í skjóli eins af höfðingjum héraðsins. Segja má að þeir séu ekki réttnefndir útilegumenn því þeir falla hvorki undir hina eldri né yngri skilgreiningu hugtaksins.

Sama má reyndar segja um Aron Hjörleifsson, vin Guðmundar góða biskups, sem sagan segir að hafi barist með biskupi í Grímsey snemma á þrettándu öld. Hann var hvorki dæmdur skógarmaður né á flótta undan yfirvaldinu. Hann flúði undan andstæðingum biskups og var í felum víða um land, í hellum og í skógum, um tíma við annan mann, en komst loks úr landi. Hann naut aðstoðar margra manna og þurfti því ekki að leggja fyrir sig rán eða þjófnað.

Aronshellis, sem nefndur er í sögunni, hafa menn lengi leitað. Árið 1957 fundust áður óþekktir hellar í Gullborgarhrauni í Hnappadalssýslu. Í einum þeirra er forn hleðsla, næstum mannhæðarhár veggur um þveran hellinn sem er 185 metrar á lengd og endar í 13 metra háum strompi sem nær upp úr hrauninu. Engar minjar finnast um legurúm eða matseld í hellinum og engin dýrabein eru þar. Það eru því engin gild rök fyrir því að telja að þessi hellir hafi nokkru sinni verið bústaður útilegumanna. En eins og einn helsti fræðimaður um íslenska útilegumenn, Ólafur Briem, benti á í bók sinni Útilegumenn og auðar tóttir (1983), rifjast upp í þessu samhengi að einu „útilegumennirnir“ sem að engu leyti öfluðu fæðu sinnar sjálfir, voru á þessum slóðum. Þetta voru Aron Hjörleifsson og förunautur hans. Móðir Arons bjó á Rauðamel syðra, sem er í fjögurra kílómetra fjarlægð frá Gullborgarhrauni. Segir sagan að þeir hafi leitað á náðir hennar. „Og litlu síðar var þeim fylgt til eins hellis, er þar var í hrauninu mjög langt frá bænum. Og hefur sá hellir þar af nafn tekið og er kallaður Aronshellir. Síðan voru þangað fluttar vistir af trúnaðarmönnum þeirra og klæði, svo að þeir máttu bjargast við, og námu þar staðar um hríð“, segir í Guðmundarsögu. Það er því ekki útilokað að þarna sé fundinn Aronshellir.

Útilegumenn á sautjándu öld

Lengst af er vitneskja um útilegumenn á Íslandi brotakennd og sveipuð þoku. En eftir að farið var að halda opinberar gjörðabækur um dóma yfir sakamönnum á Alþingi á Þingvöllum snemma á sautjándu öld verða heimildir traustari. Á þeim bókum hittum við fyrir nafngreinda útilegumenn og kynnumst sögu þeirra eins og hún horfir við valdsmönnum landsins. Frekari upplýsingar um þessa menn er síðan hægt að sækja í margvíslegar aðrar ritheimildir frá sama tímabili, svo sem prestþjónustubækur og sóknarmannatöl.  Annálum, sem greina frá samtímaviðburðum, fjölgar mjög á þessum tíma og geyma þeir einnig mikilvægar heimildir um sakamenn sem lagst hafa út.

Elsta heimildin um útilegumann í Alþingisbókum er frá árinu 1602. Þar er greint frá dómi yfir „vandræðamanninum“ Birni Þorleifssyni sem fjórum sinnum hafi fallið í hórdóm og síðan verið staðinn að útilegu og þjófnaði. Bendir þetta til þess að Björn hafi flúið til fjalla undan réttvísinni og að líkindum stolið sauðum sér til matar. Hann var dæmdur til dauða og tekinn af lífi. Um útilegu Björns er ekkert vitað en í Skarðsárannál er aftur á móti mögnuð lýsingu á aftöku hans:  „Biskupinn herra Oddur áminnti hann sjálfur. Hann kvaddi menn með handabandi, áður sig niður lagði á höggstokkinn, og bauð svo öllum góða nótt. Var hann með öllu óbundinn. Jón böðull, er höggva skyldi, var þá orðinn gamall og slæmur og krassaði í höggunum, en Björn lá kyr á grúfu, og þá sex höggin voru komin, leit Björn við og mælti: Höggðu betur, maður! Lá hann svo grafkyr, en sá slæmi skálkur krassaði ein 30 högg, áður af fór höfuðið, og var það hryggilegt að sjá.“

Næstu árin koma útilegumenn öðru hverju fyrir í dómabókunum og öðrum heimildum. Áður en öldin er liðin eru karlarnir, sem nafngreindir eru, orðnir átta til viðbótar og konurnar tvær. Raunar eru konurnar fjórar samkvæmt sumum heimildum, ef rétt er að eiginkona og frilla eins útilegumannsins hafi farið til fjalla með honum. Útilegumennirnir á sautjándu öld eru þó mun fleiri ef með eru taldir þeir sem ónafngreindir eru í annálum og hvergi koma fyrir í dómabókum. Ólíklegt er að allir þeir menn séu hugarburður annálaritara; varðveisla dómabóka var misjöfn og ekki komu öll mál útilegumanna til meðferðar dómstóla.

Rætur flestra mála hinna nafngreindu manna liggja í brotum á hinum ströngu siðferðisreglum Stóradóms. Ofan á þau bætast síðan yfirleitt þjófnaðarbrot í útilegunni sem reynist skammgóður vermir. Enginn útilegumannanna gat hulist yfirvöldunum til lengdar. Einn karlmannanna komst að vísu úr landi með enskum fiskimönnum og er sagður hafa kvænst úti, en allra hinna, karla sem kvenna, biðu grimm örlög. Fylgikonu þess, sem slapp úr landi, var drekkt eftir að hún hafði alið barn þeirra sem getið var í vetrarvist þeirra 1609-1610 í helli einhvers staðar í Kollafirði á Ströndum.  Sex karlanna sjö sem fundust voru teknir af lífi, en einn er sagður hafa látist á felustað sínum, óþekktu jarðhýsi í Hjarðardal í Dýrafirði, áður en tókst að flytja hann til byggða. Sá hafði átt barn með hálfsystur sinni; hún fylgdi honum ekki í útlegðina en hlaut sinn miskunnarlausa dóm engu að síður; var drekkt á Þingvöllum.

Útilegumenn á átjándu öld

Átjánda öldin er mesti hörmungartími Íslandssögunnar frá því að drepsóttirnar gengu yfir landið á fimmtándu öld. Hvert áfallið fylgdi öðru; bólusótt 1707 til 1709 sem lagði um fjórðung þjóðarinnar að velli, hungursneyð 1751 til 1758 sem leiddi til þess að landsmönnum fækkaði um sex þúsund, og loks Skaftáreldar og Móðuharðindin 1783 til 1785 sem lögðu hluta af byggðum landsins í eyði og felldu um 20% landsmanna úr hungri og sjúkdómum.

Það kemur ekki á óvart að í slíku árferði sé mikið um sauðaþjófnað, innbrot í fjós og annan ránskap til matar. Áreiðanleg vitneskja er um 26 útilegumenn, flesta á fyrstu árum aldarinnar, þar af aðeins um eina konu. Og nú bregður svo við að það eru ekki siðferðisbrotin sem hrekja menn í felur eða til óbyggða eins og á öldinni á undan heldur oftast þjófnaðir. Átta þessara útilegumanna voru dæmdir til dauða og líflátnir, en einn var drepinn af öðrum útilegumanni.

Ef lýsingar annála á framferði útilegumanna á þessum tíma eru á rökum reistar, gætu þær sem hægast verið rótin að útilegumannaóttanum sem mjög var til umræðu á 19. öld. Í mörgum annálum er sagt frá því hvernig útilegumenn sitja um vegfarendur á afviknum stöðum og ræna þá, ekki síst kaupmenn á leið með varning á milli sveita. Þó skjalfest dæmi séu í sjálfu sér ekki mörg nægja fáir slíkir atburðir til að skapa ótta og beyg meðal fólks; „oft verður ein fjöður að fimm hænum“ segir íslenskur málsháttur.

Á átjándu öld koma fram á sjónarsviðið frægustu útilegumenn Íslandssögunnar, annars vegar Eyvindur Jónsson, jafnan nefndur Fjalla-Eyvindur, (f. 1714) með fylgikonu sinni Höllu Jónsdóttur (f. um 1700) og hins vegar Arnes Pálsson (f. um 1728). Þessi þrjú öllum öðrum fremur urðu til að magna útilegumannatrú almennings. Um þau skapaðist fjöldinn allur af þjóðsögum á átjándu og nítjándu öld; í byrjun hinnar tuttugustu naut leikrit um Eyvind og Höllu eftir skáldið Jóhann Sigurjónsson fádæma vinsælda og varð uppspretta fyrstu kvikmyndarinnar um íslenskt efni, Berg-Ejvind í leikstjórn Svíans Victors Sjöström.

Dvalarstaðir útilegumanna

Samkvæmt þjóðtrúnni var útilegumenn einkum að finna lengst uppi á öræfum, á hinu óþekkta miðhálendi Íslands. Þar áttu að vera grösugir huldudalir með fjölmennri byggð, svo sem Þórisdalur í Geitlandsjökli sem nefndur er í Grettissögu.  Í Ferðabók náttúrufræðinganna Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, sem gefin var út 1772, er forvitnileg klausa um þennan dal: „Geitlandsjökull er mjög kunnur meðal landsmanna. Ekki á hann þó frægð sína að þakka fannbreiðunum né því, að hann er langhæstur allra fjalla um þessar slóðir, heldur stafar frægð hans af munnmælasögnum, að í honum sé dalur, mikill og grösugur. Dalur þessi er sagður byggður. Íbúar hans, sem lifa af sauðfjárrækt, eru niðjar útlægra illvirkja og útilegumanna, sem í fornöld kölluðust skógarmenn. Grettissaga gefur tilefni sagna þessara, enda þótt hún sé ekki laus við þjóðsögur. [...] Dalurinn var grösugur og víða skógi vaxinn, og margt var þar sauðfjár., sem var óvenjulega vænt. Í sögunni er það þakkað jarðhita og einkum mörgum og stórum hverum, að jökull lagðist ekki yfir dalinn. Síðan hafa menn haft óljósar fregnir af dal þessum og þeim, er þar búa. Einkum er skýrt frá stórvöxnum, ómörkuðum kindum, sem fundist hafa í Geitlöndum, og taldar voru komnar úr Áradal, en svo er salurinn  almennt nefndur nú. Þá er einnig getið um nokkra fífldjarfa menn, sem hafi komist þangað og dvalist þar í vinnumennsku um hríð, en komið síðan til byggða á ný.“

Í Ferðabókinni er nefnt að tveir prestar hafi árið 1664 fundið hinn forna Þórisdal eða Áradal, en ekki getað kannað hann til hlítar vegna veðurs. Frásögn prestanna af þessari ferð hefur varðveist og þar kemur fram að þeir ætluðu sér að kristna útilegumennina í dalnum, ef sögurnar um byggð þeirra þar reyndust réttar. Svo mjög kvað að frægð dalsins til forna að hann er merktur, að vísu ónákvæmt, inn á  Íslandskort Orteliusar frá 1590, en það er elsta landakort sem gefur nokkurn veginn raunsanna mynd af lögun landsins.

Fyrstur manna til að kanna Þórisdal og kortleggja af nákvæmni var Björn Gunnlaugsson. Það gerði hann í tveimur ferðum, sumrin 1834 og 1835. Hann fann enga hveri eða aðrar heitar uppsprettur. Og engir útilegumenn voru sjáanlegir. Dalurinn reyndist jökli þakinn niður í botn. En af því að Björn var örlátur maður og vildi ekki rengja hina fornu Grettissögu tók hann fram að ekki væri útilokað, að á dögum söguhetjunnar á elleftu öld hefði dalurinn verið grænn og grösugur en jökullinn síðan vaxið og þakið hann.

Því er ekki að neita að sums staðar á hálendi Íslands voru til forna og eru enn gróðurvinjar. Á þeim slóðum finnast sums staðar ummerki um mannavist, samfallin hreysi, hleðslur í hellum og grjótbyrgi.  Ekki er víst að þær séu allar eftir útilegumenn eða skógarmenn. Og flestar þeirra sem gætu tengst útilegu til lengri tíma virðist hægt að setja í samband við einn mann eða tvo, oftast garpinn Fjalla-Eyvind. Ekki er með vissu vitað um nokkurn annan útilegumann sem gerði öræfin að heimkynnum sínum og bauð óblíðu vetrarveðrinu birginn upp við hájökla árum saman vetur eftir vetur.

Sé hugað að dvalarstöðum þeirra útilegumanna, sem áreiðanleg vitneskju er um á tímabilinu frá sautjándu öld til hinnar nítjándu, kemur í ljós að þær eru yfirleitt í grennd við byggð, þótt uppi í fjöllum séu, í hraunflákum eða annars staðar utan alfaraleiðar. Útilegumenn treystu oft á velvilja byggðamanna sem stundum höfðu samúð með þessum sakamönnum, enda glæpir þeirra ekki alltaf stórvægilegir þótt hegningarlögin væru ströng. Mörg dæmi eru um að útilegumenn hafi fengið að leynast í útihúsum, seljum eða hellisskútum stutt frá bæjarhúsum.

Þjóðsögur og skáldverk

Munnmælasagnir af skógarmönnum og útilegumönnum hafa gengið á Íslandi frá fyrstu tíð. Sögurnar af Gretti, Gísla Súrssyni, Hólmverjum og Hellismönnum eiga að gerast mörgum öldum áður en þær eru skráðar og hafa vafalaust lengi lifað í mismunandi myndum í munnmælum. Munnmælahefðin er svo sterk að sagnir um útilegumenn áttu áfram blómaskeið þótt skráðar samtímaheimildir, svo sem annálar og dómsskjöl, væru komnar til sögu. Þær héldu einnig áfram að myndast og breiðast út eftir að farið var að safna þjóðsögum skipulega og gefa þær út á prenti á nítjándu öld

Fyrsta prentaða ritið, þar sem er að finna sögur af íslenskum útilegumönnum, Íslenskar þjóðsögur og Ævintýri í ritstjórn Jóns Árnasonar bókavarðar,  kom út á árunum 1862-1864. Síðan hafa nokkur þjóðsagnasöfn verið gefin út og eru útilegumannasögurnar orðnar æði margar. Fræðimenn hafa flokkað þær með ýmsum hætti, svo sem eftir efni og uppbyggingu. Jón Árnason skipti sögunum í þrjá flokka: a) Margvísleg skipti við útilegumenn; b) Útilegumenn ræna byggðamönnum; c) Byggðamenn flýja í óbyggðir.  Fylgdi hann hverjum flokki úr hlaði með útlistun.

Skýringar sínar við fyrsta flokkinn hefur Jón á þessum orðum: „Sú trú hefur verið mjög almenn hér á landi og er naumlega enn útkulnuð með öllu, að útilegumenn væru til, og er það ekki aðeins alþýðumanna trú, heldur einnig skynugra manna skoðun og greindra. Því verður ekki heldur neitað að nokkrar líkur eru til þessa, t.d. þar sem örnefni eru gefin eftir þeim mönnum sem sagt er að verið hafi í útilegu og annað illar heimtur á haustin.“

Jón Árnason taldi með öðrum orðum ekki ástæðu til að vísa öllum útilegumannasögum á bug eins og hverri og annarri hégilju, og taldi ýmsar sagnanna í fyrsta flokknum, þar sem meðal annars er lagt út af örnefnum, ekki „mjög ótrúlegar eða skreyttar“.

Frásagnir í öðrum flokknum um blómlegar útilegumannabyggðir á öræfum taldi Jón aftur á móti ýkjukenndari og bera meiri svip af ævintýrum. Þar segir frá því þegar útilegumenn ræna konum og körlum úr byggð og beita stundum til þess göldrum. „Í ekki fáum af þessum sögum koma fyrir heil og reglubundin sveitarfélög í óbyggðum [...] og skipaðir yfir þau sýslumenn og sums staðar prestar og helgihöld höfð eins og í sveitum, og þessir hættir útilegumanna gera sögurnar um þá [...] líkar álfasögum.“

Þriðji flokkurinn fjallar um útilegu sem fótur er stundum fyrir. Þarna eru meðal annars sögur af Fjalla-Eyvindi, en þær eru litríkari og ævintýralegri en hin opinberu gögn sem til eru um hann. Flestar eru sögurnar í þessum flokki greinilega ávöxtur frjós ímyndunarafls, svo sem þegar sakamenn sem flýja á fjöll hitta fyrir byggðir útilegumanna þar sem boðið er upp í mannakjöt í hádegismat.

Hermt er að útilegumannasögurnar hafi verið einna vinsælastar allra þjóðsagna. Þær urðu kveikjan að mörgum skáldverkum næstu áratugina eftir að þær byrjuðu að koma á prent. Þegar veturinn 1861-1862, meðan útilegumannasögurnar voru enn óprentaðar, samdi vinur og nágranni Jóns Árnasonar, skáldið Matthías Jochumsson gamanleikritið Skugga-Svein, þar sem útilegumaður er í aðalhlutverki. Ekkert íslenskt leikrit hefur notið jafn mikilla vinsælda og verið jafn oft sýnt. Fleiri fylgdu í fótspor Matthíasar. Indriði Einarsson samdi leikritið Hellismenn sem sýnt var 1873. Hann fór í vettvangsferð í Surtshelli til að kynna sér minjarnar þar áður en hann settist við skriftirnar. Sigurður Guðmundsson, einn helsti frömuður þjóðlegrar menningarvakningar á Íslandi á seinni hluta 19. aldar, samdi leikritið Smalastúlkan, en lést áður en það var fullbúið til sviðsetningar. Öld leið þar til það var frumsýnt. Einn lærðasti maður Íslendinga á 19. öld, bókmenntafræðingurinn og heimspekingurinn Grímur Thomsen, orti 1861 hið magnaða kvæði Á Sprengisandi sem gjarnan er sungið þegar haldið er upp í óbyggðirnar á miðhálendinu. Þar segir í öðru erindinu: 

Þei, þei ! Þei, þei ! Þaut í holti tóa,

þurran vill hún blóði væta góm,

eða líka einhver var að hóa

undarlega digrum karlaróm,

útilegumenn í Ódáahraun

eru kannske að smala fé á laun.

 „Hlægilega vitlaus hjátrú“

Ekki er tilefni að ætla að útilegumannatrúin á Íslandi hafi aðeins verið á yfirborðinu eða bundin við fámennan hóp. Ástæðulaust er að rengja orð þjóðsagnasafnarans Jóns Árnasonar, að hún hafi ekki aðeins verið „alþýðumanna trú, heldur einnig skynugra manna skoðun og greindra.“ Þetta fær stuðning úr margvíslegum heimildum öðrum. Má til dæmis vitna í Ferðabók sem enskur prestur, Ebenezar Henderson, skrifaði eftir ferð um Ísland árið 1815. Hann vitnar í Magnús Stephensen yfirdómara, sjálfan frömuð upplýsingastefnunnar á Íslandi, sem segir að um ýmsa þá staði á hálendinu sem Henderson fór um, mundi hann sjálfur ekki hætta á að ferðast um án þess að hafa á sér skammbyssur. Henderson virðist einnig vera að vitna til Magnúsar þegar hann skrifar að „komið hefur það fyrir, að kaupmenn hafi skipt við þá menn, sem eftir útliti þeirra að dæma og einnig hinu, hvað þeir seldu og keyptu, var mikil ástæða til að ætla, að heima ættu í óbyggðum.“

Ef þetta voru skoðanir helsta upplýsingafrömuðar Íslendinga þurfa viðhorf almennings ekki að koma á óvart. Henderson veitir athyglisverða innsýn í þau efni í bókinni þegar hann á einum stað greinir frá ferðalagi milli landshluta yfir óbyggðir á hálendinu: „Um klukkan sjö um kvöldið griltum við fagra sléttu græna undir jöklunum. En þessi uppgötvun olli [íslenskum] fylgdarmönnum okkar slíkum ótta, að jafnaðist á við þá gleði, sem hún veitti okkur, því nú voru þeir vissir um að við mundum lenda í höndum útilegumanna, enda var þess ekki langt að bíða, að þeir bentu okkur á fjölda hrossa, er voru á beit rétt undir jöklinum. Fyrst í stað var ekki laust við að þetta lækkaði í okkar rostann, og við vorum ekki frá því, að hlýða með nokkurri athygli á tillögur þeirra um, hvernig við skyldum verjast. En jafnskjótt og litið var í kíki, breyttust hrossin í stóra steina, er kastast höfðu úr eldfjalli, sem þarna var.“

En útilegumannatrúin átti sína andstæðinga. Hún fór óskaplega í taugarnar á ýmsum Íslendingum, ekki síst menntamönnum sem lært höfðu náttúruvísindi. Sumum þeirra þóttu viðhorf samlanda sinna jafnvel til minnkunar fyrir land og þjóð. Náttúrufræðingurinn Þorvaldur Thoroddsen kvað fast að orði í Ferðabók sinni 1888: „Það er ekki enn þá laust við, að sumir byggðamenn hafi enn þá töluverða útilegumannatrú. Það kemur fyrir, að menn verða hræddir við hestaspor á óvanalegum stöðum á öræfum, menn þykjast finna reykjarlykt leggja ofan af jöklum, og hefur stunduð fólk á grasafjalli orðið ærið skelkað af slíkum hlutum. [...] Það er annars merkilegt að jafn-hlægilega vitlaus hjátrú og fjallbúatrúin skuli hafa getað haldist svo lengi, og það jafnvel til skamms tíma hjá mönnum, sem að öðru leyti voru skynsamir. [...] Það hefur komið fyrir, að menn af Landinu og úr Skaftártungu hafi sést við Fiskivötn og orðið dauðhræddir hver við annan.“

 

Landkönnun gegn útilegumannatrú

 

Lærimeistari Þorvaldar Thoroddsen, Björn Gunnlaugsson, hafði þegar á fyrri hluta 19. aldar gert sitt til að létta þokunni yfir útilegumanabyggðunum á öræfunum. Áður hefur verið sagt frá ferðum hans 1834 og 1835 í Þórisdal, en þær voru liður í umfangsmiklum landmælingum hans og kortagerð af miðhálendinu. Vafalaust var leit hans að Þórisdal líka á sinn hátt upptendrandi ævintýraferð í hugmyndalegum skilningi, meðvitað eða ómeðvitað; jafnvel jarðbundnir menn og rökvísir eins og Björn Gunnlaugsson finna öðru hverju fyrir fiðringi í maganum gagnvart leyndardómum og ráðgátum tilverunnar.

Þegar ekkert reyndist hæft í hinum gömlu þjóðsögum um Þórisdal fannst Birni það skylda sín að gera grein fyrir þeirri niðurstöðu á prenti. Skýrði hann frá ferðum sínum í tímaritinu Skírni 1835 og blaðinu Sunnanpóstinum 1836. En þegar útilegumennirnir gátu ekki lengur átt heima í Þórisdal flutti þjóðtrúin þá í aðra dali. Og fór létt með það! Um aldarfjórðungi síðar, vorið 1861, sá Björn ástæðu til birta í blaðinu Íslendingi sérstaka grein til að reyna að kveða niður útilegumannatrúna. Ekki er ljóst hver hin beina kveikja var að þeim skrifum, en vera má að söfnun þjóðsagna, þar á meðal útilegumannasagna, sem „hinir íslensku Grimms-bræður“, fyrrnefndur Jón Árnason og félagi hans Magnús Grímsson, höfðu þá í nokkur ár staðið fyrir, hafi verið búin að auka mjög áhuga og umræður um þessu efni meðal almennings. Eru heimildir fyrir því að aukið kapp hafi færst í þjóðsagnasöfnun Jóns Árnasonar og samstarfsmanna hans í lok sjötta áratugar og byrjun sjöunda áratugar nítjándu aldar, en safnið byrjaði að koma út 1862.

Í upphafi blaðagreinarinnar skrifar Björn: „Þegar eg var að kanna og mæla innanvert Ísland, gjörði eg meðfram ómak til að kanna þær útilegumannastöðvar, sem eg heyrði um talað og eg gat við komið að kanna, og vildi ég eyða útilegumanna-trúnni, að því leyti sem hún reyndist ósönn, en staðfesta það í henni, er satt kynni að reynast. Mér þótti hálfvegis minnkun að því fyrir mig og landa mína að geta eigi gengið úr skugga um það, hvort nokkur heimulleg byggð gæti leynst í voru litla landi eða eigi.“

Björn nefnir síðan sjö staði þar sem þjóðtrúin hefur sett niður byggðir útilegumanna, Þórisdal, Ódáðahraun, Köldukvíslarbotna, Torfajökulsdali, Eyvindarver á Sprengisandi, Stórasjó og Vatnajökul. Rekur hann ferðir sínar um þessa staði (Stórasjó telur hann norðast í Fiskivötnum) og kveðst hvergi hafa fundið minnsta vott um útilegumannastöðvar. Kofi Eyvindar  sé undantekning, er þar hafi aðeins einn maður búið með konu sinni og falli því ekki að þjóðtrúnni um fasta byggð útilegumanna. Björn ræðir síðan af vísindalegri nákvæmni skilyrði þess að stöðug byggð útilegumanna geti þrifist. Byggðin þarf: „1) fæði, annaðhvort af kúm, kindum, fuglum eða fiskum; þá veiðarfæri, heyskapar-amboð, matreiðslu-áhöld og eldivið. 2) hey og gras handa skepnum sínum, og það ekki mjög langt í burtu. 3) klæði, af ull, lérefti eða skinnum; einnig rúmföt, verkfæri til að vinna þetta; einnig skóleður og nálar. 4) húsaskjól, og allt hvað þar til heyrir. 5) hlýindi og hita af eldi, þá eldivið. 6) hesta til aðflutninga. 7) tímgun, ef ættkvíslin skal við haldast og ekki deyja út. 8) læknishjálp og hjúkrun í sjúkdómum. 9) kaupskap við útlendar þjóðir.“

Björn minnir á að byggðamenn, hinir venjulegu Íslendingar, eigi fullt í fangi með að halda sér við. Og hvað þá með útilegumennina, sem ofan á allt annað verða að fara huldu höfði og ekkert má finnast af því sem þeir þurfa til viðurværis eða nauðsynja sinna? Ekki megi finnast svo mikið sem tað eða spor eftir neinar lifandi skepnur, enn síður skepnurnar sjálfar, en þó allra síst menn; og ekki megi sjást reykur upp af byggðunum eða kolagröfum.

„Þó að nú útilegubyggðalífið, þrátt fyrir þetta allt, gæti átt sér stað,“ ritar Björn enn fremur, „þá hlyti það þó að vera mjög eymdarfullt, og jafnvel verra en að gefa sig undir mannahendur. Ímyndun vér oss, að einhver skyldi eiga alla ævi að búa í Eyvindarkofum uppi á eyðifjöllum, mundi honum ekki verða kalt í vetrarhörkunum, sem meiri eru þar svo hátt uppi, en við sjávarstrendurnar? Eyvindur varð þó feginn að gefa sig til byggða, þegar ellin dróst yfir hann. Þegar nú þar að auki aldrei hefur vart orðið við einn einasta útilegumann svo áreiðanlega saga sé af, nema sem farið hefur úr vorri byggð, eins og Eyvindur, þá verður átyllulaust að vera að skapa sér þá í huga sínum.“

Björn lýkur blaðagrein sinni með þessum orðum: „En sé nú loksins nokkur stöðug útilegumanna-byggð til í landinu og bærilegt þar að vera, hvað kom þá til, að Fjalla-Eyvindur, Grettir, Hörður o.s.frv., ekki gáfu sig til hennar, en voru að hrekjast hingað og þangað? Þeir höfðu þó nægan tíma til að leita hana uppi. Þetta held ég að sýni ljóslega, að engin stöðug útilegumanna-byggð sé til í landinu.“

Inn úr kuldanum

Skrif Björns Gunnlaugssonar vöktu á sínum tíma mikla athygli og urðu tilefni blaðadeilu þar sem útilegumannabyggðirnar áttu sinn málsvara. Frá sjónarhóli okkar nútímafólks má segja að málflutningur Björns hafi verið hin eðlilegu lokaorð um útilegumenn á Íslandi. Og það urðu þau til lengri tíma litið.  En það var þó ekki eins og blásið hefði verið á kerti sem síðan hætti að loga. Í andlega lífinu verða breytingar aldrei með svo snöggum hætti. Sannleikurinn er sá að útilegumannatrúin var við ágæta heilsu enn um sinn næstu árin eftir að Björn Gunnlaugsson kvað hana niður. Þær kynslóðir sem alist höfðu upp við hana og tileinkað sér hana yfirgáfu hana ekkert frekar en kristilegu barnatrúna, sem ýmsir lærðir menn voru á sama tíma farnir að vekja efasemdir um. Það var ekki fyrr en með nýjum kynslóðum á tuttugustu öld sem trúin á byggðir útilegumanna í öræfunum hvarf með öllu úr sögunni.

Það „kemur fyrir að botninn detti úr trú manna í heilu landi þegar minnst varir,“ skrifaði nóbelsskáldið Halldór Laxness um útilegumannatrúna, „en rök viturra manna eru sjaldan bein orsök slíkrar trúmissu“. Smám saman áttuðu Íslendingar sig á töfrum öræfanna og sannfærðust um að óhætt væri að ferðast um þau án þess að verða fyrir ónæði af útilegumönnum eða öðrum dularfullum verum úr heimi þjóðtrúar og þjóðsagna.

En svo er fyrir að þakka brautyðjandastarfi Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara og samstarfsmanna hans, að útilegumennirnir sjálfir hurfu ekki með öllu úr sögunni heldur öðluðust framhaldslíf í bókum í hlýjum stofum landsmanna. Þar fer líka miklu betur um þá en á köldum og hryssingslegum öræfum Íslands.

Greinin birtist upphaflega í tímaritinu Vísbending, jólahefti, 2012.

Previous
Previous

Af rúmtjöldum og „góðfrægum höfðingsmanni”

Next
Next

Þegar þjóðin eignaðist Geysi