Ekki á brauði einu saman

Pétur J. Thorsteinsson

Pétur með konu sinni, börnum og þjónustufólki á Bíldudal.

Það er ekki nýtt fyrirbrigði hér á landi að góðhjartaðir auðkýfingar stofni eða kaupi fréttablöð í því skyni að bæta og auðga samfélagið. Auðvitað er ekki hægt að fullyrða að svo göfugar hugsjónir ráði alltaf ferðinni; þeir eru til sem þykjast merkja aðrar hvatir hjá einstaka blaðaútgefanda. En slíkar deilur mega ekki verða til þess að dæmi góðra manna gleymist.

Fyrir rúmum hundrað árum var Pétur Thorsteinsson útgerðarmaður einhver ríkasti maður á Íslandi. Það var hann sem stofnaði Milljónarfélagið fræga með Thor Jensen. Sonur hans var listamaðurinn Muggur, sem margir kannast við. Pétur átti um langt árabil heilt þorp, Bíldudal, þar sem bjuggu rétt um 300 manns. Öll atvinnufyrirtækin á staðnum, útgerð, fiskverkun, verslun, voru í hans höndum. Hann var ekki minni maður á þessum tíma en þeir stóru í kauphöllinni okkar núna.

Leiklist og lesefni

Pétur gerði sér grein fyrir því að menn lifa ekki á brauði einu saman. Því beitti hann sér fyrir margvíslegri upplífgandi iðju í þorpinu. Meðal annars voru leikrit sett á svið af miklum metnaði. Og Pétur skildi að guðsorð, þótt gott og næringarríkt sé, er einhæft lesefni. Hann hafði frétt af því að efnilegt og vinsælt skáld, Þorsteinn Erlingsson, héldi úti vikulegu fréttablaði á Seyðisfirði, sem um þær mundir var eitt stærsta og kröftugasta bæjarfélag á Íslandi. Þetta blað hét Bjarki, og gekk ekki nógu vel af því að fyrir var á staðnum annað blað, Austri, sem bæjarbúar voru spenntari fyrir. Pétur gerði ritstjóranum tilboð: Komdu til okkar og gefðu út blað fyrir fólkið í plássinu mínu.

Þorsteinn þekktist boðið og blaðið Arnfirðingur, sem út kom á tveggja til þriggja vikna fresti, varð til.

Skipti sér ekki af efninu

Pétur var ekkert að spá í það að Þorsteinn var á þessum tíma orðinn þekktur sem jafnaðarmaður og guðleysingi. Hann vildi bara fá fínan penna til að létta lund þorpsbúa og fræða fólkið. Hann tók að sér að kosta Arnfirðing að öllu leyti og virðist hafa látið sér í léttu rúmi liggja að blaðið var frá upphafi gefið út með bullandi tapi. Pétur var ríkur og þurfti ekki að spá mikið í svoleiðis hluti. Sagan segir að Pétur hafi aldrei skipt sér af neinu sem í Arnfirðingi stóð. Hann var ekki að biðja um neinar hugvekjur um sjálfan sig og sinn atvinnurekstur. Um þetta má fræðast í bók Ásgeirs Jakobssonar um Pétur, Bíldudalskóngurinn sem út kom 1990.

Þorsteinn Erlingsson sagði í ávarpi til lesenda í 1. tölublaði sem út kom í nóvember 1901: „Arnfirðingur flytur tíðindi inn- og útlend, svo vel, að enginn lesandi hans skal verða spurður í þaula þó hann lesi Arnfirðing einan.“

Djarflega mælt. Og víst var mikill metnaður í útgáfunni. Upplagið var rúmlega 1.400 eintök, sem verður að teljast mjög stórt miðað við fámenni íslensks þjóðfélags á þessum tíma. Öflugustu Reykjavíkurblöðin voru ekki gefin út í miklu stærra upplagi. Arnfirðingur var greinilega ekki bara ætlaður hinum 300 sálum á Bíldudal. Blaðið var keypt víða um land.

Náði sér ekki á strik

Nú er hægt að lesa Arnfirðing í heild á netinu eins og fleiri gömul blöð og tímarit. Það er ýmislegt forvitnilegt í blaðinu. En satt að segja veldur það svona í heildina tekið vonbrigðum. Það er eins og skáldið og þjóðfélagsrýnandinn hafi aldrei náð sér á strik þarna fyrir vestan, ekki notið sín, og gat hann þó ekki kvartað yfir afskiptasemi eða íhlutun eigandans að því er best er vitað. Þorsteinn fékk að fara sínu fram.

Eftir vetursetu á Bíldudal samdi Þorsteinn um að kaupa Arnfirðing af Pétri útgerðarmanni og flytjast með blaðið til Reykjavíkur. En það dæmi gekk ekki betur og eftir hálft ár var blaðið hætt að koma út. Eftir stendur að upp á Pétur Thorsteinsson, ríkasta mann á Íslandi, var ekkert að klaga.

 

Previous
Previous

Ástir og örlög ræðismanns

Next
Next

Frumritið fannst í gömlum kassa