Tveir gamlir og útslitnir draugar

„Úrkynjuð list“

Kvöld í sjávarþorpi eftir Jón Engilberts (frá 1937) var eitt verkanna sem sýnt var listamönnum til háðungar.

Undir lok apríl 1942 gat að líta óvenjulega sjón í sýningarglugga klæðaverslunarinnar Gefjunar í húsi Hótels Íslands er stóð á horni Aðalstrætis og Austurstrætis í Reykjavík. Ekki var það fatnaður eins og við hefði mátt búast heldur málverk eftir nokkra íslenska listamenn. Það spurðist fljótt um bæinn að á bak við þessa sýningu stóð einn áhrifamesti stjórnmálaforingi landsins, Jónas Jónsson frá Hriflu, alþingismaður og formaður Framsóknarflokksins (1885-1968). Var henni ætlað að gefa almenningi kost á að sjá með eigin augum það sem hann taldi sanna fullyrðingar sínar í undangengnum deilum við listamenn um hnignun íslenskrar myndlistar. Í kynningu á sýningunni í Tímanum kvað Jónas listamennina hafa „rofið þróunarbönd íslenskrar listar“ með því að sækja fyrirmyndir sínar í „úrkynjunarlist suður í lönd.“ Verk þeirra væru flest „þunglamaleg, og oft ömurleg.“

JÓNAS DEILIR OG DROTTNAR

Háðungarsýning Jónasar frá Hriflu, eins og sýningin er jafnan nefnd, átti sér nokkurn aðdraganda. Grunnt hafði verið á því góða milli hans og margra listamanna frá því að hann tók við formennsku í menntamálaráði árið 1934 og hóf að beita sér með afli hins opinbera í íslensku lista- og menningarlífi. Hann deildi og drottnaði í krafti fjárstyrkja sem ráðið hafði umsjón með og beitti máttugum penna sínum óspart í blaði sínu Tímanum. Var listamönnum sem Jónas hafði velþóknun á hossað, en hinum sem hann hafði litlar mætur á eða leyft höfðu sér að gagnrýna hann var refsað með því að verk eftir þá voru ekki keypt og styrkir felldir niður eða lækkaðir. Virðist sem fulltrúar annarra flokka í ráðinu hafi jafnan beygt sig undir vilja Jónasar.

Jónas var mjög áhugasamur um listir og bókmenntir og ritaði mikið um þau efni. Skoðanir hans voru einfaldar og afdráttarlausar og einkenndust af mikilli íhaldssemi og sterkum fordómum gagnvart nýjungum, sérstaklega straumum erlendis frá. Í febrúar 1941 sendu 14 myndlistarmenn Alþingi bréf þar sem lýst var yfir mikilli óánægju með vinnubrögð menntamálaráðs varðandi kaup á listaverkum. Var bréfið gert opinbert nokkrum vikum seinna og greint frá efni þess í dagblöðunum 7. maí. Meðal þeirra sem undir bréfið rituðu voru nokkrir þekktustu málarar landsins, Ásgrímur Jónsson, Finnur Jónsson, Gunnlaugur Scheving, Jón Engilberts, Jóhannes Kjarval, Nina Tryggvadóttir og Þorvaldur Skúlason. Kváðu bréfritarar listamenn sjálfa vera hina einu hér á landi sem færir væru um að „gera greinarmun góðs og ills í myndlist,“ og kröfðust þess að þeir yrðu „látnir hafa hönd í bagga með, þegar gerð eru listakaup fyrir ríkið, eða þegar um skreytingar opinberra bygginga er að ræða.“ Fast var skotið á fulltrúa í menntamálaráði i bréfinu; þeir hefðu tekið að sér vandasamt og ábyrgðarmikið verk, en myndlistarþekking þeirra væri samt af svo skornum skammti að helst mætti líkja við „að ólæsir menn hefðu á hendi kaup handa Landsbókasafninu.“

Listamennirnir fjórtán hefðu átt að geta sagt sér það sjálfir að stóryrði þeirra í garð fulltrúa í menntamálaráði væru erindi þeirra og réttmætum umkvörtunum ekki til framdráttar. En bréfið var spegilmynd af þjóðfélagsumræðunni í dagblöðunum á þessum tíma þegar oft þótti skipta mestu máli að vera sem meinyrtastur í garð andstæðingsins. En þetta þýddi að í stað þess að Jónas frá Hriflu væri lemstraður taldi hann sig nú hafa fengið vopn upp í hendurnar og það notfærði hann sér óspart þegar deilan við listamennina vatt upp á sig. Allir fulltrúarnir fimm í menntamálaráði rituðu undir svarið sem listamönnum var sent tveimur vikum seinna; Árni Pálsson prófessor, Barði Guðmundsson þjóðskjalavörður, Guðmundur Finnbogason landsbókavörður og Pálmi Hannesson rektor auk Jónasar. Ásökunum um mismunun við kaup listaverka var hafnað og aðdróttanir um tilraunir ráðsmanna til að hafa áhrif á listamenn voru sagðar staðleysa ein og ekki svaraverðar. Jafnframt var birt skrá yfir öll listaverkakaup ráðsins frá uppahafi.

Í svari listamanna tveimur dögum seinna var sagt að skráin yfir listaverkakaupin sýndi að langtum minna hefði verið keypt en þeir hefðu haldið. Jafnframt ítrekuðu þeir þá skoðun að listaverkaeign ríkisins ætti að sýna það besta og fullkomnasta í myndlist, sem og sögulega þróun listarinnar og því yrðu kunnáttumenn að koma að vali verkanna.

LISTAMÖNNUM REFSAÐ

Árið 1941 varði menntamálaráð ekki einni krónu af fjárveitingu sinni til listaverkakaupa. Má vera að þannig hafi Jónas frá Hriflu viljað refsa öllum myndlistarmönnum landsins fyrir bréf 14-menninganna. Í desember þetta ár birti hann í Tímanum greinaflokk, „Hvíldatími í listum og bókmenntum,“ þar sem hann gerði ólíkar stefnur í listum að umtalsefni, ræddi „andlega hnignun í menningargreinum“ og deildi hart á þá menn sem haft höfðu uppi gagnrýni á starfshætti menntamálaráðs. Jónas var í essinu sínu og fór hinum háðulegustu orðum um 14-menningana og kröfu þeirra um að listamenn yrðu kallaðir til þegar listaverk væru keypt. Er kjarninn í málflutningi hans að borgarar landsins eigi einir að ráða því hvað keypt sé, enda séu þeir og hafi verið æðsti dómstóll í listum. Og Jónas sparar ekki stóryrðin um nútímalist sem hann velur hin hraklegustu orð: „Klessustíllinn er sannarlegur ódáinsakur fyrir menn, sem langar til að vera listamenn en hafa til þess litla hæfileika, ónóga menntun og vantar vilja til að sækjast eftir kynnum við sanna fegurð. Allmargir þessara manna eru kommúnistar að lífsskoðun. Þeim leikur öfund á afburðum sér betri manna í heimi listarinnar, og láta þá andúð koma fram, þar sem því verður við komið. Það er þessi tegund manna, sem heldur uppi háróma áróðri fyrir hverskyns grófleika og niðurlægingu í myndlistinni.“

Vel má vera að kveikjan að greinaflokki Jónasar hafi verið að í byrjun október var opnuð í sýningarskála við Garðastræti mesta listsýning sem fram að því hafði sést í Reykjavík, með á annað hundrað málverkum og 30 höggmyndum. Meðal listamanna sem áttu þar verk voru þeir sem harðast höfðu deilt á menntamálaráð. Sýningin var einkar vel sótt og fékk mikla umfjöllun í öllum blöðunum nema Tímanum. Notaði listdómari Morgunblaðsins, Emil Thoroddsen, sýninguna til að skjóta á menntamálaráð og vinnubrögð þess. Athygli vakti að Sveinn Björnsson ríkisstjóri var meðal gesta einn daginn og dvaldi alllengi. Jónas hafði litlar mætur á Sveini og vinsældir sýningarinnar hafa áreiðanlega skapraunað honum. Þótt kyrrt væri á yfirborðinu næstu vikurnar kraumaði undir taugastríð milli menntamálaráðs og listamanna. Höfðu listamenn uppi áform um að neita öllum viðskiptum við ráðið ef ekki tækist samkomulag á milli þeirra. Upp úr miðjum mars greindi Alþýðublaðið frá því að Bandalag íslenskra listamanna væri með í undirbúningi kæruskjal á hendur menntamálaráði, „og þá fyrst og fremst á formann þess og gjaldkera, Jónas Jónsson.“

„NÝMÓÐINS ÍSLENSK LIST“

Jónas var snöggur að bregðast við þessum fréttum. Hinn 28. mars lét hann hengja upp sýningu á „nýmóðins íslenskri list,“ eins og hann orðaði það, í tveimur herbergjum til hliðar við sal neðri deildar Alþingis. Um tilefnið sagði hann í Tímanum: „Formælendur klessumálaranna höfðu heitið að kæra menntamálaráð fyrir Alþingi, fyrir að hafa ekki keypt nógu mikið af framleiðslu þeirra. Mér þótti þá rétt, að sýna Alþingi um leið, að menntamálaráð hafði ekki algerlega sniðgengið þessa menn.“

Í lok mars byrjaði Jónas jafnframt nýjan greinaflokk í Tímanum um þetta eftirlætisefni sitt, listamenn og villigötur nútímalistar, undir yfirskriftinni „Skáld og hagyrðingar.“ Var þar farið hörðum orðum um listamenn sem ekki höfðu látið sér segjast við leiðbeiningar hans og margt af því sem hann hafði áður skrifað um efnið endurtekið. Um sýninguna á Alþingi sagði Jónas: „Það er best að segja eins og er, að það var áhættuspil að hafa þessa sýningu í þinghúsinu. Margir þingmenn sögðu mér, að þeir álitu menntamálaráð brotlegt við óskráð lög smekkvísinnar fyrir að hafa keypt slíkar myndir fyrir landsfé. Aðrir töldu afsakanlegt, að taka myndirnar upp í skuldir, sem ekki myndi verða greiddar á annan hátt. Þriðju létu í ljós eindregna ósk um, að þessi „list" yrði hið skjótasta burt úr þinghelginni og kæmi aldrei aftur fyrir augu þingmanna.“ Ekki er ástæða til að ætla að þingmenn hafi almennt haft þessar skoðanir. Reyndar mun það hafa verið óánægja forseta þingsins með framtakið sem réð því að Jónas varð að láta taka sýninguna niður. En hann var ekki af baki dottinn eins og í ljós kom nokkrum dögum síðar.

HÁÐUNGARSÝNINGIN

Kæruskjal listamanna barst Alþingi 15. apríl 1942. Eru þar rakin dæmi um aðfinnsluverð vinnubrögð menntamálaráðs og óeðlilega ráðstöfun fjármuna þess. Jafnframt er kvartað yfir „gerræðislegri vanstillingu“ formannsins og hún sögð „skaðleg heilbrigðum þroska íslenskra lista.“ Sýningin í þinghúsinu var ekki nefnd. Að baki skjalinu var mikill liðssafnaður, undir það rituðu flestir málsmetandi listamenn landsins, 66 að tölu. En Jónas frá Hriflu gaf sig ekki þrátt fyrir kæruskjalið og að sýningu hans hefði verið úthýst úr þinghúsinu. Sunnudaginn 26. apríl birti hann grein á forsíðu Tímans og greindi frá því að um helgina hæfist „í sýningarglugga í Aðalstræti sýning á nokkrum úrvalsmálverkum eftir þá íslenska listamenn, er telja sig vera menn hins nýja tíma, og þykjast til þess bornir að ryðja nýjar brautir í íslenskri list.“ Hæðnistónninn leyndi sér ekki. Í annarri grein í blaðinu þennan sama dag fór Jónas hörðum um listamennina: „Allir þessir menn hafa rofið þróunarbönd íslenzkra lista. Þeir sækja fyrirmyndir sínar í úrkynjunarlist suður í lönd, en horfa með lítilsvirðingu og vanþóknan á list íslenskra brautryðjenda frá fyrsta fimmtungi 20. aldarinnar. Flest verk þessara manna eru þunglamaleg, og oft ömurleg. Tiltölulega fáir menn hafa ánægju af þessháttar list.“

Komposition (Höfnin) eftir Þorvald Skúlason (frá 1938) var eitt verkanna á háðungarsýningunni 1942.

Komposition (Höfnin) eftir Þorvald Skúlason (frá 1938) var eitt verkanna á háðungarsýningu Jónasar Jónssonar frá Hriflu 1942.

Háðungarsýningin í Gefjunarglugganum vakti þegar hörð viðbrögð. Framtak Jónasar var gagnrýnt af listamönnum og menningarfrömuðum og af öllum dagblöðunum nema Tímanum sem lagði Jónasi lið með því að birta myndir af verkunum með hæðnislegum texta. Sýningin stóð aðeins uppi í viku, en þá lét Jónas skipta um verk og sýna þau sem hann taldi til fyrirmyndar. Var eitt þeirra eftir Sigurð Guðmundsson málara, sem látinn var fyrir mörgum áratugum, og önnur eftir ráðsetta listamenn, miðaldra eða eldri, eins og Þórarin B. Þorláksson, Gunnlaug Blöndal, Ásgrím Jónsson, Jóhannes Kjarval og Jón Stefánsson. Valið á Jóni er athyglisvert því hann átti það verk á háðungarsýningunni sem Jónas hallmælti hvað harkalegast, Þorgeirsbola, byggt á íslenskri þjóðsögu. En með þessu var Jónas áreiðanlega að sýna að jafnvel þeir sem hafði verið úthýst gætu komið í skjól að nýju ef þeir máluðu eftir hans forskrift. Þegar blöðin grennsluðust fyrir um það hvort það það væri menntamálaráð sem slíkt sem stæði að sýningunni í Gefjunarglugganum kom á daginn að um var að ræða einkaframtak formannsins. En aðeins einn fulltrúanna í ráðinu, Árni Pálsson, svaraði því afdráttarlaust að hann hefði ekki gefið samþykki sitt fyrir sýningunni. Af svörum hinna mátti skilja að þeir gerðu engar athugasemdir við framtakið.

FALL JÓNASAR FRÁ HRIFLU

Um afstöðu almennings til sýningarinnar eru engar beinar heimildir. Jónas fullyrti að þúsundir manna hefðu streymt niður í Aðalstræti til að sjá hana áður en blöðin hefðu byrjað að skrifa um hana. Og hann staðhæfði að „langsamlega flestir áhorfenda“ létu í ljós, „að þeir vildu enga myndina eiga, og ekki hafa þær í húsum sínum, þótt gefnar væru.“ Líklegt er að þessi orð séu eingöngu það sem Jónas vildi hafa fyrir satt, enda lét hann tilganginn jafnan helga meðalið í stjórnmálabaráttunni. Hitt má vera að margir hafi verið á bandi Jónasar í deilunni við listamennina og má í því sambandi benda á að í kvörtunarbréfi 14-menninganna til Alþingis vorið 1941 var talað um „þekkingarskort landsmanna“ á myndlist.

Jónas Jónsson var formaður Framsóknarflokksins þegar deila hans við listamenn stóð yfir. Hafði hann verið kjörinn í embætti 1934, en áður hafði hann verið ráðherra á vegum flokksins frá 1927 til 1932. Þegar hér var komið sögu höfðu margir áhrifamestu menn Framsóknar snúist gegn honum vegna ráðríkis hans og einstefnu. Byggðust völd hans og áhrif einkum á yfirráðum hans yfir Tímanum og formennsku í menntamálaráði. Þegar nýtt menntamálaráð var kosið eftir haustkosningarnar 1942 lenti hann þar í minnihluta og varð algjörlega áhrifalaus. Varð Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins, formaður ráðsins, en hann var eindregið á bandi listamanna, og kona hans Kristín Jónsdóttir úr þeirra hópi.

Tveimur árum seinna létu andstæðingar Jónasar í Framsóknarflokknum til skarar skríða gegn honum. Eftir flokksþing vorið 1944 kaus miðstjórnin Hermann Jónasson formann í stað Jónasar. Var þar með lokið pólitísku valdaskeiði þessa litríka manns. En Jónas lét ekki þagga niður í sér og næsta aldarfjórðunginn beitti hann penna sínum í ýmsum blöðum fyrir málum sem honum voru hugleikin. Hann þreyttist ekki á að skrifa um „klessumálarana“ og voru greinar um öfugþróun myndlistarinnar meðal þess síðasta sem hann lét frá sér fara. Steinn Steinarr skáld var meðal hinna fyrstu til að bregðast við háðungarsýningu Jónasar. Þótt tilgangurinn væri að svívirða listamennina yrði hennar af annarri ástæðu lengi minnst í menningarsögu þjóðarinnar. „Ég óska málurunum hjartanlega til hamingju með sitt hlutskipti á þeim vettvangi,“ skrifaði hann - og reyndist sannspár um dóm sögunnar


TVEIR DRAUGAR

Um deilu Jónasar frá Hriflu og listamanna orti Steinn Steinarr kvæðið Tveir draugar sem hljóðar svo:

Ein saga berst mann frá manni, sem þannig hljóðar:

Hjá mörgum er ofstækið leiður og þrálátur kvilli.

Tveir gamlir og útslitnir draugar þessarar þjóðar

þreyta nú hatramma baráttu — sín á milli.

Sú var þó tíðin, að uppvakningum hjá okkur

var ætlað að gera bölvun, er við skyldum þola.

Og þessvegna held ég tæplega, að til sé nokkur,

sem trúir sögunni um Nasa og Þorgeirsbola.

Og þó er það rétt og satt, eins og sagan hljóðar,

og sérlega fyndinn og óvæntur dagskrárliður:

Tveir draugar, sem ásóttu vitsmuni þessarar þjóðar,

þrauka nú við að kveða hvor annan niður.

Birtist upphaflega í tímaritinu Ský 2. tbl. 2016.

Previous
Previous

Af örlögum gullmedalíu og silkisokka

Next
Next

Hverjir voru „drengirnir hans séra Friðriks“?