Af örlögum gullmedalíu og silkisokka

Erfðamál hafa löngum verið uppspretta deilna og rígs innan fjölskyldna, einkum hinna efnameiri, enda oft mikið í húfi. Mætti líklega skrifa Íslandssögu fyrri alda að drjúgum hluta út frá því efni einu. Í bréfasafni Bjarna Thorarensen er vikið að afar sérstakri og dapurlegri erfðadeilu innan fjölskyldu sem var ríkust og voldugust á Íslandi á 18. og 19. öld. Um er að ræða Stephensen-fjölskylduna, Stefánunga svokallaða (sem talsvert er ritað um í bók minni Íslensku ættarveldin).

Ættfaðirinn Ólafur Stefánsson stiftamtmaður lést í hárri elli í Viðey í nóvember 1812. Hann var þá orðinn ekkjumaður, en átti fjögur börn á lífi: bræðurna og fyrirmennina Magnús, Stefán og Björn Stephensen og dótturina Ragnheiði Scheving sem var sýslumannsfrú. Þau systkinin komu sér ekki saman um skiptin og dró til tíðinda. Spurðist þetta út og nokkrum mánuðum síðar skrifaði Bjarni Thorarensen skáld og dómari í landsyfirrétti Grími Thorkelín leyndarskjalaverði konungs í Kaupmannahöfn um málið. Ekki er því að leyna að svolítill hæðnistónn er í bréfinu. Bjarni ritaði á dönsku:

'Den gamle Stiftamtmand Ole Stephensen döde den 11te Novembr. sidtl. og længe forhen var hann levende död af Alderdoms Svækkelse. Præsten Hr. A. Helgesen [Árni Helgason] satte ham en meget pompous Gravskrift; til hans Jordefærd blev ingen af honoratioribus indbuden saa at ikkun hans Descendenter (stricte sic dicté [strangt til tekið]) vare tilstæde og i afvigte Foraar [1813] blev af de myndige Arvinger i Ordets egentligste Forstand holdt Skifte og Deeling efter ham, saaat endog den arme Medaille pro meritis maatte, som man siger, holde her, og lade sig hugge i 4 Stykker, og skal der iövrigt ved Skiftet ei allene være i höj Grad iagttagen justitia distributiva [réttlæti í skiptum], men endog om man torde sige justita disjunctiva [réttlæti í sundurskiptingu] thi f. E. af Silkeströmper hvor af der vare mange fik ingen et odrentlig Par, og Klæder ble skaarne i Stykker.' (Bjarni Thorarensen. Bréf II. Safn Fræðafélagsins XIV. bindi. Ljósprentun Oddi 1986).

Medalían sem þarna er nefnd og erfingjarnir ákváðu að höggva í fjóra hluta var úr skíragulli. Hún var heiðurspeningur sem Danakonungur veitti Ólafi stiftamtmanni eftir að hafa frétt um veglyndi hans við umkomulaus og hungruð fórnarlömb Móðuharðindanna 1783. Þennan heiðurspening, sem metinn var á 60 ríkisdali (sem var afar há upphæð), geymdi Ólafur í skríni með öðrum verðlaunum og viðurkenningarskjölum sem honum hlotnuðust og dró gjarnan fram þegar tigna erlenda gesti bar að garði. Ekki er vitað hvað varð um brotin fjögur; hafa líklega verið brædd og komið í verð. En hvað þau systkinin töldu sig græða á að eiga ósamstæða silkisokka og sundurskorin klæði er öllum hulin ráðgáta.

Engin mynd er til af Ólafi Stefánssyni stiftamtmanni, en hann á að vera maðurinn með þrísperrta hattinn á miðri vatnslitamyndinni frá Innrahólmi á Akranesi sem fylgir hér, klæddur skarlatsrauðum viðhafnarbúningi, í hnébuxum og silkisokkum. Myndin er í eigu Þjóðminjasafnsins, gerð 1789.

 

 

 

Previous
Previous

Hinir gleymdu dýrgripir Íslendinga

Next
Next

Tveir gamlir og útslitnir draugar