Hverjir voru „drengirnir hans séra Friðriks“?

„Drengirnir hans”

Strákar, drengir og piltar, löðuðust að séra Friðriki. Hann hafi einstakt aðdráttarafl.

Margir hafa spurt mig út í titilinn á nýju bókinni minni, ævisögu séra Friðriks Friðrikssonar, Séra Friðrik og drengirnir hans. „Hverjir voru þessir drengir?“ Ég skal fara fáeinum orðum um það.

 „Drengirnir hans séra Friðriks“ var alþekkt hugtak í gömlu Reykjavík, einkum á fyrri hluta aldarinnar sem leið. Átt er við þann stóra hóp ungra sveina og pilta úr öllum þjóðfélagsstéttum sem sóttu samkomur séra Friðriks á árunum frá stofnun KFUM 1899 og næstu áratugina, voru honum handgengnir og mótuðust af boðskap hans og ekki síður því andrúmslofti sem einkenndi starfsemina meðan hans naut við. Þetta er stór hópur þegar allt er talið, þúsundir drengja, enda spannaði starfsemi Friðriks yfir sex áratugi.

 Misjafnt var auðvitað hve nánir honum drengir urðu. Sumir kynntust honum eingöngu á samkomum KFUM einu sinni í viku eða svo. Aðrir tóku þátt í ýmiss konar starfi sem séra Friðrik setti á fót innan KFUM, knattspyrnu, lúðrablæstri, söng, biblíulestri, skátafélaginu Væringjum o.fl. og hittu hann oft í hverri viku. Svo var fámennari hópur sem tala má um að hafi verið í „innsta hringnum” í KFUM; þeir drengir voru mikið inn á heimili hans, voru gerðir að foringjum í starfinu og fylgdu honum oft um bæinn. Úr þessum hóp komu flestir sem áttu seinna eftir að leggja sig fram um að halda nafni hans á lofti.

 Meðal drengjanna hans séra Friðriks voru tveir ólíkir hópar sem hann hafði mætur á. Annars vegar í piltarnir í latínuskólanum, seinna menntaskólanum. Þeir voru flestir af góðum, borgaralegum heimilum, vel siðaðir, „penir“, og höfðu áhuga á að fræðast af honum um bókmenntir og sögu, og að sjálfsögðu um kristindóminn. Mörgum þeirra leiðbeindi hann í latínu sem lengi var skyldunámsfag í gamla skólanum.

 Hinn hópurinn var erfiðu drengirnir, „vandræðadrengirnir“, „götudrengirnir“, drengir af fátækum heimilum. Þeim hafði hann sinnt alveg sérstaklega þegar hann byrjaði að starfa með KFUM í Kaupmannahöfn á árunum 1895 til 1897.  Yfirleitt gætti hann þess að hitta skólapilta og erfiða drengi ekki samtímis (nema á samkomum), enda litu skólapiltar yfirleitt niður á hina síðarnefndu.

 Séra Friðrik sýndi drengjunum sínum ávallt mikinn innileik, kyssti þá, klappaði á kollinn og faðmaði. Sumir drengjanna og piltanna nutu slíkra atlota og sóttust eftir þeim, fengu kannski litla athygli á heimilum sínum. Aðrir reyndu að koma sér undan faðmlögunum. Kristmann Guðmundsson rithöfundur víkur að þessu í ævisögu sinni. Hann var sveitadrengur og kom fyrst á samkomur í KFUM í Reykjavík á unglingsárum 1917. Hann skrifar:  „Þótti mér gaman að hlusta á margt, sem séra Friðrik sagði, en illa kunni ég við handaálagningar hans og faðmlög. Sem betur fór varð hann þess fljótt var og sleppti mér við ástúðarlot.”

 

Previous
Previous

Tveir gamlir og útslitnir draugar

Next
Next

„Eins og ást á milli karls og konu“