Þann mann vissi ég bestan í heimi

Karlamagnús keisari

Keisarinn með augum 19. aldar málarans Casper Scheuren.

Árið 2014 voru 1200 ár liðin frá láti Karlamagnúsar, Karls mikla keisara (742-814), og var þess minnst á ýmsan hátt víða í Evrópu. Eru það ekki síst Frakkar sem halda minningu hans á lofti, enda má hann heita einn helsti veraldlegi þjóðardýrlingur þeirra. Hann var konungur í Frankaríkinu mikla sem spannaði nær alla Vestur-Evrópu og oft er talið marka upphaf Evrópu í nútímaskilningi.

Íslendingar höfðu snemma spurnir af Karlamagnúsi og afrekum hans. Íslenskir námsmenn í Frakklandi, menn eins og Sæmundur fróði á 11. öld og Þorlákur helgi á 12. öld, hafa kynnst sögnum um hann og áreiðanlega báðir lesið hina frægu ævisögu hans eftir lærdómsmanninn Einhard. Um Karlamagnús segir í Oddaverjaannál: „Karlamagnús var einn mektugur keisari, sigursæll, guðhræddur, góðfús, vel siðaður. Hann kristnaði mörg lönd og háði stórar orrustur við heiðna kónga, hann er kallaður einn nytsamasti keisari kristindómsins.“ 

Karlamagnúss saga var skrifuð á Íslandi á 13. öld, hugsanlega fyrr, eftir erlendum heimildum, sumum glötuðum. Engir voru hrifnari af Karlamagnúsi en Oddaverjar, mesta höfðingjaætt á Íslandi á 12. og 13. öld, tengdir norsku konungsfjölskyldunni blóðböndum. Þeir voru stórlátir og birtist það meðal annars í nafngiftum í fjölskyldunni. Nafnið Karlamagnús kemur þar fyrir á 13. öld, í fyrsta sinn á Íslandi. Ef marka má Ólafs sögu helga í Heimskringlu var Magnúsar-nafnið nokkru fyrr búið að ná fótfestu í Noregi, raunar fyrir áhrif íslensks skálds. Gat nú verið!

Samkvæmt sögunni fæddi ambátt Ólafs konungs Haraldssonar árið 1024 sveinbarn sem hann hafði getið. Þegar sveinninn fæddist var hann ekki talinn eiga líf fyrir höndum. Konungur svaf og hirðmenn þorðu ekki að vekja hann, þótt öllum væri ljóst að nauðsyn bar til að barnið fengi skírn ef það átti að verða hólpið. Sighvatur skáld Þórðarson frá Apavatni var þá við hirðina og fregnaði þessi vandræði. Hann tók af skarið og lét skíra barnið.

Segir svo í Heimskringlu: „Svo gerðu þeir að sveinn sá var skírður og hét Magnús. Eftir um morguninn þá er konungur var vaknaður og klæddur var honum sagt allt frá þessum atburðum. Þá lét konungur kalla til sín Sighvat. Konungur mælti: Hví varstu svo djarfur að þú lést skíra barn mitt fyrr en ég vissi? Sighvatur svarar: Því að ég vildi heldur gefa guði tvo menn en einn fjandanum. Konungur mælti: Fyrir hví mundi það við liggja? Sighvatur svarar: Barnið var að komið dauða og mundi það fjandans maður ef það dæi heiðið en nú var það guðs maður. Hitt er og annað að ég vissi þótt þú værir mér reiður að þar mundi eigi meira við liggja en líf mitt en ef þú vilt að ég týni því fyrir þessa sök þá vænti ég að ég sé guðs maður.

Konungur mælti: Hví léstu sveininn Magnús heita? Ekki er það vort ættnafn. Sighvatur svarar: Ég hét hann eftir Karla-Magnúsi konungi. Þann vissi ég mann bestan í heimi.“


Previous
Previous

Frá fornköppum til víkinga

Next
Next

Íslensku frímerkin höfðu sérstöðu