Íslensku frímerkin höfðu sérstöðu

Útlagar á frímerki

Höggmynd Einars Jónssonar Útlagar varð frímerkjaefni vorið 1960.

Sérstaða íslenskra frímerkja

Þegar frímerki gegndu stærra hlutverki í póstþjónustu en nú, voru þau stundum notuð til að afla fjár til góðra verka. Til dæmis voru gefin út sérstök líknarfrímerki og fyrir kom að almenn frímerki fengju yfirstimplun og rann þá ágóði af sölunni til einhvers málefnis, eins og Hollandshjálparinnar á sjötta áratug síðustu aldar. Tvívegis voru gefin út sérhönnuð frímerki til fjáröflunar fyrir flóttafólk í útlöndum, 1960 og 1971. Í bæði skiptin var um að ræða þátttöku í átaki margra ríkja sem öll gáfu út eigin frímerki í sama skyni. Ekki er annað vitað en að útgáfan hafi náð tilætluðum árangri. En þegar myndefni íslensku frímerkjanna frá þessum tíma er skoðað vekur athygli hve frábrugðið það er myndefni erlendu frímerkjanna. Íslensku frímerkin sýna ógæfusama einstaklinga á flótta undan réttvísi, en erlendu frímerkin sýna venjulegt fólk á flótta frá stríði og þjóðfélagslegri upplausn.

Alþjóðaár flóttamanna

Það var að tillögu Breta að Sameinuðu þjóðirnar samþykktu í desember 1958 að efna til alþjóðlegs árs flóttamanna. Var ákveðið að það stæði frá miðju ári 1959 og til miðs árs 1960. Tilgangurinn var að vekja mannkynið allt til skilnings á hvílík ógæfa væri búin milljónum manna í heiminum sem hrakist höfðu frá heimilum og átthögum vegna ófriðar og umbyltinga. Á þessum tíma voru tugþúsundir flóttamanna í Vestur-Evrópu; höfðu flestir hrakist frá Ungverjalandi eftir uppreisnina þar 1956. Fjöldi flóttafólks var í Hong Kong, Palestínu og ríkjum Afríku, ekki síst Kongó.

Aðildarríkin voru hvött til að leggja fé af mörkum til stuðnings flóttafólkinu svo hægt væri að kaupa matvæli fyrir það og koma upp húsnæði. Náðist samstaða um það meðal um 70 ríkja að afla fjár með útgáfu sérstakra frímerkja og skyldi söluandvirði þeirra varið til flóttamannahjálparinnar. Voru flest merkin gefin út vorið 1960.

Á flótta undan réttvísinni

Íslendingar tóku þátt í þessu verkefni. Í apríl 1960 voru gefin út frímerki með tvenns konar verðgildi og í tveimur mismunandi litum. Var myndefnið stytta Einars Jónssonar myndhöggvara, Útlagar , gerð 1901. Auk sölu innanlands voru 50 þúsund eintök af frímerkjunum gefin Sameinuðu þjóðunum til styrktar flóttamannahjálpinni og voru þau öll seld erlendis.

 Rúmum áratug síðar, í mars 1971, gaf íslenska póststjórnin út nýtt flóttamannafrímerki. Tilefnið var þátttaka í flóttamannasöfnun Norðurlanda sem nefnd var „Flóttafólk '71“. Fram kemur í blöðum frá þessum tíma að um tvær og hálf milljón flóttafólks njóti liðsinnis Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Flest fólkið var í Afríku, um 900 þúsund manns, rúmlega 60 þúsund Tíbetar voru í Indlandi og Nepal og 80 þúsund flóttamenn frá Kína voru í Macao. Auk frímerkjaútgáfunnar efndu fjölmörg félagasamtök til fjársöfnunar vorið 1971 til stuðnings flóttamönnum og skyldi söfnunarféð einkum renna til Afríkubúa.

Íslenska frímerkið prýddi að þessi sinni mynd af málverki Ásgríms Jónssonar listmálara frá 1905, Flótti . Var frímerkið aðeins gefið út í einu verðgildi.

Lítum nánar á myndefni íslensku flóttamannafrímerkjanna . Útlagar Einars Jónssonar, eða Útilegumaðurin n eins og verkið hét þegar það var fyrst sýnt í Kaupmannahöfn í byrjun síðustu aldar, byggist á íslenskum þjóðsögum um útilegumenn. Samkvæmt sýningarskránni frá þessum tíma á verkið að tákna mann sem dæmdur hefur verið fyrir glæp og flúið með konu sína og barn inn á öræfi Íslands. Í útlegðinni deyr konan og maðurinn snýr til byggða að næturlagi til að hún geti fengið leg í kirkjugarði.

 

Sótt í þjóðsagnir

Flótti Ásgríms Jónssonar sýnir konu með stúlkubarn í fanginu og virðist konan vera að vaða yfir mikið vatnsfall. Greina má Búrfell í bakgrunni. Er talið að þarna hafi listamaðurinn sótt efniviðinn í sagnir um útileguhjúin frægu, Höllu og Fjalla-Eyvind, sem á seinni hluta 18. aldar voru árum saman á flótta undan yfirvöldum fyrir margvísleg afbrot. Hafa sumir skilið verkið sem svo að það tákni þann atburð í einni þjóðsögunni þegar Halla fleygir nýfæddu barni sínu í foss til að auðvelda sér flóttann.

Fóttamannafrímerki sænsku póstþjónustunnar 1971.

Erlendu flóttamannafrímerkin 1960 og 1971 voru yfirleitt sérteiknuð fyrir tilefnið. Myndefni þeirra vísar á táknrænan hátt til hins alþjóðlega flóttamannavanda. Svo dæmi séu tekin sýnir bandaríska merkið 1960 hjón með tvö börn ganga á vit nýrrar framtíðar, norska frímerkið móður með barn í fangi á flótta undan eyðandi her, sænska merkið andlit fólks af ólíkum kynþáttum og franska frímerkið flóttastúlku innan um rústir. Mörg frímerkjanna hafa eingöngu táknmynd flóttamannaársins: tré rifið upp með rótum. Sænska frímerkið 1971 sýnir hóp flóttafólks í Afríku á leið til nýrra heimkynna og það danska móður á flótta með tvö börn.

Heppileg tákn?

Um það er ekki deilt að Útlagar Einars og Flótti Ásgríms eru listaverk sem standa sem slík maklega á eigin forsendum. En hversu heppileg voru þau sem tákn fyrir vegalaust fólk í útlöndum sem flúði stríð og hungursneyð sem það bar enga sök á? Um það eru meiri áhöld. Óneitanlega virkar myndefnið á mann sem klaufalegt, jafnvel óviðeigandi, í þessu samhengi. En engar opinberar umræður urðu um myndefnið á sínum tíma og aldrei heyrðist gagnrýnisrödd. Hugsanlegt er að Íslendingum hafi fundist ógæfa útilegufólksins sambærileg við örlög flóttafólksins í útlöndum. Réttvísin á Íslandi forðum daga gat verið harðneskjuleg og kaldlynd og útilegumaður Einars og Halla Ásgríms sýna óneitanlega niðurbrotið og örvæntingarfullt fólk.

 Sennilegt er að hvorki hafi mikil vinna né hugsun verið lögð í undirbúning íslensku flóttamannafrímerkjanna. Fyrsta hugmyndin hafi verið gripin á lofti. Póststjórnin hafði lengi vel engan starfsmann sem sérhæfður var í frímerkjaútgáfu eða sinnti henni eingöngu. Ákvarðanir voru gjarnan teknar án mikils undirbúnings og oft í kapphlaupi við tímann. Þótt dæmi séu um að listamenn og teiknarar hafi verið fengnir til að hanna frímerki var slíkt yfirleitt undantekning fram á áttunda áratug síðustu aldar þegar sérstök frímerkjaútgáfunefnd var stofnsett fyrir frumkvæði samgönguráðherra. Algengast var að valið væri eitthvert myndefni sem þegar var til, ljósmynd tekin af því og erlendri prentsmiðju falið að ljúka verkinu.

Skilningur á vandanum

Umfjöllun blaða frá 1960 og 1971 sýnir að Íslendingar höfðu fullan skilning á því hvers eðlis flóttamannavandinn í útlöndum væri þótt myndirnar á frímerkjunum væru sérstæðar. Þetta má til dæmis lesa út úr ávarpi Íþróttasambands Íslands 1971, en sambandið hvatti landsmenn til rausnarlegrar þátttöku í fjársöfnuninni það ár. „Raunir og hörmungar flóttafólks eru með ólikindum og eiga sér margvíslegar orsakir. Styrjaldir, stjórnleysi, þekkingarleysi og vankunnátta eiga hér mikinn þátt í. Alsaklaust fólk, svo milljónum skiptir, verður þessum vágesti að bráð. Allir velviljaðir menn hljóta því með ánægju að hjálpa til í baráttunni fyrir því að skapa þessu fólki viðunandi lífsskilyrði,“ sagði til dæmis forseti ÍSÍ í blaðagrein.

 


Previous
Previous

Þann mann vissi ég bestan í heimi

Next
Next

Munnleg heimild sker úr um