Frá fornköppum til víkinga

„Víkingaplágan”

Nú heita allir fornmenn „víkingar“. Köppunum okkar gömlu hefði fæstum þótt sómi að því.

Svokallaðar víkingahátíðir eru orðnar árlegur viðburður hér á landi. Erlendis eru slíkar samkomur algengar og sækir þær mikill fjöldi fólks. Fyrir forvitni sakir lagði ég leið mína í Hljómskálagarðinn þegar ein slík var haldin þar fyrir nokkru. Þar gat að líta tjaldbúðir og fólk á ýmsum aldri í fornlegum búningum. Vígalegir voru sumir í fjarska að sjá með sverð og spjót og skildi. Þegar nær var komið voru andlitin vinaleg og engin ástæða til að vera smeykur. Gat ég ekki annað en dáðst að þessu framtaki, dugnaði þátttakenda og þeim sögulega áhuga sem þetta tilstand var til vitnis um.

Eftir á var ég svolítið hugsi – og er enn – yfir því af hverju fornkapparnir okkar sem við lærum um í sögubókunum og lesum um í Íslendingasögum þurfa allir að heita víkingar nú á dögum. Sannleikurinn er sá að þeim hefði fæstum þótt sómi að því heiti. Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar – og raunar alveg fram á okkar daga – merkti víkingur sjóræningi, maður sem stundar vígaferli og rán, yfirleitt utanlands.

Þegar Ari fróði skrifaði fyrstu Íslandssöguna snemma á 12. öld, Íslendingabók, minntist hann ekkert á víkinga. Halldór Laxness var meðal þeirra sem hnutu um fjarveru víkinga hjá Ara. „Hann virðist ekki einu sinni kannast við orðið. Ef dæma skyldi eftir þeim fróðleik sem í Íslendingabók er veittur virðast ekki líkur á því að nokkru sinni hafi verið víkingar á Íslandi,“ skrifaði Halldór eitt sinn.

Þetta passar. Það voru arftakar Ara fróða í rithöfundastétt á Íslandi á 13. öld, menn eins og Snorri Sturluson og fleiri, sem bættu úr skortinum á víkingum. Aðeins á bókfelli þó. Ekkert gátu þeir vitað meira um víkinga á landnámsöld en Ari fróði. Í konungasögum eiga Ólafur Tryggvason og Ólafur Haraldsson slæma fortíð sem ungir víkingar og í liði þeirra eru Íslendingar. Nokkrir kappar Íslendingasagna með Egil Skallagrímsson í broddi fylkingar fara í víking. En fæstir fornmanna þeirra sem frá er sagt í gömlu skræðunum okkar eru þó víkingar eða fara í víking. Ýmislegt bralla þeir og ekki allt til eftirbreytni, en víkingar hafa þeir áreiðanlega ekki viljað heita; slíkir menn voru illmenni en ekki kappar með sæmdarhugsjón að leiðarljósi. Þótt Snorra verði tíðrætt um víkinga fer því fjarri að hann noti heitið eins og gert er nú á dögum, þegar öll þjóðin til forna er orðin að víkingum. Hann vissi vel að víkingar voru fámennur hópur á jaðri þjóðfélagsins.

Það var ekki fyrr en á 19. öld og síðar að farið var að nota heitið víkingur sem samheiti yfir allt norrænt fólk snemma á miðöldum. Þetta byrjaði í enskumælandi löndum en náði svo fótfestu annars staðar, þar á meðal á Íslandi á síðustu árum. Því miður er orðið of seint að vinda ofan af þessari merkingarbreytingu, en ef menn átta sig ekki á því að sama orðið er haft um tvö ólík hugtök er hætt við að þeir lendi í vandræðum þegar þeir lesa forna texta.

Previous
Previous

„Mikil andlegheit voru í loftinu“

Next
Next

Þann mann vissi ég bestan í heimi