Keisarar Noregs

Norskir kóngar á miðöldum

Eru sögur þeirra í Heimskringlu undir áhrifum rómverskra sagnarita um keisara Rómar?

„Bækur æxlast af bókum“ heitir fróðleg ritgerð sem Hermann heitinn Pálsson prófessor í Edinborg birti í Skírni fyrir um það bil aldarfjórðungi. Hann hafði þá um nokkurt skeið rannsakað latnesk áhrif á íslenskar fornbókmenntir, svo sem Hávamál og Íslendingasögur. Var niðurstaða hans að margt í málfari og efniviði þeirra mætti skýra með kynnum höfundanna af klassískum latínuritum.

Mér er minnisstæður opinber fyrirlestur Hermanns um sama efni fyrir þéttskipuðum sal í Árnagarði haustið 1980. Tók hann þar einkum dæmi af latneskum orðskviðum sem hann taldi að höfundur Hrafnkels sögu Freysgoða hefði ofið inn í frásögn sína og væru uppistaðan í boðskap sögunnar.

Hermann hafði mikið til síns máls, þótt rannsóknir hans á þessu sviði væru auðvitað engan veginn fullnægjandi skýring á tilurð og einkennum fornbókmenntanna. Þegar hann byrjaði að hreyfa þessu efni brugðust þó ýmsir ókvæða við og fannst sem gert væri lítið úr íslenskum menningararfi. Var hann meðal annars sakaður um að tilheyra „þjóðskaðlegum niðurrifsöflum“ sem vildu veg fornritanna sem minnstan! Til allrar hamingju eru umræður í anda slíkrar vanmetakenndar liðin tíð.

Ástæðan fyrir því að ég rifja þetta upp er sú að mér varð hugsað til Hermanns og brautryðjandaverka hans um hin latnesku áhrif, þegar ég las á dögunum nýlega doktorsritgerð Norðmannsins Per Meldahls við háskólann í Stavangri um konungasögurnar í Heimskringlu . Hún heitir Norges keisere: kongesagaen i klassisk-retorisk perspektiv . Í ritgerðinni leiðir Meldahl að því afar sterk rök að drjúgur hluti Heimskringlu hafi upphaflega verið saminn á latínu að klassískri fyrirmynd sagnaritarans Svetoniusar um rómversku keisarana. Hliðstæðurnar um konungaröðina, persónusköpun konunganna og fleira sem Meldahl rekur eru svo ævintýralega sannfærandi að ég sé ekki að nokkur sem stundar rannsóknir á þessu sviði geti framvegis horft framhjá bók hans. Samt ber svo einkennilega við að nánast hefur ríkt algjör þögn um verkið á opinberum vettvangi frá því að það kom út fyrir sjö árum. Sjálfur las ég fyrst um það í ágætri bók Gísla Sigurðssonar Leiftur á horfinni öld sem út kom í fyrra.

Á seinni árum hafa æ fleiri efast um þá hefðarspeki að Snorri Sturluson sé höfundur Heimskringlu . Meldahl gengur hins vegar út frá því að rétt sé að Snorri hafi sett ritið saman eins og það hefur varðveist, en telur að veigamesti hlutinn sé konungaævi samin á latínu af íslenskum lærdómsmanni, líklega Sæmundi fróða sem nam í Frakklandi þar sem rit Svetoniusar voru í hávegum höfð og þáttur í skólalærdómi ungra manna. Umræða Meldahls er annars margslungin og engan veginn hægt að gera henni skil hér. Þetta er aðeins sett á blað til að vekja athygli á afar áhugaverðu efni.


Previous
Previous

Lesbókin

Next
Next

„Mikil andlegheit voru í loftinu“