Lesbókin
Það var alger nýjung í íslenskri blaðasögu þegar Lesbók var hleypt af stokkunum sem fylgiriti Morgunblaðsins,“ segir Árna Óla í endurminningum sínum, Erill og ferill blaðamanns hjá Morgunblaðinu um hálfa öld (1963). Árni, sem var umsjónarmaður Lesbókar nánast frá upphafi og fram til 1962, segir að fyrr á tíð hafi blöðin látið skilvísa áskrifendur fá sérprentanir af neðanmálssögum í kaupbæti. En Lesbókin hafi verið annars eðlis. Hún var „vikurit, til fróðleiks og skemmtunar, og fylgdi Morgunblaðinu sem kaupbætir þess“. Segir hann að hún hafi snemma orðið eitt vinsælasta efni blaðsins. Hún var í minna broti en Morgunblaðið og söfnuðu margir henni og létu binda inn. Eintök af Lesbók hafa því varðveist betur en blaðið sjálft.
Lesbókin hóf göngu sína í október 1925 og kom út samfleytt í 84 ár. Útgáfunni var hætt af fjárhagsástæðum haustið 2009. Fyrstu áratugina var efni blaðsins að drjúgum hluta þjóðlegur fróðleikur og ýmiss konar smælki um frægt fólk í útlöndum. Margir lögðu hönd á plóginn við skrif í blaðið, en óhætt er að segja að umsjónarmaðurinn, Árni Óla, hafi verið afkastamestur. Hafa fróðleiksþættir hans úr Lesbók verið birtir á bókum sem fylla mörg bindi. Greinar Árna um gömul hús í Reykjavík voru mikið lesnar og með þeim og fleiri greinum varðveitti hann mikinn fróðleik sem ella hefði farið forgörðum.
Smásögur og ljóð
Í Lesbók birtust einnig smásögur og ljóð. Fyrstu smásöguna birti Kristján Albertsson þegar á fyrsta árinu. Ljóðin sem Lesbók birti voru lengst af ort á hefðbundinn hátt með rími og ljóðstöfum, en árið 1926 var brotið í blað með birtingu framúrstefnuljóðs eftir ungt og efnilegt skáld, Halldór Kiljan Laxness. Ekki er ólíklegt að ýmsum lesendum hafi þótt Lesbók þarna orðin helsti djörf í efnisvali! Laxness lagði Lesbókinni oft til efni af ýmsu tagi næstu árin. Annað þekkt skáld sem frumbirti ljóð á síðum Lesbókar var Einar Benediktsson. Þegar hann dvaldi í Túnis sumarið 1931 sendi hann blaðinu til birtingar kvæðið Jöklajörð.
Þekktir menningarfrömuðir kvöddu sér einnig hljóðs í Lesbók á fyrstu árum hennar. Meðal þeirra var Sigurður Nordal. Frumbirti Lesbók til dæmis grein hans Málfrelsi árið 1926. Þar fjallar Nordal um íslenska tungu, sérstöðu hennar, styrkleika og veikleika. Hann heldur því fram að í íslensku sé kostur á meiri ritsnilld en í flestum öðrum tungumálum.
Nokkur frægustu viðtöl Valtýs Stefánssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, birtust í Lesbók. Valtýr var brautryðjandi viðtalsformsins í íslenskri blaðamennsku. Fyrsta viðtalið birti hann undir dulnefni, var þá að þreifa sig áfram með formið. Valtýr birti einnig nokkrar smásögur á síðum Lesbókar undir höfundarnafninu Hrólfur Kárason.
Árið 1962 voru gerðar miklar breytingar á Lesbók. Stækkaði brot hennar og efnið varð fjölbreyttara. Þjóðlega fróðleiknum var haldið, en aukið við efnisflokkum á menningarsviði, viðtölum við listafólk, umfjöllun um arkitektúr, húsbúnað, hönnun og tísku. Þá hóf göngu sína Rabb Lesbókar, pistill sem fljótlega varð eitt vinsælasta efni blaðsins. Var þar fjallað um allt á milli himins og jarðar, en þó mest um menningarmál. Sigurður A. Magnússon (SAM), þá blaðamaður á Lesbók, skrifaði rabbið gjarnan fyrstu árin. Hann kvað oft fast að orði og vöktu skrif hans meiri athygli en annarra pistlahöfunda, enda fetaði hann ekki troðnar slóðir flokkspólitískra viðhorfa í menningarmálum eins og algengt var í dagblöðum á þessum tíma þegar blöðin voru öll meira eða minna tengd ákveðnum stjórnmálaflokkum. Margir þjóðkunnir menn lögðu síðan orð í belg í Rabbinu.
Haraldur Hamar tók við umsjón Lesbókar þegar breytingin var gerð 1962. Til liðs við hana komu þá einnig Ingimar Erlendur Sigurðsson og hjónin Jón Hnefill Aðalsteinsson og Svava Jakobsdóttir. Árið 1967 varð Gísli Sigurðsson umsjónarmaður Lesbókar og var hann einn fastráðinn við blaðið. Hann hætti fyrir aldurs sakir um aldamótin og varð þá Þröstur Helgason umsjónarmaður.
Öll helstu ljóðskáldin
Haustið 1975 tók Gísli saman ýmsan fróðleik um efni Lesbókar í hálfa öld. Kemur þar margt merkilegt fram. Birti Gísli meðal annars skáldatal blaðsins. Frá 1962 til 1975 höfðu 150 nafnkunn íslensk samtíðarskáld fengið birt ljóð eftir sig í Lesbók. Það er fyrir utan öll þau ljóð sem ungt fólk og óþekktir byrjendur fengu birt á þessum árum. Birtust að meðaltali um 350 ljóð á hverju ári.
Öll helstu skáld þjóðarinnar eru í skáldatalinu: Hannes Pétursson, Dagur Sigurðarson, Tómas Guðmundsson, Matthías Johannessen, Steinar Sigurjónsson, Hugrún, Vilborg Dagbjartsdóttir, Gréta Sigfúsdóttir, Þórbergur Þórðarson og Stefán Hörður Grímsson, svo aðeins örfá séu nefnd. Ekki voru ljóð bundin við innlenda höfunda. Lesbók kynnti einnig kveðskap margra erlendra skálda, birti til dæmis þýdd ljóð eftir W.H. Auden, Garcia Lorca, Nordahl Grieg, Bertolt Brecht, Majakovski, Ivar Orgland, Ezra Pound og Benny Anderson.
Fjöldi smásagna
Ljóðin voru ekki einu bókmenntaverkin sem frumbirt voru í Lesbók. Íslenskir smásagnahöfundar áttu þar vettvang alla tíð. Á árunum frá 1962 til 1975 fengu 52 samtímahöfundar birtar eftir sig smásögur í blaðinu. Að auki birti blaðið á þeim árum smásögur frá fyrri tíð. Meðal samtímahöfunda á lista Gísla Sigurðssonar 1975 má nefna Gunnar Gunnarsson, Svövu Jakobsdóttur, Kristmann Guðmundsson, Jökul Jakobsson, Agnar Þórðarson, Grétu Sigfúsdóttur, Gísla J. Ástþórsson, Þráin Bertelsson, Ástu Sigurðardóttur, og Jón frá Pálmholti.
Ekki hefur verið gerð talning á ljóðum og smásögum frá 1975 til 2009, þegar útgáfunni var hætt, en lausleg athugun bendir til þess að óhætt sé að fullyrða að ekki hafi minna verið um slíkt efni á þeim árum. Hundruð skálda kvöddu sér hljóðs á síðum blaðsins á níunda og tíunda áratugnum og fyrstu áratugum þessarar aldar.
Alþýðleg fræði
Lesbókin birti einnig frá upphafi reglulega alþýðlegar greinar um Íslandssögu og íslensk og norræn fræði eftir nokkra kunnustu fræðimenn þjóðarinnar. Meðal þeirra sem birtu oft efni í blaðinu voru Sigurður Nordal, Hermann Pálsson, Björn Þorsteinsson og Einar Pálsson. Rithöfundar eins og Ásgeir Jakobsson birtu einnig sögulegar greinar sem athygli vöktu. Má þar nefna greinar hans um Þórð Kakala og Flóabardaga og útilegumennina Fjalla-Eyvind og Höllu.
Síðustu árin var Lesbók einn helsti vettvangur slíkra greina fyrir almenning, en þá voru þær yfirleitt skrifaðar af háskólakennurum og öðrum sérfræðingum. Með þessum greinum var almenningi gefin innsýn í það sem íslenskir fræðimenn voru að fást við hverju sinni, ólík sjónarmið og nýjungar í túlkun og viðhorfum. Þessu sviði hefur enginn fjölmiðill sinnt með jafn öflugum hætti síðan Lesbók hætti göngu sinni.
Efni Lesbókar var gjarnan myndskreytt með teikningum eftir fræga myndlistarmenn. Gísli Sigurðsson umsjónarmaður blaðsins, sem sjálfur var virtur listamaður, gerði oft slíkar teikningar. Aðrir teiknarar sem áberandi voru á síðum blaðsins voru Halldór Pétursson, Baltasar og Alfreð Flóki. Auk þess að vera sjálfstæð listaverk gæddu þessar teikningar Lesbók lífi og gerðu greinarnar aðgengilegri.
Sumarið 1996 voru þær breytingar gerðar á Lesbók að sérblaðið Menning-Listir sem fylgt hafði Morgunblaðinu í nokkur ár var sameinað henni. Efldist umfjöllun blaðsins um viðburði í menningarlífinu mjög við það. Útlit Lesbókar var þá einnig endurhannað. Fékk blaðið ennfremur undirritilinn „Menning, listir, þjóðfræði.“ Áður höfðu verið gerðar útlitsbreytingar á blaðinu 1962 og 1984 þegar hún var stækkuð í sama brot og Morgunblaðið. Útlitinu frá 1996 hélt Lesbók til ársins 2004 þegar enn voru gerðar nokkrar útlitsbreytingar á blaðinu.
Rödd úr tómarúmi
Á 80 ára afmæli Lesbókar árið 2005 rifjaði Matthías Johannessen fyrrverandi ritstjóri upp að henni hefði í upphafi ekki verið ætlað að vera menningartímarit, heldur hefði hugmyndin verið að auka upplag Morgunblaðsins með afþreyingarefni lesendum til fróðleiks og skemmtunar. En smám saman hefði efnið orðið metnaðarfyllra svo að segja mátti undir lokin að Lesbók væri „akademískasta blað landsins“. Kvað Matthías Lesbók þannig fylla upp í „tómarúm í hávaðasömu, fjölnismannalausu og lágreistu poppsamfélagi síðustu ára, þar sem holtaþokuvælið og lágkúran væru hafin til skýja, jafnvel verðlaunuð í auglýsingaskruminu og gasprandi pólitíkusar (og ýmsir aðrir) stynja í fjölmiðlum af undirgefni við kjaftfora, ósvífna nýkapítalista,“ eins og hann komst að orði.
Greinin birtist upphaflega í afmælisriti Morgunblaðsins í tilefni af 100 ára afmæli blaðsins í nóvember 2013.