„Eins og ást á milli karls og konu“

Hjarta dregið um höfuð

Séra Friðrik stuttu eftir vígslu aldamótaárið 1900. Myndina átti aðdáandi hans Sigurður Kristjánsson bóksali í Bankastræti.

Fjölmargar ljósmyndir prýða bók mína um séra Friðrik Friðriksson. Mér finnst þessi mynd sem sýnir hjarta dregið um höfuð hans einna skemmtilegust. Myndin mun hafa verið gerð sérstaklega um aldamótin 1900 fyrir Sigurð Kristjánsson, hinn kunna bóksala í Bankastræti. Hann var einhleypur, nokkru eldri en Friðrik, en mikill aðdáandi hans og studdi vel við starfsemi KFUM, m.a. með rausnarlegum bókagjöfum.

Í bókinni vitna ég í frásögn Sigurbjörns Þorkelssonar kaupmanns í versluninni Vísi. Sigurbjörn var mikill KFUM-maður. Séra Friðrik kemur eitt sinn sem oftar til tals á milli hans og Sigurðar bóksala:

Já þetta er maður mér að skapi. Skilið þér kveðju minni til hans, Bjössi, og segið þér honum að ég beri djúpa lotningu fyrir honum. Ég elska hann, já, það er meira en venjulegur kærleiki. Það er eins og ást á milli karls og konu.

Sigurbjörn segir að til áherslu þessum orðum hafi Sigurður nuddað höndum fast saman og strokið síðan hvað eftir annað með hægri hendi um enni sér, en það hafi verið vani hans er hann lagði mikla áherslu á það sem hann ræddi um.

Á heimili Sigurðar í Bankastræti bjó afgreiðslumaður hans í bókabúðinni Þorvaldur Guðmundsson, tólf árum yngri, einnig einhleypur. Þorvaldur var mjög virkur í KFUM um árabil og mikill vinur séra Friðriks. Ekki er vitað hvort nánara samband var á milli þeirra Sigurðar bóksala og Þorvaldar.

Previous
Previous

Hverjir voru „drengirnir hans séra Friðriks“?

Next
Next

Hverjir eru „merkir Íslendingar“?