Heldri manna höfuðbúnaður

Pípuhattur Jóns Sigurðssonar forseta.

Fram kom í fréttum í vikunni sem leið að hattur, sem var í eigu Napóleons Bonaparte Frakkakeisara (1769-1821), hafi selst á uppboði í Frakklandi fyrir tæpar tvær milljónir evra, um 315 milljónir íslenskra króna. Alltaf er talsverð eftirspurn eftir munum úr fórum frægðarfólks og birtast reglulega um það fréttir í fjölmiðlum.

Fréttin um hatt Napóleons kallaði strax fram í mínum huga spurningu um það hvort við Íslendingar hefðum varðveitt eitthvert eftirminnilegt höfuðfat íslensks höfðingja frá fyrri tíð. Ég mundi strax eftir pípuhatti Jóns Sigurðssonar forseta sem ég held að sé enn til sýnis í Þjóðminjasafninu. Myndin af hattinum sem hér birtist er úr gagnasafninu Sarpi og henni fylgja þau skýringarorð að Jón forseti hafi ævinlega gengið mjög vel til fara og átt vandaðan fatnað og borið sig eins og fyrirmanni sæmdi á hans tíð. Hatturinn hefur þó vafalaust ekki verið sérsaumaður fyrir Jón heldur keyptur í einhverri virðulegri herrafataverslun í Kaupmannahöfn.

Magnús Stephensen landshöfðingi í fullum embættisskrúða.

Höfðingjarnir sem fóru með æðstu stjórn innanlands í gamla daga, svo sem stiftamtmenn og landshöfðingjar, áttu skrúða sem heyrðu embættunum til og hafa þeir verið sérsaumaðir í Kaupmannahöfn. Yfirleitt fylgdu með glæsilegir fjaðurhattar eins og sjá má af myndum af síðasta landshöfðingjanum okkar, Magnúsi Stephensen (hér fyrir ofan), og fyrstu ráðherrunum, Hannesi Hafstein og Birni Jónsyni. Þessum einkennisfatnaði hefur verið ætlað að auka virðuleika og áhrifamátt embættismannanna. Alkunnur er sá veikleiki okkar almúgafólks að kikna svolítið í hjánum andspænis valdsmönnum í embættisbúningum.

Ég held að fjaðurhattarnir góðu hafi ekki varðveist, finn þá ekki í munaskrám safnanna, en þori þó ekki að fullyrða það. Kannski eru þeir á einhverju góðborgaraheimili.

Haukur, Ólafur og Ricard Thors.

Einhver frægasti höfuðbúnaður íslenskra fyrirmanna á öldinni sem leið var Thorsarahatturinn svonefndi, nokkurs konar einkennismerki Thorsbræðra (sona athafnamannsins Thors Jensen) sem alltaf voru sérstaklega vel til fara í klæðskerasaumuðum fötum eins og efnamönnum sæmdi. Hattarnir voru keyptir í einni fínustu herrafataversluninni á Englandi, Dunn & Co (sem því miður er hætt starfi) og nefndir Dunnshattar. Fjalla ég svolítið um þá í bók minni Thorsaranir. Ekki veit ég til þess að Thorsarahattur hafi varðveist, en ef svo er væri gaman að frétta af því. Auðvitað ætti Thorsarahattur heima á Þjóðminjasafninu! Myndin er af þremur Thorsbræðra, Ólafi, Ricard og Hauki, tekin í fjörunni við Skúlagötu snemma á öldinni sem leið.

Hér er svo loks skemmtileg ljósmynd af þremur prúðbúnum ungum mönnum á Ísafirði snemma á síðustu öld. Ekki þekki ég þá (sá með barðastóra hattinn er sagður vera Egill Sandholt) en myndin sýnir að fleiri en svokölluðum höfðingjum var annt um útlit sitt og gátu borið sig fyrirmannlega.

Fjórir ungir karlmenn á Ísafirði um 1918-1920.






Previous
Previous

Tvær gerólíkar hugmyndir um fornkappana