Tvær gerólíkar hugmyndir um fornkappana

Ingólfur landnámsmaður á Arnarhóli. Snyrtilegur piltur sem við getum öll verið hreykin af - eða þannig.

Á rölti um miðbæ Reykjavíkur má kynnast tveimur gerólíkum hugmyndum listamanna um fornkappana okkar.

Efst á Arnarhóli er Ingólfur okkar Arnarson (nú eða Björnólfsson, eftir því hvaða gerð Landnámu við trúum), landnámsmaðurinn góði, Hann er sannarlega glæsilegur á að líta: íklæddur hringabrynju, á höfði hans er stálhúfa og um mittið ber hann sverð. Á vinstri hönd styður hann sig við atgeir og á hægri hönd við skjöld sem stendur upp við öndvegisbrík með drekahöfði. Svona vildu menn hafa landnámsmennina og kappa sögualdar þegar Einar Jónsson myndhöggvari gerði líkneskið af Ingólfi fyrir hundrað árum eða svo. Þetta voru snyrtilegir piltar sem við gátum öll verið hreykin af.

Fornaldarmaðurinn, verk Sigurjóns Ólafssonar frá 1951. Nú heitir verkið Víkingurinn - nema hvað!

Svo breyttust viðhorfin til fornkappanna smám saman. Halldór Laxness tók af þeim mesta helgiljómann með Gerplu, þeirri frægu skopstælingu á Fóstbræðra sögu. En Halldór var ekki fyrstur íslenskra listamanna til að sýna 'frjálsræðishetjurnar góðu' í öðru ljósi en viðtekið var. Sigurjón Ólafsson myndhöggvari reið á vaðið með Fornaldarmanninum á Septembersýningunni í Listamannaskálanum árið 1951. Í samræmi við tíðarandann heitir verkið núna Víkingurinn. Það stendur fyrir utan hús Listasafns Íslands við Fríkirkjuveg. Ófrýnilegur er þessi karl og vígalegur. Æði er hann ólíkur Ingólfi Einars Jónssonar á Arnarhóli. Þótt aðeins sé um hálf öld á milli þeirra í tíma er gapið á milli hugmynda listamannanna um fornöld og fornaldarkappa Íslendinga miklu breiðara.











Previous
Previous

Ljósmyndatíska fyrir rúmum hundrað árum

Next
Next

Heldri manna höfuðbúnaður