Jón Trausti og listmálarinn Derselbe
Margar og ólíkar ástæður búa jafnan að baki þegar höfundar taka að birta skrif sín undir dulnefni. Stundum jafnvel einhver raunasaga. Svo var þegar Guðmundur Magnússon prentari (1873-1918) byrjaði að nota höfundarnafnið Jón Trausti árið 1906. Hér er sú saga rakin stuttlega.
Guðmundur var bláfátækur og óskólagenginn alþýðumaður, en haldinn djúpstæðri löngun til lestrar og skrifta. Sem unglingur „þótti hann latur til vinnu og kvernáms, en fúsari til fornsagna- og Ijóðalesturs,“ skrifaði Guðmundur G. Hagalín um hann látinn. Guðmundur lærði til prents, kannski í og með til að auka möguleika sína til ritstarfa. Árið 1893 fékk hann í fyrsta sinn birt ljóð eftir sig í blaði. Rétt fyrir aldamótin sendi hann frá sér lítið ljóðakver, Heima og erlendis. Kverið fékk misjafnar undirtektir en ýmsir urðu þó til að lofa hann fyrir framtakið. „Hann verður ekki talinn til ‚stóru spámannanna,‘ til stórskáldanna. En skáld er hann eigi að síður,“ mátti lesa í tímaritinu Nýju öldinni. Guðmundur hélt áfram að yrkja og semja sögur meðfram prentsmiðjustörfum og ýmsu öðru stússi, gaf 1903 út Íslandsvísur, myndskreyttar af Þórarni B. Þorlákssyni, og ljóðleikinn Teit ári seinna. Ekki fengu bækurnar uppörvandi móttökur ritdómara, hin síðar nefnda afleitar. Gerðu þessi skrif Guðmund mjög hnugginn, en svolitla uppreisn fékk hann þó þegar Alþingi veitti honum veglegan styrk til Evrópuferðar, mest fyrir forgöngu Hannesar Hafstein ráðherra sem virðist hafa séð eitthvert ljós, mörgum öðrum hulið, í ljóðum Guðmundar. Afrakstur ferðalagsins var smáritið Ferðaminningar frá Þýzkalandi, Sviss og Englandi árið 1905. Ritið var fróðlegt en hafði að geyma eina neyðarlega villu sem varð menntamönnum Reykjavíkur mikið aðhlátursefni. Guðmundur brást þó skjótt við og birti strax tilkynningu í blöðunum um mistök sín og lét skjóta miða með leiðréttingu inn í allt upplagið sem óselt var. En þarna virðist hann hafa komist að þeirri niðurstöðu að það væri persóna hans fremur en skáldskapurinn sem réði dómum gagnrýnenda blaðanna. Guðmundur Magnússon prentari fengi ekki sanngjarnar viðtökur fyrir skrif sín.
Og þá hugkvæmdist honum að skrifa framvegis undir dulnefni svo ritdómararnir hrokafullu hefðu ekkert nema skáldskapinn til að miða við. Birti hann snemma árs 1906 smásögu í Eimreiðinni undir nafninu Jón Trausti og um haustið sama ár bókina Höllu. Söguþáttur úr sveitalífinu. Og nú urðu alger umskipti í dómum. „Gleðileg nýjung,“ og „sýnir svo ótvíræðar gáfur, að ekki verður um villst,“ sagði til dæmis í Skírni, tímariti Bókmenntafélagsins. Guðmundur gladdist að vonum og vildi nú að allir fengju að vita hver Jón Trausti væri. Leyfði hann útgefanda sínum, Þorsteini Gíslasyni, að skýra frá því í tímaritinu Óðni vorið 1907. Höfundarnafnið hélt hann þó áfram að nota. Frá þessum tíma má rekja blómaskeið hans sem rithöfundar og kom hvert verkið á fætur öðru út næstu árin, allt þar til Guðmundur lést fyrir aldur fram í spænsku veikinni haustið 1918. Því var að vísu ekki svo farið að allir dómar um rit Jóns Trausta væru framvegis lof eitt, stundum fékk hann harkalega gagnrýni, en engu að síður höfðu þarna orðið umskipti sem um munaði.
En hver var villan óþægilega sem vakti þórðargleði reykvískra menntamanna 1905? Í einum kafla ferðaminninganna segir Guðmundur frá heimsókn á listasafn í Dresden í Þýskalandi:
Einna mest fanst mér þar um málverk eftir Kiesling, þýzkan mann, sem enn lifir og er frægur fyrir andlitsmyndir sínar. Einnig eru þar mörg málverk alltilkomumikil eftir norska og svenska listamenn. Af þeim málverkum, sem eg einna helzt man eftir, mætti nefna mynd af Napoleon I. í keisaraskrúða eftir baron Gérard Franzois, Kristur í musterinu, 12 ára, eftir Derselbe, frábærlega fögur unglingsmynd, og Ræningar eyðimerkurinnar eftir Eugen Friese ...
Leiðréttingin sem Guðmundur sendi blöðunum til birtingar stuttu eftir útkomu Ferðaminninganna 1905.
Ekki þurfti mikla málakunnáttu til að sjá að Derselbe („hinn sami“) gat trauðla verið nafn á listamanni eða mannsnafn yfirhöfuð. Verkið sem Guðmundur vísaði til, Der Jesusknabe im Tempel (sem hefð er að nefna á íslensku Kristur í musterinu) hafði þegar öðlast talsverða frægð, málað 1881, og listamaðurinn, Heinrich Hofmann (1824-1911), var víðkunnur og enn á lífi um þetta leyti í hárri elli. Vafalaust hafa tvö eða fleiri verk eftir Hofmann hangið hlið við hlið í listasafninu og því hefur þótt nægja að setja „Derselbe“ undir Krist í musterinu og það villt Guðmundi sýn, en hann var lítill málamaður sem eðlilegt er.
Málverkið Kristur í helgidóminum (Der Jesusknabe im Tempel) eftir Heinrich Hofmann (1881).
Þýðingarvillur hrökkva ekki aðeins úr pennum óskólagenginna alþýðumanna. Ýmsum gáfumönnum og tungumálagörpum hefur orðið hált á svellinu við þýðingar. Mætti mörg dæmi um það nefna. Viðeyjarbiblían svonefnda frá 1841, sem að hluta til var þýdd úr þýsku, er til dæmis stundum í gamni nefnd Jedoksbiblían vegna villu í texta Fyrri konungsbókar (9:24). Villan skrifast á reikning séra Árna Helgasonar (1777-1869) í Görðum, eins lærðasta guðfræðings landsins á þeim tíma. „Jedoch die Tochter des Faraos“ varð „Jedók, dóttir Faraós.“ Í nýrri þýðingum segir aftur á móti: „Þegar dóttir faraós hafði flutt frá borg Davíðs til húss síns...“ o.s.frv.