Lögreglunni sigað á slökkviliðið

Slökkvilið Reykjavíkur tilbúið í útkall.

Albert heitinn Guðmundsson (knattspyrnumaður, stórkaupmaður, þingmaður og ráðherra) var kannski ekki beint orðheppinn maður svona dags daglega. Þó er höfð eftir honum ansi skondin skilgreining á frjálshyggju (sem hann var ekki hrifinn af):

Frjálshyggja er það þegar lögreglunni er sigað á slökkviliðið.

Tilefni þessara orða var eftirfarandi: Vorið 1987 átti Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar í kjaradeilu við borgaryfiröld. Boðað var til fundar um kjarabaráttuna í Glæsibæ 15. apríl. Hugðust slökkviliðsmenn borgarinnar, sem tilheyrðu félaginu, sækja fundinn og fara á slökkviliðsbílunum svo þeir gætu brugðist við útkalli.

Þetta barst þáverandi borgarstjóra, Davíð Oddssyni, til eyrna. Hafði hann samband við lögregluna í Reykjavík, sem þá heyrði undir hann, og fyrirskipaði henni að fara tafaralaust í slökkvistöðina við Skógarhlíð og stöðva þetta athæfi. Lögleysa væri að nota vinnutækin í kjarabaráttu.

Þegar lögreglan mætti á vettvang hættu slökkviliðsmennirnir við að fara á fundinn, en gríðarleg óánægja var með þetta eins og fram kom á fundi þeirra með borgarstjóra nokkrum dögum seinna, 21. apríl, sem sagt er frá í úrklippunni úr Morgunblaðinu sem hér fylgir.

Davíð Oddsson borgarstjóri fór á fund slökkviliðsmanna til að reyna að læga öldurnar sem risu þegar hann sigaði lögreglunni á þá.

Albert Guðmundsson hafði um þetta leyti gengið úr Sjálfstæðisflokknum og stofnað Borgaraflokkinn. Hafði hann þá og reyndar fyrr mjög á hornum sér „nýfrjálshyggjuna“ sem honum fannst hafa eyðilagt Sjálfstæðisflokkinn. Davíð Oddson borgarstjóri var á þessum árum mjög skammaður fyrir að vera í liði með frjálshyggjumönnum í flokknum - að sumu leyti ranglega því hann var alltaf hefðbundinn valdapólitíkus. Á kosningafundi í Háskólabíói rétt eftir kjaradeiluna var Albert spurður hvernig hann skilgreindi frjálshyggju. Þá kom þetta snjalla svar sem fyrr var getið:

Frjálshyggja er það þegar lögreglunni er sigað á slökkvliðið.

       

 






















































Next
Next

Vindlar kenndir við þjóðskörunga