Vindlar kenndir við þjóðskörunga

„Bjarni frá Vogi“ hétu þessir hollensku vindlar, kenndir við Bjarna Jónsson alþingismann frá Vogi (1863-1926). 

Á þriðja áratug síðustu aldar voru hér á boðstólum tvær hollenskar vindlategundir sem nefndar voru í höfuðið á íslenskum stjórnmálaskörungum, Bjarna Jónssyni alþingismanni frá Vogi og Jóni Sigurðssyni forseta. „Bjarni frá Vogi“ kom á markaðinn í ársbyrjun 1926, þegar Bjarni var enn á lífi, en hann lést í júlí það ár. Jón Sigurðsson var hins vegar löngu horfinn á vit feðra sinna þegar vindlar kenndir við hann komu í sölubúðir í Reykjavík vorið 1926. Eftir að Tóbakseinkasala ríkisins, sem ein hafði leyfi til innflutnings á sígarettum, vindlum og neftóbaki, tók til starfa til starfa í ársbyrjun 1932 hurfu „Bjarni frá Vogi“ og „Jón Sigurðsson“ af vindlamarkaðnum. „Bjarni frá Vogi“ sneri þó aftur um tíma snemma á sjöunda áratugnum og var til sölu fram á níunda áratuginn. Muna vafalaust enn margir eftir því að hafa reykt þá vindla eða púað. Til „Jóns Sigurðssonar“ hefur aftur á móti ekkert spurst frekar og er ekki sjáanlegt að vindlakassarnir eða merkin á þeim hafi varðveist. „Bjarni frá Vogi“ er hins vegar til á mörgum söfnum.

„Alls ekki hégómi“

Ef marka má blaðaskrif tóku menn „Bjarna frá Vogi“ vel í upphafi. Sagði í Vísi 20. janúar 1926 að vindlar af þessu tagi væru „alls ekki leikur einn eða hégómi“ heldur væri það hvarvetna talið hin besta auglýsing fyrir hvert land „þegar útbreidd og góð vörutegund“ væri látin flytja mynd og merki mikilmenna þess. Væri Bjarni Jónsson frá Vogi

öðrum fremur kjörinn til að flytja með þessum hætti þekkingu á því sem íslenskt er út um veröldina.

Blaðið sá með öðrum orðum fyrir sér að vindlarnir færu á heimsmarkaðinn.

Bitbein í stjórnmáladeilum

Vindlavörumerkið „Jón Sigurðsson“ eins og það var kynnt í Lögbirtingablaðinu í júní 1926. 

Jóns forseta vindlarnir fengu ekki eins góðar undirtektir og urðu bitbein í stjórnmáladeilum við landskjör til Alþingis sumarið 1926.. „Þetta er hneykslanlegt,“ sagði Morgunblaðið þegar Vörumerkjaskrárritarinn í Reykjavík tilkynnti í Lögbirtingablaðinu í júní 1926 að vörumerkið „Jón Sigurðsson“ í eigu Tóbaksverslunar Íslands hefði hlotið skrásetningu fyrir „allskonar vindla og umbúðir um þá.“

        Tóbaksverslun þessi var einkafyrirtæki í eigu nokkurra áhrifamanna í Alþýðuflokknum og Framsóknarflokknum, m.a. Héðins Valdimarssonar og Magnúsar Kristjánssonar sem var forstjóri og hafði áður stýrt hinni ríkisreknu Landsverslun sem komið var á fót á árum heimsstyrjaldarinnar fyrri.

        Morgunblaðið hvatti kjósendur til að refsa vinstri flokkunum fyrir að gera Jón forseta að vörumerki fyrir vindla. Sagði blaðið:

Minning Jóns Sigurðssonar er þjóðinni svo hjartfólgin, að hún mun ekki líða neinum að óvirða hana.

        Íhaldsflokkurinn fékk glæsilega kosningu, um 40% atkvæða, í landskjörinu en ekki tókst að koma í veg fyrir að forstjóri Tóbaksverslunar Íslands, Magnús Kristjánsson, næði kjöri á þing fyrir Framsóknarflokkinn. Varð hann fjármálaráðherra nokkru síðar. Og eins og til að strá salti í sárin birti Tóbaksverslun Íslands stóra auglýsingu í Morgunblaðinu og lýsti „Jóni Sigurðssyni“ sem „þjóðlegasta vindlinum“ sem nú væri á boðstólum.

Virðuleg umgjörð

        Með tilkynningunni í Lögbirtingablaðinu var birt mynd af vörumerki Jóns Sigurðssonar vindlanna og útliti þess lýst nákvæmlega:

Ferhyrndur einkennismiði með bogadrengnum hornum. Ystu brúnir miðans eru hvítar, en þar innan við er gylt umgerð, en innan við hana standa efst á gulum grunni orðin: JÓN SIGURÐSSON, með svörtum bókstöfum, en undir nafninu er mynd af Jóni Sigurðssyni forseta, í hvítum og dökkum litum. Um myndina er upphleypt, gylt umgerð, en yfir henni liggja gyltar lárviðargreinar sín hvoru megin, tengdar saman með gyltum borða. Efst í umgerðinni er gylt stjarna á gulum grunni innan í gyltum hring.

        Vindlarnir sem kenndir voru við Bjarna Jónsson (1863-1926) munu ekki hafa verið skráðir sem vörumerki. Á vindlakassanum var mynd af Bjarna innan í íslenska fánanum og skjaldarmerki Íslands fyrir ofan. Þessu var seinna breytt þegar lög voru sett um fánann og skjaldarmerkið.

        Sonur Bjarna sagði í blaðaviðtali fyrir allmörgum árum (Tíminn 20. október 1963) að svonefndir Brautarholtsbræður, Eyjólfur, Guðmundur og Sigurður Jóhannssynir, sem ráku tóbaksverslun í Austurstræti 12 snemma á síðustu öld, hefðu haft forgöngu um að láta framleiða og selja vindlana. Hefur það vafalaust verið gert í virðingar- og vináttuskyni við Bjarna sem var þekktur fyrir vindlareykingar sínar.

       

 






















































Previous
Previous

Lögreglunni sigað á slökkviliðið

Next
Next

Af gamalli mynd