„Frá honum er engi saga gerð.”

Utanþingsstjórnin

Utanþingsstjórnin á fundi með Sveini Björnssyni ríkisstjóra. Stjórnin sat frá 1942 til 1944.

Fyrir nokkrum árum voru dagbækur Björns Þórðarsonar, forsætisráðherra utanþingsstjórnarinnar 1942 til 1944, afhentar Borgarskjalasafni ásamt fjölda annarra skjala úr fórum Björns. Dagbækurnar varpa ljósi á baksvið íslenskra stjórnmála í aðdraganda lýðveldisstofnunar. Þær eru einnig góð heimild um persónu Björns, vinnubrögð hans og viðhorf. Þá draga dagbækurnar upp forvitnilegar myndir af þremur samráðherrum hans, Birni Ólafssyni, Einari Arnórssyni og Vilhjálmi Þór, og ríkisstjóranum og síðar forsetanum, Sveini Björnssyni. Ég birti grein um dagbækurnar í Vísbendingu  (jólahefti 2014) og einnig ritaði ég kafla um Björn í bókina Forsætisráðherrar Íslands (2004). 

Óvenjulegar aðstæður

Afar óvenjulegar aðstæður ríktu á Íslandi þegar utanþingsstjórnin svonefnda tók við völdum um miðjan desember árið 1942. Heimsstyrjöld geisaði og landið var hersetið af Bretum og Bandaríkjamönnum. Sambandið við Danmörku hafði rofnað þegar Þjóðverjar hernámu landið vorið 1940. Alþingi tók þá konungsvaldið í eigin hendur um skeið en stofnaði ári síðar til nýs embættis handhafa konungsvalds, ríkisstjóra. Kaus þingið Svein Björnsson, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, til að gegna embættinu.

Íslendingar höfðu búið við þröngan hag og stöðnun í atvinnulífi frá því að heimskreppan skall á 1930. Vegna hernámsins og styrjaldarástandsins gerbreyttust aðstæður landsmanna. Í stað atvinnuleysis urðu næg störf í boði fyrir allar vinnufúsar hendur vegna mikilla framkvæmda og þarfar hermannanna fyrir margs konar þjónustu. Mikil hækkun og örugg sala á útflutningsvörum, ekki síst fiski, leiddi til fjárstreymis til landsins. Kaupmáttur almennings stórjókst en vegna vöruskorts og innflutningstakmarkana hækkaði verðlag ört. Það hafði aftur í för með sér stöðuga ókyrrð, vinnudeilur og verkföll með víxlhækkun kaupgjalds og verðlags. Var verðbólgan á stríðsárunum á bilinu 25 til 30 prósent. Glíman við „dýrtíðina“, sem svo var kölluð, var stærsta og erfiðasta verkefnið í innanlandsmálum á þessum árum.

Í stríðsbyrjun 1939 var mynduð „þjóðstjórn“, ríkisstjórn þriggja stærstu flokkanna á Alþingi, Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins. Utan stjórnar var minnsti þingflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn. Meðal stjórnarflokkanna voru skiptar skoðanir um viðbrögð við dýrtíðarvandanum. Í ársbyrjun 1942 sáu framsóknarmenn og sjálfstæðismenn ekki aðra lausn en að setja lög sem bönnuðu tímabundið samningsrétt launþega og lögðu ákvarðanir um kaupgjald og verðlag í gerðardóm. Þetta varð til þess að ráðherra Alþýðuflokksins, flokksformaðurinn Stefán Jóhann Stefánsson, sagði sig úr stjórninni.

Um vorið samþykkti Alþingi breytingar á kjördæmaskipaninni sem verið hafði afar hagstæð Framsóknarflokknum en ranglát gagnvart öðrum flokkum. Framsóknarmenn töldu að stuðningur Sjálfstæðisflokksins við málið væri svik við fyrirheit sem formaður flokksins, Ólafur Thors, hefði gefið Hermanni Jónassyni forsætisráðherra, formanni Framsóknarflokksins. Hann hefði lofað að látið kjördæmamálið liggja kyrrt meðan flokkarnir væru í samstarfi. Kölluðu framsóknarmenn þetta „eiðrof“ og slitu stjórnarsamstarfinu. Í framhaldinu myndaði Ólafur Thors minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins. Vegna kjördæmabreytinganna fóru fram tvennar þingkosningar þetta ár, í júlí og október, en hvorugar leiddu til þess að þingflokkarnir kæmu sér saman um starfhæfa meirihlutastjórn. Átti „eiðrofið“ stóran þátt í því að eitra andrúmsloftið á milli stærstu flokkanna. Sat minnihlutastjórnin því áfram og þreifingar voru í gangi um að mynda stjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins með Sósíalistaflokknum sem aldrei hafði áður verið talinn stjórntækur vegna róttækrar stefnu sinnar og tengsla við stjórnvöld í Sovétríkjunum.

Um miðjan desember 1942 þegar tilraunir til að mynda meirihlutastjórn höfðu staðið yfir í nokkrar vikur án árangurs ákvað Sveinn Björnsson að skipa ríkisstjórn utanþingsmanna eins og stjórnarskráin heimilaði við slíkar aðstæður. Þetta vakti reiði og gremju meðal margra þingmanna. Sérstaklega voru sjálfstæðismenn ósáttir. Töldu þeir að ríkisstjóri hefði átt að gefa þeim lengri tíma til að ljúka stjórnarmyndun.

Deilt um ráðherraval

Dagbækur Björns Þórðarsonar hefjast 11. desember, daginn sem Sveinn Björnsson hringir í hann og biður hann að finna sig á heimili Borgarhildar mágkonu sinnar á Sóleyjargötu í Reykjavík til að ræða myndun ríkisstjórnar. Sveinn kaus þennan stað fyrir fundinn augljóslega til þess að ekkert spyrðist út um fyrirætlanir hans.  Björn, sem ætíð var mjög sögulega þenkjandi, hefur strax áttað sig á þýðingu þess sem var að gerast. Ekki er að sjá að hann hafi haldið reglulegar dagbækur áður, en þarna hófust dagbókarfærslur sem stóðu allt þar til honum var honum var veitt lausn frá embætti síðla árs 1944.

Fyrstu dagbókarfærslurnar birta nokkuð aðra mynd af stjórnarmynduninni en áður var kunnug. Kemur fram að litlu munaði að Björn hafnaði forsætisráðherraembættinu vegna óánægju með að Sveinn Björnsson ætlaðist til að  á samráðherrar yrðu aðeins tveir sem hann hafði þegar valið, Vilhjálmur Þór bankastjóri Landsbankans og fyrrum kaupfélagsstjóri á Akureyri, og kaupsýslumaðurinn Björn Ólafsson. Vilhjálmur var framsóknarmaður en Björn sjálfstæðismaður. Björn Þórðarson segist í dagbókinni hafa talið þetta „áhættuspil.“ Hann hafi nánast ekkert þekkt Vilhjálm og nafna sinn, en vissi „sérstaklega af orðspori, að Vilhjálmur Þór er mikill fyrir sér.“ Það er líklega milt orðalag yfir frekju og stjórnsemi. „Ég taldi báða þessa menn hægri menn og æfða kaupsýslumenn, sem myndu standa saman gegn mér, er á reyndi. Vildi ég fá tvo menn í viðbót og nefndi Einar Arnórsson og svo einhvern sem stæði nærri Alþýðuflokknum.“

Daginn eftir, 12. desember, greindi Sveinn Birni frá því að Vilhjálmur og Björn væru tilbúnir til þátttöku í stjórn undir forsæti hans, en vildu ekki hafa nema þrjá ráðherra. Á þetta kveðst Björn hafa fallist. Hann hafi hins vegar fengið bakþanka morguninn eftir, 13. desember. Þá hafi hann farið á fund Einars Arnórssonar prófessors og spurt hvort hann væri fáanlegur til að tæki sæti í stjórninni. Féllst Einar á það með því skilyrði að það yrði strax en ekki síðar. Það var svo á leið til Bessastaða í bifreið Vilhjálms Þórs síðdegis sama dag að Björn greindi Vilhjálmi og Birni Ólafssyni frá því að það væri skilyrði af hans hálfu að Einar kæmi þegar í stjórnina. „Vilhjálmur tekur þessu strax þunglega,“ skrifar Björn, en kveður nafna sitt fátt hafa lagt til. Þegar þeir komu á fund ríkisstjóra var farið að deila um málið fram og aftur. „Vilhjálmur hafði mjög mikið animosetet [andúð] gegn Einari Arnórssyni. Höfðu J[ónas] J[ónsson frá Hriflu] og Framsóknarásakanir og illyrði um Einar augsýnilega fest rætur hjá honum,“ skrifar Björn. Björn kveðst hafa sagt að í þessari stjórn ætti hann að heita forsætisráðherra, en í fyrsta sinn sem á það reyndi að hann réði einhverju, ætti að koma í veg fyrir það. Kveðst hann hafa sagt að hann „vildi ekki ganga í ráðuneyti, þar sem sýnt væri frá upphafi, að ég væri í minnihluta.“ Þófið á Bessastöðum hafi tekið þrjá til fjóra klukkutíma og „útlit var fyrir að allt færi út um þúfur um þessa stjórnarmyndun.“

Að lokum var fallist á kröfu Björns Þórðarsonar um að Einar Arnórsson kæmi í stjórnina gegn því að Björn gæfi Vilhjálmi Þór loforð um að hann skyldi ábyrgjast að Einar sýndi honum og ráðuneytinu fulla einlægni og sjálfur yrði hann ekki neinn undirhyggjumaður. Þá fengu Vilhjálmur og Björn Ólafsson því framgengt að fimmti ráðherrann yrði skipaður síðar og mættu þeir sjálfir velja hann. Fyrir valinu varð Jóhann Sæmundsson læknir.

Utanþingsstjórnin tók formlega við völdum 16. desember 1942. Auk embættis forsætisráðherra fór Björn Þórðarson með heilbrigðis- og kirkjumál í stjórninni. Vilhjálmur varð utanríkis-og atvinnumálaráðherra, Björn Ólafsson fjármálaráðherra og Einar dómsmála- og menntamálaráðherra. Þegar Jóhann bættist í hópinn 22. desember tók hann við félagsmálaráðuneytinu.

 „Hinir nýju vinir mínir“

Afstaða Björns Þórðarsonar til samráðherra hans breyttist smám saman þegar reynsla komst á samstarf þeirra. Mennirnir sem hann hafði efasemdir um í upphafi, Björn Ólafsson og Vilhjálmur Þór, urðu traustustu bandamenn hans í stjórninni. Vík varð hins vegar á milli hans og Einars Arnórssonar á seinni hluta stjórnartímans. „Hinir nýju vinir mínir og samverkamenn,“ skrifar hann um Björn og Vilhjálm, þegar hann horfir til baka á gamlársdag 1943, „sem báðir eru afburðasnjallir menn en þó næsta ólíkir að skapgerð, hafa reynst mér hinir mestu drengskaparmenn.“ Ekki orð um Einar við þetta tækifæri.

Í dagbókunum kemur fram að Björn dáist sérstaklega að vitsmunum og klókindum Vilhjálms („er góður, eins og alltaf,“ skrifar hann 2. mars 1944) og hann nær sérstöku persónulegu sambandi við Björn Ólafsson og fjölskyldu hans, er heillaður af „hans ágætu frú“ sem hann nefnir jafnan svo. Þegar deilt er um vöruinnflutning 1943 lætur Björn nafna sinn Ólafsson, kaupsýslumanninn, og Vilhjálm, fyrrum kaupfélagsstjóra, gera út um það sín á milli hvernig kvótinn skiptist á milli verslunarstéttarinnar og samvinnuhreyfingarinnar.

Björn Þórðarson og Einar Arnórsson fjarlægðust hvor annan þegar lýðveldismálið kemst af alvöru á dagskrá. Björn trúir dagbókinni til dæmis fyrir því að Einar vinni á móti sér í stjórnarskrármálinu vorið 1944 og síðsumars sama ár er ekki laust við að gæti afbrýðisemi þegar hann nefnir þann möguleika að Einar verði hugsanlega forsætisráðherra í fjögurra flokka þingræðisstjórn. Þá veldur það úlfúð á milli þeirra að Morgunblaðið þakkar Einari sérstaklega fyrir að hafa snúið ríkisstjórninni á braut þingviljans í lýðveldismálinu. Það segir Björn að sé alls ekki rétt og vill að Einar leiðrétti blaðið. Það gerir hann ekki heldur veitir ritstjóranum, Valtý Stefánssyni, „vegtyllu“, eins og Björn orðar það í dagbókinni; skipar hann í nefnd vegna nýbyggingar Þjóðminjasafnsins. Hann skrifar að Björn Ólafsson og Vilhjálmur Þór telji þetta sýna að Einar sé „ekki loyal“ og virðist forsætisráðherra sama sinnis. Hann segir að ráðherrarnir hafi báðir í heitingum um að skipti þeirra við Einar verði framvegis ekki greið.

Að sama skapi er áhugavert að lesa um það mat Björns að Jóhann Sæmundsson, sem Björn Ólafsson og Vilhjálmur fengu í stjórnina til mótvægis við Einar, hafi ekki aðeins sagt af sér ráðherraembætti vorið 1943 vegna óánægju með afgreiðslu Alþingis á dýrtíðarfrumvarpi stjórnarinnar heldur vegna andstöðu „í hugfari við Vilhjálm  Þór og Björn Ólafsson,“ eins og hann skrifar 10. apríl 1943.

 „Skammir – spillt vinnutíma“

 „Þingið tók stjórninni með þögn og ekki óvinsamlega,“ skrifar Björn um fyrsta dag sinn á Alþingi, 16. desember 1943.  Hann flutti stefnuræðu stjórnarinnar. „Mér var mikið niðri fyrir og átti bágt með að verjast vissum veikleika, sem sækir að mér þegar eitthvað tekur meira en í meðallagi á tilfinningarnar.“

Um starfshætti þingsins þennan fyrsta dag skrifar hann: „Ég sat síðan fundi Neðri deildar og voru umræðurnar fólgnar einungis í flokkslegum hnútuköstum og hnýfilyrðum.“ Álit hans á þinginu átti ekki eftir að vaxa. 4. janúar 1943 skrifar hann: „Þingfundur í sameinuðu Alþingi. Skammir – spillt vinnutíma – niðurdrep.“ Eftir að hafa hlýtt á forystumenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins karpa haustið 1943 skrifar hann: „Sat undir óhugnanlegum umræðum. Ólafur Thors og Eysteinn Jónsson ræddu í tvær stundir um drengskapar- og eiðrof Ólafs. Það getur hver trúað því sem honum sýnist í þessu máli. ... Það sannast æ sem líður, að þingið fær engu afkastað af ærlegu verki.“

Kuldi þingmanna í garð utanþingsstjórnarinnar hefur ekki verið uppörvandi. „Það er hin þögla mótstaða og baktjaldamótstaðan, sem stjórnin á við að etja,“ skrifar Björn 25. nóvember 1943.

Í fyrstu virtist þó sem stjórnin mundi ná árangri. Frumvarp hennar um nýja stofnun, Viðskiptaráð, til að hafa með höndum stjórn innflutnings, verðlags og gjaldeyrismála, var samþykkt í þinginu í upphafi árs 1943. En dýrtíðarfrumvarpið sem stjórnin lagði fram í febrúar sama ár, mikilvægasta mál hennar, fékk ekki góðar móttökur. Eftir að hafa verið í tvo mánuði til afgreiðslu i þingnefnd kom það gerbreytt til baka. Stefán Jóhann Stefánsson skrifar í endurminningum sínum: „Hverri einustu grein var breytt og sumu algjörlega umturnað.“ Það er til marks um andrúmsloftið að Stefán hefur eftir öðrum alþingismanni: „Nú þurfum við nauðsynlega að breyta fyrirsögn frumvarpsins, svo að ekki standi stafur eftir af því óbreyttu.“ Með þessu varð utanþingsstjórnin fyrir niðurlægingu sem erfitt var að sitja undir. En þótt þingmenn hefðu lokaorð um löggjöfina gátu þeir enn ekki myndað meirihlutastjórn. Björn Þórðarson sagði í þingræðu að hann hefði kosið að aðrir tækju nú við, en stjórnin myndi sitja áfram þar sem aðrir möguleikar væru ekki fyrir hendi.

 Lýðveldismálið

Dýrtíðarlögin vorið 1943 héldu framfærslukostnaði niðri og hægðu þannig á verðbólgunni. Þau breyttu hins vegar engu um hinn raunverulega efnahagsvanda sem fólst í eyðslunni í þjóðfélaginu, háu kaupgjaldi og óraunhæfu gengi. Stjórnin fékk þó starfsfrið til að sinna öðrum málum. Stærsta málið sem nú varð aðkallandi að finna lausn á var framhald sambandsins við Danmörku. Vorið 1941, þegar ríkisstjóraembættið var stofnað, hafði Alþingi ályktað að Íslendingar hefðu rétt til að slíta sambandinu og að því yrði ekki frestað lengur en til styrjaldarloka. Einnig lýsti Alþingi yfir þeim vilja sínum að Íslandi yrði lýðveldi þegar sambandinu við Danmörku lyki. Skiptar skoðanir voru hins vegar innan þings sem utan um það hvernig ætti að standa að skilnaði landanna og hvenær ætti að stofna lýðveldið. Ljóst var að afstaða Breta og Bandaríkjamanna mundi ráða miklu um þá framvindu.

Björn Þórðarson var í hópi þeirra sem vildu fara hægt í sakirnar í þessu máli. Sama sinnis var Sveinn Björnsson ríkisstjóri. Líklega átti það sinn þátt í að hann valdi Björn til að stýra utanþingsstjórninni. Í ágúst 1942 hafði Björn verið í hópi sextíu þjóðkunnra manna úr öllum flokkum, hinna svokölluðu lögskilnaðarmanna, sem skoruðu á Alþingi að kveða ekki á um framtíðarstjórnskipan íslenska ríkisins meðan Danmörk væri hersetin. Afstaða Björns kom enn skýrar í ljós í ávarpi sem hann flutti í Útvarpinu á fullveldisdaginn þetta sama ár. „Sjálfstæðið höfum vér öðlast á grundvelli laga og réttar, og því aðeins getum vér orðið hlutgengur aðili í samfélagi þjóðanna, að enginn skuggi falli á mannorð vort í því efni, þar megum við aldrei tefla á tæpasta vaðið,“ sagði hann.

Vorið 1943 skilaði nefnd sem skipuð var fulltrúum allra flokka, svokölluð lýðveldisnefnd, tillögu að nýrri stjórnarskrá, þar sem lagt var til að lýðveldið yrði stofnað 17. júní 1944. Dagbókarfærslur Björns sýna að honum fannst of mikill hraði á málinu. Á fund hans koma stjórnmálaforingjar sem opinberlega eru sammála lýðveldisnefndinni en eru samt þeirrar skoðunar að of geyst sé farið. 9. júní 1943 skrifar Björn að Stefán Jóhann Stefánsson, formaður Alþýðuflokksins, hafi komið á sinn fund og vilji fresta málinu með einhverju móti. „Ef til vill mætti samþykkja lýðveldisstjórnarskrá og láta svo þjóðaratkvæðagreiðslu dragast.“ Björn bætir við: „Hermann Jónasson talaði líka við mig og virtist sama sinnis og Stefán Jóhann Stefánsson þótt ekki segði hann neitt um aðferðir.“

Ýmsir menn utanþings koma einnig á fund Björns næstu vikurnar til að lýsa andstöðu við tímasetningu lýðveldisnefndar. „Þorsteinn Briem kom og virtist ekki fylgjandi bægslaganginum í lýðveldismálunum,“ skrifar hann 1. júlí. Hinn 9. júlí koma til hans „privat“ Gylfi Þ. Gíslason, Klemens Tryggvason og Ólafur Björnsson og segjast hafa í hyggju „að halda áfram skilnaðarmálinu frá því í fyrra.“  Þar er greinilega átt við ávarp 60 menninganna um að fresta lýðveldisstofnun fram yfir stríðslok. Björn segir þeim að hann muni verða alveg óvirkur í málinu utan síns embættis.

Fram kemur í dagbókunum að Björn er mjög hugsi yfir því hvernig stjórnin eigi að snúa sér í lýðveldismálinu. Hann ræðir málið oft við Sveinn Björnsson og þeir velta meðal annars fyrir sér möguleikum á að fá fram viðhorf Dana, t.d. með viðræðum í hlutlausu landi, og ekki síður Breta, en óljóst var á þessum tíma hver afstaða þeirra var til lýðveldisstofnunar fyrir stríðslok. Björn skrifar 28. júlí að það sé sannfæring sín að Bretar viðurkenni ekki lýðveldisstofnunina „nema sambandslagasamningnum sé fullnægt, eða fyrr en í ófriðarlok, hvað sem U.S.A, kann að gera.“

Áfram halda menn að koma á fund Björns til að lýsa andstöðu við tillögur lýðveldisnefndarinnar og forystumanna Sjálfstæðisflokksins, Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar, sem ákveðnast höfðu talað fyrir stofnun lýðveldis 1944 og raunar verið hlynntir því að lýðveldi yrði stofnað þegar árið 1942. „Sr. Bjarni [Jónsson Dómkirkjuprestur] segist hafa forskrifað sig gegn vilja sjálfstæðisbroddanna,“ skrifar Björn 17. ágúst. Í lok september kemur Árni Pálsson prófessor á fund Björns og kveðst telja Ólaf Thors „haga sér óhyggilega og léti um of leiðast af höfuðráðunaut sínum Bjarna Benediktssyni.“

Hinn 14. október 1943 kemur Gísli Sveinsson, formaður lýðveldisnefndarinnar, til Björns og vill vita hvað ríkisstjórnin ætli að gera við stjórnarskrárfrumvarp nefndarinnar. „Við töluðum saman í trúnaði og ég sagði honum hreint og beint mína meiningu um sum atriði,“ skrifar Björn. „Ég sagði honum að ég hefði animosetet [andúð] gegn því að fastbinda gildistökuna við 17. júní. Enn fremur hefði ég mikinn beyg af aðvörun frá Bretum, ef þeim finndist ekki að öllu löglega farið, því að þeir vildu hvergi gera konungdómi, ,the royalti‘  miska.“ Eftir fundinn með Gísla ráðfærir Björn sig við Einar Arnórsson. „Einar mun vera á því, að við gerum lýðveldismálið ekki að fráfarasök þótt svo kunni að fara, að okkur líki ekki alveg aðferðin,“ skrifar hann 15. október.

Björn fær nokkrum dögum síðar fréttir af því að á Alþingi séu ákveðnustu stuðningsmenn tillögu lýðveldisnefndar þeirrar skoðunar að ekki gangi að hafa ríkisstjórn við völd sem ekki fylgi tillögunni af áhuga. „Kemur hér fram, sem vitað er, að ‚sjálfstæðis og lýðveldishetjunum‘ er ekki ljúft ef svo skyldi takast til, að núverandi stjórn ætti það eftir, að framkvæma samþykktir Alþingis í þessum efnum og fá ef til vill nafnið ‚lýðveldisstjórn‘,“ skrifar Björn.

Á ríkisstjórnarfundi 22. október vekur Vilhjálmur Þór máls á því hvort stjórnin ætti að ekki að fara að hugsa sér að taka opinberlega afstöðu í lýðveldismálinu. Og fáum dögum seinna kemst það mál á hreyfingu þegar Hermann Jónasson kemur á fund með ráðherrum ríkisstjórnarinnar og segist hafa vitneskju um ráðabrugg sjálfstæðismanna og sósíalista að gera þingsamþykkt um lýðveldismálið og láta Alþýðuflokkinn vera utan gátta. „Framsókn vill ekki taka þátt í útilokun Alþýðuflokksins,“ hefur Björn eftir Hermanni. Á ríkisstjórnarfundi daginn eftir eru ráðherrarnir sammála um að „eitthvað yrði að gera út af bruggi S. + S. Manna [sjálfstæðismanna og sósíalista],“ skrifar Björn.  Daginn eftir fæðist sú tillaga að ríkisstjórnin muni gera grein fyrir því á fundi í sameinuðu Alþingi að hún muni fylgja fram þeim ákvörðunum Alþingis í sambands- og lýðveldismálinu sem þingið telji heppilegast. Tillagan er kynnt Sveini Björnssyni á ríkisráðsfundi 29. október „og gerði hann engar athugasemdir en hann var aldrei að því spurður hvort hann féllist á yfirlýsinguna.“

Mánudaginn 1. nóvember flytur Björn yfirlýsinguna á Alþingi. „Seinna á fundi ruddist Bjarni Benediktsson að mér í þingsalnum og þakkaði mér fyrir ræðuna og óskaði mér til hamingju. Ég held að hann hafi meint það,“ skrifar Björn.

Yfirlýsing forsætisráðherra þótti sæta tíðindum. „Ríkisstjórnin er fylgjandi stofnun lýðveldisins,“ sagði Morgunblaðið í fyrirsögn yfir þvera forsíðu daginn eftir.

En ekki voru allir jafn glaðir. „Alþýðuflokksmenn eru í öngum sínum,“ skrifar Björn og hefur eftir Jóni Blöndal, áhrifamanni í flokknum, að hann hafi verið stunginn í bakið. „Það er ekki rétt, en skiljanlegt að honum sárni. En Alþýðuflokksmenn hafa tapað sínu máli og mega líklega vera mér og stjórninni þakklátir.“  Björn trúir dagbókinni fyrir því að hann telji sig hafa tekið rétta ákvörðun, „því að sannarlega hefði það verið óútreiknanlegur óskundi ef hinar sögðu ráðagerðir S.+ S. manna hefðu komist til framkvæmda.“

Gamlir samherjar Björns Þórðarsonar eru fullir vonbrigða. „Árni frá Múla ræðst harkalega og lítilsvirðandi á mig í blaðinu sínu Ísland. Bregður mér um ‚hringsnúning‘ í sambandsmálinu frá 1. desember 1942.“ Björn telur þetta ranga ásökun: „Ár er liðið síðan þá, og uppsagnarfrestur sambandslaganna verður væntanlega á enda áður en lýðveldisstofnun fer fram. Málið er á réttri leið nú, en var á rangri leið sumarið og haustið 1942.“

 Ríkisstjóri vill þjóðfund

Ætla hefði mátt að lýðveldismálið væri komið á beina braut eftir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. En í ársbyrjun 1944 þegar verið var að ganga frá stjórnarskrárfrumvarpinu til flutnings á Alþingi kallaði Sveinn Björnsson ríkisstjóri á Björn Þórðarson og afhenti honum „skrif nokkurt, er hann hafði tekið saman varðandi þjóðfund vegna sambands- og lýðveldismálsins,“  eins og segir í dagbókinni. Sveinn vildi  að með lögum yrði stofnað til sérstaks þjóðfundar sem Alþingi fæli að taka ákvörðun um framhald sambandsins við Danmörku og nýja stjórnarskrá. Þar gæti rödd þjóðarinnar í þessum málum, frjáls og óbundin stjórnmálaflokkunum, fengið að heyrast.

Þegar Björn hafði kynnt sér hugmyndina hittust þeir að nýju. „Sagði ég honum, að ég væri ekki sammála honum í meginatriðum, enda kæmu þau í bága við yfirlýsingu stjórnarinnar frá 1. nóvember og Alþingi mundi ekki vilja aðhyllast þessa aðferð. Féllst hann á það og kom okkur saman um, að málið skyldi vera úr söginni,“ skrifar Björn 5. janúar.

Á ríkisráðsfundi 12. janúar leitaði forsætisráðherra eftir samþykki fyrir því að  stjórnarskrárfrumvarpið yrði lagt fyrir Alþingi og jafnframt þingsályktunartillaga um að sambandslögin frá 1918 væru fallin úr gildi. „Ríkisstjóri konungsríkisins sagði ekki neitt, en samþykkti tillögu forsætisráðherra um að mál þessi skuli lögð fyrir Alþingi,“ skrifar Björn.

Sveinn hefur hugsað sitt. Að loknum ríkisráðsfundi hálfum mánuði seinna biður hann Björn að staldra við hjá sér eitt augnablik. „Ég vil segja þér einum frá ákvörðun, sem ég hefi tekið. Ég ætla að senda Alþingi á eigin spýtur bréf varðandi þjóðfund,“ hefur Björn eftir honum. „Ég varð hvumsa við, því vikið hafði verið að málinu áður og ég hélt að það væri úr sögunni. Ég sagði honum að þetta kynni að draga dilk á eftir sér fyrst og fremst fyrir hann og ef til vill fyrir mig, sem líklega yrði bendlaður við tiltækið. Kvaðst ég vera þessu mótfallinn. Hann sagði: ‚Ég er ekki að bera þetta undir þig til ráðuneytis. Ég tilkynni þér bara þetta sem óraskanlegt áform mitt og sendi ég bréfið, sem nú er hreinritað, í dag.“

Björn greindi samráðherrum sínum frá ákvörðun Sveins Björnssonar. „Þeir undruðust aðferð hans og töluðum við um hvatir hans til þessa. Komu þar ýmsar getgátur fram. Ég sagði, að vera mætti að hann gerði þetta til varnar sér út á við ef til þyrfti að taka og ef til vill til þess að draga málið dálítið á langinn.“

Í lýðveldisnefndinni vöktu fréttirnar um bréf ríkisstjóra mikla óánægju. „Virtist þeim ríkisstjóri ekki hegða sér constitutonelt gagnvart Alþingi og ekki loyalt gagnvart stjórninni. Það væri og ekki að gildandi lögum heimilt að ráða lýðveldismálinu til lykta með þjóðfundi. Með tillögunni væri stofnað til ágreinings milli Alþingis og ríkisstjóra.“

Einar Arnórsson og Björn Ólafsson vildu að Björn Þórðarson reyndi að fá Svein Björnsson til að afturkalla bréfið og opinbera birtingu þess.  Það gerði hann en án árangurs. Fram kemur í dagbókunum að Einar Arnórsson taldi koma til greina að ríkisstjórnin segði af sér vegna framkomu ríkisstjóra. Enn var forsætisráðherra sendur til Bessastaða, en Sveinn Björnsson sat fastur við sinn keip og hafnaði því með öllu að hann væri að reka pólitík á bak við stjórnina. „Þetta væri aðeins uppástunga, sem hann óskaði að þingnefndir athuguðu. Hans  sannfæring væri að ályktanir þjóðfundar hefðu sterkara gildi út á við í þessu máli en ályktanir Alþingis.“

Lyktir málsins urðu þó þær að tillagan fékk ekki ekki hljómgrunn meðal þingmanna og var hafnað í formlegu bréfi lýðveldisnefndarinnar til ríkisstjóra.

Óvissa um forsetakjör

Þjóðfundarhugmyndin bakaði Sveini Björnssyni óvinsældir meðal margra alþingismanna. „Jónas Jónsson [frá Hriflu] talaði nokkur orð við mig og kom gos frá honum mjög óþvegið í garð Sveins Björnssonar og kvaðst hann mundu koma því á framfæri síðar. Hann hefði með bréfinu gert sig óhæfan í pólitík. Spænskar mútur o.fl. á fyrri árum væri ekkert í samjöfnuði við þetta,“ skrifar Björn í dagbókina 9. febrúar 1944.

Og nú leið að því að kveða þurfti upp úr um það hver yrði kjörinn fyrsti forseti hins nýja íslenska lýðveldis á þingfundinum á Þingvöllum 17. júní. Í dagbókunum kemur fram að umræður um þetta eru hafnar á milli ráðherra í utanþingsstjórninni um miðjan mars. Björn kveðst þá telja að Sveinn Björnsson verði fyrir valinu. En ýmsir fleiri eru nefndir og Björn hefur sjálfur verið spurður að því hvort hann sé inni í myndinni.

Fram kemur í dagbókarfærslu 21. mars að Sveinn Björnsson kallaði Björn á sinn fund þann dag og vildi vita hvort hann yrði valinn forseti. Niðurstöðu kvaðst hann þurfa að fá fyrir 17. apríl. Ella yrði hann að fara að undirbúa brottflutning frá Bessastöðum. „Það væri óhugnanlegt að fá ekki að vita vissu sína um hvað verða ætti.“

En það átti eftir að dragast að Sveinn fengi skýr svör frá öllum þingflokkunum. Það verður þó fljótlega ljóst að meirihluti þingmanna er reiðubúinn að kjósa hann forseta. En bréfið um þjóðfundinn  og líklega einnig óánægja með skipan utanþingsstjórnarinnar veldur því að hópur þingmanna, þar á meðal forystumenn Sjálfstæðisflokksins, getur ekki hugsað sér að gera Svein að forseta. Í dagbókunum kemur skýrt fram hve gramur og óþolinmóður Sveinn Björnsson var vegna óvissunnar í málinu. Björn Þórðarson var ekki heldur sáttur við það hvernig foringjar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins héldu á málinu. „Ég hef ekkert heyrt frá Einari Olgeirssyni og Ólafi Thors,“ skrifar hann 29. apríl.  „Ég bjóst við þessu. Þeir eru stefnulausir spákaupmenn báðir tveir í pólitík.“

„Lýðveldi sett á stofn að Lögbergi,“ skrifar Björn í dagbók sína 17. júní 1944. Um þennan sögulega dag hefur hann ekki fleiri orð. Ekkert er því þar að finna um forsetakjörið á þingfundinum. Sveinn Björnsson náði kjöri með 30 atkvæðum, en 15 þingmenn skiluðu auðu og 5 greiddu Jóni Sigurðssyni skrifstofustjóra Alþingis atkvæði. Þessi niðurstaða mun hafa komið flatt upp á marga því vantraustið á Sveini Björnssyni hafði nánast ekkert verið rætt opinberlega. Og vissulega má líta á þennan veika sigur hans í forsetakjörinu sem ákveðinn skugga yfir lýðveldishátíðinni á Þingvöllum.

 Einrænn með heimilisvanda

„Dr. Björn var virðulegur maður, yfirleitt nokkuð alvörugefinn, en þó glaðvær við nánari kynni,“ skrifaði Birgir Thorlacius, starfsmaður hans í forsætisráðuneytinu, að Birni látnum. Mörgum hafi þótt hann of formfastur og óaðgengilegur. Honum hafi leiðst „fávíst tal og og málalengingar.“ Ekki er hægt að segja að Björn hafi  nokkru sinni notið alþýðuhylli, hvorki sem embættismaður né stjórnmálamaður, og víst er að hann sóttist ekki eftir henni. Dagbækurnar sýna Björn sem einrænan mann sem flíkar ekki tilfinningum sínum, heldur einkamálum sínum fjarri sviðsljósinu, hefur lítinn áhuga á því að sækja boð og  samkvæmi og er fámáll við slík tækifæri. „Á að fara á morgun í boð að Bessastöðum með diplómötum, gererölum og aðmírálum. Guð má vita hvernig því reiðir af. Kvíði fyrir þessu,“ skrifar hann í dagbókina 25. janúar 1943.

Björn víkur nánast aldrei að fjölskyldu sinni í  dagbókinni. En það er greinilegt að ekki er allt með felldu á heimilinu. Kona hans, frú Ingibjörg Ólafsdóttir Briem, kemur aldrei fram opinberlega og er aldrei í för með honum þegar hann sækir boð eða athafnir. „Dr. Björn bjó við heimilisörðugleika að því leyti, að kona hans og dóttir voru heilsuveilar, og mun það hafa átt sinn þátt, hve lítið hann sinnti samkvæmislífi,“ skrifar Birgir Thorlacius í endurminningum sínum. Ekki nefnir hann hvers eðlis veikindi mæðgnanna eru. Heimilismálin koma aðeins einu sinni fyrir í dagbókunum, 15. mars 1944: „Lárus Jóhannesson spurði mig þingveislunóttina, hvort heimilishagir mínir væru því til fyrirstöðu, að ég væri valinn [forseti]. Ég lét Lárus skilja, að mér mislíkaði stórum spurningin. Ég segði engum um heimilishagi mína og forsetaval kæmi mér ekki við. Lárus sætti sig við þetta og bað afsökunar.“

Heimilisáhyggjur stríða líka stundum á Svein Björnsson. Vorið 1944 var hann ekki „ánægjusamlegur“ þegar Björn Þórðarson kvaddi hann eftir fund á Bessastöðum. „Hann á líka við heimilis accident að stríða. Þó ekki háalvarlegt en hvimleitt; hans filia [dóttir] féll.“ Ekki eru þessi orð skýrð nánar, en virðast vísa til áfengisvandamáls í fjölskyldunni.

 „Fáar skemmtistundir“

 Síðla í apríl 1943 flutti Björn ræðu í veislu sem ríkisstjórnin hélt alþingismönnum í Oddfellowhúsinu. Hann hefur talin ræðuna hafa þýðingu síðar meir því hann skrifar hana í dagbókina. Í ræðunni  slær Björn á létta strengi, en það er broddur í orðum hans þegar hann  rifjar upp að hann hafi fram að þessu sem dómari haft það hlutverk að hlusta fremur en tala. „Í hinu nýja umhverfi skilst mér, að lögð sé meiri áhersla á að tala en hlusta, þó sá hæfileiki sé engan veginn vanræktur. En ég held að það sé ekki misskilningur hjá mér, að svo virðist sem alþingismenn séu manna leiknastir í því að loka eyrunum fyrir því sem talað er eða láta það fara gegnum annað eyrað og út um hitt.“

Í ræðunni veltir Björn fyrir sér hve lífdagar stjórnarinnar verði langir í ljósi þess að hún hafi engan flokk að baki sér og ekki einasta þingmann sem styðji hana. „En það vil ég segja, að vilji stjórnarinnar er að forðast stríð, og dettur mér í hug að eftirmælin kunni að verða svipuð því, sem segir frá á einum stað í Bretasögum, en þær eru eins og kunnugt er, nær eingöngu um orrustur og vígaferli milli konunga og höfðingja, er steypa hver öðrum af stóli eða koma hver öðrum fyrir kattarnef á einn eða annan hátt. En svo bar til fyrir tilviljun, að til ríkis komst konungur einn, sem Maddan hét og ríkti skamma hríð. Um konung þennan segir: ‚Maddan var hógvær og friðsamur. Frá honum er engi saga gerð.‘ Kann nú ekki að verða eitthvað svipað um eftirmæli núverandi stjórnar, sem vill  og ætlar að verða friðsöm? Frá henni verður engi saga gerð.“

Björn var vel að sér í fornsögunum og ekki er að efa að hann hefur hagrætt tilvitnuninni i Bretasögur af ráðnum hug. Í sögunni er Maddan sagður ‚hógvær og vinsæll,‘ en ‚friðsæll‘ hefur hentað betur boðskap forsætisráðherra í þingveislunni. Orðið lýsir líka vel þeim manni sem hann hafði að geyma og verkum hans í utanþingsstjórninni. En ekki reyndist Björn sannspár um söguleysi stjórnar sinnar. Þótt umfjöllun um hana sé ekki mikil af vöxtum í bókum tryggði hún sér öruggan sess á spjöldum Íslandssögunnar með því að styðja tillögur meirihluta Alþingis um stofnun lýðveldis 17. júní 1944. Fáir hefðu trúað því þegar til stjórnarinnar var stofnað í desember 1942 undir forsæti hins hægfara lögskilnaðarmanns Björns Þórðarsonar að hálfu öðru ári seinna fengi hún sæmdarheitið ‚lýðveldisstjórnin.‘

Lokaorð Björns í dagbókunum eru rituð 21. október 1944 þegar hann lét af störfum og nýsköpunarstjórn Ólafs Thors við völdum. „Er þá þessu stjórnarævintýri mínu lokið. Fáar hefi ég átt skemmtistundir þennan tíma, en ég hefi eignast nokkra góða vini, sem ég ekki hafði þekkt áður og trúi ég því, að þeir muni reynast mér tryggir.

                           

 Greinin birtist áður í Vísbendingu (jólahefti 2014).

 

 

 

 

 

Previous
Previous

„Þetta var annarlegt augnaráð”

Next
Next

Hinir gleymdu dýrgripir Íslendinga