Minnisvarði um brostnar vonir eða tálsýn

Listaverkið 20 logar afhjúpað á Hagatorgi vorið 2002. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra lengst til vinstri en með honum eru t.h. Robertson lávarður, framkvæmdastjóri NATO, og Ígor Ívanoff, utanríkisráðherra Rússlands. Ljósmynd Morgunblaðið/RAX.

Fyrir utan ‘Hótel Sögu’ við Hagatorg í Reykjavík, þar sem menntavísindasvið Háskólans er nú að koma sér fyrir eftir eigendaskipti á húsnæðinu, hefur í tvo áratugi staðið stór og voldugur steinn sem tuttugu sveigðar koparstangir ganga upp úr. Þetta er listaverkið 20 logar sem myndlistarkonan Hulda Hákon gerði að ósk íslenskra stjórnvalda og afhjúpað var vorið 2002. Tilefnið var að hér var þá haldinn fundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins (NATO) með fullri þátttöku utanríkisráðherra Rússlands. Verkið var táknmynd um hugsjónir sem menn báru þá í brjósti um betri og öruggari heim með nánu samstarfi fyrrum fjandmanna í kalda stríðinu. Koparstangirnar tuttugu í steininum tákna eldloga sem lýsa og gefa fyrirheit um sameiginlega vegferð Rússlands og NATO-ríkja sem þá voru 19 að tölu. Nú er aftur á móti erfitt að horfa á þetta verk öðruvísi en sem minnisvarða brostinna vona eða jafnvel tálsýnar.

Árið 2002 var Rússland enn ómótað afl á vettvangi alþjóðastjórnmála. Sovétríkin gömlu, „veldi hins illa“ sem svo voru stundum nefnd, höfðu óvænt hrunið 1991 og þjóðríki í Asíu og Evrópu sem lent höfðu undir hæl þeirra lýstu hvert á fætur öðru yfir sjálfstæði næstu árin. Enginn vissi hvert Rússland myndi stefna og hvort það yrði áfram ógn við öryggi hins frjálsa heims eins og Sovétríkin höfðu verið um langt árabil. Það vakti mönnum hins vegar bjartsýni að Jeltsín forseti Rússlands lýsti því yfir þegar 1991 að landið vildi verða þátttakandi í NATO. Áratug seinna sagði arftaki hans, Vladimir Pútín, sem enn situr á valdastól, „Hví ekki það?“ þegar hann var spurður hvort Rússland ætlaði að ganga til liðs við Atlantshafsbandalagið. Það væri hins vegar ekki komið á dagskrá. Rússar höfðu þó opnað sérstaka sendiskrifstofu í höfuðstöðvum NATO í Brussel.

Utanríkisráðherrafundurinn í Reykjavík vorið 2002 virtist árangursríkur. Samþykkt var að stofna nýtt samstarfsráð NATO-ríkjanna og Rússlands sem veitti Rússum aðild að ákvörðunum bandalagsins. Ráðið var hugsað sem vettvangur þar sem NATO-ríkin og Rússland gætu undirbúið, samþykkt og síðan framfylgt ákvörðunum sem snertu sameiginlega hagsmuni þeirra. Utanríkisráðherra Breta, Jack Straw, tók stórt upp í sig og sagði að nú hefði „útför kalda stríðsins“ loksins farið fram.

Utanríkisráðherra Rússa, Ígor Ívanov, kvað einnig fast að orði um ágæti samkomulagsins. Hann sagði það marka upphaf nýs samstarfs við NATO og bætti við: „Það er ekki aðeins svo að við getum starfað saman – við erum skyldugir til samstarfs vegna þeirrar nýju ógnar sem nú blasir við,“ sagði hann og vísaði til árásarinnar á tvíburaturnana í New York nokkrum mánuðum fyrr, 11. september 2001.

Síðan þetta var hefur mikið vatn runnið til sjávar. Samstarf NATO við Rússa virtist í fyrstu ætla að ganga ágætlega en næstu árin urðu margir atburðir sem breyttu myndinni verulega og gerðu smám saman út af við þær vonir sem til staðar voru. Í stað þess að Rússar gengju til liðs við NATO fóru fyrrum fylgiríki þeirra þá leið enda sáu þau ekki að hægt væri að tryggja öryggi sitt með öðrum hætti en undir hlíf NATO. Þegar fyrir Reykjavíkurfundinn 2002 höfðu þrjú ríki í Austur-Evrópu, Pólland, Ungverjaland og Tékkland gengið í bandalagið. Níu ríki til viðbótar höfðu þá sótt um aðild. Morgunblaðið hafði eftir utanríkisráðherra Rússa eftir fundinn 2002 að „þeir væru sem fyrr lítt hrifnir af stækkun NATO“. En þeir myndu hins vegar engum banna að ganga í bandalagið.

Í grein sem Madeleine heitin Albright, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, birti i New York Times í lok febrúar í fyrra, rétt fyrir innrás Rússa í Úkraínu, rifjaði hún upp fyrstu kynni sín af Vladimír Pútín á forsetastól í Rússlandi. Þau hittust í Moskvu snemma árs 2000. Hann kom henni fyrir sjónir sem afar kaldlyndur maður. Hann hefði sagst skilja að Berlínarmúrinn hefði orðið að víkja en hafi ekki átt von á því að Sovétríkin myndu líða undir lok. Á minnisblað sitt eftir fundinn hafi hún hripað: „Pútin er sneyptur vegna þess sem hent hefur land hans og er staðráðinn í að hefja það á ný til fyrri vegs og virðingar.“

Margir sérfræðingar um alþjóðastjórnmál eru sannfærðir um að eftir að Pútín komst til valda í Rússlandi hafi hann aldrei ætlað sér annað en endurreisa veldi hinna gömlu Sovétríkja. Allt starf hans hafi miðað að því. Það rímar við ræður sem hann hefur flutt undanfarin misseri um rétt Rússa til yfirráða á hinu gamla áhrifasvæði þeirra. Og vekur ekki vonir um að auðvelt verði að fá Rússa til að virða rétt þjóða til sjálfsákvörðunar um örlög sín.






Previous
Previous

Stóð upp í hárinu á hundadagakónginum

Next
Next

Pólitískt hlutverk frímerkja