Stóð upp í hárinu á hundadagakónginum

Gunnlaugur Briem sýslumaður. ættfaðir Briemsættar (1773-1834).

Um miðjan janúar á þessu ári var þess minnst með málþingi í Þjóðarbókhlöðu að liðin eru 250 ár frá fæðingu Gunnlaugs Briems, sýslumanns í Eyjafirði (1773-1834), ættföður hinnar kunnu Briemsættar. Um Gunnlaug og Briemsættina hefur margt verið skrifað, m.a. í bók minni Íslensku ættarveldin (2012).

Bauð Jörundi birginn

Það eru ekki hin hversdagslegu viðfangsefni Gunnlaugs í sýslumannsembættinu sem helst hafa skráð nafn hans á spjöld Íslandssögunnar. Hann var sýslumaður sumarið 1809 þegar Jörundur hundadagakonungur hrifsaði til sín völd hér á landi sem frægt er og krafðist þess að allir embættismenn konungs á Íslandi viðurkenndu vald sitt og stofnun sjálfstæðs lýðveldis. Þeir hittust þegar Jörundur reið norður um sumarið. Gunnlaugur ritaði í framhaldinu langa hugleiðingu á latínu fyrir embættismenn landsins um þá stöðu sem þeir hefðu verið settir í; þykir hún bera lagaþekkingu hans gott vitni. Niðurstaða hans var að ekki kæmi til greina að bregðast hollustueiðum við konung og réttast væri að leggja niður embætti. Það gerði hann sjálfur með bréfi til Jörundar í lok júlí. Kynnti hann sýslubúum ákvörðun sína jafnframt með opinberri tilkynningu sem hann lét festa upp á Akureyri. Þetta hefur þótt sýna bæði hugrekki og staðfestu. Jörundur tók þessu ekki illa, féllst á afsögn Gunnlaugs og gaf fyrirheit um að hann yrði fluttur til Danmerkur við fyrstu hentugleika. Ekki kom til þess og tók Gunnlaugur að nýju við sýslumannsembættinu þegar veldi hundadagakonungsins var hrundið í lok ágúst þetta ár.

Í fóstri í Sauðlauksdal

Sjö ára gamall var Gunnlaugur tekinn í fóstur til frændfólks síns í Sauðlauksdal, lærdómsmannsins séra Björns Halldórssonar og Rannveigar konu hans, systur Eggerts Ólafssonar skálds og náttúrufræðings. Faðir Gunnlaugs, séra Guðbrandur Sigurðsson á Brjánslæk, var þá nýlátinn af slysförum og móðirin, Sigríður Jónsdóttir, hafði fyrir mörgum börnum að sjá. Ólst Gunnlaugur upp hjá séra Birni í Sauðlauksdal og síðar á Setbergi í Eyrarsveit til fimmtán ára aldurs í hópi fleiri fósturbarna. Þá hélt hann utan til listnáms í Kaupmannahöfn, sem var afar óvenjulegt á þessum tíma. Eggert Ólafsson hafði, sem frægt er í sögunni, drukknað með konu sinni og fylgdarmönnum í Breiðafirði 1768 á leið heim eftir vetursetu hjá mági og systur í Sauðlauksdal. Um nafn hans lék mikill ljómi og minning hans var í hávegum höfð á heimilinu. Samdi Björn og gaf út árið 1784 æviágrip og ættartölu mágs síns. Þetta andrúmsloft hafði mótandi áhrif á Gunnlaug. Til skáldsins sótti hann síðar nöfnin Eggert og Ólafur sem svo algeng hafa orðið meðal niðja hans.

Með listræna hæfileika

Fátt er vitað um nám Gunnlaugs Briems við listaháskólann, Det Kongelige Maler, Bildhugger og Bygnings-Akademie í Charlettenborg við Kóngsins nýjatorg, á árunum 1788 til 1795. Í prentuðu æviágripi hans frá 1838 eftir séra Jón Jónsson á Möðrufelli kemur fram að sama ár og hann brautskráðist frá skólanum „þáði hann af konstakademíinu silfurmedalíu til heiðurs fyrir atgjörfi sitt í bílætasmíði“. Örfá verk sem talin eru frá hans hendi hafa varðveist og eru í Þjóðminjasafni. Bera þau hagleik hans vitni. Samtímis Gunnlaugi var Bertel Thorvaldsen við nám í skólanum og bundust þeir vináttuböndum. Bertel varð síðar einn nafntogasti listamaður Danmerkur eins og alkunna er.

Við blasir að sjö ára námsdvöl utanlands hefur kostað sitt. Að baki ákvörðuninni um að styrkja hann til að nema bíldhöggvaralist, höggmyndasmíð, hefur búið mikil trú á listrænum hæfileikum hans og sannfæring um að rætast mundi úr verkefnum. Ekkert starf og tæpast nokkurt viðfangsefni fyrir myndhöggvara eða listamann af öðru tagi var á þessum tíma fyrir hendi eða í augsýn á Íslandi. Vafalaust hefur séra Björn Halldórsson borið meginþungann af kostnaðinum við nám fóstursonarins, en ef til vill hafa einhverjir ríkismenn lagt hönd á plóginn. Gunnlaugi virðist fljótlega hafa orðið ljóst að listnámið mundi ekki duga honum til viðunandi lífsviðurværis og stundaði hann því laganám einnig og lauk prófi. Hann tók 1799 boði Jóns Jakobssonar, sýslumanns í Eyjafirði, um að verða aðstoðarmaður hans, lögsagnari, og heimkominn gekk hann að eiga systurdóttur Jóns, Valgerði Árnadóttur. Eignuðust þau tíu börn, komust sjö upp og sex þeirra áttu afkomendur, tvö utanlands og fjögur á Íslandi.

Ættarnafn eykur virðuleika

Einhvern tíma á Kaupmannahafnarárunum tók Gunnlaugur upp ættarnafn eins og þá var að byrja að vera í tísku meðal Íslendinga sem töldu sig til heldri manna. Nafnið var Briem, dregið af gömlum rithætti fæðingarstaðarins Brjánslækjar, Briamslækr. Hafa afkomendur hans í karllegg síðan notað það. Elsti vitnisburður um nafnið er í manntalsbók rétt eftir komuna til Íslands; kannski var það ekki fyrr en starfið heima var í hendi að ættarnafnið var afráðið. Yfir nafninu Briem var heimsborgarabragur eins og kjólnum, þrísperrta hattinum og háhæluðu leðurstígvélunum sem hann klæddist síðar í embættisferðum sínum; Gunnlaugur Guðbrandsson var aftur á móti stirt nafn og sveitamannslegt eins og litlaus vaðmálsklæði hins sauðsvarta almúga á Íslandi.

Ættartré sem Gunnlaugur Briem teiknaði á árum sínum í Kaupmannahöfn í lok 18. aldar. Það er einstakt að því leyti að ekki er kunnugt um svo myndræna framsetningu á ættartölum í öðrum íslenskum handritum frá fyrri tíð.

Ættfræði var eitt af hugðarefnum Gunnlaugs. Meðal handrita sem hann lét eftir sig eru miklar ættartölusyrpur. Og ættartré sitt, litað og skrautritað, hefur hann dregið upp á Kaupmannahafnarárunum, a.m.k. titlar hann sig þar Bildhugger. Ekki er kunnugt um aðra svo myndræna framsetningu á ættartölu í íslenskum handritum eða bókum frá þessum tíma eða fyrr. Gunnlaugur er hér brautryðjandi, hefur kynnst þessari aðferð úti. Í annarri stofunni á heimili hans á bænum Grund í Eyjafirði var gluggi á þykkum torfvegg og þar í gluggakistuna skar hann út með stóru letri ættartölu sína frá langöfunum. Ekki er vitað hvað varð um þennan óvenjulega útskurð sem án efa hefur verið fagurlega gerður.

Þess má geta að þegar Bertel Thorvaldsen kom 1819 til Kaupmannahafnar eftir fjörutíu ára búsetu í Róm og var fagnað með miklum hátíðarhöldum, orðinn ástsælasti listamaður Dana, færðu Íslendingar í borginni honum skrautritaða ættartölu sem Jón Espólín hafði tekið saman fyrir tilstilli Gunnlaugs. Hefur hún átt að minna listamanninn á rætur hans á Íslandi.

Röggsamur en strangur

Fjöldi skjala hefur varðveist um embættisfærslur Gunnlaugs sem sýslumanns. Bregða þau upp mynd af honum sem röggsömu og nákvæmu yfirvaldi, ströngu mjög og ósveigjanlegu, og heldur vandlætingarsömu. Viðbrigðin fyrir sýslubúa hafa því verið mikil þegar hann tók við af Jóni Jakobssyni, en Jón var þekktur fyrir mildi og vægðarsemi og gerði ekki veður út af smávægilegum yfirsjónum. Skoðanir og lunderni sýslumanna gátu á þessum tíma ráðið miklu um málarekstur því réttaróvissa ríkti um gildandi lagabókstaf á mörgum sviðum. Sagt er að kotbændur hafi borið óttablandna virðingu fyrir Gunnlaugi, en vart treyst sér að leita til hans um vandkvæði sín. Embættismannastéttin hreifst á hinn bóginn af framgöngu hans. „Hann er gullærlegur maður og góður pólitímeistari,“ sagði Bjarni Thorarensen amtmaður í bréfi árið 1834, „24 karats gulls í þenkingarhætti“.

Lundin mildaðist með árunum

Jón Espólín, sýslumaður og sagnaritari, sonur Jóns Jakobssonar sýslumanns, segir í Árbókum sínum að þegar leið á ævina hafi lund Gunnlaugs Briems heldur mildast. Árið 1815 fór hann til Kaupmannahafnar, sótti um hækkun í virðingarstiga embættismanna og fékk um vorið næsta ár nafnbót kammerráðs. Heim kominn var hann „miklu ljúflátari en fyrr hafði þókt“, segir Espólín sem þekkti hann vel. Samtímamaður Gunnlaugs, Gísli Konráðsson sagnaritari, segir frá því í Húnvetninga sögu að eitt sinn hafi bóndi nokkur bent á sýslumann á mannfundi og spurt hver hann væri. Hafi fylgdarmaður hans svarað: „Gunnlaugur Briem kammersekreteri og sýslumaður Eyfirðinga.“ Svaraði þá bóndi við hlátur viðstaddra: „Hvílíkt óhóf! Það er nóg fyrir fjóra menn að heita allt þetta!“

Gunnlaugur lést 17. febrúar 1834, 62 ára að aldri, og var jarðsettur að Grund í Eyjafirði. Valgerður ekkja hans lifði hann í meira en þrjá áratugi og bjó hjá Ólafi syni þeirra, bónda og þjóðfundarmanni, sem tók við búsforráðum á Grund eftir föður sinn. Fáir Íslendingar náðu á 19. öld jafnháum aldri og hún sem lést tæplega 93 ára gömul.









Previous
Previous

Erum við komin af „þrælum og illmennum“?

Next
Next

Minnisvarði um brostnar vonir eða tálsýn