Pólitískt hlutverk frímerkja

Jón Magnússon fyrrv. forsætisráðherra á frímerki 1968 í tilefni af 50 ára afmæli fullveldisins.

Hinn 1. desember 1968 var hálf öld liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki. Við hæfi þótti að minnast þessara tímamóta með útgáfu frímerkis. Þetta var á velmektardögum frímerkjanna þegar þau voru daglega fyrir augum þorra landsmanna á bréfum og bögglum. Söfnun frímerkja og viðskipti með þau, notuð sem ný, var á þessum tíma mun blómlegri iðja og algengara tómstundagaman en nú er. Fastir frímerkjaþættir voru í öllum íslenskum dagblöðum og frímerkjaklúbbar starfræktir um land allt. Ný frímerki sættu ávallt tíðindum og mynduðust biðraðir á pósthúsum og hjá frímerkjasölum þegar þau komu út.

Póststjórnin stakk upp á því að myndefni nýja frímerkisins yrði hin táknræna lágmynd Einars Jónssonar myndhöggvara, Brautryðjandinn, sem er á fótstalli styttunnar af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli. Hún hefur þá ekki séð fyrir sér neinn einstakan mann sem öðrum fremur væri rétt að tengja við þessi miklu tímamót í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Til samanburðar var mynd af Jóni Sigurðssyni forseta á frímerkinu sem gefið út var í tilefni af stofnun lýðveldis 1944. Myndir af Hannesi Hafstein ráðherra voru á frímerkjum sem gefin voru út á hálfrar aldar afmæli heimastjórnar 1954.

Vegna þess hve tilefnið var mikilvægt var talið rétt að bera tillöguna um afmælismerki fullveldisins undir forsætisráðuneytið þótt póstmál heyrðu undir samgönguráðuneytið. Málið var tekið til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi í ágúst þetta ár og póststjórninni tilkynnt að honum loknum að mynd af Jóni Magnússyni skyldi prýða frímerkið sem gefa átti út í tveimur mismunandi litum og verðgildum. Tillögu póststjórnarinnar var þar með hafnað.

Óvíst er að margir kannist núna við Jón Magnússon (1859-1926). En þeir hafa verið fleiri sem þekktu til hans árið 1968. Jón var forsætisráðherra þegar sambandslögin tóku gildi 1918. Þessi hlédrægi lögfræðingur, embættismaður lengst af, þótti að sögn ævisöguritara hans „dulurí skapi og fályndur og sjaldan með fullu gleðibragði“, og því varla til þess fallinn að kveikja neista með fólki eða hrífa þjóðina og verða þannig eftirminnilegur. Enda segir sami höfundur að á fjölmiðla- og auglýsingaöld hljóti það „að vera nokkur ráðgáta hvernig slíkur maður verður þjóðarleiðtogi jafn lengi og raun ber vitni,“ en Jón var forsætisráðherra í sjö ár, fyrst 1917 til 1922 og síðan 1924 til 1926 er hann lést. Ríkisstjórnin var hins vegar sannfærð um að minning Jóns ætti að lifa með þjóðinni. Í fréttatilkynningu, sem Bjarni Benediktsson forsætisráðherra lagði hönd á, var hann sagður hafa átt „manna mestan þátt í að samkomulag náðist um [sambandslögin] milli Danmerkur og Íslands.“ Segja má að með því að láta setja mynd Jóns og enga aðra á opinbert frímerki í tilefni fullveldisafmælisins hafi ríkisstjórnin lyft honum á stall með helstu sjálfstæðisfrömuðum þjóðarinnar, Jóni Sigurðssyni forseta og Hannesi Hafstein ráðherra.

 Um útgáfu frímerkisins urðu engar opinberar umræður að séð verður. Má þó segja að fullyrðing ríkisstjórnarinnar um hlut Jón Magnússonar í samkomulaginu árið 1918 orki tvímælis. Þetta var ekki og er ekki óumdeild söguskoðun. En næsta víst er að ríkisstjórnin hefði ekki látið setja mynd Jóns á frímerki ef hún hefði haft ástæðu til að ætla að ákvörðunin yrði misklíðarefni. Frímerkjum er hvergi ætlað að verða efniviður í þjóðmáladeilur, þótt það gerist vissulega öðru hverju. Við því var að búast að flestir mundu sætta sig við upphafningu Jóns vegna stöðu hans sem forsætisráðherra 1. desember 1918. Og enginn augljós keppinautur var um þessa vegtylluá afmælisdaginn. Hugsanlega hefði öðru máli gegnt ef til hefði staðið að reisa af Jóni líkneski á einhverjum áberandi stað. Myndastyttur eru miklu færri og eiga jafnan lengra líf fyrir höndum en frímerki sem hafa skamman gildistíma og hverfa innan tíðar úr almannarýminu í möppur og bækur safnaranna.

 HLUTVERK FRÍMERKJA

Fyr utan þann megintilgang að sýna burðargjald póstsendinga og uppruna þeirra hefur frímerkjum lengst af verið ætlað að kynna sögu, menningu, atvinnuhætti og merkismenn þjóðanna, fjöll og fossa, dýr og jurtir og annað sem einkennandi er fyrir náttúru hvers lands. Þó að það sé óvíða sagt berum orðum er tilgangurinn augljóslega að efla samheldni í heimalandinu, styrkja sjálfmynd þjóða og festa í sessi sögulegar minningar og tilfinningar sem frá sjónarhóli ríkisvaldsins eru forsenda þjóðrækni og ættjarðarástar. Frímerkin hafa að þessu leyti sama hlutverk og minnisvarðar sem stjórnvöld láta reisa á almannafæri, myndir á seðlum og mynt, opinber lista- og minjasöfn og hvað annað sem gert er til að halda á lofti og rækta sameiginlega arfleifð og sjálfsvitund. Slíka viðleitni hafa fræðimenn á seinni árum kallað „þjóðbyggingu“ með skírskotun til kenninga um að þjóðerni sé mönnum ekki náttúrulegt og þjóðríki „ímynduð samfélög.“

Utanlands er frímerkjum ætlað að vera landkynning; birta hina opinberu mynd af þjóðinni, samfélaginu og náttúrunni. Þó mjög hafi dregið úr útbreiðslu og áhrifamætti frímerkja á síðustu árum vegna þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á póstflutningum og boðskiptum eru þau þó enn víða talin gagnlegur og áhrifaríkur miðill.

Þegar Jón Magnússon var „frímerktur“ árið 1968 voru frímerki enn miðlæg í póstsendingum svo kynningin sem honum hlotnaðist var umtalsverð. Um hitt er erfiðara að dæma, eiginlega ómögulegt, hver áhrifin voru nákvæmlega. Í viðurkenndu yfirlitsriti, Ísland á 20. öld (Reykjavík 2002) eftir Helga Skúla Kjartansson sagnfræðing kemur nafn Jóns Magnússonar fyrir sjö sinnum, en

Hannesar Hafsteins 35 sinnum. Þótt fullveldið 1918 teljist stærri áfangi í stjórnfrelsisbaráttu Íslendinga en heimastjórnin 1904 hefur það í sögulegu endurliti þjóðarinnar að vissu leyti lent á milli staffs og hurðar. Fyrir vikið hefur Hannes Hafstein, fyrsti heimastjórnarráðherrann, langtum sterkari stöðu í þjóðarminninu en nokkur þeirra stjórnmálamanna er tengjast beint næstu áföngum sjálfstæðisbaráttunnar, fullveldinu og stofnun lýðveldis 1944. Ekki er víst að á því verði nokkru sinni breyting, en gerist það verður það örugglega ekki fyrir tilstuðlan frímerkja úr því sem komið er.

ÍHLUTUN ÆÐSTU STJÓRNVALDA

Jón Magnússon er ekki eini íslenski stjórnmálamaðurinn sem settur hefur verið á frímerki samkvæmt beinni ákvörðun æðstu stjórnvalda. Ákvörðunin um að Jón Sigurðsson væri á lýðveldisfrímerkinu 1944 var tekin af Vilhjálmi Þór, sem fór með póstmál í þáverandi utanþingsstjórn. Fleiri hugmyndir komu til skoðunar þegar myndefni hátíðarmerkisins var undirbúið, m.a. myndir af íslenska fálkanum og Fjallkonunni. Tímaþröng réð því að einungis frímerki með mynd af Jóni var gefið út. Þetta var í annað sinn sem Jón prýddi frímerki. Áður hafði hann verið á frímerki á aldarafmæli sínu 1911. Það frímerki á er ýmsan hátt sögulegt innanlands og alþjóðlega. Fram að því höfðu ekki birst aðrar mannamyndir á íslenskum frímerkjum en af dönsku konungunum Kristjáni IX. Og Friðriki VIII. Björn Jónsson ráðherra gekk á fund konungs í Kaupmannahöfn og fékk sérstakt leyfi hans til að hafa mynd Jóns forseta á frímerki í tilefni afmælisins og hátíðarhalda sem fyrirhuguð voru. Þetta var í fyrsta sinn sem mynd af Íslendingi var á íslensku frímerki. En þetta var einnig í fyrsta sinn að ég best veit sem maður sem ekki var konungur eða tilheyrði konungsfjölskyldu var á frímerki í Evrópulandi.

Hannes Hafstein á frímerki 1954.

Frímerkið með mynd Hannesar Hafsteins 1954 var gefið út fyrir frumkvæði Ólafs Thors forsætisráðherra, þótt póstmál heyrðu undir annan ráðherra í ríkisstjórninni (Ingólf Jónsson). Gögn sýna að Ólafur Thors lét sér sérstaklega annt um þessa útgáfu. Hannes hefur alla tíð verið í miklum metum meðal forystumanna Sjálfstæðisflokksins, en að auki hafði Ólafur ungur kynnst honum og börnum hans persónulega og dáði hann meira en aðra menn. Ólafur ræddi hugmyndina við Guðmund Hlíðdal póst- og símamálastjóra og greindi honum frá afstöðu sinni, en síðan fóru bréf á milli þeirra þannig að formlega var það póststjórnin sem tók ákvörðunina.

Þetta var í byrjun október 1953 og mátti engan tíma missa til að hægt væri að láta teikna frímerkið og prenta það utanlands fyrir heimastjórnarafmælið, upphaf Stjórnarráðs Íslands, 1 febrúar 1954. Ólafur lét senda póststjórninni ljósmynd af Hannesi sem nota skyldi við gerð frímerkisins og var því nokkuð brugðið þegar hann undir lok mánaðarins fékk í hendur tillögu að frímerkinu sem reyndist vera teikning eftir ljósmyndinni, að öllum líkindum eftir Árna Sveinbjörnsson teiknistofustjóra Landsímans. Ólafur taldi að Hannes væri of „axlamjór“ (axlasiginn) á teikningunni og gæfi hún því ekki rétta mynd af karlmannlegu útliti hans. Hann var „gildur meðalmaður á hæð, herðabreiður og íturvaxinn, fríður sýnum og höfðinglegur,“ rituðu skólabræður hans í árbækur Lærða skólans þegar hann lauk þar námi 1880. Vegna þessarar athugasemda tafðist útgáfan og var frímerkið ekki gefið út fyrr en sumarið 1954.

Þegar frímerkið kom út sagði forsætisráðuneytið í fréttatilkynningu: „Hannes Hafstein er eitt af þjóðskáldum Íslendinga og um langt skeið stjórnmálaforingi landsins, enda óvenjulegur maður að líkamlegu og andlegu atgervi.“ Fram kom að frímerkið væri gefið út til minningar um að hálf öld væri liðin síðan fyrsti íslenski ráðherrann tók við embætti. Áherslan var þannig á persónuna Hannes Hafstein frekar en stofnunina Stjórnarráð Íslands eða áfangann í sjálfstæðisbaráttunni, heimastjórnina. Var hnykkt á þessu enn frekar með því að hafa frímerkin þrjú í mismunandi litum með ólíkum myndum af Hannesi á ýmsum aldursskeiðum; sýndu þær hann sem sýslumann, ráðherra og loks bankastjóra.

ANDLIT LÝÐVELDISSTOFNUNAR?

Á öldinni sem leið fengu 65 Íslendingar, karlar og konur, myndir af sér á frímerkjum. Þrettán þeirra voru stjórnmálamenn, kjörnir til embætta. Auk Jóns Sigurðssonar, Hannesar Hafsteins og Jóns Magnússonar voru þetta forsetarnir Sveinn Björnsson (1953, 1994), Ásgeir Ásgeirsson (1973, 1994), Kristján Eldjárn (1983, 1994) og Vigdís Finnbogadóttir (1994); 19. aldar þingmennirnir, Hannes Stephensen (1984) og Jón Guðmundsson (1984), sem voru nánustu samstarfsmenn Jóns forseta; fyrstu konurnar á Alþingi, Ingibjörg H. Bjarnason (1979) og Guðrún Lárusdóttir (1990); Bríet Bjarnhéðinsdóttir bæjarfulltrúi og kvenréttindafrömuður (1979), öll fimm síðast nefndu í frímerkjaröð sem hóf göngu sína 1975 og nefndist „Merkir Íslendingar.“ Ekkert sérstakt tilefni, afmæli eða þess háttar, þurfti til að vera valinn á frímerki í þeirri útgáfu, en uppfylla þurfti það skilyrði að teljast „merkur“ í einhverjum skilningi að mati frímerkjaútgáfunefndar, ráðgefandi nefndar sem samgönguráðherra setti á fót í byrjun áttunda áratugarins. Loks var gefið út frímerki með mynd af Gísla Sveinssyni alþingisforseta í tilefni af lýðveldisafmælinu 1994.

Gisli Sveinsson á frímerki 1994. Lengsti texti á íslensku frímerki fyrr og síðar.

Ástæða er til að staldra við þá ákvörðun að setja Gísla Sveinsson (f. 1880) á frímerki. Óhætt er að segja að árið 1994 hafi hann verið svo til óþekktur maður. En hann var þekktari fyrr á tíð enda sat hann á Alþingi með hléum frá 1916 til 1947, síðustu árin fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og var einn frambjóðenda í forsetakosningunum 1952. Það féll í hlut hans sem forseta sameinaðs Alþingis að lýsa yfir stofnun lýðveldis á Þingvöllum 17. júní 1944. Skýrir það valhans á frímerkið þegar minnst var hálfrar aldar afmælis lýðveldisins.

Gögn póststjórnarinnar á Þjóðskjalasafninu sýna að þeir sem undirbjuggu frímerkjaútgáfuna hafa haft áhyggjur af því að fólk þekkti hvorki nafn Gísla né andlit. Þar liggja margar og mismunandi tillögur að skýringartexta til að prenta á frímerkið. Niðurstaðan varð lengsti texti á íslensku frímerki fyrr og síðar. Til hliðar við andlitsteikningu af honum og hátíðarmerki lýðveldisins 1944 standa þessi orð: „Gísli Sveinsson lýsir yfir gildistöku stjórnarskrár lýðveldisins Íslands 17. júní 1944.“ Fyrirmynd teikningarinnar er þó ekki ljósmynd frá athöfninni á Þingvöllum, þannig að útgefandinn hefur tekið sér skáldaleyfi til að Gisli liti betur út og frímerkið yrði aðlaðandi. Slíkt er reyndar algeng iðja við frímerkjaútgáfu hér og erlendis.

Nokkur aðdragandi var að því að Gísli hafnaði á afmælisfrímerkinu. Sumarið 1993 barst frímerkjaútgáfunefnd póststjórnarinnar bréfi frá Páli Pálssyni þar sem stungið var upp á því að mynd af Gísla yrði á frímerki í tilefni af lýðveldisafmælinu. Erindið var tekið var fyrir á fundi nefndarinnar 28. júní og hafnað samhljóða. Á fundi nefndarinnar átta mánuðum seinna, 2. febrúar 1994, voru hins vegar kynntar nokkrar tillögur um útlit frímerkis með mynd Gísla sem koma skyldi út í maí eða júni það ár. Í millitíðinni hafði það gerst að Halldór Blöndal, samgönguráðherra, hafði samband við Ólaf Tómasson, póst- og símamálastjóra, og óskaði eftir því að Gísli yrði settur á frímerki í tilefni lýðveldisafmælisins. Var orðið við því enda ráðherrann yfirmaður stofnunarinnar.

Engar opinberar umræður urðu um val Gísla Sveinssonar á frímerkið á lýðveldisafmælinu frekar en Jóns Magnússonar á fullveldisafmælinu. Ef til vill má túlka það svo að menn hafi ekki séð neinn betri eða rökréttari kost en hann við þetta tækifæri. Spyrja má þó hvort ekki hefði verið kjörið að minnast einhvers annars stjórnmálamanns, t.d. forsætisráðherrans sem var við völd þegar lýðveldið var stofnað, Björns Þórðarsonar? Má segja að það hefði að

vissu leyti verið í samræmi við þá ákvörðun sem ríkisstjórin tók árið 1968. Á móti vegur þó að Björn Þórðarson var lengst af í hópi svokallaðra lögskilnaðarmanna, sem vildu fresta lýðveldisstofnun fram yfir stríðslok. Kannski var hann því ekki jafn heppilegt andlit afmælisins og Gísli sem var eindregið hlynntur því að hraða lýðveldisstofnuninni.

AÐ VERA ÓUMDEILDUR

Fleiri kjörnir alþingismenn en stjórnmálamennirnir þrettán sem hér eru nefndir hafa fengið mynd af sér á frímerki. Það var hins vegar vegna annarra starfa þeirra eða tiltekins málefnis. Benedikt Sveinsson (eldri) var á frímerki 1961 vegna 50 ára afmælis Háskóla Íslands, en hann barðist í ræðu og riti fyrir stofnun innlends háskóla á 19. öld. Grímur Thomsen var á frímerki 1970, en hans er einkum minnst fyrir skáldskap, og mynd af Tryggva Gunnarssyni var á frímerki 1971, en þá var verið að minnast aldarafmælis Hins íslenska þjóðvinafélags sem hann stýrði í þrjátíu ár.

Hlutfall stjórnmálamanna á íslenskum frímerkjum er ekki hátt, þegar haft er i huga hve fyrirferðarmiklir þeir eru í þjóðlífinu. Vafalaust velta einhverjir því fyrir sér hvers vegna ýmsar þjóðkunnar kempur stjórnmála síðustu aldar hafa ekki komist á frímerki. Nefna má látna forystumenn eins og Jón Þorláksson, Ólaf Thors, Bjarna Benediktsson, Tryggva Þórhallsson, Jónas Jónsson frá Hriflu, Hermann Jónasson, Eystein Jónsson, Jón Baldvinsson, Stefán Jóhann Stefánsson, Gylfa Þ. Gíslason, Hannibal Valdimarsson og Lúðvík Jósepsson. Og hvers vegna ekki Auður Auðuns sem fyrst kvenna á Íslandi varð borgarstjóri og ráðherra?

Svarið liggur í því meginhlutverki allrar frímerkjaútgáfu að stuðla að samheldni innanlands. Einstaklingar sem eru valdir á frímerki verða að vera svo til óumdeildir. Það verður einnig að vera næsta ótvírætt að framlag þeirra til þjóðarsögunnar hafi skipt máli og sérstök ástæða sé til að halda því á lofti. Um stjórnmálamenn eru jafnan flokkadrættir og heitar meiningar, jafnvel þótt þeir séu fallnir frá, og því líklegra en ella að útgáfa geti valdið ágreiningi og skapað óánægju. Og frímerki með stjórnmálamanni úr einum flokki kallar á frímerki með stjórnmálamönnum úr öðrum flokkum. Þegar út af þessu er brugðið eða val orkar tvímælis býr yfirleitt að baki kröftug sannfæring stjórnvalda um mikilvægi þess að hinn frímerkti fái kynningu og heiðursess í þjóðarminninu. Þannig hafa frímerki stundum verið notuð til að halda á lofti minningu manna sem hafa gleymst eða þokað í skugga. Liklega gildir það um marga eða flesta stjórnmálaforingjana sem hér voru nefndir að það mundi ekki skapa neina úlfúð þótt þeir yrðu „frímerktir“ núna. Viðhorf breytast með árunum. Um þessa menn stendur ekki styr með sama hætti og áður og samtímamenn sem þá muna og ólguna sem þeir sumir ollu, hverfa einn af öðrum yfir móðuna miklu. Kannski eigum við eftir að sjá þá á frímerki einhvern daginn, en þar sem áhrifamáttur frímerkjanna hefur mjög dvínað á síðustu árum og útgáfa þeirra dregist saman er ekki víst að stjórnvöld muni beita sér sérstaklega fyrir því.

Nefna má í þessu sambandi að síðla árs 1984 ritaði Halldór E. Sigurðsson, sem var samgönguráðherra á árunum 1974 til 1978, póst- og símamálastjórninni bréf og lagði til að gefið yrði út frímerki með mynd af Jónasi Jónssyni frá Hriflu í tilefni af aldarafmælihans 1. maí 1985. Erindinu var vísað til frímerkjaútgáfunefndar sem taldi á fundi 20. desember ekki rétt að verða við þessumtilmælum. Sagði nefndin að frímerki með mynd hans yrði væntanlega gefið út síðar meir í flokknum „Merkir Íslendingar.“ Á fundi nefndarinnar 3. janúar 1985 greindi Jón Skúlason, póst- og símamálastjóri, frá því að hann hefði rætt málið við Matthías Bjarnason, samgönguráðherra. „Hafði ráðherra ekkert við afstöðu nefndarinnar að athuga,“ segir í fundargerð.

Frímerkin af stjórnmálamönnunum þrettán sem hér hefur verið fjallað um falla í þrjá flokka: sjálfstæðisbaráttan (Jón Sigurðsson, Hannes Stephensen, Jón Guðmundsson, Hannes Hafstein, Jón Magnússon og Gísli Sveinsson), kvenréttindabaráttan (Ingibjörg H. Bjarnason, Guðrún Lárusdóttir og Bríet Bjarnhéðinsdóttir) og forsetar lýðveldisins (Sveinn Björnsson, Ásgeir Ásgeirsson, Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir). Þessir flokkar falla vel að grundvallarhugsun frímerkjaútgáfu, að halda á lofti mikilvægum en um leið óumdeildum málefnum (sjálfstæði, kvenréttindi) og einstaklingum og stofnunum (forsetar, forsetaembætti) sem eru einingartákn þjóðar og samfélags.

Birtist upphaflega í Frímerkjablaðinu í nóvember 2015. Þar er tilvísanir og heimildir að finna.

Previous
Previous

Minnisvarði um brostnar vonir eða tálsýn

Next
Next

Ættarveldi og alþýðufólk