Ættarveldi og alþýðufólk

Grímur Thomsen skáld og heimsborgari eignaðist Bessastaði árið 1867. Þar hélt hann sig sem aðalsmaður í tæp þrjátíu ár með konu sinni og þjónustufólki.

Í bók minni  Íslensku ættarveldin — frá Oddaverjum til Engeyinga (2012), er fjallað um það tangarhald sem fámennar höfðingjaættir höfðu á íslensku þjóðfélagi fyrr á tíð. Ég birti hér brot úr bókinni þar sem rakið er hvernig „ættlaust“ fólk gat komist áfram í skjóli og með stuðningi höfðingjanna.

Í manntalinu 1803 eru þrjár „stuepiger“ meðal heimilisfólks Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns í Viðey, ættföður Stephensensættar sem um árabil var mesta veldi á Íslandi. Herbergjastúlkur, eins og þær voru nefndar, þjónuðu húsráðendum og fjölskyldum þeirra. Þær voru aðeins á efnaheimilum. Starfið var eftirsótt og gat verið leið til þess að komast áfram í lífinu, jafnvel í raðir heldra fólks. Það sýnir dæmi ráðskonunnar í Viðey, Kristínar Eiríksdóttur, 52 ára gamallar prestsekkju með tvo unglinga á framfæri sínu.

Jón Espólín segir í Árbókum sínum, hinum kunnu söguritum frá 19. öld,  að Kristín hafi verið „lítilla manna að austan“, en Ólafur hafi tekið hana til sín unga að Leirá í Leirársveit. Var hún þjónustustúlka hjá honum næstu árin og stóð sig svo vel að hún var sett yfir allt þjónustufólk innanhúss þegar fjölskyldan flutti árið 1780 að Innrahólmi; varð hún þar „fyrsta herbergjastúlka“. Hún þótti bæði greind og glæsileg.

Árið 1783 þurfti að finna Jóni Grímssyni, sem þá var nýorðinn prestur í Görðum á Akranesi, kvonfang. Hann hafði verið í þjónustu biskupsfeðganna í Skálholti, Finns Jónssonar og Hannesar Finnssonar, tengdasonar Ólafs Stefánssonar. Kristín varð fyrir valinu og er ekki að efa að ákvörðun um það var tekin af Hannesi biskupi og Ólafi.

Jón Grímsson lést fyrir aldur fram 1797 og fór þá Kristín að nýju til Ólafs, nú í Viðey þar sem hún varð ráðskona hans. Börn hennar tvö, Grímur og Ingibjörg, fylgdu henni. Grímur varð skrifari hjá Ólafi stiftamtmanni sem studdi hann til náms í Kaupmannahöfn. Eftir embættisferil í Danmörku varð Grímur árið 1824 amtmaður norðan og austan og sat á Möðruvöllum. Skrifaði hann sig ávallt Grím Johnsen. Þóra dóttir hans stofnaði Kvennaskólann í Reykjavík 1874 og stýrði honum til 1906. Hún giftist Páli Melsteð sagnfræðingi, syni Páls Melsteðs amtmanns og Önnu Sigríðar, dóttur Stefáns Þórarinssonar amtmanns.

Ingibjörg, dóttir Kristínar, varð herbergjastúlka í Viðey en giftist síðar Þorgrími Tómassyni gullsmið og skólaráðsmanni á Bessastöðum. Bréf til Gríms Johnsen bróður hennar þar sem hún lýsir lífinu í Viðey hafa verið gefin út.

Grímur Thomsen

Sonur Ingibjargar og Þorgríms var skáldið Grímur Thomsen sem náði miklum frama í utanríkisþjónustu Dana en kaus að snúa heim og keypti Bessastaði af konungi 1867. Þar hélt hann sig sem aðalsmaður í tæp þrjátíu ár með konu sinni og þjónustufólki.

Previous
Previous

Pólitískt hlutverk frímerkja

Next
Next

„Í Vinaminni Vídalín / valdsmenn kann að dorga“