„Í Vinaminni Vídalín / valdsmenn kann að dorga“
Þar sem hús Seðlabanka Íslands er nú við jaðar Arnarhóls í Reykjavík stóð forðum sögufrægt mannvirki, Batteríið svonefnda, vígi sem Jörundur hundadagakonungur lét á sinni tíð reisa bænum til varnar. Margir Reykvíkingar höfðu fyrir sið að ganga þangað á fögrum sumarkvöldum og njóta sólarlagsins. Fyrir neðan var fjaran og ekkert skyggði á útsýnið til vesturs þar sem Snæfellsjökull blasti við í kvöldroðanum í allri sinni dýrð.
Það varð uppi fótur og fit í bænum sumarið 1899 þegar fréttist að fram væri komið á Alþingi frumvarp um að heimila landsstjórinni að selja Batteríið og svæðið þar í kring kaupmannsfrú nokkurri, Helgu Vídalín að nafni, svo hún gæti reist sér skrauthýsi á staðnum. Landið var eign stjórnarinnar. Það var ekki aðeins út af missi útsýnisins og eyðileggingu merkra minja sem bæjarbúum varð heitt í hamsi. Það vakti tortryggni að kaupmannsfrúin skyldi sækja um lóðina í eigin nafni en eiginmaður hennar hvergi vera nefndur á nafn í því sambandi. Frú Helga, á þessum tíma ein helsta auðkona Reykjavíkur, naut lítillar hylli í bænum, dóttir hins umdeilda danska selstöðukaupmanns J.P.T. Bryde. Eiginmaður hennar, Jón Vídalín, var umsvifamikill athafnamaður, umboðsmaður nýstofnaðra kaupfélaga, og stóð um þessar mundir fyrir útgerð sex togara sem hann vantaði höfn fyrir.
Þau hjón bjuggu í Kaupmannahöfn á veturna og voru hér aðeins að sumarlagi; leigðu þá stórhýsið Vinaminni í Grjótaþorpinu. Menn veltu því fyrir sér hvort húsbygging frúarinnar væri yfirvarp fyrir áform bónda hennar um að ná staðnum fyrir lítið fé til að byggja þar hafskipabryggju. Jón Vídalín hafði orð á sér fyrir að vera óvandaður að meðulum. Andúðin á sölunni og ólgan í bænum út af málinu fór ekki framhjá þingmönnum enda fengu þeir í hendur áskorun um að fella frumvarpið frá á þriðja hundruð bæjarbúum. Þingpallar voru þéttskipaðir í hvert skipti sem það var rætt. Hópur Reykvíkinga sameinaðist um að bjóðast til að kaupa Batteríð fyrir tvöfalt það verð sem frú Helga bauðst til að greiða og færa bænum lóðina að gjöf. Engu að síður samþykkti þingið frumvarpið með miklum meirihluta.
En bæjarstjórn Reykjavíkur sætti sig ekki við þetta. Skoraði hún á Kristján konung IX. í Kaupmannahöfn, að synja lögunum staðfestingar. Konungur hafði þá enn slíkt vald. Og eftir að hafa kynnt sér málið varð ráðgjöfum konungs ljóst að af þessu máli var einhver spillingarfnykur. Var lögunum synjað og málið því úr sögunni.
En hvernig stóð á því að alþingismenn gengu svo berlega gegn almenningsálitinu? Af hverju tóku þeir þrönga einkahagsmuni auðugrar konu þekkts athafnamanns fram yfir rétt bæjarbúa til útsýnisstaðar síns og verndun sögulegra minja bæjarins? Kannski er svarið að finna í þingræðu sem Valtýr Guðmundsson flutti gegn frumvarpinu. „Það er almennt álit hér í bænum“, sagði hann, að Jón Vídalín hafi „bæði með veisluhöldum og öðru, svo mikil áhrif á þingmenn og æðstu embættismenn landsins, að hann hafi þá nálega í vasanum“.
Eftirfarandi samtímavísa, ort af Kristjáni Sigurðssyni ritstjóra, svarar spurningunum líka á sinn hátt:
Í Vinaminni Vídalín
valdsmenn kann að dorga.
Veitir klára kampavín -
kaupfélögin borga.