„Skjótið bara, sama er mér!“
Frelsisdagurinn 5. maí 1945 er ein mesta gleðistund í sögu Danmerkur á öldinni sem leið. Þá urðu Danir frjálsir að nýju eftir fimm ára þrúgandi hersetu Þjóðverja. Nokkur skuggi hvílir þó einnig yfir minningu þessa dags og þeirra sem í hönd fóru vegna þess að hefndarþyrstir félagar í dönsku andspyrnuhreyfinguni, frelsisliðar sem svo nefndu sig, notuðu tækifærið þegar Þjóðverjar höfðu gefist upp til að elta uppi landa sína og fleiri menn sem þeir töldu, með réttu eða röngu, hafa átt í samstarfi við nasista.
Voru allmargir teknir af lífi án dóms og laga. Í hópi fórnarlambanna var 17 ára gamall íslenskur skólapiltur, Karl Jóhann Hallsson, sem saklaus var skotinn til bana. Hafði hann verið handtekinn í misgripum fyrir bróður sinn. Einna þekktastur var þó án efa Guðmundur Jónsson Kamban, tæplega 57 ára gamall rithöfundur, leikskáld og leikstjóri sem búsettur var í Danmörku.
Aldrei hefur verið upplýst um það opinberlega hver það var sem skaut Kamban til bana. Dönsk stjórnvöld hafa ekki beðist formlega afsökunar á atvikinu, en féllust þó eftir nokkurt þóf á að greiða ekkju hans, leikkonunni Agnetu Egeberg Kamban, lífeyri til dauðadags. Fluttist hún til Bandaríkjanna með dóttur þeirra Sibil, sem þá var 24 ára. Þær mæðgur eru nú báðar látnar. Einkasonur Sibil og afkomendur hans eru búsettir vestanhafs. Sibil var viðstödd þegar faðir hennar var veginn í matsalnum á heimili þeirra í Kaupmannahöfn, en fjölskyldan bjó á gistiheimili, pensjónati, við Upsalagade.
Íslenskur fræðimaður, Ásgeir heitinn Guðmundsson sagnfræðingur, fékk fyrir um 30 árum að sjá gögn dómsmálaráðuneytis Danmerkur um hina opinberu rannsókn á drápi Kambans. Er þar að finna lýsingu á atvikum öllum og játningu andspyrnumannsins sem varð honum að bana. Greinir Ásgeir frá þessu í bók sinni Berlínarblús (1996, 2009). Ásgeir mátti þó ekki upplýsa um nafn banamanns Kambans. Um drápið er einnig fjallað ítarlega í ævisögu Kambans eftir Svein Einarsson sem kom út fyrir áratug.
Krafist rannsóknar og skýringa
Íslendingum var mjög brugðið þegar fréttirnar um dráp Kambans bárust hingað heim. Öll þjóðin vissi hver hann var. Litið var á Kamban sem einn af fremstu rithöfundum landsins og landsmenn voru stoltir af þeim góðu viðtökum sem mörg verka hans, ekki síst leikritin Vér morðingjar, Marmari og Hadda Padda, og skáldsagan Skálholt höfðu hlotið utanlands. Kamban var heimsborgari með mikinn metnað; hafði búið og starfað við leikstjórn og ritstörf í Kaupmannahöfn á þriðja áratugunum, var síðan búsettur um skeið í New York, London og Berlín þar sem hann reyndi að láta skáldadrauma sína rætast. Hann fluttist loks aftur til Danmerkur 1939 en þar voru þá runnir upp þrengingartímar og enn herti að á stríðsárunum og bjó hann þá við frekar kröpp kjör.
Íslensk stjórnvöld kröfðust rannsóknar og skýringa á drápi Kambans frá ríkisstjórn Danmerkur. Beitti Ólafur Thors, þáverandi forsætis- og utanríkisráðherra, sér mjög í málinu og vildi að nafn Kambans yrði hreinsað. Guðmundur Kamban var æskuvinur hans og hafði á unglingsaldri búið um skeið á heimili Thors Jensen við Tjörnina. Skýringar Dana voru mjög takmarkaðar en margir vildu líta svo á að lífeyririnn sem ekkja hans fékk frá danska ríkinu jafngilti staðfestingu á því að Kamban hefði verið drepinn saklaus.
Engin formleg lögreglurannsókn fór fram, aðeins stuttaralegar vitnatökur. Banamaður hans var aldrei yfirheyrður af lögreglunni, aðeins af lögfræðingi dönsku andspyrnuhreyfingarinnar og skýrslan um það send dómsmálaráðuneytinu.
Bróðir Kambans, Gísli Jónsson alþingismaður, þrýsti mjög á dönsk stjórnvöld að gera hreint fyrir sínum dyrum, biðjast afsökunar og veita Kamban uppreisn æru. Gísli fékk þau svör árið 1953 að ekki hefði verið tilefni til opinberrar málshöfðunar á hendur Kamban í stríðslok fyrir samstarf við Þjóðverja. Dönsk stjórnvöld hafa þó ekki viljað staðfesta að í þessum orðum felist formleg yfirlýsing um sakleysi Kambans. Þau sögðust þó harma lát hans. Málið kom á borð ríkissaksóknara Dana 1947, en niðurstaða hans var að ekki væri ástæða til að aðhafast neitt frekar. Ekki er annað vitað en að íslensk stjórnvöld hafi látið þar við sitja. Þess má geta að nafn Kambans var hvergi að finna á listum dönsku andspyrnuhreyfingarinnar yfir samstarfsmenn nasista sem handtaka bæri. Staðfesta gögn andspyrnuhreyfingarinnar í ríkisskjalasafninu þetta.
Hótað fangelsisvist
Ásgeir Guðmundsson upplýsti í bók sinni að danska dómsmálaráðuneytið hefði sett mjög ströng skilyrði fyrir að veita sér aðgang að gögnum um dráp Kambans. „Meðal þessara skilyrða er, að höfundur má ekki nafngreina þá frelsisliða, sem fóru að Guðmundi Kamban, og hann má heldur ekki hafa samband við aðstandendur þeirra, sem féllu fyrir hendi frelsisliðanna, að viðlagðri hálfs árs vist í dönsku fangelsi, ef út af er brugðið,“ sagði Ásgeir.
Í ævisögu Kambans kemur fram að Sveini Einarssyni stóð vorið 2011 til boða að kynna sér gögn danska dómsmálaráðuneytisins um dráp Kambans með sömu skilyrðum og Ásgeiri Guðmundssyni. „Er í bréfinu vísað til refsilöggjafar ef út af er brugðið,“ segir Sveinn í bókinni og bætir við: „Bókarhöfundur þáði ekki boðið, enda sá hann ekki hvað það gagnaði að hann tæki umrædd leyndarmál með sér í gröfina, líkt og drápsmaðurinn virðist hafa gert. Sá var sem sagt firrtur allri ábyrgð.“
Nafn banamannsins
Morgunblaðið birtir nú í fyrsta sinn nafn banamannsins. Tildrögin eru þau að höfundur þessarar greinar fékk vitneskju um að Ásgeir heitinn hefði fyrir nokkrum árum falið handritadeild Landsbókasafnsins varðveislu hluta gagna sinna um málið. Voru þau lokuð til ársins 2015. Þá voru liðin 70 ár frá atburðinum. Er líklegt að Ásgeir hafi litið svo á eða fengið staðfestingu á að frá þeim tíma væri dönskum stjórnvöldum ekki lengur stætt á því samkvæmt lögum um opinbera skjalavörslu að vefja nafn banamannsins leyndarhjúpi.
Þetta hefur þó ekki verið kannað sérstaklega vegna þessarar greinar enda hefur höfundur engan trúnað undirgengist og gögnin liggja með óheftum aðgangi á opinberu safni. Reyndar má segja að löngu hafi verið kominn tími til þess að nafn banamanns Kambans yrði gert opinbert. Óviðunandi verður að telja að hann þurfti aldrei neina ábyrgð á gjörðum sínum að axla og komst undan öllum afskiptum réttarkerfisins.
Sá sem skaut Guðmund Kamban til bana hét fullu nafni Egon Alfred Højland og var foringi í andspyrnuhópnum Ringen í Kaupmannahöfn. Hann var tæplega þrítugur þegar hann mætti upp úr hádegi 5. maí 1945 með tveimur félögum sínum og bílstjóra á gistiheimilið við Upsalagade í þeim tilgangi að handtaka Kamban. Mennirnir voru allir vopnaðir, Højland með skammbyssu en félagar hans með skammbyssu og vélbyssu. Þeir höfðu verið að alla nóttina, leitað uppi og handtekið fjölda manna eftir lista sem þeir höfðu undir höndum um vitorðsmenn þýska hernámsliðsins.
Í Berlínarblús segir Ásgeir Guðmundsson – og byggir á gögnum danska dómsmálaráðuneytisins – að þegar mennirnir voru um hádegisbil staddir á Nørre Farimagsgade, sem er skammt frá Upsalagade, hafi borið að mann á reiðhjóli sem andspyrnumönnum virtist vera foringi í andspyrnuhreyfingunni. Ókunnugt er um nafn hans. Þessi maður sagði þeim að á Hotel-Pension Bartoli við Upsalagade 20 væri hættulegur uppljóstrari sem hætta væri á að myndi reyna að flýja. Hvatti hann þá til þess að fara þangað þegar í stað í og handtaka manninn. Þeir hringdu á gistiheimilið og lofaði dyravörðurinn þeim að sjá til þess að uppljóstrarinn kæmist ekki undan.
Þegar hópurinn kom á gistiheimilið sat Guðmundur Kamban að snæðingi með dóttur sinni, en kona hans var í herbergi þeirra. Dyravörðurinn benti á hann. Einhver nefndi að þarna sæti „prófessor Kamban“ eins og hann var gjarnan nefndur. Højland lét þess getið við yfirheyrslur hjá lögfræðingnum að hann hefði kannast við nafnið, hefði heyrt eða lesið í blöðum andspyrnuhreyfingarinnar að Kamban væri nasisti og hefði samband við Þjóðverja. Hann gekk að borðinu, miðaði byssunni á Kamban og bað hann að koma með þeim, því hann væri handtekinn.
Hæfði Kamban í gagnaugað
Ásgeir greinir frá því að Kamban hafi staðið á fætur en neitað að fara með andspyrnumönnum, sagt að þeir hefðu enga heimild til að handtaka sig. Hafi Højland þá sagt að hann yrði að gera sér að góðu að koma með þeim sem fangi. Mál hans yrði rannsakað fyrir dönskum dómstól og hann þyrfti ekki að óttast að hann yrði beittur harðrétti.
Kamban sagði að danskir dómstólar hefðu ekkert yfir honum að segja. Hann var mjög æstur og sama máli gegndi um dóttur hans sem kom föður sínum til varnar og tók sér stöðu fyrir framan hann. Hún var einnig í miklu uppnámi og grýtti diskum í átt að andspyrnumönnum. Þegar Kamban neitaði ítrekað að láta undan kvaðst Højland mundu skjóta hann ef hann hlýddi ekki.
Að sögn viðstaddra hafi Kamban þá sagt: „Skjótið bara, sama er mér.“ (Så skyd, jeg er ligeglad.) Stóð í þófi nokkurn tíma og sló Kamban um sig, áfram mjög æstur. Allt í einu stakk hann annarri hendinni snöggt í vasa sinn, en það mun hafa verið kækur hans þegar hann var í geðshræringu, og kvaðst Højland hafa brugðið svo við þetta að hann hleypti af á þriggja metra færi og hæfði kúlan Kamban í gagnaugað. Hann lést samstundis. Að svo búnu fóru andspyrnumenn á brott og héldu áfram að handtaka samverkamenn Þjóðverja víðs vegar um Kaupmannahöfn.
Lík Kambans var síðar flutt heim til Íslands og hann jarðsettur um sumarið á vegum ríkisstjórnarinnar. Var Sveinn Björnsson forseti viðstaddur útförina, sem fram fór frá Dómkirkjunni, ásamt ráðherrum, þingmönnum, nokkrum erlendum sendiherrum, dóttur Kambans og ættingjum og fjölda annarra. Var hann jarðsettur í Fossvogskirkjugarði.
Hagaði sér ógætilega
Þótt það kunni að vera rétt að Guðmundur Kamban hafi ekkert aðhafst sem að lögum mundi kalla yfir hann ákæru og dóm í Danmörku í stríðslok verður ekki undan því litið að hann hagaði sér að mörgu leyti ógætilega á viðsjárverðum tímum, sérstaklega eftir að Þjóðverjar hernámu Danmörku vorið 1940. Hann tefldi á tvær hættur með margvíslegum samskiptum við ýmsa þýska valdsmenn, ferðalögum um Þýskaland á stríðsárunum og skrifum í blöð og tímarit sem að ýmsu leyti voru nálægt hugmyndafræði nasista.
Þyngst á metunum var kannski einkennilegt verkefni fyrir þýska hernámsliðið sem hann tók að sér til fjáröflunar við erfiðar aðstæður. Hann rannsakaði næringargildi sölva og skrifaði ritgerð um það efni og fékk fyrir það ritlaun í sex mánuði fyrri hluta árs 1944. Launin varð hann að sækja mánaðarlega í Dagmarshus við Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn, hinar illræmdu höfuðstöðvar hernámsliðsins. Danskir andspyrumenn fylgdust með öllum mannaferðum við húsið og skráðu niður. Vinur Kambans, Kristján Albertsson, hélt því fram að frumkvæðið að þessu verkefni hefði komið frá Þjóðverjum, hvað svo sem fyrir þeim vakti.
Líklegt er að Kamban hafi gert sér grein fyrir því löngu fyrir stríðslok að hann var í hættu, enda hafði danska andspyrnuhreyfingin undanfarin misseri tekið af lífi fjölmarga samlanda sína sem hún taldi eiga samstarf við Þjóðverja. Haustið 1944 sótti hann um leyfi til að flytjast til Svíþjóðar með fjölskyldu sína. Svíar samþykktu að taka á móti honum en Þjóðverjar neituðu honum um vegabréfsáritun. Rétt fyrir lok stríðsins gáfu Þjóðverjar eftir og veittu Kamban leyfið. Bréf þess efnis mun hafa borist á heimili hans í Upsalagade 7. maí 1945. Þá hafði hann verið látinn í tvo daga.
Sat um tíma á danska þinginu
Banamaður Guðmundar Kambans rithöfundar, Egon Alfred Højland, fæddist í Kaupmannahöfn 1916. Hann lést 1998, tæplega 82 ára gamall. Hann var skiltamálari að mennt og stofnaði á sínum tíma Sveinafélag málara. Hann varð snemma mjög pólitískur og hélt tvítugur að aldri til Spánar til að taka þátt í borgarastyrjöldinni þar með sveitum lýðveldissinna. Tók hann meðal annars þátt í orrustunni við Ebrófljót 1938, þar sem þúsundir manna féllu.
Eftir að heimsstyrjöldinni lauk vann hann við iðn sína í Danmörku og lét að sér kveða í fagfélagi sínu. Haustið 1973 bauð hann sig fram til þings fyrir nýstofnaðan flokk Miðdemókrata (CD). Sat hann á þingi frá því í desember það ár og fram í ársbyrjun 1975.
Nafn hans hefur aldrei áður verið nefnt í tengslum við dráp Kambans, en Højland viðurkenndi verknaðinn við yfirheyrslu hjá lögmanni andspyrnuhreyfingarinnar og eru gögn um það í fórum danska dómsmálaráðuneytisins.
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 21. september 2023.