Þjóðsagan um kjörorð Jóns forseta

Jón Sigurðsson (1811-1879).

Allt frá því að Jón Sigurðsson forseti lést í Kaupmannahöfn í desember 1879 hefur verið haft fyrir satt að hann hafi átt sér kjörorð sem einkennandi hafi verið fyrir afstöðu hans í stjórnmálum.  Fram að lýðveldisstofnun 1944 var það talið vera „Aldrei að víkja“. Eftir það varð útgáfan „Eigi víkja“ ríkjandi og er enn. Orðin eru meðal annars letruð á innsigli fálkaorðunnar, æðstu viðurkenningar íslenska lýðveldisins; eldri útgáfan var á innsigli orðunnar á árunum 1921 til 1944, sú yngri eftir það. Það liggur við að segja megi að á þessu langa tímabili hafi varla verið haldin svo hátíðarræða, þar sem sjálfstæðisbaráttuna og þátt Jóns forseta í henni hefur borið á góma, að ekki hafi verið vitnað til kjörorðs hans og út af því lagt. Þar hafa átt hlut að máli forystumenn þjóðarinnar og málsmetandi menn á flestum sviðum þjóðlífsins. Kjörorðið í ýmsum útgáfum hefur einnig orðið mörgum skáldum að yrkisefni í minningarljóðum um Jón.

Það kemur því nokkuð á óvart að þegar heimildir eru rannsakaðar er hvergi að finna nein gögn sem styðja að Jón forseti hafi í reynd valið sér og notað annað hvort þessara kjörorða eða yfirleitt eitthvert kjörorð. Misskilningurinn virðist sprottinn af því að honum var vorið 1851 fært að gjöf innsigli (signet) með skjaldarmerki og áletruninni „Eigi víkja“. Ekki er að sjá að Jón hafi notað þetta innsigli, þótt ekki skuli það útilokað. Orðin á innsiglinu er hvergi að finna í sendibréfum hans, þingræðum eða greinum í blöðum og tímaritum eins og eðlilegt væri, ef þau hefðu verið honum sérstaklega kær eða á einhvern hátt lýsandi fyrir stefnu hans og vinnubrögð í stjórnmálum.

 „Kjörorð Jóns Sigurðssonar“ í þeim skilningi sem í það hugtak er jafnan lagður, það er sem „viðkvæði“ hans, „regla“, „heróp“, „orðtak“ eða „eggjunarorð“, virðist því frekar mega flokka sem þjóðsagnaefni en sagnfræði. En eins og oft er með góðar þjóðsögur styðjast þær gjarnan við einhvern „sannsögulegan kjarna“. Í þessari grein er reynt að finna þetta upphaf sögunnar um kjörorð Jóns forseta og rekja framvindu hennar.

Garnisonskirkja í Kaupmannahöfn. Hér var fullt hús við minningarathöfn um Jón Sigurðsson 13. desember 1879.

„Það var viðkvæði hans“

Jón Sigurðsson lést á heimili sínu við Austurvegg í Kaupmannahöfn eftir langvinn veikindi 7. desember 1879. Góðvinur hans, athafnamaðurinn Tryggvi Gunnarsson, sem þá var búsettur í Kaupmannahöfn, tók að sér að annast útför Jóns, og síðar Ingibjargar konu hans, og umsjón með öllum málefnum þeirra hjóna. Náfrændi Tryggva, séra Eiríkur Briem prófastur, dvaldist um þær mundir í borginni við framhaldsnám til undirbúnings kennarastarfi við Prestaskólann í Reykjavík. Fékk Tryggvi hann til að flytja húskveðju á heimili Jóns 11. desember. Líkið var síðan flutt í Garnisonskirkju steinsnar frá. Var þar haldin minningarathöfn um Jón 13. desember að viðstöddu miklu fjölmenni, þar á meðal flestum Íslendingum í borginni og dönskum fyrirmönnum.

Við athöfnina í kirkjunni flutti Eiríkur hjartnæm minningarorð um Jón eins og tíðkast við útfarir. Hann hafði orð á því að samhljómur hefði nánast alltaf verið með Jóni og íslensku þjóðinni hvað málefni snerti. „Í einu máli var þó þing og þjóð eindregið á móti honum, en hann fylgdi þar eigi að síður skoðun sinni fram með jafn miklu kappi og endranær,“ sagði Eiríkur og átti þar við fjárkláðamálið árið 1859, þegar Jón gerðist erindreki dönsku stjórnarinnar á Íslandi og bakaði sér fyrir vikið miklar óvinsældir meðal landa sinna.

Síðan sagði Eiríkur:

 „Aldrei að víkja“. Það var viðkvæði hans. Aldrei að víkja eitt fótmál frá því, er hann áleit rétt, það var aðaleinkennið á lífi hans. Að hann hafi eigi ætíð tekið fyllilega til greina ástæður þeirra, er höfðu aðra skoðun en hann, það þarf engan að furða er gætir að takmörkunum mannlegs anda, og vissi hve geðríkur hann var. Hitt er miklu fremur merkilegt, hvernig hann gat stjórnað svo geði sínu, að hann hafði aldrei þau orð, er eigi sæmdu drenglyndum og ágætum manni. (Útför Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur, Reykjavík 1880, bls. 17) .

Jarðaför Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur í Reykjavík í febrúar 1880. Líkfylgdin á leið í Dómkirkjuna.

„Ritaði djúpt á sinn riddaraskjöld/ sitt rausnarorð“

Fregnin um andlát Jóns Sigurðssonar barst ekki til Íslands fyrr en með fyrsta miðsvetrarpóstskipinu í byrjun febrúar 1880. Öll blöð landsins greindu þá þegar frá þessum sorgartíðindum. Var einnig sagt frá minningarathöfninni í Garnisonskirkju. Blaðið Fróði á Akureyri vitnaði í líkræðu séra Eiríks:

Hann minntist fagurlega æviatriða Jóns Sigurðssonar og hve fast og vel hann hefði haldið við þá reglu „aldrei að víkja. (Fróði 28. febrúar 1880.)

Eiríkur Briem ritaði einnig grein um Jón Sigurðsson í hið víðlesna danska vikublað Illustreret Tidende. Birtist hún 28. desember 1879. Þar kemst hann svo að orði um Jón:

 Han kjendte ikke til nogen Halvhed. Hans Meninger vare urokkelige, og med Liv og Sjæl søgte han at sette dem igjennem. „Aldrig at vige“ vare de Ord, han havde gjort til sit Valgsprog, og det Charakteristiske ved hans politiske Virksomhed var, aldrig at vige en Haarsbred fra, hvad han ansaa for Ret. At han undertiden dømte med nogen Ensidighed om modsatte Anskuelser, kan man ikke undre sig over, men i sin Polemik fastholdt han altid en temmelig og maadeholden Tone og holdt sig stedse fra for personlige Fornærmelser.

Í stað þess að tala um orðin „Aldrei að víkja“ sem viðkvæði Jóns Sigurðssonar eins og Eiríkur gerði í líkræðunni, en slíkt orðalag hefur mjög víða og ónákvæma merkingu, notar hann í blaðagreininni orðið „valgsprog“ sem hefur mun ákveðnari skírskotun. Bein þýðing þess er „kjörorð“. Í dönsku er með þessu orði yfirleitt vísað til stuttra einkunnarorða á latínu sem tíðkast hafa í margar aldir á innsiglum og skjaldarmerkjum aðalsmanna og konunga.

Í grein sem Eiríkur ritaði um ævi Jóns og birti í tímaritinu Andvara vorið 1880, þegar útför Jóns hér heima hafði farið fram, kemur einmitt fram að það er áletrun á innsigli í eigu Jóns sem er kveikjan að orðunum um „viðkvæði“ hans og síðar „valgsprog“:

Framúrskarandi kjarkur og staðfesta var það sem einkenndi hann mest: hann hafði sett í innsigli sitt „aldrei að víkja,“ og því fylgdi hann í lengstu lög.

Þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson, þá ritstjóri Þjóðólfs í Reykjavík, var fenginn til að yrkja aðalsálminn við jarðarför Jóns og Ingibjargar í Reykjavík 4. maí 1880. Í fjórða erindinu eru þessar ljóðlínur:

Og ritaði hann djúpt á sinn riddaraskjöld

sitt rausnarorð „Aldrei að víkja“.

„Rausnarorð“ kemur hvergi annars staðar fyrir í íslensku ritmáli svo kunnugt sé. Vafalaust er hér um skáldaleyfi að ræða vegna ljóðstafa og merkingin hin sama og kjörorð eða einkunnarorð. Ljóð Matthíasar var birt í flestum blöðum á Íslandi eftir útförina og gjarnan til þessarar setningar vitnað á næstu árum og áratugum þegar Jóns Sigurðssonar var minnst.

Það virðist blasa við að hugmynd Matthíasar um að „rausnarorð“ Jóns Sigurðssonar hafi verið „Aldrei að víkja“ sé komin frá Eiríki Briem. Með orðunum „á sinn riddaraskjöld“ er greinilega átt við innsigli Jóns með skjaldarmerkinu. Hefur Matthías ekki ekki haft aðgang að innsiglinu áður en hann orti útfararsálminn og treyst á frásögn Eiríks sem misminnti um áletrunina.

„Kjörorðinu“ haldið á lofti

Frá láti Jóns Sigurðssonar og fram til okkar daga hefur minningu hans, nafni, starfi og stefnu, verið haldið hátt á lofti eins og alkunna er. Er þarflaust að rekja þá sögu hér. Næstu áratugina eftir útför Jóns bar kjörorð hans í útgáfu Eiríks Briems og séra Matthíasar oft á góma í blaðagreinum, ræðum og ritum. Skulu hér nefnd af handahófi fáein dæmi þess en þau skipta hundruðum í blöðum, bókum og tímaritum:

• „... vér verðum enn að treysta sannleikanum og fylgja hinu ógleymanlega orðtaki Jóns Sigurðssonar aldrei að víkja.“ (Þjóðólfur 27. ágúst 1884.)

• „Alþingi ... fylgir ... trúlega hinni nafnfrægu reglu „Aldrei að víkja“. (Suðri 28. nóvember 1884.)

• „Í staðinn fyrir þrautseiga og áframhaldandi baráttu, sem forseti Jón sál. Sigurðsson einkenndi með orðunum „Aldrei að víkja“, virðast þessir seinna tíma, nýmóðins stjórnmálagarpar, hafa rist á rönd skjalda sinna orðin: „Ávallt að víkja.“ (Þjóðólfur 18. október 1889).

• „En stefnuskrá J. Sigurðssonar var: „aldrei að víkja“ og „stjórnina inn í landið.“ (Vestri 12. apríl 1902.)

• „Aldrei að víkja“ voru hin alkunnu einkunnarorð Jóns Sigurðssonar. Í þeim innifaldi hann þrennt, að mínu áliti. Aldrei að víkja frá að gera það sem rétt er. Aldrei að víkja frá að verja og sækja rétt sinn. Aldrei að víkja frá að hrinda af sér óréttinum. Þessi þrjú allsherjar boðboð þreyttist hann aldrei að brýna fyrir Íslendingum, beinlínis og óbeinlínis. (Séra Ólafur Ólafsson í Fjallkonunni 10. október 1905.)

• „En nú vita allir, að stefna Jóns Sigurðssonar var einmitt idealisminn og heróp hans „aldrei að víkja“.“ (Eimreiðin 1. tbl. 9. árg. 1903, bls. 3).

• „Hann lét grafa í innsigli sitt: aldrei að víkja, og þeim einkunnarorðum brást hann aldrei.“ (Benedikt Sveinsson alþingismaður í Ingólfi 28. júní 1908).

„Fram, fram, aldrei að víkja“

Á Þingvallafundi sumarið 1885, þar sem saman voru komnir um tvö hundruð baráttumenn fyrir auknu stjórnfrelsi Íslendinga, þar á meðal allir alþingismenn, var í fyrsta sinn fluttur Þingvallasöngur Steingríms Thorsteinssonar. Átti hann eftir að óma um land allt næstu áratugina. Í fyrsta erindinu er greinilega vísað til þess sem talið var kjörorð Jóns Sigurðssonar:

Öxar við ána

árdags í ljóma

upp rísi þjóðlið og skipist í sveit,

skjótum upp fána,

skært lúðrar hljóma,

skundum á Þingvöll og treystum vor heit.

Fram, fram, aldrei að víkja,

fram, fram, bæði menn og fljóð,

tengjumst tryggða böndum,

tökum saman höndum,

stríðum, vinnum vorri þjóð.

(Fjallkonan 10. júlí 1885.)

„Aldrei að víkja“ hljómar óneitanlega sem mjög ósveigjanleg stefna. Í stjórnmálum þurfa menn oft að gefa eftir og semja til að ná einhverjum árangri. En hér var úr vöndu að ráða því sá sem borinn var fyrir stefnunni var nánast kominn í guðatölu á Íslandi. Orð hans voru sem lög í augum margra. Deilur hófust því snemma um það hver hugsun Jóns Sigurðssonar hefði verið með kjörorðinu. Í grein í Þjóðólfi 1889 eru greinahöfundar í Þjóðviljanum (eldri) sakaðir um að „vanbrúka nafn Jóns Sigurðssonar“ með túlkun sinni á kjörorði hans:

Það er auðséð, að þeir þekkja lítið framkomu hans í einstökum atriðum. Það er eins og þeir ímyndi sér, að Jón Sigurðsson hafi álitið baráttu sína í því fólgna, að bíta sig fastan í einstök orð og víkja aldrei frá þeim, eins og nú á að vera merki um mestu stjórnvisku, og hrökkva jafnvel upp með andfælum, ef einu orði ætti að breyta. En þetta er mikill misskilningur og vanþekking. Jón Sigurðsson átti með orðunum „aldrei að víkja“, við það, að hnn vildi aldrei víkja frá því, að heimta innlenda stjórn á Íslandi með fullri ábyrgð fyrir alþingi. Hann heimtaði sjálfstjórn á Íslandi og frá þeirri kröfu vildi hann aldrei víkja, en hinu breytti hann nálega á hverju þingi, hvernig stjórninni skyldi vera fyrir komið. (Þjóðólfur 18. október 1889.)

Þegar Valtýr Guðmundsson kom fram með stefnu sína um íslenskan ráðherra í Kaupmannahöfn var hann sakaður um að svíkja stefnu Jóns Sigurðssonar um innlenda stjórn. Honum var því kappsmál að sýna fram á að Jón hefði ekki fylgt einstrengingslegri stefnu:

 ... það er sitt hvað, að vera stefnufastur stjórnmálamaður, sem aldrei missir sjónar á markinu, en kann þó að hliðra til, þegar á þarf að halda, eða að vera einsýnn og óbilgjarn þrákálfur, sem anar áfram í ofstæki og blindni, hversu miklar torfærur sem verða á vegi hans. Eins og kunnugt er, var orðtak Jóns Sigurðssonar: „aldrei að víkja“, sem hann hafði látið grafa á innsigli sitt. Því reyndist hann líka trúr, að því leyti, sem hann aldrei hvarf frá því marki, sem hann hafði sett sér, né þeim grundvallaratriðum, sem öll stefna hans byggðist á ... En þeir, sem halda, að hann hafi aldrei kunnað að víkja, eða hliðra til við andstæðinga sína og laga sig eftir kringumstæðunum í hvert sinn, þeir misskilja hann hraparlega.

Tilraun með „Ekki víkja“

Andstæðingar Valtýs í Heimastjórnarflokknum, Hannes Hafstein ráðherra og samherjar hans, höfðu líka áhyggjur af því hvernig áköfustu sjálfstæðissinnar lögðu út af orðum Jóns Sigurðssonar. Svo virðist sem þeir hafi nokkrir haft um það samráð fyrir aldarafmæli Jóns 1911 að vekja athygli á því að rangt hefði verið farið með kjörorð hans alla tíð.

Aðalhátíðarljóðið, sem flutt var við samkomu í minningu Jóns á Hrafnseyri 17. júní 1911, var eftir Hannes Hafstein sjálfan. Hefst það með hinum frægu orðum „Þagnið, dægurþras og rígur!“. Í fjórða erindinu eru þessar ljóðlínur:

Áfram bauð hann: „Ekki víkja“.

Aldrei vildi heitorð svíkja.

Vissi: Hóf æ verður ríkja

vilji menn ei undanhald.

Víðsýnn, framsýnn, fastur, gætinn,

fjáði jafnan öfgalætin.

(Gjallarhorn 22. júní 1911.)

 Hér hefur „Ekki víkja“ komið í staðinn fyrir „Aldrei að víkja“. Og ráðherrann notar minningarljóðið til að boða pólitíska hófsemdarstefnu sína sem heimfærð er upp á Jón forseta.

 Nokkrum dögum eftir að ljóðið var flutt birtist klausa í Reykjavík, einu helsta stuðningsblaði Hannesar Hafsteins. Höfundur var Jón Ólafsson alþingismaður og blaðamaður, náinn samherji hans. Þar segir:

Sú erfikenning er orðin að átrúnaði hér, að Jón Sigurðsson hafi haft fyrir einkunnarorð: „Aldrei að víkja.“ Þetta er þó ekki rétt. Þessi einkunnarorð, svona stíluð, hefur Matthías Jochumsson búið til og lagt Jóni í munn („og ritaði djúpt á sinn riddaraskjöld sitt rausnarorð Aldrei að víkja“). En þetta er skáldaleyfi hjá séra Matthíasi — eða í þessu tilfelli öllu heldur bessa-leyfi: því, að engin rímnauð gat knúið hann til þess að færa orðin úr réttu lagi. Líklega hefur séra M. ekki munað réttara í svip, er hann orkti.

Jón Ólafsson segir að vísa Matthíasar hafi orðið til þess að allir hafi lært orðtak Jóns forseta afbakað, því „almenningur hirðir lítt um frumrit eða uppsprettur“:

Hvernig var þá einkunnarorð Jóns Sigurðssonar? Það var stutt, ein tvö orð: „Ekki víkja.“ Þessi orð lét hann grafa á innsigli sitt — og þar standa þau enn, svo að ekki verður um þráttað, hversu þau sé, rétt eftir höfð.

Jón Ólafsson gerir ráð fyrir þeirri mótbáru lesenda að orðin séu sömu merkingar:

En þetta er alveg það sama“, kann einhver að segja. Nei ekki alveg. Glögg og næm hugsun finnur undir eins muninn. „Aldrei að víkja“ gæti verið lífsregla – en auðvitað eins vel grunnhyggins þrákálfs eins og stefnufasts spekings. En „ekki víkja“ er boðorð (commando-orð), foringja-boðorð til fylgismanna, og – sjálfs sín. (Reykjavík 24. júní 1911.)

Vel má vera að það sé rétt hjá Jóni Ólafssyni að það hafi verið fyrir áhrif útfararsálms séra Matthíasar að „aldrei að víkja“ breiddist út sem kjörorð Jóns Sigurðssonar. En hann var ekki upphafsmaðurinn eins og áður hefur komið fram. Líklega hefur það ekki hentað að ávíta Eirík Briem, góðvin Hannesar og Jóns. Hann hafði sjálfur verið virkjaður í þágu endurskoðunarinnar. Í ræðu, sem hann flutti um Jón forseta í samsæti á Hótel Reykjavík 17. júní 1911, voru fyrri ummæli gleymd og grafin:

Orðtak hans: „Ekki víkja“, var ekki sprottið af neinni þrákelkni, heldur þeirri föstu sannfæringu, sem honum var tamt að mynda sér um málefnin, enda sáu menn það oftast síðar, að hún var á góðum rökum byggð. (Óðinn, júní 1911, bls. 17–18.)

 „Eigi víkja“ kemur til sögu

Ekki höfðu heimastjórnarmenn árangur sem erfiði. Er annars óskiljanlegt hvernig þeim tókst að skapa nýja villu þegar þeir reyndu að leiðrétta eldri missögn. Tímaritið Skírnir birti þetta sama ár fjölmargar greinar um Jón í tilefni af aldarafmæli hans. Engar leiðréttingar á kjörorðinu er þar að finna. Klemens Jónsson landritari skrifaði um Jón sem stjórnmálamann:

„Aldrei að víkja“ voru orð, sem Jón Sigurðsson hafði valið sér sem einkunnar orð, og hann fylgdi þeim trúlega ekki einungis í þessum málum, sem nú hefur verið um talað, heldur í öllum lífsferli sínum. (Skírnir 1911, bls. 218.)

 Næstu árin er óspart haldið áfram að nefna „Aldrei að víkja“ sem kjörorð Jóns Sigurðssonar. Segja má að hátindinum hafi verið náð þegar ákveðið var við stofnun fálkaorðunnar að kjörorðið skyldi verða einkunnarorð í innsigli hennar. Undirritaði Kristján X. konungsbréf þar að lútandi í fyrstu heimsókn sinni til Íslands í júlí 1921. Það var ekki fyrr en eftir lýðveldisstofnun sumarið 1944 að settar voru nýjar reglur um fálkaorðuna og ákveðið að í innsiglinu skyldu vera orðin „Eigi víkja“. Þá höfðu einhverjir framtakssamir menn athugað hið gamla innsigli Jóns forseta sem Alþingi varðveitti (en er nú í Þjóðminjasafni Íslands) og áttað sig á villunni.

Á sögusýningu þjóðhátíðarnefndar í Menntaskólanum í Reykjavík 1944 var yfirskriftin yfir höggmynd af Jóni Sigurðssyni í sýningarstofu þar sem fjallað var um sjálfstæðisbaráttuna „Eigi víkja“. (Lýðveldishátíðin, Reykjavík 1945, bls. 413.) Frá lýðveldisárinu hefur síðan yfirleitt verið vísað til kjörorðs Jón forseta með orðunum „Eigi víkja“. Örfá dæmi:

• Sá hinn mikli Íslendingur, Íslendingurinn sem mælti hin frægu orð „Vér mótmælum allir“, hann ritaði og á sinn skjöld „Eigi að víkja.“ (Sigfús Sigurhjartarson alþm. í Þjóðviljanum 24. maí 1951.)

• Látum daginn á morgun, í minningu þess manns, er sagði „Eigi víkja“, verða okkur hvatning til meiri og samstilltari átaka en nokkru sinni fyrr. (Leiðari Vísis 16. júní 1959.)

• Einhuga þjóð stendur að baki yðar í landhelgismálinu og brýnir yður með kjörorði Jóns forseta: Eigi víkja. (Ályktun Alþýðusambands Íslands stíluð á Ólaf Thors forsætisráðherra. Tíminn 22. nóvember 1960.)

• Hið forna vígorð EIGI VÍKJA mun færa oss sigurinn [í landhelgisdeilunni við Breta], ef þrautseigja vor og samheldni eigi bilar. (Einar Olgeirsson: í Rétti 3. hefti 1972.)

• Kjörorð Jóns Sigurðssonar var Eigi víkja, og getur þýtt margt, meðal annars að aldrei megi láta undan síga í sókn þjóðarinnar að markmiðum frelsis og menningar í þessu landi, á hvaða vettvangi sem er. Það merkir einnig að ekki skuli æðrast og þaðan af síður örvænta, þó að eitthvað gefi á bátinn. Það er vissulega ekki vanþörf á að brýna þetta fyrir sér, nú þegar umræða um efnahagsmál og baráttan fyrir að halda í horfi því hagsældarþjóðfélagi, sem vér viljum hafa, skyggja svo að ekki verður um villst, á þau markmið sem í raun og veru eru öllum æðri. (Kristján Eldjárn, forseti Íslands, í nýársávarpi 1. janúar 1980.)

• [Heimildarkvikmynd Saga film um Jón Sigurðsson forseta] hefur fengið heitið „Eigi víkja“ eftir einkunnarorðum Jóns. (Morgunblaðið 29. ágúst 1993.)

• Eigi víkja, voru kjöryrði hans. (Gísli Jónsson íslenskukennari í Morgunblaðinu 17. júní 1994.)

• „Eigi víkja“ voru kjörorð hans, og með þau að leiðarljósi varði hann meint landsréttindi Íslands af fullkomnum ósveigjanleika gegn tilraunum Dana til að koma sambandi Íslands og Danmerkur á nýjan grundvöll. (Guðmundur Hálfdanarson: „Jón Sigurðsson og baráttan um nútímann“. Erindi á málþingi um Jón forseta í Háskóla Íslands 6. desember 2003.)

Oft er talið að meint kjörorð Jóns Sigurðssonar hljóti að mega rekja til einhvers merkilegs viðburðar í sjálfstæðisbaráttunni. Eitt dæmi:

[Uppsögn Menntaskólans fór fram] í hátíðarsal skólans, hinum sögufræga þjóðfundarsal frá 1851, er Jón Sigurðsson mælti sín örlagaríku og ódauðlegu eggjanaorð í stjórnfrelsisbaráttu Íslendinga: „Eigi víkja“. (Richard Beck prófessor í Tímariti Þjóðræknisfélags Íslendinga 1. tbl. 42. árg. 1960, bls. 14–15.)

„Jón” af öldnu kappa kyni“

Víkur nú sögunni til vors 1851. Í Kaupmannahöfn var Jón Sigurðsson að búa sig undir þjóðfundinn sem haldinn var um sumarið. Hélt hann Íslands 15. maí en ferðin tók langan tíma og kom hann ekki til Reykjavíkur fyrr en 22. júní. (Minningarrit Jóns Sigurðssonar, Reykjavík 1911, bls. 182–183.) Sú venja hafði skapast meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn að fyrir heimför Jóns til þingfunda héldu þeir honum samsæti á veitingahúsi í borginni. Var þá einhver úr hópnum jafnan fenginn til að yrkja til hans brag. Kvæðin voru yfirleitt sérprentuð, þeim dreift í samsætinu og sungin þar. Hefur Sigurður Nordal tekið þennan kveðskap saman í bókinni Hirðskáld Jóns Sigurðssonar (Reykjavík 1961). Ekki eru beinar heimildir um samsæti fyrir Jón vorið 1851. En þegar Ljóðmæli Gísla Brynjúlfssonar voru gefin út 1891 að höfundinum látnum (d. 1888) kom þar fram kvæðið „Til Jóns Sigurðssonar“, dagsett 15. apríl 1851. Undir kvæðisheitinu stendur í sviga „með innsigli“. Af þessu ályktaði Páll Eggert Ólason, sem ritaði ævisögu Jóns er út kom í fimm bindum á árunum 1929 til 1933, að kvæði Gísla hefði verið flutt í samsæti Íslendinga fyrir Jón þá um vorið. Við það tækifæri hefðu þeir jafnframt fært honum að gjöf innsiglið sem vísað er til undir kvæðisheitinu. (Páll Eggert Ólason: Jón Sigurðsson, 2. bindi, Reykjavík 1930, bls. 471.) Hafa aðrir sem um Jón hafa skrifað tekið þetta eftir Páli Eggerti. Sigurður Nordal taldi vafalaust að innsiglið hefði verið „gjöf frá Íslendingum í Höfn, en ekki Gísla einum“. (Hirðskáld Jóns Sigurðssonar, Reykjavík 1961, bls. 107.)

Ágiskun Páls Eggerts er mjög sennileg, en ekki er þetta fullvíst. Einkennilega langur tími, heill mánuður, líður frá því að kvæði Gísla er dagsett og þar til Jón stígur á skipsfjöl. Ekkert sérprent er til af kvæðinu eins og venja hafði verið við sömu tækifæri áður. En hvernig sem kvæðið barst Jóni eða var honum flutt er augljóst, þegar það er lesið, að það geymir veganesti ætlað honum á þjóðfundinn í Reykjavík, þar sem tekist var á um framtíðarstöðu Íslands í danska ríkinu. Segir í upphafi:

 Jón! af öldnu kappa kyni

kominn beint af Guttormssyni,

þeim, sem ætthring æðstan hóf

salands um fjalladali,

þar sem hátt um hamra sali

heiðnar rúnir Saga gróf —

vel sé þér um aldur og ævi,

aldin meðan standa fjöll:

Beri þig af bólgnum sævi

bára hæg að frægðarvöll

þar að vinna landi og lýð

 lán, sem gleymist enga tíð,

og svo þeirrar auðnu njóta,

er þeim gefst, sem hlekki brjóta.

(Ljóðmæli Gísla Brynjúlfssonar, Kaupmannahöfn 1891, bls. 224–226.)

Innsiglið sem Jóni Sigurðssyni var fært að gjöf 1851. Á því er mynd af fálka með rósamerki í kring og undir er áletrunin „Eigi víkja“.

Ónotað innsigli

Varðveist hafa þrjú innsigli úr fórum Jóns Sigurðssonar. Eru þau nú í Þjóðminjasafninu. Á eitt þeirra er letrað J/Sig urðsson og þrjár litlar stjörnur fyrir neðan, á öðru eru upphafsstafir hans J.S., og á hinu þriðja er grafið skjaldarmerki, fálki á skildi með dálitlu rósaverki í kring. Undir standa einkunnarorðin: „Eigi víkja“. Þetta er innsiglið sem vísað til í kvæði Gísla Brynjúlfssonar. Fálkamerkið var á þessum tíma talið vera hið forna skjaldarmerki Lopts ríka Guttormssonar riddara (d. 1432) sem mikill ljómi lék um. Á dögum Jóns var álitið að hann væri kominn af Lopti í beinan karllegg. Það mun einnig hafa verið skoðun Jóns. Ættartala, sem vinur hans og samherji Jón Guðmundsson lét taka saman og sendi honum í ársbyrjun 1846, lá þar til grundvallar. Jón skrifaði:

Ættartalan þín — eður lángfeðgatal til Lopts riddara ríka, læt eg fylgja hérmeð; fáir sem aungir, og víst aungir, sem brúka aðallega innsiglin, geta hrósað því að vera komnir frá vorum fornu riddurum í kallalegg: — ergo: eg óska þér minn eðalborni til lukku. (Bréf til Jóns Sigurðssonar. Úrval. 2. bindi, Reykjavík 1984, bls. 100.)

Löngu síðar kom í ljós að ættfærslan var ekki rétt, en það kemur efni okkar ekki við. Innsiglið og kvæði Gísla flytja sömu skilaboðin. Jón Sigurðsson er í hópi ættgöfugustu Íslendinga og sú ósk er látin í ljós að hann standi á rétti þjóðarinnar þegar ögurstund er að renna upp. Innsiglið og kjörorðið sem því fylgdi hafa „verið tákn þess,“ hverjar vonir Íslendingar í Kaupmannahöfn „gerðu sér um forystu Jóns á þjóðfundinum“, skrifaði Sigurður Nordal. (Hirðskáld Jóns Sigurðssonar, Reykjavík 1961, bls. 107.)

Jón hélt áfram að nota eldri innsigli sín eftir að honum var fært hið nýja með skjaldarmerkinu. Líklegasta ástæðan fyrir því er að hann hafi álitið að það yrði haft til marks um hégóma eða oflæti að brúka hið nýja. Hann var viðkvæmur fyrir allri gagnrýni. Lof þótti honum gott, en sjálfshól hefur aldrei verið talið til dyggða. Það var kannski í lagi frá hans sjónarhóli að menn töluðu um hann sem „eðalborinn“ í þröngum hópi eða í sendibréfum eins og vinur hans Jón Guðmundsson gerði, en Jón gat ekki gert það sjálfur.

Svo er ekki víst hvernig Jóni hefur fallið kjörorðið „Eigi víkja“. Hafi hann verið með í ráðum þegar það var valið á innsiglið vekur furðu að hann notar það hvergi í neinum skrifum eða ræðum fyrr eða síðar. Á móti vegur að vísu að mikil dirfska hlýtur það að teljast að afhenda sjálfum Jóni Sigurðssyni innsigli með fornfrægu skjaldarmerki forföður hans (eins og Loptur ríki var þá talinn) og velja á það kjörorð án samráðs við Jón. Ekki hefur fundist fyrirmynd þessa kjörorðs meðal latneskra orðtaka á skjaldarmerkjum, en ósveigjanleikinn sem skín af „Eigi víkja“ vísar óneitanlega á Gísla Brynjúlfsson sem gæti verið höfundur þess eins og kvæðisins. Gísli var afar róttækur í skoðunum, ákafamaður mikill í stjórnmálum og lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Hann hafði áður ort til Jóns af dirfsku; það var við brottför Jóns til Íslands vorið 1847, eins og þetta brot sýnir, en þar brýnir hann Jón til dáða:

Vér vitum þeir sem vilja gagn

vinna með afli fósturjörðu.

Þeir verða að stríða í veðri hörðu,

þeim gefur opt heimr hæðnisnafn;

en er þeir lúta ýgldum bárum

ættjörðin harmar þá með tárum –

þeim frói von sú fögr og traust:

þeir falla aldrei notalaust.

Því máttu eigi þreytast Jón!

þó að á móti stundum andi.

(Ljóðmæli Gísla Brynjúlfssonar, Kaupmannahöfn 1891, bls. 52–53.)

Gísli var árum saman mjög nákominn Jóni þrátt fyrir talsverðan aldursmun. Gísli, fæddur 1827, hóf nám við Kaupmannahafnarháskóla eftir próf frá Bessastaðaskóla vorið 1845. Varð hann lærisveinn Jóns, heimilisvinur og aðstoðarmaður jafnt við fræðistörf sem í stjórnmálabaráttunni og raunar margvíslegu öðru stússi. Úr bréfi, sem Jón Guðmundsson sendir Jóni Sigurðssyni í mars 1854, má lesa að Gísli er ekki óvanur ýmsu snatti fyrir Jón og með honum, þar á meðal heimsóknum til innsiglasmiða. Biður Jón Guðmundsson nafna sinn að útvega Þjóðólfi „snoturt lítið signet“ og bætir við:

Á því mætti standa „Þjóðólfur“, og það meira að rósa- og myndaverki, sem ykkar Gísla þækti eiga við, og ekki nymdi miklu fé. (Bréf til Jóns Sigurðssonar. Úrval. 2. bindi, Reykjavík 1984, bls. 170.)

Jón Sigurðsson forseti.

Niðurstaða þessarar greinar er eftirfarandi:

1. Jón Sigurðsson átti sér ekkert kjörorð í þeim skilningi sem í það hugtak hefur jafnan verið lagður, það er einkunnarorð sem lýsandi sé fyrir stefnu hans og starfshætti.

2. Ekkert bendir til þess að áletrunin „Eigi víkja“ á innsiglinu með skjaldarmerkinu, sem honum var fært að gjöf vorið 1851, hafi verið „viðkvæði“ hans, „orðtak“, eða „stefnuskrá“, hvað þá „heróp“ eins og látið hefur verið að liggja frá því að hann lést. Orðin koma hvergi fyrir í neinum texta sem hann lét frá sér fara. Eftir að hann eignaðist innsiglið 1851 hélt hann áfram að nota eldri innsigli sín við bréfagerð.

Birtist upphaflega í tímaritinu Þjóðmál 10. árg., 1. hefti 2014.







Previous
Previous

Ekki lengur „trúir og hlýðnir“ forsetanum