„Ekki var það göfugmannlegt“
Meðal áhugaverðra bóka nú fyrir jólin er Ég er þinn elskari sem geymir sendibréf Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur frá árunum 1825 til 1832. Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur skrifar inngang og skýringar. Í kynningu útgefanda segir:
Árið 1826 sigldi Baldvin Einarsson til náms í Kaupmannahöfn. Hann var þá trúlofaður Kristrúnu Jónsdóttur en sveik hana í tryggðum. Við tók flókið bréfasamband ástar, blekkinga og fyrirgefningar.
Fyrr á árum var Baldvin nokkuð áberandi í umfjöllun um þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga á 19. öld en hljóðnað hefur um nafn hans á síðustu árum að mér virðist. Baldvin var nokkurs konar Jóhannes skírari í sögu sjálfstæðisbaráttu okkar, maðurinn sem plægði jarðveginn áður en foringinn mikli, Jón Sigurðsson forseti, birtist á sviðinu.
Við að lesa um svik Baldvins við Kristrúnu rifjaðist upp saga af sams konar hátterni annars frægs og dáðs Íslendings, þjóðskáldsins Þorsteins Erlingssonar (1858-1914). Um það mál má lesa í bók Sturlu Friðrikssonar Náttúrubarn frá 2016.
Þorsteinn skáld trúlofaðist Jarþrúði Jónsdóttur (1851-1924), háyfirdómara Péturssonar, föðursystur Sturlu, áður en hann fór til Kaupmannahafnar til náms. Sat hún í festum í föðurgarði hér heima á meðan. Sendi Þorsteinni Jarþrúði reglulega ástarbréf og ástarvísur.
Fram kemur í bók Sturlu að Þorsteinn hafi verið svo fátækur að hann hafi ekki haft efni á námsdvölinni í Höfn. Hafi Jarþrúður því selt jörð sína, Hamar í Þverárhlíð í Mýrasýslu, honum til styrktar. Þegar Jarþrúði var tekið að lengja eftir Þorsteini sigldi hún utan og kom honum að óvörum í húsi því sem hann var talinn dvelja í. Sturla skrifar:
Barði hún þar að dyrum og spurði um Þorstein. Kona kom þar til dyranna, sagði engan Þorstein búa þar og vildi ekki hleypa þessari ókunnugu konu inn fyrir gættina. Jarþrúður sá hins vegar á stólbaki karlmannsbuxur og axlabönd, sem hún hafði krílað og gefið Þorsteini og gat sér þess til, að Þorsteinn væri þar inni, en vildi ekki sjá sig. Jarþrúður leitaði þá til frænku sinnar Elínborgar Pétursdóttur, og dvaldist þar um tíma. En Elínborg var dóttir Péturs biskups og bjó um skeið í Kaupmannahöfn. Þær frænkur náðu loks tali af Þorsteini, sem bjó þá með danskri ekkju og vildi ekkert með Jarþrúði hafa, en hafði samt skrifað henni ástarbréf öll þessi ár og þegið fjárstuðning. Fór Jarþrúður við svo búið heim til Íslands og lauk þar sambandi þeirra hjónaleysa.
Síðan segir Sturla frá því að Jarþrúður gekk að eiga Hannes Þorsteinsson þjóðskjalavörð, þá orðin 38 ára gömul.
Þorsteinn Erlingsson kom heim eftir sex ára dvöl, án þess að ljúka lögfræðiprófi. Hafði hann kvænst danskri konu en skilið við hana. Hann var stöðugt að yrkja og í einu kvæða hans, segir Sturla, eru þessar línur:
Ja, það er nú gátan, því gráskeggjuð fljóð
þau geðjast oss piltununum ei.
Ég þekkti samt einn, sem við altarið stóð
hjá óspilltri fertugri mey.
Sturla Friðriksson skrifar:
Sagt var af gárungum að þar hefði Þorsteinn verið að skjóta á föðursystur mína fyrir að giftast svona seint og auk þess á Hannes Þorsteinsson fyrir að ganga að eiga hana svona fullorðna. Ekki var þetta göfugmannlegt athæfi af góðskáldinu.
Hafa ber í huga að hér er sagan aðeins sögð frá sjónarhóli ættingja Jarþrúðar. Hvernig Þorsteinn Erlingsson hefur upplifað þetta vitum við ekki.