Ekki lengur „trúir og hlýðnir“ forsetanum

Ríkisráð á sögulegum fundi á Bessastöðum 31. desember 2003.

Þegar þriðja bindi ritverksins Stjórnarráð Íslands 1964–2004 kom út í nóvember 2004 hljóta einhverjir glöggir lesendur að hafa veitt athygli tveimur myndum af skjölum sem fylgdu ráðherratali aftast í bókinni. Önnur myndin (456. bls.) var sýnishorn af drengskaparheiti ráðherra frá árinu 1991, hin (458. bls.) sýndi hvernig drengskaparheitið var orðað í árslok 2003. Á textanum hafði verið gerð róttæk breyting. Hafi þetta farið framhjá lesendum verður að ætla að einhverjir hafi þó hnotið um orð formanns ritstjórnar, Björns Bjarnasonar, þáverandi dómsmálaráðherra, í eftirmála bókarinnar, þar sem hann vék að forsetaembættinu og breytingum sem gerðar hefðu verið á tengslum þess við Alþingi og framkvæmdavaldið á undanförnum árum. „Má þar til dæmis nefna, að undir lok síðustu aldar voru flest lagaákvæði um að forseti skipi í embætti afnumin.... Þá hefur orðið breyting á inntaki drengskaparheits, sem ráðherra undirritar þegar hann tekur við ráðherraembætti,“ skrifaði Björn og bætti síðan við: „Hvorug þessara breytinga hefur orðið tilefni fræðilegra útlistana, svo að mér sé kunnugt“ (450. bls.). Lesendur bókarinnar, sem tóku eftir þessum orðum eða litu á myndirnar af skjölunum sem fylgdu ráðherratalinu, hafa varla verið margir þegar horft er til þess að engar umræður hafa orðið um þetta á þeim árum sem síðan eru liðin. Enginn fjölmiðill veitti þessi athygli eða fjallaði um þetta. Verður það að teljast undarlegt í ljósi mikils áhuga almennings, stjórnmálamanna og fjölmiðla á forsetaembættinu, valdsviði þess og samskiptum forseta við ráðherra í ríkisstjórnum á undanförnum árum.

Alkunna er að strax og fyrrverandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, var kjörinn í embætti sumarið 1996 hófst ákveðin togstreita á milli hans og þáverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar. Þurfti það svo sem ekki að koma neinum á óvart, enda hafði Ólafur Ragnar í meira en aldarfjórðung verið atkvæðamikill stjórnmálamaður og eindreginn andstæðingur þeirrar stefnu sem Davíð fylgdi. Mun Davíð þegar í upphafi hafa haft af því áhyggjur að hinn nýi forseti mundi freistast til að beita sér á óhefðbundinn hátt enda ákvæði í stjórnarskránni um embættið um margt óljós ef horft er á bókstafinn og ekki tekið tillit til hefða og vanalegra lögskýringa.

Þannig sá Sigmund, skopteiknari Morgunblaðsins, fyrir sér brottflutning forsetaskrifstofunnar úr Stjórnarráðshúsinu sumarið 1996.

Fyrstu merki um að samskipti forsætisráðherra og hins nýja forseta kynnu að verða erfið birtust almenningi áður en Ólafur Ragnar tók formlega við embætti í byrjun ágúst 1996. Ákvað forsætisráðherra að forsetaskrifstofan, sem verið hafði um langt árabil í húsi forsætisráðuneytisins, gamla Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg, skyldi þegar flutt á brott. Keypti ráðuneytið virðulegt hús við Sóleyjargötu undir forsetaembættið og lét með hraði innrétta það svo það uppfyllti þarfir forsetans og yrði tilbúið sama dag og hann tæki við embætti. Ekki hreyfði hinn nýi forseti mótmælum við þessu opinberlega, heldur lét sér vel líka í samtölum við fjölmiðla. Samskipti forseta og forsætisráðherra næstu misserin verða ekki gerð að umtalsefni hér. Þau voru jafnan kurteisleg opinberlega en ljóst er að forsætisráðherra var oft ósáttur við einstakar gerðir og ummæli forsetans. Á þessum tíma beittu forsætisráðherra og fleiri ráðherrar sér fyrir því að lagaákvæði þar sem getið er um að forseti skipi embættismenn væru markvisst afnumin. Embættaveitingar voru oft umdeildar og væntanlega hafa þeir með þessu viljað koma í veg fyrir að forsetinn freistaðist til inngripa í þau mál með vísan til lagaheimilda sem ef til vill mátti hártoga. Smám saman jókst togstreitan á milli Davíðs og Ólafs Ragnars. Tengdist það átökum í stjórnmálum og viðskiptalífi á sama tíma. Forsætisráðherra og margir nánir samstarfsmenn hans upplifðu það svo að forsetinn drægi taum stjórnarandstöðuflokkanna og hóps kaupsýslumanna sem vildu stokka upp spilin í viðskiptalífinu og komast sjálfir þar til áhrifa. Það var í þessu andrúmslofti ákveðinnar tortryggni og vaxandi andúðar sem farið var að skoða hvaða fyrirbyggjandi ráðstafnir mætti gera til að Ólafur Ragnar gæti ekki misbeitt forsetavaldinu.

Mismunandi orðalag drengskaparheitis ráðherra fram að ríkisráðsfundinum á gamlaársdag 2003.

Eitt af því sem þá var staldrað við var orðalag drengskaparheits ráðherra sem minnst var á í upphafi. Drengskaparheitið hafði verið nær óbreytt frá því Ísland laut Danakonungi. Nýr ráðherra undirritaði svohljóðandi texta við embættistöku á ríkisráðsfundi: „Ég undirritaður sem skipaður er ráðherra í ríkisstjórn Íslands lofa hér með og heiti því að vera forseta Íslands trúr og hlýðinn, halda stjórnskipunarlög landsins og gegna trúlega og dyggilega skyldum þeim, er framannefnt embætti og veitingarbréf leggja mér á herðar.“ Slíkan texta hafði Davíð Oddsson sjálfur undirritað alla sína ráðherratíð, síðast við skipan ráðuneytis síns eftir þingkosningarnar vorið 2003.

En einhverjar efasemdir hafa sótt á hann þetta sama ár; hefur hann kannski hugsað með sér að þetta gamla orðalag gæti einn daginn orðið uppspretta einhverra æfinga eða tilraunastarfsemi á vegum forsetans. Þegar haldinn var ríkisráðsfundur á Bessastöðum á gamlaársdag, þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skyldi taka við embætti menntamálaráðherra, mætti forsætisráðherra með breytt skjal á fundinn. Ekki mun hann hafa kynnt Ólafi Ragnari hinn nýja texta fyrr en komið var á Bessastaði. Drengskaparheitið, sem Þorgerði Katrínu var falið að undirrita, hljóðaði svo: „Ég undirrituð sem skipuð er ráðherra í ríkisstjórn Íslands lofa hér með og heiti því að halda stjórnskipunarlög landsins og gegna trúlega og dyggilega skyldum þeim, er framannefnt embætti og veitingarbréf leggja mér á herðar.“ Hér höfðu orðin „heiti því að vera forseta Íslands trúr og hlýðinn“ verið felld á brott. Ólafur Ragnar Grímsson gerði athugasemd við þessa breytingu, en ókunnugt er hvort það var á fundinum sjálfum eða áður en gengið var til hans. Davíð Oddsson svaraði með því að benda á að drengskaparheitið byggðist á ákvæði í 20. grein stjórnarskrárinnar. Þar segir „Embættismaður hver skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni.“ Hvergi væri kveðið á um að embættismenn, þ.m.t. ráðherrar, hétu því að vera forsetanum trúir og hlýðnir. Þar við sat. Forseti Íslands mun ekki hafa gert frekari rekistefnu út af þessu máli, en vafalaust hugsað sitt. Ekkert er bókað um málið í fundargerð ríkisráðs.

Davíð Oddsson lét af embætti forsætisráðherra haustið 2004. Þá um sumarið hafði Ólafur Ragnar beitt lagasynjunarvaldi í fyrsta sinn í sögu forsetaembættisins og varð af því mikið írafár eins og mörgum er í fersku minni. Frá þessum tíma hafa margar ríkisstjórnir setið, skipaðar ólíkum flokkum. Ólafur Ragnar sat áfram á forsetastól á Bessastöðum fram á sumar 2016.  Þá vaknar sú spurning hvort eftirmenn Davíðs á forsætisráðherrastóli hafi horfið aftur til fyrra horfs með orðalag drengskaparheitsins. Vel má hugsa sér að forsetinn fyrrverandi hefði beitt sér fyrir því. En í svari við fyrirspurn greinarhöfundar upplýsti forsætisráðuneytið að engar breytingar hafi síðan verið gerðar á texta drengskaparheitsins. Nýir ráðherrar sverja á ríkisráðsfundum drengskaparheit að stjórnarskránni, en ekki að vera forsetanum trúir og hlýðnir eins og gert var fram til ársloka 2003. En undarlegt er að enginn fræðimaður skuli hafa fjallað um þessa breytingu; varla hefði hún verið gerð á sínum tíma ef hún hefði ekki verið talin hafa þýðingu fyrir samskipti ráðherra og forseta. Og engum fjölmiðli hefur þótt þetta fréttnæmt, jafnvel þótt þeir hafi á sínum tíma vaktað hvert orð og fótmál fyrrverandi forseta og forsætisráðherra.

Að stofni til birtist þessi grein í tímaritinu Þjóðmál vorið 2012.







Previous
Previous

Kristján X. konungur, Jónas frá Hriflu og Mussolini

Next
Next

Þjóðsagan um kjörorð Jóns forseta