Kristján X. konungur, Jónas frá Hriflu og Mussolini

Kristján X. konungur á Steinbryggjunni í Reykjavík 25. júlí 1930. Jónas frá Hriflu var í móttökunefndinni, líklega sá með pípuhattinn lengst til hægri,

Eins og frægt er í sögunni spurði Kristján X. konungur Jónas Jónsson frá Hriflu, dómsmálaráðherra, að því við komuna hingað til lands sumarið 1930, hvort hann væri að leika lítinn Mussolini á Íslandi. Jónas var þá umdeildasti stjórnmálamaður landsins og þótti mörgum hann beita valdi sínu á gerræðislegan hátt. Fasistaleiðtoginn Benito Mussolini var á þessum tíma einvaldur á Ítalíu og mjög umtalaður.

Konungur var hingað kominn til að sækja Alþingishátíðina á Þingvöllum. Þegar hann steig á land 25 júlí og gekk upp Steinbryggjuna í Reykjavík biðu íslenskir fyrirmenn í röðum eftir að heilsa hinum tigna gesti, þar á meðal Jónas frá Hriflu. Má sjá þá á ljósmyndinni hér að ofan.

Konungur hafði heyrt af óánægju með framgöngu Jónasar. „Mörg eru konungs eyru“ segir málshátturinn. Kannski hafði Jón Sveinbjörnsson, hinn íslenski konungsritari, frætt hann um ólguna sem Jónas hafði valdið. Í ævisögu Jónasar eftir Guðjón Friðriksson segir að þegar konungur tók í hönd ráðherrans á bryggjunni hafi hann spurt hvort hann „stadigvœk spillede den lille Mussolini?“ Samkvæmt annarri útgáfu sögunnar spurði konungur: „Sa det er De, som spiller den lille Mussolini her i landet?“

Fréttin um ummæli konungs barst með eldingarhraða um bæinn, en það var ekki fyrr en hann var farinn af landi brott nokkrum dögum seinna að frásögn af þessu kom í blöðunum. Vikublaðið Stormur reið á vaðið og sagði að sagnir gengju um það að konungur hefði eitthvað verið „að spreka Jónasi til” [þ.e. gantast við hann], „spurt hann hvernig heilsan væri [en yfirlæknirinn á Kleppi, Helgi Tómasson, hafði fyrr á árinu haldið því fram í samtali við Jónas að hann væri geðveikur og var í kjölfarið rekinn úr embætti], og hvort hann væri að leika lítinn Mussolini hér á Íslandi.” Í fréttinni segir að Jónas hafi orðið „hálffoj“ við þessar spurningar, „en stillt sig um að sleppa sér.“

Vikublaðið Heimdallur greindi svo frá því 12. júlí að konungur hefði sagt við Jónas: „Nú, það eruð þér, sem eruð eins konar Mussolini!“ Blaðið sagði að Jónasi hefði orðið orðfall við þetta ávarp konungs.

Morgunblaðið fjallaði um atvikið 13. júlí og sagði í frétt blaðsins:

Konungur vék sér að Jónasi og heilsaði honum sem hinum litla Mussolini Íslands. En Jónasi varð svo mikið um þetta ávarp að hann kiknaði í hnjáliðunum og fór allur hjá sér. Erlendir blaðamenn og fregnritarar voru þar margir viðstaddir. Þótti þessi frónski Mussolini ekki sérlega valdsmannslegur, enda var hann svo lamaður næstu daga, að enginn vissi af honum á Þingvallahátíðinni.

Ekkert var fjallað um málið í blöðum Framsóknarflokksins, flokksblöðum Jónasar frá Hriflu, á þessum tíma.

Jónas Jónsson frá Hriflu.

Margir pólitískir andstæðingar Jónasar hafa vafalaust fagnað því að konungur hafi niðurlægt hann með orðum sínum. Samanburðurinn við Mussolini átti eftir að fylgja Jónasi alla ævi.

Þegar á atvikið er horft nærri öld seinna má segja að ummæli konungs hafi verið bæði óviðeigandi og hrokafull. Hafi hann talið sig þurfa að setja ofan í við Jónas vegna embættisverka hans var móttakan á Steinbryggjunni hvorki staður né stund til þess. Hefði verið eðlilegra að gera það á einkafundi. En kunnugum kom þetta ekki á óvart. Kristján konungur var þekktur fyrir hranalega framkomu, leit stórt á sig og þeir voru fáir Íslendingarnir sem hann hafði eitthvert álit á.

Kristján X., konungur Danmerkur og Íslands.

Velta má fyrir sér hvers vegna orð konungs féllu. Var einhver sérstök ástæða fyrir því að hann talaði um Jónas frá Hriflu sem „den lille Mussolini“ eftir að hafa heyrt kvartanir um stjórnarhætti hans? Þá er á það að líta að í dönskum stjórnmálum á þessum tíma var ekki óþekkt að þannig væri komist að orði um stjórnmálaforingja sem þóttu misbeita valdi sínu og ganga fram af hörku. I blöðum danskra jafnaðarmanna var til dæmis borgarstjórinn í Óðinsvéum,  hinn hægri sinnaði harðjaxl Hans Christian Petersen,  gjarnan uppnefndur „den lille Mussolini.“ Ólíklegt er að þetta hafi farið framhjá konungi.

Benito Mussolini einræðisherra á Ítalíu.

Ekki er þó að sjá að Jónasi frá Hriflu hafi verið líkt við Mussolini í dönskum blöðum fyrir heimsókn konungs hingað sumarið 1930. En hvaðan kom þá samlíkingin? Indriði G. Þorsteinsson rithöfundur og ritstjóri Tímans, sem var í góðu sambandi við Jónas, sagði í blaðagrein sem hann skrifaði á aldarafmæli Jónasar 1985: 

Miklum sögum fór af ofríki Jónasar á helsta valdatíma hans og var skrifað ógætilega um hann í erlendum blöðum. Úr þeim hefur Kristján tíundi eflaust haft efni spurningar sinnar á Steinbryggjunni hér í Reykjavík, þegar hann var að koma í heimsókn á Alþingishátíðina.

En hvaða erlendu blöð voru þetta, ef ekki dönsk? Indriði getur þess ekki. Athugun  mín bendir til þess að konungur gæti hafa fengið hugmyndina úr hinu áhrifamikla bandaríska vikuriti Time Magazine sem mikið var lesið í Danmörku. Blaðið, sem sjaldan fjallaði um íslensk málefni, gerði Jónas frá Hriflu að umtalsefni tvívegis fyrri hluta árs 1930. Í fyrra skiptið 17. febrúar í frétt um gjaldþrot Íslandsbanka sem vakti alþjóðaathygli. Vitnað er í skrif Halldórs Laxness, sem dvalið hafði í Bandaríkjunum um nokkurt skeið, og eftir honum haft:

Our most important statesmen have all been literary men — poets, authors, historians and educators.

Og Time bætir við

Greatest of living Icelandic statesmen is Jonas Jonsson, "The Mussolini of the North," who is Minister of Justice and Ecclesiastics and of course a "literary man." Like Il Duce he is said to have a jealous eye upon the Crown, not with a view to seizing it for himself but with intent to make Iceland a republic.

Þúsund ára afmæli Alþingis og brottvikning Helga Tómassonar úr yfirlæknisstöðu á Nýja Kleppi vegna ummæla um geðveiki Jónasar varð Time Magazine tilefni nýrrar greinar um íslensk málefni 19. maí.

Backed by a group of prominent Icelandic physicians, Dr. Tomasson issued a public statement that the "Mussolini of Iceland," famed Herra Jónas Jónsson, boss politician, Minister of Justice and Ecclesiastics, is a lunatic, suggested that if his skill and that of his associates is not sufficient to diagnose Herra Jónsson as mad, then by all means let the world's foremost psychiatric authorities be summoned to Reykjavik. In point of fact Herra Jónsson is sufficiently eccentric, in a masterful driving sort of way, to have excited the same sort of hushed questions which are asked about Signor Benito Mussolini. To be great and to be mad are merely two different ways of being unusual. Lunatic or no lunatic, the "Mussolini of Iceland" acted last week like a statesman, dismissed Dr. Tomasson from his post as Director of the Icelandic Lunatic Asylum, brought pressure on the Icelandic press to drop discussion of the whole matter, pushed resolutely on with plans for the Millennial Celebration.

Sennilegt er athygli konungs hafi verið vakin á þessum skrifum blaðsins og þau verið kveikjan að hryssingslegum orðum hans við Jónas á Steinbryggjunni.


V I Ð A U K I

Hverju svaraði Jónas?

Lúðvík Kaaber bankastjóri tjáir sig í dönsku blaði í ágúst 1930 um viðbrögð Jónasar frá Hriflu við orðum konungs á Steinbryggjunni.

Við þetta má bæta að stuttu eftir heimsókn konungs til Íslands var Ludvig Kaaber, bankastjóri Landsbankans, staddur í Kaupmannahöfn og tók danskt blað hann þá tali og spurði hann um orðaskipti Kristjáns konungs og Jónasar frá Hriflu á Steinbryggjunni. Hann svaraði:

Det skal jeg sige Dem, for jeg har det fra ham selv. Han svarede med et Smil: En Mussolini er ganske unødvendig i et Land, der regeres af Deres Majestæt!

Kaaber bætir svo við:

Og det Svar synes Islænderne og forhaabentlig ogsaa Kongen meget godt om.

 

Morgunblaðið greindi frá þessu 15. ágúst 1930 en dró í efa að hér væri rétt með farið. Um væri að ræða eftiráskýringu:

Margir vottar voru að því á Steinbryggjunni þ. 25, júní, hverju J. J. svaraði konunginum. En ennþá fleiri munu þeir vera, sem hafa gaman af að heyra nú, hvernig Jónas eftir á hefir hugsað sjer, að hann hefði viljað hafa svarað. Engin ástæða er til að efast um, að hið danska blað hafi það rjett. eftir, því blaðið hefir hið síðbúna svar sama sem frá Jónasi sjálfum.

Hér held ég að rétt sé að láta Jónas frá Hriflu njóta vafans.

























Previous
Previous

Þegar Eimskip var „óskabarn þjóðarinnar“

Next
Next

Ekki lengur „trúir og hlýðnir“ forsetanum