Gosið kom sem þruma úr heiðskíru lofti

Eldgosið í Heimaey í janúar 1973. Ljósm. Morgunblaðið / Ólafur K. Magnússon.

Eldgosið sem hófst í Heimaey 23. janúar 1973 er mestu náttúruhamfarir sem orðið hafa í byggð hér á landi. Um nóttina, þegar eldtungurnar risu og jörðin spúði ösku og eimyrju, vissi enginn hvers vænta mátti og hver yrðu örlög fólks og mannvirkja. Þegar horft er um öxl, nú hálfri öld síðar, vekur helst athygli hve björgunarstarfið í náttmyrkrinu, þegar flytja þurfti íbúana á brott án tafar, heppnaðist vel og hve fumlaust það gekk fyrir sig. Á Heimaey bjuggu þá rúmlega fimm þúsund manns og allur þorri þeirra, 1.349 fjölskyldur, yfirgaf heimili sín um nóttina, flestir með fiskibátum Eyjamanna til Þorlákshafnar og þaðan til Reykjavíkur. Aðrir fóru með flugvélum og þyrlum. Þeir einir urðu eftir sem sinna þurftu björgunarstörfum og öðrum nauðsynlegum skyldum.

Eldgosið kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Enginn vissi neitt sem gat bent til þess að eldsumbrot væru í vændum. En við nánari athugun kom á daginn að um þrjátíu stundum fyrir upphaf gossins varð talsverð hrina af litlum jarðskjálftum undir eynni. Mælingartækin, staðsett á Laugarvatni og í Mýrdal, voru hins vegar ekki nógu nákvæm til að segja til um hvað væri að gerast og engum virðist hafa komið í hug að hætta væri á ferðum. Eldgos í byggð á Íslandi var öllum fjarlæg hugsun; sex þúsund ár voru frá því síðasta gos varð á Heimaey og Helgafell, eitt helsti kennileiti eyjarinnar, myndaðist.

Álag á alla innviði

Við björgunarstarfið og móttöku flóttafólks frá Eyjum reyndi í skjótri svipan og af miklum þunga á alla innviði íslensks samfélags. Á þessum tíma voru Almannavarnir ríkisins varla búnar að slíta barnsskónum og stjórnvöld höfðu enga reynslu af því að bregðast við svo stórfelldu neyðarástandi sem gosið leiddi af sér. En margt stuðlaði að því að betur fór en á horfðist. Þyngst vegur samtakamáttur Vestmannaeyinga sjálfra og raunar allra landsmanna; hver maður sem vettlingi gat valdið vildi leggja björgunarstarfinu og móttöku hinna brottfluttu, og síðar uppbyggingunni, lið.

Tilviljun réð því að bátafloti Vestmannaeyinga, þessarar stærstu verstöðvar landsins, tæplega eitt hundrað skip, sem við eðlilegar aðstæður hefði verið að veiðum, var bundinn við bryggju vegna brælu á miðunum. Hálftíma eftir að eldgossins varð vart var fyrsti báturinn með fólk innanborðs farinn af stað og innan tveggja stunda voru flestir bátarnir byrjaðir að sigla með íbúana á brott. Munu um sjötíu bátar hafa verið notaðir við brottflutninginn. Allar tiltækar flugvélar í Reykjavík voru sendar af stað og öflugar björgunarþyrlur varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli komu og sóttu sjúklinga á sjúkrahúsinu.

Veðráttan hjálpaði

Hagstæð vindátt hjálpaði líka til. Gosið kom upp í sprungu á austasta hluta eyjarinnar, í útjaðri byggðarinnar, og vindáttin bar öskuna og eldtungurnar í upphafi á haf út en ekki yfir byggðina. Í fórum Almannavarna var til áætlun um brottflutning Vestmannaeyinga ef til náttúruhamfara kæmi, gerð um áratug fyrr eftir að Surtsey myndaðist í eldgosi skammt frá Heimaey 1963. Í niðurlagsorðum hennar stóð að vísu að „líkur fyrir brottflutningi íbúanna vegna náttúruhamfara eru sem betur fer taldar mjög litlar,“ en þetta plagg varð þó mikilvægur leiðarvísir við björgunarstarfið. Þá voru til áætlanir á sjúkrahúsum Reykjavíkur um viðbrögð við hópslysi og voru þær virkjaðar um nóttina.

Hvað svo? Hvað næst?

En eitt var að tryggja líf og limi fólks; strax þegar birti þurfti að undirbúa svar við spurningunni, Hvað svo? Hvar átti allt þetta fólk að búa? Hvernig átti það að fæða sig og klæða? Hvaða atvinnu gat það stundað? Hvaða skóla áttu börnin að ganga í? Í þessu efni tókst líka giftusamlega til. Við komuna til Reykjavíkur voru íbúarnir fluttir í stærstu skóla Reykjavíkur og kennsla þar felld niður. M.a. dvöldu um eitt þúsund manns í Sjómannaskólanum fyrsta sólarhringinn, rúmlega 700 í Melaskóla og álíka fjöldi í Hamrahlíðarskóla og Austurbæjarskóla.

Næstu daga og vikur skutu vinir og vandamenn skjólshúsi yfir flóttafólkið meðan unnið var að því að útvega því bráðabirgðahúsnæði. Flutt voru til landsins á sjötta hundrað tilbúin timburhús og sett niður á tuttugu stöðum á höfuðborgarsvæðinu og íbúðir keyptar í fjölbýlishúsum í Reykjavík. Greitt var fyrir því að börnin kæmust þegar í skóla í nágrenni við hin nýju heimili. Bátaflotinn flutti sig í aðrar verstöðvar, svo sem Þorlákshöfn, Grindavík, Keflavík og Reykjavík, og því var hægt að halda áfram veiðum og verðmætasköpun. Vestmannaeyingar urðu þó flestir fyrir miklum tekjumissi og þjóðarbúið í heild fyrir stóru skakkafalli. Allt tók þetta sinn tíma og á meðan á þessu stóð voru margir Vestmannaeyingar órólegir og kvíðnir. Ekki er víst að allir hafi jafnað sig að fullu þótt flestir hafi gert hvað þeir gátu til að bera sig vel.

Gífurlegt eignatjón

Gosið magnaðist fljótlega og breiddi úr sér og tjón varð gífurlegt. Fóru á fjórða hundrað hús undir hraun eða gjall, nærri þriðjungur allra húsa í bænum. Samtals urðu nærri eitt þúsund hús fyrir skemmdum. Einn liður í björgunarstarfinu var hraunkælingin svonefnda, næsta ævintýranleg aðgerð; sjó var dælt á glóandi hraunið þar sem það skreið fram í átt að höfninni til að koma í veg fyrir að það lokaði innsiglingunni. Hefur almennt verið talið að þetta hafi borið nokkurn árangur en skoðanir leikra og lærðra voru mjög skiptar um tiltækið meðan á því stóð.

Næstu vikurnar eftir að eldgosið hófst ríkti mikil óvissa um hvert framhaldið yrði. Vel mátti hugsa sér að gosið stæði í marga mánuði og jafnvel að Heimaey yrði óbyggileg til frambúðar. Fljótlega fóru því íbúar að mælast til þess að fá að bjarga búslóðum sínum úr þeim húsum sem ekki höfðu orðið fyrir skemmdum. Ýmsir vinnuveitendur vildu fá atvinnutæki sín í land. Varð talsverð togstreita við stjórnvöld út af þessu, en Almannavarnir töldu mikla hættu fylgja öllum mannaferðum um eyjuna og óttuðust líka gripdeildir, því erfitt yrði að hafa eftirlit með ferðum fólks og vita fyrir víst hvenær réttmætir eigendur væru á ferð. Lyktirnar urðu þó þær að búslóðir voru unnvörpum fluttar á brott með skipum án þess að nokkur opinber regla væri á þeim flutningum.

Goslok í byrjun júlí

Eldgosinu lauk 3. júlí 1973 og hafði þá staðið í rúma fimm mánuði. Á næstu mánuðum flutti mikill fjöldi íbúanna aftur heim og mikið viðreisnarstarf hófst. Munu um 3.400 íbúar hafa snúið til baka haustið 1973 og komandi vetur. En íbúafjöldi í Eyjum hefur aldrei borið sitt barr eftir eldgosið þótt þar sé í dag blómlegt mannlíf og atvinnulíf.

Almannavarnir virkjaðar

Um eldgosið í Eyjum hefur mikið verið skrifað. Þegar um haustið 1973 komu út þrjár bækur sem veittu gott yfirlit um atburðarásina alla, til viðbótar við það sem dagblöð, tímarit, útvarp og sjónvarp höfðu rakið frá degi til dags, en fréttir af málefnum Vestmannaeyja voru nær allt árið í forgrunni íslenskra fjölmiðla og vöktu mikla athygli utanlands. Er óhætt að segja að Ísland og Íslendingar hafi aldrei fyrr hlotið meiri umfjöllun erlendis en þetta ár, þegar fréttir af gosinu voru tíðastar. Þá hafa hafa fjölmargar bækur verið gefnar út síðustu árin þar sem Vestmanneyingar lýsa reynslu sinni af gosinu, björguninni og uppbyggingunni í kjölfarið.

Í Þjóðskjalasafninu eru varðveittar miklar heimildir um gosið úr skjalasöfnum opinberra aðila. Fékk Morgunblaðið aðgang að skýrslum sem Almannavarnir ríkisins og Rauði krossinn létu gera um upphaf gossins og viðbrögð við því. Þá voru fundargerðir ríkisstjórnarinnar fyrstu gosdagana skoðaðar.

Fyrsta tilkynning kl. 02:07

Samkvæmt skýrslu Almannavarna barst fyrsta tilkynning þangað um eldgosið kl. 02.07 aðfaranótt þriðjudagsins 23. janúar. Boðin bárust til vakthafandi loftskeytamanns Landhelgisgæslunnar sem lét þau ganga áfram til Almannavarna. „Fyrstu fréttir af eldgosinu voru mjög óljósar,“ segir í skýrslunni, „en þó var sagt að flótti væri kominn á íbúa Vestmannaeyjakaupstaðar og fólksstraumurinn lægi niður að höfninni. Tafarlaust var haft samband við starfsfólk Almannavarna og Almannavarnaráð og það kvatt saman í stjórnstöð.“ Var stjórnstöðin opnuð kl. 02.20.

Þess má geta að á þessum tíma var stjórnstöðin í ófullgerðu húsnæði í kjallara nýju lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu í Reykjavík. Í Almannavarnaráði sátu Pétur Sigurðsson forstjóri Landhelgisgæslunnar, sem var forstöðumaður, Sigurjón Sigurðsson, lögreglustjóri í Reykjavík, Sigurður Jóhannsson vegamálastjóri, Ólafur Ólafsson landlæknir og Jón Skúlason, póst- og símamálastjóri. Ritari ráðsins var Ólafur Walter Stefánsson, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu. Starfslið var fámennt en hægt var að kalla til aðstoðar lögreglumenn og aðra. Fyrir tilviljun var staddur á landinu við ráðgjafarstörf almannavarnasérfræðingur frá Sameinuðu þjóðunum, Will H. Perry, og sat hann fundi almannavarnaráðs fyrstu dagana eftir gosið.

„Á skipulagslausum flótta“

Almannavarnaráð og starfsmenn hófust þegar handa við að afla upplýsinga um gang mála og leggja línur um björgunarstörf og móttöku Vestmannaeyinga með því að hafa samband við Rauða krossinn, björgunarsveitir, hjálparsveit skáta, Slysavarnarfélagið, Landhelgisgæsluna, varnarliðið í Keflavík og fleiri. Hringt var úr stjórnstöðinni í yfirlögregluþjóninn í Eyjum, Guðmund Guðmundsson, og hann beðinn um að greina stuttlega frá eldsumbrotunum og almennu ástandi. Segir í skýrslunni: „Hann sagði að austan við bæinn hefði myndast gossprunga, en ekki sæist fyrir suðurenda hennar, þannig að óvíst væri um lengd sprungunnar og þar af leiðandi ástand flugvallarins. Helgafell skyggði á útsýn til enda sprungunnar frá honum séð. Yfirlögregluþjóninn sagði að engar tilkynningar hefðu enn sem komið væri borist um manntjón eða slys, en fólk virtist á skipulagslausum flótta niður til hafnarinnar. Þó væri ekki að sjá neitt óðagot meðal almennings. Taldi hann nauðsynlegt að opna tafarlaust útvarp og koma tilkynningum til íbúa Vestmannaeyja um að hraða sér til hafnarinnar og einnig að gefa helstu leiðbeiningar um hvernig fólk skyldi hegða sér í nágrenni eldstöðvanna.“

Útvarpið hefur útsendingar

Haft var samband við Andrés Björnsson útvarpsstjóra og upp úr klukkan hálf fjögur um nóttina var starfsfólk þess tilbúið að hefja útsendingu. Tíðindin spurðust hratt út og var ritstjórn Morgunblaðsins t.d. þegar ræst út, prentun blaðsins sem þá var í gangi stöðvuð og nýtt blað skrifað um nóttina. Um hádegisbil daginn eftir var síðan gefið út aukablað með nýjustu tíðindum af atburðunum.

Í skýrslu Almannavarna kemur fram að strax í upphafi aðgerða í stjórnstöð Almannavarna hafi verið haft samband við Ólaf Jóhannesson forsætisráðherra. Hann var staddur á Blönduósi og hélt þegar um nóttina til Reykjavíkur. Var fundur haldinn í ríkisstjórninni snemma morguns. Þar var ákveðið að Kristján Eldjárn forseti Íslands myndi ávarpa þjóðina um hádegisbil og Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra um kvöldið.

Gosnóttina var mynduð átta manna sveit lækna í Reykjavík sem fór ásamt tveimur læknum frá Selfossi og Hveragerði til Þorlákshafnar til að taka móti flóttafólkinu frá Heimaey. Segir í skýrslunni að læknarnir hafi átt „að veita fyrstu meðferð gegn andlegu eða líkamlegu áfalli.“

Mikið álag á Almannavarnir

Upp úr kl. 4 um nóttina var björgunarstarfið komið í fastar skorður. Í birgðastöð Almannavarna voru tiltækar sjúkrabörur, teppi og annar búnaður og var það flutt til Þorlákshafnar með sjúkrabílum og sendibílum. Þangað fóru að auki um nóttina rútur og strætisvagnar sem flytja áttu fólkið til Reykjavíkur. Mikil álag var á stjórnstöð Almannavarna þegar tíðindin um gosið fóru að berast út, fjöldi fólks hringdi þangað til að leita upplýsinga um ættingja og vini og ferðir til Eyja. Voru símalínur stjórnstöðvarinnar lengi uppteknar vegna þessa en ástandið lagaðist þegar útvarpið beindi tilmælum til almennings um að hringja ekki þangað. Eins fylgdi því mikið álag að um morguninn kom fjöldi fólks á lögreglustöðina til að bjóða fram aðstoð sína en ekki var hægt að sinna slíkum erindum nema að litlu leyti. Símakostur var mjög takmarkaður í stjórnstöðinni en um morguninn var hafist handa við að fjölga símalínum.

„Sjálfskipaðir stjórnvitringar“

„Eitt af stóru vandamálum Almannavarna fyrsta daginn voru hinar stöðugu upphringingar frá hinum og þessum aðilum, sem töldu sig vita best hvernig ætti að leysa hin mörgu vandamál og vildu margir taka að sér stjórn aðgerða. Upphringingarnar skiptu fleiri hundruðum frá sjálfskipuðum „stjórnvitringum“ um allsherjarlausn vandamála og töldu þeir sig hina einu sönnu bjargvætti,“ segir í skýrslunni.

Blaðamenn Morgunblaðsins heimsóttu stjórnstöð Almannavarna síðdegis á miðvikudegi eftir gosið. Segir í frásögn blaðsins að ráðsmenn hafi setið nær sleitulaust í stjórnstöðinni frá því það var kallað út. Þar hafi verið fjöldi talstöðva og síma sem sjaldan hafi þagnað. Ráðið fylgdist nákvæmlega með öllu sem gerðist og hafi tekið sínar ákvarðanir og gefið fyrirskipanir eftir því sem þörf krefði. „Sérfræðingarnir stukku í símann eftir því hvert vandamálið var; vegamálastjóri ef eitthvað gekk úr lagi með samgöngur, Ólafur landlæknir, ef taka þurfti ákvörðun um sjúkrahúsmál o.s.frv. Þótt þeir hefðu setið lengi var ekki mikil þreytumerki á þeim að sjá og þeir hresstu sig öðru hverju með kaffi sem framleiðslumannaskólinn hafði sent, einn fjölmargra aðila sem var fús til að leggja af mörkum allt sem hann mátti.“

Stórt hlutverk Rauða krossins

Í hlut Rauða krossins féll móttaka flóttafólksins í Reykjavík. Var mikill fjöldi sjálfboðaliða kvaddur út um nóttina. Flytja þurfti teppi og dýnur í skólana, afla matvæla og sinna matseld fyrir fólkið. Tók forstjóri Múlakaffis að sér að skipuleggja matseld og fékk til liðs við sig Hótel- og veitingaskólann. Vélsmiðjan Héðinn bauð eitt þúsund Vestmannaeyingum í hádegismat en um 400 manns munu hafa getað þegið boðið. Þá þurfti að skrá niður nöfn allra Vestmannaeyinganna sem komu og huga að þörfum þeirra. Þess var gætt að enginn yfirgæfi skólana án þess að skila skráningarspjaldi með nýju heimilisfangi.

Þáttaskil urðu 25. janúar þegar Reykjavíkurborg bauð Hafnarbúðir til afnota og fluttist hjálparstarf Rauða krossins þangað í kjölfarið. Þar var næstu mánuðina starfrækt mötuneyti og nokkurs konar félagsmiðstöð og upplýsingamiðstöð sem veitti Vestmannaeyingum margvíslega fyrirgreiðslu.

Þjóðarsamstaða boðuð

Sem fyrr segir kom ríkisstjórnin saman að morgni 23. janúar til að ræða „hinar óskaplegu náttúruhamfarir í Vestmannaeyjum“ eins og segir í fundargerðinni. Á fundinum var samstaða um að þjóðin skyldi rísa sameinuð undir vandanum sem eldgosið hefði skapað. Ákveðið var að skipa nefnd til að fjalla um efnahagsleg áhrif gossins á þjóðarbúskapinn. Síðdegis var annar fundur og á hann mættu forystumenn stjórnarandstöðunnar á Alþingi ásamt þremur fulltrúum almannavarnaráðs. Næstu daga voru daglegir fundir og sátu þá m.a. efnahagsráðgjafar ríkisstjórnarinnar.

Í sjónvarpsávarpi Ólafs Jóhannessonar forsætisráðherra að kvöldi 23. janúar var lögð áhersla á að það væri skylda samfélagsins að gera allar ráðstafanir sem unnt væri til að tryggja stöðu Vestmannaeyinga og bæta þeim tjón þeirra. Þjóðin öll yrði að jafna þessu tjóni á sig. Þetta síðastnefnda olli deilum næstu daga, því margir skildu þetta svo að stjórnin vildi af pólitískum ástæðum ekki þiggja fjárhagslega aðstoð erlendra ríkja og alþjóðastofnana. Í því sambandi þarf að hafa í huga að ríkisstjórnin, vinstri stjórnin sem svo var jafnan nefnd, hafði 1972 látið færa fiskveiðilögsöguna út í 50 mílur og af því spruttu harkalegar deilur við tvær helstu vina- og viðskiptaþjóðir Íslendinga, Breta og Þjóðverja, og stóðu þær enn yfir. Þá hafði stjórnin á stefnuskrá sinni uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin og brottför varnarliðsins og olli það heitum deilum innanlands og togstreitu í samskiptunum við Bandaríkin. Sögur gengu um að ríkisstjórnin vildi helst enga aðstoð þiggja frá NATO-ríkjum og varnarliðinu. Hvað sem einstaka ráðherrar kunna að hafa hugsað fór þó svo að stjórnin þáði margvíslegan fjárhagsstuðning vestrænna ríkja og varnarliðið og Bandaríkjamenn veittu mikla aðstoð við björgunarstörfin og viðureignina við eldgosið.

Deilt um efnahagsráðstafanir

Skoðanir reyndust mjög skiptar um það á Alþingi hvaða efnahagsráðstafanir væru heppilegastar. Ríkisstjórnin og efnahagsráðgjafar hennar lögðu til að fallið yrði frá umsömdum kauphækkunum sem koma áttu til framkvæmda í mars og andvirði þeirra notað til að mæta útgjöldum vegna eldgossins. Gegn þessu lögðust stjórnarandstaðan og verkalýðsforingjar í þingliði ríkisstjórnarinnar og varð hún því að falla frá hugmyndinni. Aftur á móti varð samstaða um að stofna sérstakan viðlagasjóð og afla fjár til hans með hækkun söluskatts og fleiri gjalda. Einnig var sjóðnum lagt til fé úr fleiri áttum, þar á meðal úr ríkissjóði, lánsfé og og gjafafé erlendis frá. Var sjóðnum falið að kosta björgunar- og uppbyggingarstarf í Vestmannaeyjum og bæta íbúunum tekjumissi og eignatjón.

Endurreisn byggðarinnar

Samstaða skapaðist um það strax eftir eldgosið að stefnt skyldi að endurreisn byggðar í Vestmannaeyjum við fyrsta tækifæri. Í sjónvarpsávarpinu 23. janúar fullyrti forsætisráðherra að Íslendingar ættu þá ósk heitasta að á ný blómgaðist og dafnaði byggð i Vestmannaeyjum. Efasemdarraddir heyrðust um að þetta væri skynsamlegt vegna óvissu um frekari náttúruhamfarir en þær fengu litlar undirtektir. Í byrjun febrúar tók Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra af skarið um það í umræðuþætti í sjónvarpinu að byggðin skyldi rísa á ný.„Vestmannaeyjar skulu rísa!“ sagði hann af miklum tilfinningaþunga og segja má að eftir það hafi það aðeins verið tímaspursmál hvenær endurreisnarstarfið hæfist. Þegar goslokum var lýst í byrjun júlí vildu margir tygja sig af stað. Í ágúst sneru fyrstu Vestmannaeyingarnir heim og uppbyggingin hófst af fullum krafti um haustið.

Previous
Previous

„Í Vinaminni Vídalín / valdsmenn kann að dorga“

Next
Next

Tvö Maríulíkneski eftir Júlíus Schou