Tvö Maríulíkneski eftir Júlíus Schou

Maríulíkneski Júlíusar Schou frá 1915. Ekki er vitað hvar verkið er nú niðurkomið, ef það hefur varðveist, en ljósmyndir eru til af því.

Í mars 1918 ritaði Ríkarður Jónsson myndhöggvari (1888-1977) forvitnilega grein í blaðið Frón til að vekja athygli á Maríulíkneski eftir Júlíus A. H. Schou steinsmið. Hann skrifar nafnið reyndar Schau en réttur ritháttur þess var nokkuð á reiki. Um ævi og verk Schou fjallaði ég lauslega í grein sem birtist hér á vefnum á mánudaginn.

Ríkarður segir að Schou hafi

fyrir nokkru gert Maríulikneski, sem er mjög þess vert að þess sé getið, og hefði fyr mátt vera, en blöð hér eru næsta spör á að minnast þess sem gert er til að bæta og auðga iðnað, listir og smekk Íslendinga, sem sýnist þó að vera eins gildandi liður í menningu og fræðslu landsmanna

Ekki getur Ríkarður þess nákvæmar hvenær verkið hafi verið gert en til er ljósmynd af því frá 1915, tekin af Ólafi Oddssyni, og er líklegt að þá hafi það orðið til.

Ríkarður skrifar:

Hr. Júlíus Schau er ekki lærður listamaður og gerir heldur ekki kröfur til að kallast það, enda hefir hann mestallan hluta æfi sinnar orðið að stunda steinhöggvaraiðn, sér og sínum til lífsviðurværis, þó að listaþráin hafi löngum brotist um í brjósti hans. Margt af því sem J. S. hefir gert, bæði teiknað og úthöggvið í stein, hefir sýnt góðan smekk, glögt auga og listamanns-hæfileika.

Og Ríkarður heldur áfram:

En ekkert af því sem ég hefi séð eftir hann, hefir sýnt það jafn Ijóslega eins og þessi Maríumynd, hverja listamannssál og listamannsmátt hann hefir að geyma. Þetta líkneski sem táknar Maríu mey, er mynd af ungri stúlku, sem drúpir höfði í bæn með lokuð augu og krosslagðar hendur á brjósti, og er myndin úthöggvin lítið eitt niður fyrir mitti, þá tekur við óhöggvinn steinninn og lítur því út eins og myndin komi upp úr steininum og fer vel. Á höfðinu hefir hún slæðu sem liggur skáhalt út frá höfðinu og aftur af öxlunum, og myndar þannig fallega línu á efri hluta myndarinnar. Heildarsvipur líkneskisins er bænarró blandin sorg og gleði og miklum fjálgleik.

Ríkarður segir að væri likneski þetta gert af lærðum myndhöggvara, væri hægt að segja að formið væri ekki nægilega fullkomið eða „realistiskt“. En hér sé um mann að ræða, sem ekki sé lærður né æfður sem myndhöggvari, og sé því síst að furða þó form hans sé ekki eins fullkomið og verða mætti.

En þetta haggar í engu heildarsvip myndarinnar og aðalmarkmiði höfundarins, sem hefir verið það að framkalla hugljúfa tilbeiðslu úr hinum kalda og hrjúfa grásteini. Mynd þessi er einnig einkennileg nú á tímum, að því leyti, að hún er höggvin fríhendis og fyrirmyndarlaust úr steininum, og er það sama aðferðin sem Michaelangelo og fleiri gamlir meistarar höfðu, nema hvað þeir oftast hafa notað lifandi fyrirmyndir, a. m. k. að nokkru leyti. Þessar fyrirmyndir settu þeir eins og enn er gert i þær stellingar sem þeir vildu láta listaverkið hafa og hjuggu svo steininn eftir þvi. Nú orðið er þessi aðferð mjög óalgeng, en er auðvitað jafn góð og gild eigi að síður, að eins ekki jafn hagkvæm og nýrri aðferðin.

Og enn skrifar Ríkarður:

En frá þessum tíma stafar orðið myndhöggvari, sem að nú orðið getur tæplega talist réttmætt, vegna þess að myndhöggvararnir sjálfir höggva mjög lítið, þurfa ekki að gera það frekar en þeir vilja. Verk myndhöggvaranna nú á tímum, er það að skapa myndina í huga sínum og móta hana úr jarðarleiri, sem síðan er steypt úr gifsi, og mynda sem öðlast fullkomnara efni en gifsið, steyptar úr kopar, sem einnig er gert eftir mótaðri frummynd.

Ríkarður segir að Maríumynd Júlíusar Schou sé sér vitanlega fyrsta líkneski sem höggvið hafi verið úr íslenskum grásteini, sem að vísu sé ekki mjög óþjáll, en aftur á móti allhrjúfur og óþéttur. Hr. Júlíus Schau eigi þakkir skilið fyrir að hafa gert þetta verk  „sem ætti að vera bæði sjálfum honum og öðrum er það sjá til mikillar ánægju.“

Ekki veit ég hvað orðið hefur um Maríulíkneski þetta, en gaman væri ef einhver lesenda gæti upplýst það. Á stöpulinn undir verkinu var samkvæmt ljósmyndinni letrað á latínu „Ora pro nobis“ (Bið fyrir oss). Schou flutti af landi brott sumarið 1919. Kannski var hann búinn að selja verkið áður, kannski hefur fiskkaupmaðurinn Pike Ward keypt það eins og brjóstmyndina af Jóni forseta sem nú er glötuð.

En sagan er ekki öll. Fyrir utan St. Jósefskirkju kaþólskra á Jófríðarstöðum í Hafnarfirði stendur annað Maríulíkneski eftir Schou, mjög svipað hinu, og segir á skilti sem fest er á stöpul þess að það sé gjöf frá Marteini Meulenberg, biskupi kaþólskra á Íslandi. Verkið sé gert árið 1929. Það ár var Meulenberg vígður til biskups hér á landi. Eftir að hafa fengið upplýsingar um verkið frá séra Jakobi Rolland fór ég og myndaði það. Hélt fyrst að þetta væri Maríulíkneskið sem Ríkarður skrifaði um í Frón en svo er ekki.

Heilög María eftir Júlíus Schou fyrir utan St. Jósefskirkjuna í Hafnarfirði.


Mér finnst frekar ólíklegt að ártalið 1929 standist, að þetta verk hafi verið gert tíu árum eftir brottflutning Júlíusar Schou af landinu. Sennilegra er að hann hafi gert það meðan hann bjó hér og selt eða gefið Meulenberg eða kirkjunni það, en vinátta var á milli þeirra og Schau var í kaþólska söfnuðinum í Landakoti. Meulenberg hefur þá gefið verkið í tilefni af vígslu sinni. En þetta eru getgátur, kannski vita lesendur eitthvað meira.







Previous
Previous

Gosið kom sem þruma úr heiðskíru lofti

Next
Next

Íslenskur bóndi meðal jafningja í konungsgarði