Hvað á að gera við fullveldisdaginn?

Þegar stytt­an af fyrsta ráðherr­an­um, Hann­esi Haf­stein, var til­bú­in 1931 þótti við hæfi að af­hjúpa hana á full­veld­is­dag­inn. Mikið fjöl­menni sótti at­höfn­ina við Stjórn­ar­ráðið.

Fullveldisdagurinn 1. desember hefur aldrei verið haldinn með sama hátíðarbrag og tíðkast hefur 17. júní frá stofnun lýðveldis 1944. Afmælis fullveldisins 1918 hefur þó ávallt verið minnst með einhverjum hætti frá 1919.

Samkvæmt samningnum um samband Íslands og Danmerkur sem gerður var í júlí 1918 skyldu sambandslögin taka gildi – og Ísland þar með verða fullvalda ríki – 1. desember sama ár. Dagsetningin var líklega tilviljun. Þessi dagur hafði þá enga sérstöðu á Íslandi. En fyrst varð að samþykkja samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi og á þjóðþingum beggja landanna. Íslendingar gengu rösklega til verksins. Alþingi samþykkti sambandslagafrumvarpið 2. september og lögin voru staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu 19. október með tæplega 93% gildra atkvæða. Danska þingið var svifaseinna. Frumvarpið var ekki afgreitt fyrr en 29. nóvember og þá voru lögin send konungi sem staðfesti þau daginn eftir. Skeyti um það barst til Íslands þann sama dag.

„Þarf að finna hentugri dag“

Samkoman sem haldin var við Stjórnarráðshúsið 1. desember virðist hafa verið undirbúin með afar litlum fyrirvara, enda var hún stutt og fábrotin. Kannski voru menn ekki sannfærðir um að Danir myndu samþykkja lögin tímanlega. Líklegra er þó að hér gæti áhrifa spænsku veikinnar sem um þær mundir lá eins og mara yfir þjóðlífinu öllu. Í Reykjavík höfðu á þriðja hundrað manns látist á stuttum tíma í nóvember. Hinn 25. nóvember mátti lesa í Morgunblaðinu að fullveldishátíð væri í undirbúningi meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn 1. desember. „Eigi vitum vér til þess að nokkuð slíkt sé í undirbúningi hér, en óneitanlega væri það þó vel viðeigandi, þó einhverjir erfiðleikar ef til vill kunni að vera á því sökum veikindanna.“ Og blaðið bætti síðan við þessum orðum: „En framvegis verður erfitt að halda fyrsta dag desembermánaðar hátíðlegan sem þjóðhátíðardag Íslendinga. Daginn ber upp á versta tíma ársins, þegar allra veðra er von og hátíðahöld undir berum himni í flestum tilfellum ómöguleg. Það þarf þá að finna einhvern hentugri dag til þess að minnast sjálfstæðis Íslands framvegis á viðeigandi hátt.“

Fagnaðarblæ skorti

Samkoman við Stjórnarráðið 1. desember 1918 hófst kl. 11 að morgni. Nokkur hundruð manns voru viðstödd. Blásið var í lúðra og ræður fluttar og klukkan 12 stundvíslega var nýi ríkisfáninn, tjúgufáninn, dreginn að húni í fyrsta sinn. Íslenskir fánar voru síðan dregnir upp víðast hvar í bænum að ósk stjórnarráðsins. Víða voru skreytingar í verslunargluggum. Engin önnur opinber samkoma var haldin, en um kvöldið var þó efnt til fagnaðar í Iðnó sem sum blöðin kölluðu fullveldisskemmtun. Í frásögn Morgunblaðsins af samkomunni við Stjórnarráðshúsið daginn eftir segir: „Íslendingar eru þannig skapi farnir að þeir láta ógjarna bera á tilfinningum sínum. Þeir hrífast ekki eins og aðrar þjóðir af því sem fram fer, eða láta að minsta kosti ekki á því bera. Þetta kemur einna bezt í ljós á hátíðlegu stundunum, og svo var einnig í gær. Það virtist ekki vera neinn tiltakanlegur fagnaðarblær yfir þeim mikla mannfjölda, sem safnast hafði saman til að fagna fullveldinu, hvort sem það hefir stafað af skilningsleysi á þýðingu viðburðarins eða meðfæddu dullyndi þjóðarinnar.“

Stúdentar taka daginn í fóstur

Ársafmælis fullveldisins 1919 var minnst með því að fánar voru dregnir á stengur víðs vegar um land. Sums staðar voru skip í höfnum fánum skreytt. Lúðrafélagið Harpa lék nokkur lög framan við Stjórnarráðshúsið. Byrjað var á „Ó guð vors lands“ og endað á „Eldgamla Ísafold“. Ræðuhöld urðu engin. Frí var gefið í skólum Reykjavíkur og flestum búðum bæjarins var lokað um hádegi og svo var víðar í kaupstöðum. Meiri var viðhöfnin ekki þegar Íslendingar höfðu verið sjálfstæð þjóð í eitt ár. En sú venja skapaðist að gefa frí í skólum þennan dag. Ennfremur var verslunum og skrifstofum lokað eftir hádegi. Þáttaskil urðu árið 1922 þegar stúdentar tóku fullveldisdaginn svo að segja í fóstur. Þeir efndu til samkomu með ræðuhöldum í Nýja bíói í Reykjavík. Að henni lokinni var gengið í skrúðgöngu að Alþingishúsinu, þar sem Háskólinn var þá til húsa. Blaðið Lögrétta sagði að mikill mannfjöldi hefði þá verið á Austurvelli og lúðrasveit hefði leikið ættjarðarlög. Háskólarektor ávarpaði fólkið af svölum þinghússins.

Næstu áratugina urðu svipaðar samkomur á vegum stúdenta uppistaðan í hátíðarhöldunum í Reykjavík á fullveldisdaginn. Þetta voru fyrst og fremst menntamannasamkomur. Dansleikir að kvöldi dagsins voru þó öllum opnir. En samkomur sniðar að þörfum hins breiða fjölda voru engar og ekki er að sjá að nein tilbreyting hafi verið í boði fyrir börnin sem þó fengu frí úr skólunum. Stúdentar merktu sér fullveldisdaginn enn sterkar með því að gera fjársöfnun til byggingar stúdentagarðs að einu höfuðatriði dagskrárinnar. Svo var um langt árabil. Þá hefur það lengi verið hluti af dagskrá fullveldisdagsins hjá stúdentum að forystumenn þeirra leggi blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar í Hólavallagarði. Í stærri kaupstöðum úti á landi voru gjarnan einhverjar samkomur þennan dag þar sem fyrirmenn fluttu ræður um sjálfstæðisbaráttuna. Þegar héraðsskólar með heimavistum komu til sögu á fjórða áratugnum var dagsins minnst þar með samkomuhaldi. Eftir að Útvarpið kom 1930 var farið að hafa þar sérstaka fullveldisdagskrá sem hlustendur um land allt gátu notið. Útvarpað var frá samkomu stúdenta og síðan var sérstök hátíðardagskrá um kvöldið með fyrirlestrum og tónlist. Allar götur síðan hefur Ríkisútvarpið minnst fullveldisafmælisins með einhverjum dagskrárliðum.

Nýr þjóðhátíðardagur

Á árunum fram að lýðveldisstofnuninni 1944 var stundum talað um 1. desember sem þjóðhátíðardag Íslendinga. Slíkt orðalag var þó ekki algengt í blöðunum. Líkleg örlög fullveldisdagsins eftir stofnun lýðveldisins voru gerð að umtalsefni í Vísi 1943:

Stúdentar hafa beitt sér fyrir hátíðahöldunum 1. desember til þessa. Hafa þau ekki náð til almennings svo sem skyldi og dagurinn því ekki verið sannkallaður þjóðhátíðardagur. Til þess er hann á marga lund illa fallinn; íslenzkt veðurfar er óstöðugt, ekki sízt á vetrum, og brugðið getur til beggja vona um hvort hátíðahöldum megi uppi halda eða ekki í myrkasta skammdeginu. Verður því að gera ráð fyrir að valinn verði annar þjóðhátíðardagur heppilegri, hvort sem stúdentar kunna enn um skeið að fagna 1. desember. Sem þjóðhátíð er dagurinn úr sögunni að þessu ári liðnu, en annar dagur bjartari og hlýrri kominn í staðinn.

Þetta gekk eftir. Eftir stofnun lýðveldis 17. júní 1944 var ákveðið að 1. desember skyldi framvegis vera einn hinna lögskipuðu fánadaga „í minningu þess, að þann dag árið 1918 gengu sambandslögin í gildi, en með þeim var Ísland viðurkennt frjálst og fullvalda ríki,“ eins og það var orðað í tilkynningu ríkisstjórnarinnar í nóvember það ár. Síðan sagði: „17. júní 1944 var lýðveldi stofnað á Íslandi. Mun því sá dagur hér eftir verða þjóðhátíðardagur Íslendinga eins og 1. desember var frá 1918-1944.“

„Enginn ljómi lengur“

Þremur árum eftir lýðveldisstofnun hugleiddi Víkverji Morgunblaðsins örlög fullveldisdagsins með þessum orðum: „Fullveldisdagurinn okkar gamli – fyrsti desember – er að verða svona hvorugt. Hann er ekki hátíðisdagur nema að hálfu leyti og það er enginn ljómi yfir honum lengur í augum almennings. Við höfum fengið nýjan þjóðhátíðardag og það eru stúdentar einir sem halda upp á daginn með skrúðgöngum og ræðuhöldum. Í sumum atvinnugreinum er 1. desember ennþá hálfur frídagur, en margar stéttir kjósa nú að vinna allan 1. desember og fá í stað þess laugardaginn fyrir páska fyrir heilan frídag. En 1. desember er ennþá fánadagur og er fyrirskipað að flagga á opinberum byggingum og einstaklingarnir fylgja á eftir. Það er sjálfsagður siður. En hætta er á að með tímanum verði 1. desember venjulegur skammdegisdagur og menn gleymi því smátt og smátt hversvegna hann var einu sinni haldinn hátíðlegur. Dagurinn verður sennilega í framtíðinni ekki nema stúdentadagur og bundinn við þá eina. Það er vel til fundið hjá stúdentum að velja sér fyrsta des. sem hátíðisdag og vonandi halda þeir nafni dagsins á lofti á ókomnum árum.“

Auk þess að vera fánadagur var fullveldisdagurinn áfram næstu árin frídagur í skólum og verslunum og skrifstofum var yfirleitt lokað eftir hádegi. Það breyttist líka. Árið 1963 úrskurðaði sérstakur kjaradómur um kaup og kjör opinberra starfsmanna og síðar verslunarmanna. Þar var m.a. kveðið á um frídaga og var niðurstaðan sú að 1. desember skyldi ekki teljast almennur frídagur. Skólar höfðu þó áfram sérstöðu. Þeir gáfu frí alveg til ársins 1995 þegar kennarar féllust á það með kjarasamningi við ríkið að kennsluskylda skyldi vera þennan dag. Frá því er aðeins sú undantekning að dagurinn sé valinn sem starfsdagur í skólum; þá fá nemendur frí en kennarar funda. Hátíðarhöldin á 100 ára afmæli fullveldisins 1. desember 2018 voru vegleg. En hvað verður um fullveldisdaginn og dagskrá hans næstu árin sker reynslan ein úr um.

Previous
Previous

Þorlákur helgi ekki lengur sýnilegur í Lincoln

Next
Next

Hefði orðið greifynja á Englandi en lét ástina ráða