Hefði orðið greifynja á Englandi en lét ástina ráða

Grenjaðarstaður í Aðaldal í Þingeyjarsýslu.

Haustið 1861 bað Ralph Gordon Noel, 22 ára gamall enskur ferðalangur, um hönd 16 ára gamallar stúlku á bænum Grenjaðarstað í Aðaldal í Þingeyjarsýslu, Guðnýjar Halldórsdóttur (1845-1935). Hún var heitbundin öðrum pilti í sveitinni og sagði nei. Hefði hún játast Noel hefði hún orðið greifynja á Englandi og lifað í vellystingum alla ævi. Þótt hún hafi vitað að vonbiðillinn var af aðalsættum og dóttursonur frægasta og dáðasta skálds Breta, Byrons lávarðar, reyndist ást hennar á heitmanni sínum, Benedikt Jónssyni (1846-1939), vega þyngra í hennar huga.

Heimili það sem Guðný og Benedikt stofnuðu síðar á Auðnum varð landsfrægt fyrir menningarbrag. Þar var Bókafélag Þingeyinga sem Benedikt stofnsetti. Af fimm dætrum þeirra er kunnust skáldkonan Hulda (Unnur Benediktsdóttir Bjarklind) sem orti þjóðhátíðarlagið Hver á sér fegra föðurland . Föðursystir Guðnýjar var nafna hennar, skáldkonan Guðný frá Klömbrum.

Stórbýlið Grenjaðarstaður

Guðný fæddist á Geitafelli 1845, dóttir Halldórs Jónssonar bónda. Ung fluttist hún til föðurafa síns, merkisklerksins séra Jóns Jónssonar á Grenjaðarstað (1772-1866). Hann stundaði lækningar í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum meðfram prestsstörfum og fræðaiðkunum; hafði hann til þess leyfi landlæknis og konungsbréf.

Grenjaðarstaður var stórbýli og þangað lögðu margir leið sína. Hafa bæjarhúsin varðveist eins og þau voru á 19. öld og eru nú í umsjón Þjóðminjasafnsins. Erlendir ferðamenn voru fastagestir, en í þá tíð voru ferðir hingað bundnar við efnaða yfirstéttarmenn. Listamaðurinn William Morris var meðal gesta og nokkru fyrr Frakkinn Paul Gaimard og ferðafélagar hans. Höfðu þeir með sér úr landi einstakt altarisklæði frá 14. öld sem varðveitt var í kirkjunni á staðnum. Það er nú í Cluny-safninu í París.

Ralp Gordon Noel, dóttursonur Byrons lávarðar á Englandi.

Lærbrotinn aðalsmaður

Einn þeirra sem kvöddu dyra á Grenjaðarstað var ungur Englendingur, fyrrnefndur Ralph Gordon Noel (1839-1906) sem fullu nafni hét Ralph Gordon Noel King Milbanke. Hann var af enskri aðalsætt og hafði fengið mikinn áhuga á íslenskri menningu. Ákvað hann að heimsækja landið og kom sumarið 1861. Virðist hann hafa verið einn á ferð. Noel varð fyrir því óhappi að hrasa í einhverri hraunbreiðunni fyrir norðan og lærbrotna. Var hann fluttur til séra Jóns á Grenjaðarstað til umönnunar. Það hefur líklega orðið hlutskipti Guðnýjar að annast um gestinn. Í minningargrein um hana 1935 er komist svo að orði að hún hafi verið „hin glæsilegasta mær“. Svo mikið er víst að Noel varð ákaflega hrifinn af henni, ástfanginn upp fyrir haust, gat ekki hugsað sér lífið án hennar og bað um hönd hennar. En Guðný var, þrátt fyrir ungan aldur, þegar heitbundin sveitunga sínum á svipuðum aldri, Benedikt Jónssyni frá Þverá, og hafnaði bónorðinu sem fyrr segir.

Frásögn Baring-Gould

Sumarið 1862 kom hingað til lands enskur prestur og afkstamikill rithöfundur, Sabine Baring-Gould (1834-1924). Ritaði hann bók um Íslandsferðina og fjallar einnig um kynni sín af landi og þjóð í endurminningum sínum. Skrif hans einkennast af talsverðu yfirlæti og fordómum. Hann kveðst hafa rekist á Noel á Þingvöllum og hafi hann þá verið á heimleið. Baring-Gould segir að Noel hafi dvalist á Grenjaðarstað (sem hann reyndar nefnir Grímstungu) allan veturinn til þess að reyna að fá Guðnýju til að giftast sér. „Stúlkan var aðlaðandi en ekki falleg,“ skrifar Baring-Gould sem kveðst hafa komið á bæinn. Hún hafi heillast af óþrifalegum pilti með mikinn lubba sem hafi annast um hesta hans þegar hann var þar á ferð. „Ég fylgdist með honum klóra sér ákaft á öllum líkamanum og ályktaði að þar væri þéttbýlt,“ segir Baring-Gould og gefur í skyn að Benedikt hafi verið lúsugur. „Ef hún hefði vitað hvaða framtíð biði hennar sem greifynju, og getað skilið hvað í því fælist, hefði hún kannski hafnað hestasveinum,“ bætir hann við og spyr sig síðan án þess að svara: „En hefði þessi urt orðið hamingjusamari í öðrum jarðvegi?“

 Baring-Gould sér líka ástæðu til að fræða lesendur sína um að hann þekki til fjölskyldu Noels. Hann sé næstelstur sona jarlsins af Lovelace. Elsti bróðir hans, Ockham lávarður, hafi verið sérkennilegur maður. Hafi hann þrátt fyrir stéttarstöðu sína starfað sem hafnarverkamaður í Chatham. Þegar hann hafi látist hafi Noel erft aðalstign föðurins, fyrst orðið greifi og loks jarl af Lovelace.

Móðir Noels, Ada Lovelace, dóttir Byrons lávarðar, var rómuð fyrir tölvísi sína. Hún hefur verið kölluð fyrsti forritarinn. Hún er heimsfræg og margar bækur og greinar verið um hana ritaðar.

Guðný Halldórsdóttir með manni sínum Benedikt Jónssyni frá Auðnum.

Borin vel sagan

Hjónaband Guðnýjar og Benedikts mun hafa orðið gæfuríkt. Er Guðnýju borin vel sagan í minningargrein Jónasar Þorbergssonar útvarpsstjóra í Tímanum. Hafi kærleika hennar til þeirra sem mest þurftu kærleika við, manna jafnt sem málleysingja, verið við brugðið. „Af höndum allt þú inntir / með ást og von og trú,“ orti Unnur (Hulda), dóttir Guðnýjar, að henni látinni. Benedikt naut mikilla vinsælda og virðingar, var hreppstjóri, þjóðmálaskörungur og bókavörður. Kallar Jónas hann „hina bjartsýnustu hetju sem uppi hafi verið Þingeyjarsýslu síðustu mannsaldrana.“

Gat ekki gleymt Guðnýju

Af Ralph Gordon Noel, jarlinum af Lovelace, er það að segja að vegna auðæfa fjölskyldunnar þurfti hann engu föstu starfi að gegna eftir Íslandsferðina, en átti mörg áhugamál, iðkaði fjallgöngur í svissnesku Ölpunum af miklu kappi, las fagurbókmenntir, hlustaði á klassíska tónlist og fylgdist með myndlist.

Noel gat hins vegar ekki geymt Guðnýju. Eftir að hann var kominn heim til Englands tók hann upp á því að senda henni og öðru heimilisfólki á Grenjaðarstað pakka með ýmsum gjöfum. Þar á meðal voru skartgripir og silkiklútar. Einnig hefur varðveist söngljóðabók með nótum sem hann sendi. Heimildir eru fyrir því að þessar sendingar hafi verið að berast á nokkru árabili. Tvo skartgripi sendi Milbanke sem hann vildi að Guðný bæri, demantsskreyttan hring og brjóstnælu. Það hefur líklega ekki verið talið viðeigandi að Guðný bæri hringinn svo að úr varð að Ingibjörg frænka hennar, þremur árum yngri, dóttir séra Magnúsar, arftaka Jóns á Grenjaðarstað, fékk hann til eignar. Hringurinn hefur síðan verið erfðagripur í þeirri fjölskyldu.

Brjóstnælan gekk hins vegar til Guðnýjar. „Þá sögn kann hins vegar dótturdóttir Guðnýjar, Sigríður Bjarklind, að amma hennar átti enn brjóstnæluna góðu eftir að þau Benedikt voru gift hjón á Auðnum. Eitt sinn taldi Benedikt sig standa í mikilli þakkarskuld við Elínborgu, konu séra Benedikts Kristjánssonar í Múla. Þegjandi og hljóðalaust hafði hann þá tekið næluna að konu sinni fornspurðri og gefið hana prestfrúnni. Hafði Guðnýju sárnað þessi gjörð manns síns ákaflega,“ skrifar Sveinn Skorri Höskuldsson í grein í Árbók Þingeyinga 1983.

„Mig hefur stórum angrað ...“

Fjölskyldubréf sem varðveist hafa sýna að fóstra Guðnýjar og föðursystir, Hildur Johnsen, var í fyrstu mjög ósátt við að hún skyldi hryggbrjóta Milbanke. „Mig hefur stórum angrað að þú ei hafðir vit til að sjá hvað þér var í veitt með þessu tilboði,“ skrifaði hún Guðnýju frá Kaupmannahöfn í ágúst 1862. Í öðru bréfi frá því í febrúar 1863 er Hildur farin að sætta sig við niðurstöðuna eftir að Guðný hefur útskýrt afstöðu sína: „Þú gjörðir rétt; ekki að lofa tryggð og elsku þeim manni sem þú ekki gast elskað.“

 Nokkrum árum seinna er eins og bónorðið standi enn og Guðný sé á báðum áttum. Hefur hún þá verið að hugleiða að taka boðinu ef það geti orðið föður hennar að liði í bágum kjörum hans. Ekki varð af því. Í bréfi sem Hildur sendir Guðnýju sumarið 1876 segir hún fréttir af Milbanke sem kvænst hafði í millitíðinni og skilið síðan vegna ótryggðar eiginkonu sinnar. Sagt væri að „hann væri oft hálfgeggjaður á vitinu. Ekki er allt gull sem glóir. Ég þakkaði guði í huga mínum að allt fór sem fór.“

Previous
Previous

Hvað á að gera við fullveldisdaginn?

Next
Next

Erum við komin af „þrælum og illmennum“?