Erum við komin af „þrælum og illmennum“?

Eftirmálinn frægi sem margir telja að hafi verið í elstu gerð Landnámu.

Landnáma er dásamleg bók. Frá sjónarmiði sagnfræðings er hún mikilvægt heimildarrit um margt frá fyrri öldum, en síst um landnámið sjálft (því miður).

Textinn, sem myndin er af, er úr eftirmála svonefndrar Þórðarbókar Landnámu (sautjándu aldar pappírsuppskriftar Þórðar Jónssonar úr tveimur eldri gerðum Landnámu, Skarðsárbók og Melabók). Þarna er fjallað um það af hverju Landnáma var rituð.

Það er margra manna mál, að það sé óskyldur fróðleikur að rita landnám, en vér þykkjumst heldur svara kunna útlendum mönnum, þá er þeir bregða oss því, að vér séum komnir af þrælum eða illmennum, ef vér vitum víst vorar kynferðir sannar.

Þessi klausa, sem fræðimenn telja að sé kominn úr elstu (glataðri) gerð Landnámu, hefur lengi valdið fræðimönnum heilabrotum. Hverjir eru þessir útlendu menn sem vísað er til? Hvar komu brigslin um uppruna Íslendinga fram? Og hvernig átti Landnáma að gagnast til varnar? Stóð til að þýða hana á önnur mál, jafnvel latínu, tungu hinna lærðu? Það hefur ekki þurft ef útlendingarnir voru norskir. Tungumálið sem talað var á Íslandi og í vesturhluta Noregs var í meginatriðum hið sama vel fram á fjórtándu öld. En engar minnstu vísbendingar eru um að Landnáma hafi verið til í Noregi. Kannski var efnið aðeins ætlað til heimabrúks; til að hnykkja á því við íslenska lesendur (svo þeir væru sáttari við sjálfa sig?) að ásakanirnar væru rangar svo sem efni bókarinnar sýndi?

Í Landnámu eru landnámsmenn ekki einir nafngreindir; einnig er getið um forfeður þeirra og afkomendur. Athygli vekur hve margir eru sagðir „höfðingjar“ og „göfugir menn“. Ekki er óalgengt að ættir landnámsmanna séu raktar til konunga í Noregi og nokkrir eru sagðir af konungakyni frá Bretlandseyjum. Talin hafa verið um þrjátíu dæmi í bókinni þar sem þess er getið að landnámsmaður hafi farið frá Noregi vegna ofríkis Haralds konungs hárfagra. Allt eru það menn sem sagðir eru hafa mátt sín mikils á heimaslóð.

Hugsanlegt er að „illmennin“ sem vísað er til í klausunni séu þeir norrænu ribbaldar og strandhöggvarar sem usla gerðu meðal kristinna þjóða á Bretlandseyjum og víðar í Evrópu frá því í lok áttundu aldar og um langt árabil þar á eftir, víkingarnir sem svo hafa verið nefndir. Á ritunartíma Landnámu og fyrr fjölluðu ýmsir evrópskir sagnaritarar, svo sem Vilhjálmur af Malmesbury á Englandi, um þessa sögu; um grimmd heiðingja frá norrænu löndunum gagnvart varnarlausu fólki, óvirðingu þeirra við klaustur, kirkjur og helga dóma, og óheflaða siðu þeirra og háttu. Varla er að efa að einhverjar bækur með efni af þessu tagi hafa verið til hér á landi eða kunnar landsmönnum. Íslendingar áttu í margs konar viðskiptum og samskiptum við nágrannaþjóðirnar. Kannski hefur þeim verið nuddað upp úr uppruna meðal þessara óaldarmanna, í stríðni eða þegar í odda hefur skorist af einhverju tilefni. Heimildir geta um átök á milli íslenskra höfðingja og norskra kaupmanna um 1174 og aftur 1215 til 1218, og leiddu þau til mannvíga og eignaspjalla.

Svo er á það að líta að Íslendingar voru á miðöldum – og löngum síðar eins og svo margar aðrar smáþjóðir – viðkvæmir fyrir því sem um þá var sagt. Í Noregi voru þeir í stríðni gjarnan kallaðir „mörlandar“ eða „mörfjandar.“ Það létu þeir fara í taugarnar á sér. Að vera af illmennum kominn eða þrælakyni var þó verra. Blasir þá við af hverju engar ættir eru raktar til þræla Ingólfs og annarra landnámsmanna, þótt þeir hafi átt afkomendur ekkert síður en frjálsir menn.

Hinn höfðinglegi uppruni var Íslendingum kærkomið frásagnarefni þegar prentöld með tilheyrandi bókargerð gekk í garð. Í byrjun sautjándu aldar birti Arngrímur Jónsson lærði, aðstoðarmaður Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups, ritið Crymogæa (Ísland) á latínu, og ætlaði það hinum alþjóðlega menntaheimi, til að „þagga niður í þeim sem vanir eru að brigsla þjóð vorri um að hún sé ekki annað en ræningjafélag og samansafn af hrakmennum,“ eins og hann kemst að orði í formála verksins. Í bókinni er saga Íslands rakin í fyrsta sinn í samfelldu máli frá dögum Ara fróða. Arngrímur var vel lesinn í Landnámabók og leggur áherslu á höfðinglegan uppruna landnámsmanna. Þeir kusu margir segir hann „heldur að yfirgefa auðugar jarðeignir og ættland en að láta höfðingsskap sinn fyrir þrældómsok og skatta, því að það töldu þeir með öllu ósamboðið manngildi sínu og forfeðra sinna“ Klausan um tilefni þess að Crymogæa er rituð er efnislega eins og sú í eftirmála Landnámu. „Ræningjafélag og samansafn af hrakmennum“ kallast á við „þræla og illmenni“ 300 eða 350 árum fyrr. Munurinn er þó sá að auðvelt er að rekja hvar óvelviljuð skrif sem fjölluðu beinlínis um Íslendinga birtust á sextándu og sautjándu öld.

Engar sögur fara af viðtökum Landnámu sem landkynningarrits eða hinnar fyrstu „ímyndarskýrslu.“ En Crymogæa og fleiri landvarnarrit sem Arngrímur skrifaði náðu athygli lærðra manna utanlands. Þau eru talin hafa haft áhrif á hugmyndir Evrópumanna um Ísland og íslenska menningu. Ritið var einnig snemma þýtt á íslensku og gekk meðal fólks í afritum. Í Íslenskri bókmenntasögu segir að líklega hafi áhrif þess orðið mest á Íslandi, á Íslendinga sjálfa, bæði hvað varðar þekkingu á eigin sögu og sjálfsmynd. Líklegt er að áhrif Landnámu hafi einnig orðið mest innanlands. Í Víglundar sögu, sem rituð mun á seinni hluta 14. aldar, segir til dæmis að „margir mikilsháttar menn flýðu úr Noregi ok þoldu eigi álögur konungs, þeir sem váru af stórum ættum, ok vildu heldr fyrirláta óðul sín ok frændr ok vini en liggja undir þrælkan ok ánauðaroki konungs.“

Í byrjun síðustu aldar, þegar sjálfstæðisbaráttan var í hámarki, vaknaði mikill áhugi á ætterni landnámsmanna og lífinu í landinu áður en það var undir erlenda konunga sett. Jón J. Aðils sagnfræðingur varð með bókum sínum og alþýðufyrirlestrum boðberi þeirrar kenningar, að Íslendingar ættu sér einstæða fornöld og forfeður:

Hvar sem litið er, blasir við augum þjóðlíf, svo ríkt og fagurt og glæsilegt, að hvergi hefur átt sinn líka á fyrri öldum, nema hjá Forn-Grikkjum á þeirra þroskastigi, en þar hefur fornaldarlífið náð hæstum blóma, svo menn viti til.

Um forfeður landsmanna sagði Jón:

Landnámsmennirnir voru af hinum göfugustu ættum í Noregi, flestir annaðhvort hersbornir eða höldbornir, og heyrðu þannig til stórmennaflokkinum.

Þennan þráð tók Jónas Jónsson frá Hriflu upp í Íslandssögu handa börnum, áhrifamestu kennslubók hér á landi fyrr og síðar. Menntamenn, menningarfrömuðir og stjórnmálamenn klöppuðu sama stein á fyrstu áratugum aldarinnar og almenningur hreifst með. Íslendingum fannst að þar sem göfugustu höfðingjarnir frá Noregi og Bretlandseyjum hefðu numið hér land, hlytu afkomendur þeirra að teljast úrvals kynstofn sem mætti alveg gera sig breiðan í veröldinni og ætti rétt á að stofna til eigin þjóðríkis. „Þér landnemar, hetjur af konungakyni,“ söng karlakórinn á Alþingishátíðinni 1930 eftir ljóði Davíðs Stefánssonar og tónlist Páls Ísólfssonar. „Rjóminn ofan af rjómanum,“ kallaði Guðmundur Finnbogason, einn helsti hugsuður þjóðarinnar á fjórða áratugnum, þann „úrvalsstofn“ sem landsmenn rektu ættir sínar til. Menn uppgötvuðu á þessum tíma „Íslendingseðli“. Það var fólgið í karlmannlegri frelsisást og framtakssemi í anda forfeðranna sem vildu ekki lúta ofríki Haralds hárfagra.

Hugmyndirnar um hinn glæsta uppruna gátu á þessum árum skotið upp kollinum hvar sem menn komu saman og hvað sem til umræðu var. Þær gleymdust ekki einu sinni þegar rætt var um hversdagslegt efni eins og brauðstritið í sveitum landsins. Þessu fylgdi yfirlæti sem var stundum alveg með ólíkindum. „Vér erum af góðu bergi brotnir, Íslendingar,“ sagði fyrirlesari í lok erindis á bændafundi á byrjun fyrri heimsstyrjaldar:

Forfeður vorir úr flokki hinna beztu og göfugustu manna, sem bygðu Noreg, Suðureyjar, Skotland og Írland á þeim tíma sem Ísland bygðist. Menn, sem voru svo stórbrotnir i geðsmunum, að þeir vildu heldur yfirgefa óðul og ættarlönd, en þola ágang á réttindi sín, líkamlega og andlega. Og naumast mun þurfa að óttast að þessir göfugu forfeður vorir hafi „blandað blóði" við ófrjálsa menn, það er þrælakyn það, sem landnámsmenn fluttu með sér, því stórbrotnari og mikillátari voru dætur þeirra en svo, að þær kysu sér elskhuga af þræla kyni, enda er þess ekki getið i fornsögum vorum, sem eru þó svo ítarlegar.

Kannski var þessi öfgakennda upphafning forfeðranna eldsneytið sem Íslendingar, svo fámennir sem þeir voru, þurftu til að hafa kjark og úthald til að krefjast fullveldis og fulls sjálfstæðis á fyrri hluta síðustu aldar? En að því marki sem hægt er að prófa kenninguna um hinn göfuga uppruna landsmanna á hún frekar erfitt uppdráttar. Grafir íslenskra fornmanna, kumlin svonefndu, varpa ákveðnu ljósi á þjóðfélagsstöðu og efnahag landnámsmanna. Þau birta aðra mynd en álykta mætti af Landnámu. Á Íslandi eru engin merki stórkumla eins og þeirra sem konungar og aðrir tignarmenn létu gera sér á níundu og tíundu öld á Norðurlöndum. Íslensk kuml eru sögð líkust fremur fábreyttum beinakumlum í Noregi; þau benda til bjargálna manna og tiltölulega mikils jafnaðar á milli manna en ekki til stórhöfðingja.

Annars þarf ekki annað en svolitla umhugsun til að sjá að menn sem vanist hafa auði og virðingu hafa tæpast verið spenntir fyrir því að sigla út fyrir hinn þekkta heim til að lifa sem „skuggasveinar norður í Dumbshafi“, þar sem ekkert samfélag var til að njóta virðingar í eins og Helgi Skúli Kjartansson sagnfræðingur komst svo hnyttilega að orði í tímaritsgrein fyrir nokkrum árum.

Previous
Previous

Hefði orðið greifynja á Englandi en lét ástina ráða

Next
Next

Stóð upp í hárinu á hundadagakónginum